sunnudagur, desember 31, 2006

Nú árið er liðið........


.........í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka........ Við Erla erum þakklát fyrir árið sem er að kveðja. Það hefur verið okkur afar gott og gefandi eins og flest árin okkar hafa verið. Árin bera auðvitað með sér misjafnlega góða hluti eins og gengur, hjá okkur eins og öðrum. Eins og þið hin stigum við inn í nýtt óskrifað ár um síðustu áramót með góðar væntingar til nýs árs. Þar bar einna hæst, útskrift mín úr lagadeild, vonir um gott og ferðaglatt sumar og kannski einhverja hugmynd um breytingu á húsnæðismálum án þess að neitt væri ákveðið í þeim efnum. Árið bar í farteski sínu allskyns tækifæri og hugmyndir sem við sum hver nýttum og önnur ekki.
Síðasta önnin í laganáminu var erfið og því vorum við mjög ánægð þegar öll próf voru í höfn og útséð að BA gráðan var orðin staðreynd.
Það var því hátíðarstund í Háskólabíói þann 10. júní við útskriftina sem var mjög skemmtileg. Ég bý svo vel að eiga svo frábærlega samhenta og góða fjölskyldu. Erla og dæturnar höfðu óvænt undirbúið kaffisamsæti heima hjá Írisi og Karlott þar sem samankomin voru systkini okkar beggja og örfáir vinir okkar, en þessi leyniveisla var punkturinn yfir i-ið þennan dag og gerði hann ógleymanlegan fyrir mig enda grunaði mig ekkert.

Eins og fram er komið vonuðum við að við gætum eitthvað gert í húsnæðismálum á nýju ári. Vesturbergsfléttan var hugsuð sem skólasjóður og því ekki fjarri lagi að kíkja hvað við gætum gert þegar hyllti í útskrift. Á vordögum með hækkandi sól og aukinni bjartsýni fórum við að skoða húsnæðimálin okkar.
Internetið færði okkur hugmyndina að "Húsinu við ána". Selfoss hafði ekkert verið sérstaklega í huga okkar (kannski aðeins hjá mér) en mynd af húsi með útsýni yfir Ölfusána kveikti áhuga sem endaði með kaupsamningi um húsið. Við kolféllum, eins og þið vitið, fyrir hvorttveggja húsinu og staðnum.

Daginn eftir útskrift eða 11. júní fluttum við svo á þennan stað sem við erum ennþá í skýjunum yfir. Húsið hefur tekið stakkaskiptum frá því að við keyptum það. Við vissum að það væri þreytt og taka þyrfti til hendinni enda var það forsenda fyrir afar hagstæðu verði hússins. Það hentaði okkur frábærlega vel þar sem ég er jú smiður og því hæg heimatökin. Núna í lok ársins tókum við eldhúsið í gegn en það var varla hægt að tala um eldhúsinnréttingu í húsinu. Nú er sem sé komin ný og falleg innrétting og frúin hlær í betra .... eldhúsi.
Við settum líka nýjan glugga á aðalútsýnishornið úr eldhúsinu svo nú erum við með síbreytilegt málverk af einhverju fallegasta útsýni sem hægt er að hugsa sér. Glugginn sannaði tilverurétt sinn núna réttt fyrir jólin þegar flóðið mikla kom í Ölfusá, því við höfðum þessar stórfenglegu hamfarir árinnar í beinni útsendingu á breiðtjaldi. Það var alveg magnað sjónarspil.

Lesendum þessarar síðu er kunnugt um að ekki eru húsamálin upptalin með “Húsinu við ána” því við fjárfestum líka í "kofa" á Fitinni. Hann er ekki stór eða 15 fermetrar en því notalegri. Erla er stakur snillingur að gera kósý í kringum okkur og sannast þar máltækið: "Maðurinn byggir húsið en konan gerir það að heimili". Við áttum góðar stundir þarna í Föðurlandi voru í okkar fjallakofa. Hugmyndin er að bæta kannski við það síðar, en næsta skref er að koma rafmagni í húsið svo það verði almennilega íveruhæft þótt kalt sé í veðri.

Ekki verður allt gert í einu. Í framhaldi af öllum þessum framkvæmdum ársins tók ég ákvörðun um að fresta mastersnáminu um eitt ár og reyna að safna aftur í sarpinn smá skólasjóði. Það varð þess vegna úr að við stofnuðum fyrirtækið LEXOR ehf. Markmiðið er að reka það með byggingarstarfsemi og lögfræðiþjónustu í bland. Verkefnin byggingamegin hlaðast upp hraðar en tönn á festir og lögfræðihliðin fylgir sígandi upp á við í kjölfarið, enda stækkar byggingastarfsemin snertiflötinn við þann markað sem ég stefndi á með mína lögfræðiþjónustu þ.e.a.s.byggingamarkaðinn. Nokkrir Pólverjar hafa verið ráðnir í byggingavinnu. Þeir eru harðduglegir og samviskusamir verkmenn sem gott virðist vera að hafa í vinnu.

Spurningunni um hvernig það er að keyra svona á milli Selfoss og Reykjavíkur er nokkurnveginn svarað þar sem nú er liðið hálft ár síðan við fluttum. Í ljós hefur komið að fjölskyldunni þykir þetta ekkert tiltökumál enda ekki nema hálftíma akstur að Rauðavatni, eða lítið lengri tími en tekur að ferðast milli borgarhluta á álagstímum. Þetta er reyndar bara góður tími til að slaka á eftir daginn.

Erla hefur stundað sína vinnu hjá bókhaldsþjónustunni Erninum í Nethylnum. Henni líkar þessi vinna afar vel þar sem hún er á heimavelli þegar kemur að því að fást við tölur. Talnaglöggvi hennar á sér fáa líka eins og þeir sem hana þekkja vita.
Nú í desember fórum við utan til Kaupmannahafnar í boði bókhaldsþjónustunnar. Þar kom fram hversu störf Erlu eru vel metin innan fyrirtækisins. Við gistum á Hótel Imperial, ágætishóteli rétt við Ráðhústorgið svo stutt var að ganga á alla helstu staðina. Köben er alltaf skemmtileg og þessi ferð var engin undantekning. Við fórum aftur á Reef and beef, það var upplifun eins og áður.

Það bættist við okkar ört stækkandi fjölskyldu á árinu. Björn Ingi Jónsson (kallaður Bjössi) giftist Eygló okkar þann 7. október. Athöfnin fór fram í Selfosskirkju og veislan var haldin að Básum undir Ingólfsfjalli. Veislan þótti skemmtileg og veisluföng afbragðsgóð. Það er gaman að geta þess að staðarhaldarar og starfsfólk þeirra kom því sérstaklega á framfæri við okkur hversu vel þeim þótti hafa tekist til. Þau sögðu þetta eina skemmtilegustu brúðkaupsveislu í 20 ára sögu staðarins. Okkur þótti gaman að heyra þetta enda fannst okkur sjálfum þetta vera stór og skemmtilegur dagur. Eygló og Bjössi búa í Vesturbergi 72, íbúðinni "okkar" en þau keyptu af okkur íbúðina þegar við fluttum á Selfoss. Þar una þau hag sínum vel, íbúðin falleg og vel rúmgóð fyrir þau.

Arna og Davíð slitu samvistum á árinu. Þeirra sambúð sannaði fyrir okkur að sumu fólki er ekki ætlað að búa saman. Örnu gengur hinsvegar vel að ná áttum og er afskaplega dugleg með sínar litlu blómarósir. Þær eru miklir hjartabræðarar litlu dömurnar og hafa afa sinn (og ömmu) algjörlega í rassvasanum.
Þau Davíð eru með sameiginlegt forræði yfir dömunum og skipta vikunum milli sín. það form gengur vel upp, allavega meðan Davíð býr í Reykjavík. Arna býr nú í Bláskógum í Seljahverfi, lítilli fallegri íbúð í tvíbýli. Henni líður vel þar með snúllurnar sínar.

Íris og Karlott búa í Háholtinu í Hafnarfirði ásamt litlu dömunum sínum. Þær hafa þetta sama bræðieðli og Örnudætur á okkur afann og ömmuna .
Karlott var keyptur frá Securitas til Landsbankans. Það sagði meira en mörg orð um ágæti hans. En Björgólfur gamli sá sjálfur um kaupin. Það þýddi auðvitað stökk í launum og viðurkenningu á störfum hans.
Íris er á fullri ferð í laganáminu og gengur það vel og þau hjónin samhent í að púsla saman barnauppeldi, heimilisstörfum, vinnu og námi. Henni hefur tekist að ná öllum prófum fram að þessu sem er afar gott í laganámi. Þau hjónin ætla að feta í fótspor okkar Erlu og vera ekkert að bíða með að koma sínum börnum í heiminn. Von er á nýju barni hjá þeim í lok maí á komandi ári. Það má segja að við Erla búum við blessað barnalán þar sem það verður 6. barnabarnið okkar. Enginn bilbugur er á Írisi hvað námið varðar, hún hefur þegar ákveðið hvernig náminu verður framhaldið.

Hrund hefur stundað nám í Kvennaskólanum. Það líkar henni afar vel enda er Kvennaskólinn góður skóli. Henni gengur námið vel sem fyrri daginn. Hún hefur ekki mikið fyrir því að ná góðum einkunnum. Hrund hefur stundað áhugamálin af kappi þetta árið. Söngurinn á hennar hug og hjarta. Hún fór í söngferðalag til Ítalíu í sumar með kórunum Vox femine, Vox junior og Gospelsystrum Reykjavíkur.
Hún hefur vakið athygli stjórnenda kórsins fyrir sterka og hljómmikla rödd ásamt því að vera mjög tónviss.

Þessi stutta yfirferð var auðvitað bara smá skautun á yfirborðinu. Árið var okkur afar viðburðaríkt í fjölmörgu öðru sem ekki er tiltekið hér. Verkefnin af misjöfnum toga en flest skemmtileg. Við hjónin þökkum Guði fyrir slysalaust ár innan fjölskyldunnar og biðjum ykkur vinum okkar og vandamönnum hins sama á komandi ári.
Við hlökkum til næsta árs sem okkur er fært sem óskrifað blað. Vonandi tekst okkur að skrifa söguna okkar áfram á þessum góðu nótum. Þess sama óskum við ykkur öllum.
Þetta eru fyrstu áramótin okkar hér á nýjum stað. Við borðuðum saman öll stórfjölskyldan áðan, áramótaskaupið var að klárast og nú er skothríðin byrjuð. Það verður gaman að upplifa áramót á nýjum stað.
Að lokum, takk fyrir góðar heimsóknir og skemmtilegar kveðjur hér á síðunni.

Guð blessi ykkur nýtt ár.

sunnudagur, desember 24, 2006

Góðilmur.

Jólin eru að ganga í garð. Það er ilmur af jólum í húsinu, ilmurinn af jólakjötinu og hrísgrjónagrautnum ásamt jólalögunum sem óma úr stofunni og kynda undir þessa stemningu sem er svo skemmtileg og framkallar svo góðar og ljúfar minningar. Það kyndir enn undir hátíðleikann að búa á svona stað. Nágranni okkar fór áðan út undir á að gefa hrafninum. Krummi mætti auðvitað í jólamatinn og lauk honum á stuttum tíma. Áin er óðum að jafna sig og er farin að líkjast sjálfri sér aftur. Ég kann nú betur við hana svona eins og hún á að sér að vera, þó svo að hún hafi verið stórbrotin í ham. En það sem ég átti við með “svona stað” er að kyrrðin og fallegt umhverfið eykur einhvernveginn á jólastemninguna. Það er eitthvað sem minnir á gamla tíð – sveitin, kyrrð og friður sem erfitt er að nálgast í stórborginni en á einhvernveginn heima hér.
Kannski sagan af fjárhirðunum í haga undir stjörnubjartri nóttinni kyndi undir þessa mynd að friði á jólum.

Hrund og Arna eru hér að stússast með okkur Erlu. Þær eru að pakka síðustu pökkunum inn og gera sig klárar fyrir hátíðina. Þær skreyttu jólatréð í gærkvöldi svo það stóð skreytt eins og venjulega á aðfangadagsmorgni.
Erla stendur við pottana núna og hrærir í grautnum. Grauturinn þessi er ómissandi þáttur í jólahaldinu. Hann kom með pabba inn í búskap þeirra mömmu. Var alltaf á borðum öll jól sem ég man eftir mér, og öll jól sem við Erla höfum síðan haldið saman. Stelpurnar hafa erft þessa hefð og geta ekki hugsað sér jól án grautsins. Ekkert venjulegur Risalamande – allt öðruvísi og miklu betri.

Ég keypti reykta nautatungu áðan sem núna sýður í potti. Nautatunga hljómar kannski ekkert vel sem matur, en er afar ljúffeng – góð á jólum.

Ég er semsagt undir áhrifum:
Friðar, góðrar stemningar, fjölskyldulífs sem umvefur mig, fallegs umhverfis og síðast en ekki síst, Jesúbarnsins sem fæddist - með ákveðinn tilgang, sem of oft gleymist, sérstaklega hjá kristnum lögmálskennendum.

Óska ykkur öllum lesendum síðunnar minnar gleðilegrar jólahátíðar og friðar.

föstudagur, desember 22, 2006

Sjóðandi vitlaus nágranni....!

Ég hélt að hún ætlaði að ganga af göflunum. Hún lætur engan stýra sér frekar en fyrri daginn. Ölfusá er búin að vera sjóðandi kolvitlaus undanfarið. Skapill sú gamla.
Að morgni dags fyrir tveimur dögum síðan varð mér litið niður að á og fannst hún eitthvað skrítin. Hafði orð á því við Erlu að hún væri eittthvað öðruvísi. Við gerðum okkur ferð niður að á í morgunskímunni. Í ljós kom að mikill jakaburður var í henni og hún miklu meiri að vöxtum en venjulega. Við fórum þá niður að kirkju og sáum þá að áin var í miklu stuði. Við vorum ein þarna á bakkanum fyrir utan einn ljósmyndara sem var að taka myndir af hamnum.

Jakaburðurinn var ofsalegur og líklegast að þetta hafi verið úr Stóru Laxá í hreppum en hún hafði rutt sig sólarhringnum á undan. Jakarnir voru ótrúlega stórir og þykkir. Þeir byltust í rótinu og risu og hnigu eins og stórhveli, sumir kolsvartir. Við kirkjuna er mikið dýpi (talið um 25 metrar) þar var eins og suðupottur. Klakarnir soguðust greinilega niður á mikið dýpi og komu svo æðandi upp í hvítfryssandi iðum og risu sumir 2 - 3 metra upp áður en þeir hnigu niður aftur. Þetta var magnað sjónarspil.

Eins og allir vita var flóð að byrja í ánni þarna um morguninn. Ég held að við höfum fattað það fyrst ;-/
Hún átti eftir að vaxa miklu meira. Við höfðum þessar hamfarir árinnar á breiðtjaldi út um nýja gluggann okkar á eldhúsinu. Það var stórbrotin sjón og varla hægt að lýsa hughrifunum. Við duttum bæði strax í þann gírinn að þykja þetta óskaplega magnþrungið. Við störðum dáleidd á þessa ógnarkrafta sem í ánni býr sem ekkert mannlegt getur hamið.
Hugsunin um hana sem fallega elfu í sumar sem fóstraði ógrynni fugla og fiska var mjög fjarri þegar maður sá hana í þessum ham.

Þetta er samt alveg frábært að hafa hana svona sem næsta nágranna og fylgjast með henni á hverjum degi. Hún steytir ekki skapi sínu oft á þennan hátt en á árunum 1930, 1948 og 1968 lét hún eitthvað líkt þessu.
Hún er núna að róast og er hætt að flæða yfir veginn hérna fyrir ofan.

Veðráttan er söm við sig samt og nú er von á nýju ofsaveðri í nótt. Það virðist vera að veðráttan sé að breytast ....kannski eru það gróðurhúsaáhrifin.

Skatan á morgun...ætla þó ekki að reyna við jafnsterka og í fyrra. Hún er betri passleg.
Og svo jólin handan hornsins enn einu sinni.....alltaf gaman þá.

mánudagur, desember 11, 2006

Wagyu...draumur

Liturinn, lyktin, bragðið og mýktin, algerlega fullkomið og steikingin eins og mögulega er hægt að gera hlutina vel. Ég hef lengi látið mig dreyma um að borða Wagyu naut. Óskin sú gekk í fyllingu sína nú um helgina í Kóngsins Köbenhavn.
Ég var svo heppinn að þessi gæði voru í boði bókhaldsþjónustunnar sem Erla vinnur hjá. Örn var grand á þessu og bauð sínu fólki og mökum til veislu á Reef and Beef sem við Erla heimsóttum síðast þegar við vorum í Kaupmannahöfn. Þessi staður datt í fyrsta sætið hjá okkur eftir krókódílasteikina, og kengúruna um daginn.
Wagyu nautin eru talin vera besta nautakjöt í heimi. Þau eru alin eftir kúnstarinnar reglum, nær eingöngu á mjólk og svo það furðulegasta að þau fara í nudd einu sinni á dag. Kílóverðið er nálægt 20 þúsundköllum og erfitt að fá þetta. Ég hafði lesið um þessi naut og einu sinni sá ég sjónvarpsþátt um þau, svo þetta var svona hálfgerð uppfylling drauma minna.
Það hlýtur að teljast að nautakjötsmaður eins og ég hafi náð toppnum á ferlinum þarna. Ég trúi ekki að það sé til kjöt af nauti sem kemst í hálfkvisti við þetta.
Eitt glas af sérvöldu rauðvíni til að hafa með Wagyu nauti, kórónaði steikina.
Hrár túnfiskur framreiddur með afar sérstöku kryddi og fersku grænmeti var afar góður forréttur fyrir þessa snilld.

Erla fékk reyktan lax í forrétt og Strút í aðalrétt sem hún sagði algjört lostæti. Held hún sé orðin útlærður sælkeri. Við tókum allt í einu eftir því bæði að allir voru búnir að borða, meðan við vorum bara hálfnuð, við vorum bara að njóta matarins. Okkar mottó, maður borðar góðan mat HÆGT.
Það er ekki hægt annað en mæla með þessum stað. Það þarf að hafa í huga að nauðsynlegt er að panta borð þarna því þetta er vinsæll staður.
Gæti nokkrum dottið í hug að mér þyki gaman að borða haha?

Við gerðum fleira, við fórum í gönguferð með Guðlaugi Arasyni rithöfundi um Íslendingaslóðir í gömlu Kaupmannahöfn. Þeim sem þykir sagan okkar forvitnileg og hvernig hún fléttast sögu Kaupmannahafnar ættu hiklaust að fara þessa göngu. Það var feikna gaman að sjá nákvæmlega umhverfi Jónasar Hallgrímssonar, Jóns Sigurðssonar og fleiri hetja Íslandssögunnar, fá söguna svona beint í æð á staðnum, ef svo má segja. Guðlaugur er fróðleikshaf þegar kemur að þessum fræðum. Hann hikstaði aldrei þó hann væri spurður nánar út í ýmis smáatriði sögunnar, mannanöfn, ártöl, staðhætti, allt á hreinu.

Jújú búðirnar voru líka heimsóttar. Þó það sé ekki mín uppáhaldsiðja er ég þó nógu nískur til að láta mig hafa það, ef hægt er að kaupa hagkvæmar inn, t.d. til jólagjafa. Þessvegna fórum við t.d. í Fields leiðangur og versluðum nokkrar jólagjafir og örkuðum Strikið uppúr og niðurúr...fewtimes. Það skal samt viðurkennast að frúin mín elskuleg hefur mjög náð áttum hvað búðir varðar. Þakka ég það tíðum loftsiglingum hennar um erlendar grundir og auknum þroska.
...... Í alvöru þá þoli ég ekki þann heimóttarskap að missa sig í eyðslufylleríi þótt stigið sé yfir landssteinana, búandi á Íslandi, landi allsnægtanna á sama verði.
Erlan mín er reyndar komin langan veg frá þessari lýsingu,sem betur fer, sálarheillar minnar vegna.
Við eyðum miklu meiri tíma í rölt, skoðun á mannlífinu, kaffihús, matsölustaði, söfn og annað sem gleður sálina í hversdagsleikanum og njótum þess bæði ....í tætlur.

Sem sagt Köben stóðst væntingar sem fyrri daginn og gott betur

miðvikudagur, desember 06, 2006

LEXOR ehf.

Það hefur margt á dagana drifið undanfarið, sem endranær. Titillinn hér að ofan er nafnið á nýja firmanu mínu. Þetta er félag með margþætta starfsemi. Fyrir það fyrsta er þetta lögfræðifirma enda nafnið samsett úr lögfræðitengdu orðunum LEX og OR. Lex táknar réttarheimildir og Or er byrjun á Orator.
Lexor er annarsvegar ráðgjafafyrirtæki á byggingamarkaði með áherslu á lögfræðiráðgjöf til verktaka en líka til viðskiptamanna þeirra.
Hin starfsemi firmans er byggingastarfsemi. Þar sem ég er líka byggingameistari var ekki úr vegi að næla sér í smá sneið af hasarnum sem ríkir á þeim markaði núna.
Hugmyndin kviknaði um daginn að fara af stað og reka þetta svona fram að mastersnáminu næsta haust og svo kannski meðfram náminu.
Ég er búinn að ráða nokkra Pólverja í vinnu og er kominn með verkefni fram á vor. Þeir eru afbragðs verkmenn og samviskusamir. Það skemmtilega við þetta allt er náttúrulega hasarinn og atið sem fylgir svona rekstri og líka sú staðreynd að snertiflöturinn stækkar og nú þegar eru lögfræðileg verkefni að detta inn á borð sem tengjast þessu öllu. Bara gaman að þessu.

Eins og lesendum síðunnar er kunnugt vorum við hjónakornin í Köben um daginn. Þeir sem okkur þekkja vita að borgin sú er í nokkru uppáhaldi hjá okkur. Ferðinni er enn heitið í gamla höfuðstaðinn. (Köben var einu sinni höfuðborg Íslands eins og allir vita)
Nú er um að ræða vinnustaðaferð hjá Erlu. Örninn er svona grand á því að bjóða starfsfólkinu í helgarferð til Köben. Við gistum á Hotel Imperial, lúxushóteli rétt við Ráðhústorgið.
Við þurfum að vakna snemma í nótt, svona ca. kl. 3. Tekur því varla að vera að leggja sig.
Eitthvað skemmtilegt eru þau búin að plana að gera svo maður getur farið að hlakka til. Ég hef reyndar eitthvað heyrt búðarhugtakið nefnt á nafn en lokað eyrunum jafnharðan fyrir því, og svarað fólkinu til að kannski ættum við að reyna að hittast eitthvað í Köben, því fyrir svo skemmtilega tilviljun yrðum við þarna um leið og þau.
Ég fæ svona létta gæsahúð niður hrygglengjuna við tilhugsunina um búðirnar..... ekki af tilhlökkun.

Ég er búinn að vera að dunda við að setja upp eldhús hér heima, en eins og þeir vita sem hafa heimsótt okkur var eiginlega engin eldhúsinnrétting í húsinu við ána. Það var því ekki hjá því komist að setja nýja innréttingu. Það er því að verða vistlegra hér með tímanum og sum rými hússins tilbúin.
Við erum jafnánægð hér sem fyrri daginn. Veturinn er fallegur og áin ærið breytileg eftir hvernig viðrar. Hún er skemmtilegur nágranni. Annar nágranni okkar bankaði hér upp á um daginn þegar ég var að hamast í eldhúsinu og sagðist vera búinn að sjá að hér væru framkvæmdir í gangi og spurði hvort hann mætti kíkja inn. Það var auðsótt og hafði ég gaman af heimsókninni. Þetta er heimilislegt og sveitó en svona er sveitin. Gott að búa hér. Ég er samt feginn að nágranni minn áin er ekkert að banka uppá..

Jæja ég ætla að fara að koma mér í ferðagírinn, sækja töskur upp á háaloft og horfa á Erlu pakka okkur niður (ekki einu sinni grín) Það er hennar deild, enda kvenmannsverk.
Hún vill hafa þetta svoleiðis – skil ekki afhverju. Hefur kannski eitthvað að gera með krumpur og svoleiðis.

Köbenhavn nu kommer vi...............

mánudagur, nóvember 20, 2006

Það þarf nú svolítið...

....til að feykja 90 kílóum með blæstrinum einum saman. Kára tókst það næstum. Ég fór í sveitina í gær vegna hvassviðris sem ég átti von á. Átti eftir að setja nokkrar vindstífingar á kofann okkar. Það var ekki ofsögum sagt. Vindurinn var með ólíkindum. Beint að austan og skall á hliðinni á kofanum. Lætin voru svo mikil að asfaltið byrjaði að rifna af þakinu. Auðvitað fór ég upp til að laga þetta og stoppa fokið. Þá kom í ljós hverslags kraftur var að verki. Ég gat með herkjum hangið uppi liggjandi, en var samt við það að fjúka eins og tuska.
Ótrúlegt hvað Kári getur ýtt fast ef sá gállinn er á honum. Ég var að vonum feginn að hafa farið austur þar sem ég gat komið í veg fyrir tjón og gengið tryggilegar frá þessu.
Það er samt skondið hvað mér finnst skemmtilegt þegar náttúran byrstir sig, það er eitthvað svo magnað við það.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Kótelettukvöld í Samhjálp

Við hjónin fórum bæjarferð í gærkvöldi. Kótelettukvöld Samhjálpar var tilefnið. Í ljós kom að þetta var hin besta skemmtun og maturinn gamaldags steiktar kótelettur á gamla mátann, veltar upp úr raspi og etnar með soðnum kartöflum og bræddri feiti.
Verður að segjast eins og er að maturinn bragðaðist vel eins og við mátti búast af kótelettum.
Listamenn stigu á stokk. Jón Gnarr velti upp fyndnum hugsunum sínum og tókst að gera fornsögurnar, þegar menn vógu menn og annan að fyndnum uppákomum. Hann líkti húmor við söng. Samlíkingin ágæt en mér finnst húmor samt frekar eins og matur sbr. t.d. fornsögurnar, það er ekki sama hvernig hráefnið er matreitt, útkoman getur verið gjörólík.
Halli nokkur Reynis steig líka á stokk, trúbador sem tók nokkur lög. Fannst hann góður, ekki síst textarnir. Ég held ég kaupi diskinn hans en hann er víst búinn að gefa út geisladisk með lögum eftir sjálfan sig.
Eddi söng svo líka. Hann er orðinn virkilega góður söngvari strákurinn og verð ég að segja að þeir eru ekki margir karlsöngvararnir sem standa honum jafnfætis.. thakk fyrir....!
Fleira var á dagskrá s.s. málverkauppboð og auðvitað ræður.
Við hjónin skemmtum okkur vel. Kvöldið var gott og tókst vel í alla staði.

Takk fyrir okkur.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Fallegur morgunn

Ég sit hér einn á neðri hæðinni með kaffibollann minn og horfi á kalt útsýni yfir ána. Það er frost og logn, afskaplega fallegt og friðsælt en frekar kuldalegt. Drottningin á bænum er ennþá sofandi þótt komið sé langt fram á morgun.
Áin er frekar mikil ennþá eftir rigningar undanfarinna daga. Það er ótrúlegt hvað hún skiptir oft um svip. Það fer eftir veðri fyrst og fremst. Í kulda verður hún sakleysisleg og blá en á það til að ýfa sig og verða skapvond þegar veðrið er blautt og hlýtt enda er hún jökulvatn að helming að minnsta kosti.
Það er gaman að hafa hana svona við túnfótinn og sjá tilbrigði hennar svona mörg og ólík. Eitt sem hefur komið á óvart, hún virðist vera mikil matarkista. Allavega hefur mikil fuglaflóra verið á ánni í allt sumar og langt fram á haust. Sérstaklega hefur verið fallegt að fylgjast með álftunum sem fljúga hér upp og niður eftir ánni. Þær speglast svo fallega þegar þær fljúga bara rétt ofan við vatnsborðið, líkast og þær renni sér eftir vatnsborðinu.
Nokkur gæsapör áttu varp hér í hólmanum framanvið í sumar. Það var gaman að heyra værðarhljóðin í þeim á hreiðrunum, sérstaklega á næturnar því hljóðið berst auðveldlega til okkar yfir vatnsflötinn. Þær hafa sennilega verið í rómantískum hugleiðingum að njóta hinna björtu sumarnótta við þetta mikla vatnsfall.

Eitthvað lífsmark á efri hæðinni heyri ég, mér heyrist drottningin vera að vakna til lífsins. Ég ætla að hella upp á nýtt kaffi fyrir hana. Ég held henni finnist notalegt að finna kaffi ilm þegar hún kemur niður eftir langan svefn.
Arna kemur á eftir með litlu afastelpurnar mínar og verður hér í dag. Alltaf gaman að fá þær í heimsókn. Daníu Rut fer svo mikið fram þessa dagana, hún talar meira og meira og er farin að syngja texta. Dugleg stúlkan sú.

Ég er að gera upp við mig hvort ég á að taka þennan dag allan í svona rólegheit eða hvort ég ætti að skella mér í að skipta um glugga í eldhúsinu. Ég er búinn að smíða nýjan stóran glugga sem bíður þess eins að verða settur á sinn stað. Ég er að þessu vegna útsýnisins frá þessu horni í eldhúsinu sem verður alveg stórkostlegt, en sést ekki nógu vel eins og þetta er núna, í gegnum lítið opnanlegt fag, ofarlega á vegg.
Jæja, læt þetta nægja af þessu morgunhugarflugi þar sem hennar hátign er að koma niður stigann og ég ætla að eiga smá notalegheit með henni og nýja kaffinu.

Njótið dagsins.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Héraðsdómur

Ég var fyrir Héraðsdómi í dag. Var þar hvorttveggja sem aðili máls og sem vitni. Málið snerist um skaðabætur vegna byggingar sem ég skrifaði uppá fyrir vini mína fyrir 6 árum síðan. Aðkoma mín að byggingunni var ekki meiri en að rita nafnið mitt á blað. Eitthvað fór úrskeiðis á sínum tíma hjá þeim sem gerði að verkum að hjónin sem húsið keyptu fengu afslátt upp á nærri 4 milljónir króna. Þannig átti málið að vera uppgert. Þessi hjón eru nú að reyna að sækja meiri skaðabætur eða 1.8 milljónir í viðbót. Gangi það eftir fá þau þetta 250 fm hús á rúmar 10 milljónir. Það er von að þau þurfi að sækja sér bætur þar sem þau fá víst ekki nema 100 milljónir fyrir húsið eins og það er. Þetta er VILLA á einum besta útsýnisstað í Reykjavík. Það var gaman að vinna að þessu máli með lögmanni Tryggingamiðstöðvarinnar en við undirbjuggum þetta mál í sameiningu. Það var svo stórfróðlegt að fylgjast með lögmönnunum takast á í réttarsalnum þó ég hafi reyndar séð þetta áður. Þarna kom vel í ljós hversu menn eru misjafnir í þessu starfi og má furðu sæta að sumir geti haldið úti lögfræðiþjónustu.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu lýkur en ég verð að segja að ef þau tapa ekki þessu máli þá veit ég ekki með íslenska dómskerfið, það á að gæta réttarins í landinu en alls ekki ekki hygla fólki sem hefur svona bilaðan málstað að sækja. Þetta fólk er að mínu áliti illa farið af peningum og frekju.
Það er reyndar mín tilfinning að málið sé unnið, en ... spyrjum að leiks lokum, eins og máltækið segir, það er ekki alltaf gott að vera of sigurviss.
Læt vita þegar niðurstaðan liggur fyrir.
Njótið lífsins vinir.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Apavatn

Ég átti afar góða helgi í faðmi stórfjölskyldunnar, Erlu megin. Við dvöldum á Apavatni í stóru húsi Rafiðnaðarsambandsins. Þótt hann blési væsti ekki um okkur.
Þessi helgi færði mér enn sanninn um að fólkið manns eru þau verðmæti sem skipta máli. Samfélag við þá sem manni þykir vænt um er það sem gefur lífinu gildi umfram annað.
Það er óhætt að segja að þessi helgi hafi verið sálarnærandi, þó líkaminn hafi auðvitað ekki verið skilinn útundan, það var hraustlega tekið til matarins sem endranær enda nánast guðlast að sinna því ekki vel í þessum hópi.

Ég var óhress með sjálfan mig að skilja veiðistöngina eftir heima, þangað til að ég sá að vatnið var nánast ísilagt. Þessi krappa haustlægð sá þó um að brjóta upp ísinn. Verð sennilega að fara að viðurkenna að veiðitíminn er liðinn þetta árið.


Takk vinir fyrir góða og gefandi samveru.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Bush :-)

"Óvinir okkar eru hugvitssamir og úrræðagóðir, og það erum við líka. Þeir hætta aldrei að hugsa um nýjar leiðir til að skaða land okkar og þjóð og það gerum við ekki heldur".
- George W. Bush 5. ágúst 2004

sunnudagur, október 22, 2006

VANDAMÁLATRÉÐ

Smiðurinn sem ég réð til að hjálpa mér að gera upp gamalt sveitabýli, hafði nýlokið erfiðum fyrsta degi í vinnunni.
Hann var klukkutíma of seinn í vinnuna vegna þess að það sprakk dekk á bílnum, rafmagnssögin hans gafst upp, og nú neitaði pallbíllinn hans að fara í gang.
Meðan ég keyrði hann heim, sat hann við hlið mér í steingerðri þögn.
Þegar við vorum komnir, bauð hann mér inn til að hitta fjölskylduna.
Þar sem við gengum að útidyrunum, stoppaði hann stuttlega við lítið tré og snerti trjágreinarnar með báðum höndum.
Eftir að hann opnaði hurðina, varð á honum undursamleg breyting. Sólbrúnt andlit hans rifnaði í brosi og hann faðmaði börnin sín tvö og kyssti konuna sína.
Seinna gekk hann með mér að bílnum mínum. Við gengum framhjá trénu og forvitnin náði tökum á mér.
Ég spurði hann um það sem ég hafði séð hann gera fyrr um kvöldið.
"Æ, þetta er vandamálatréð mitt," svaraði hann. "Ég veit að ég kemst ekki hjá vandamálum í vinnunni, en það er eitt sem víst er, að þau eiga ekki heima á heimili mínu hjá konu minni og börnum. Þannig að ég hengi þau á tréð þegar ég kem heim á kvöldin. Síðan tek ég þau aftur af trénu á morgnana."
"Það skrýtna er," sagði hann og brosti, "að þegar ég kem út á morgnana og tek þau upp, þá eru þau ekki næstum eins mörg og mig minnti að ég hefði hengt upp kvöldið áður."
Ókunnur höfundur.

Þetta er góður boðskapur sem ég rakst á. Hreiðrið á ekki að vera vettvangur vandamála heldur gróðurvin í eyðimörk.

laugardagur, október 21, 2006

Veiðiferð eða fjallganga.....?

Að standa á tindinum opinmynntur og skjálfandi yfir hrikalegu útsýninu og fegurðinni er eitthvað sem ekki er gott að koma í orð, tifinningin er eiginlega ólýsanleg.

Við bræðurnir ég og Hlynur höfum haft það til siðs undanfarin ár að fara í tveggja daga veiðiferð einu sinni á hverju hausti. Við gengum til rjúpna á fimmtudaginn. Ferðin lá á Tindfjallasvæðið. Tindfjöll eru hrikalegri en þau virðast úr fjarlægð.

Þau urðu til í gríðarlegu þeytigosi líkt og St Helena. Við gengum vígreifir af stað austan við fjallgarðinn skimandi eftir rjúpum, án þess að svo mikið sem sjá fugl.

Eftir langt labb og svita gengum við að fossi álengdar til að næra okkur aðeins. Með byssurnar á bakinu, óviðbúnir, lá við að við stigum ofan á rjúpu sem hnipraði sig þar niður. Hún var spök og flaug ekki fyrr en undan skónum okkar.
Við horfðum á eftir greyinu enda ekki hægt að vera að drepa svona fallega fugla…!


Þegar við vorum komnir í 800 metra hæð breyttum við veiðiferðinni í fjallgöngu. Ákvörðun fæddist að komast á tindinn.

Það var gríðarsterkur norðanvindur sem æddi niður hlíðarnar í fangið á okkur. Þegar við komumst upp á brúnina var rokið svo mikið að það stóð sand- og steinahríðin upp snarbratt fjallið hinum megin. Á þessari mynd sést vel hvernig "flikruberg" lítur út, sem myndaðist í þessu þeytigosi. Þetta finnst víða á svæðinu m.a. í Þórsmörk.
Upphafsorð þessa pistils var tilfinningin sem greip mig þegar útsýnið hinumegin blasti við. Það var algerlega magnað að sjá. Líparítfjöll sem ekki sjást af láglendi. Fegurð og hrikaleiki í fullkomnu jafnvægi. Ég stóð eins og negldur með sandhríðina í andlitið og góndi….og tók myndir.


Það er nú samt þannig að myndirnar grípa ekki stórfengleikann. Sandstormurinn, sem gerði allt útsýni móðukennt og dularfullt kemur ekki fram.

Hér er sitjandi maður í 1100 metra hæð....!



Sólin settist, undarlega loðinn eldhnöttur í sandbyl.

Föstudagurinn var fengsælli. Reyndar veiddist ekkert kvikt með heitu blóði en ágætlega af köldu.

Það má segja að veiðiferðin þetta árið falli frekar undir útsýnis- og fjallgöngu. Allavega er ekki ofsögum sagt að svona samvera og útivist er gott fyrir sálina og styrkir bræðraböndin.

Mæli með þessu.

laugardagur, október 14, 2006

Veðrið

Hér gekk yfir aftakaveður í nótt. Svo hvasst að ána skóf eins og snjó. Ein tertan sem geymd var á pallinum tók sig á loft og splundraðist í frumeindir sínar. Ljónin mín duttu af stalli og brotnuðu - arrgh. Ég var ekki ánægður með sjálfan mig því elskuleg konan mín spurði manninn sinn í gærkvöld hvort ekki væri öruggara að taka þau inn. Ég lifti fingri af stakri snilld til að kanna veðurstöðuna og tók síðan þá frómu ákvörðun að þau væru í skjóli. Sem var rétt, en hann blæs ekki endilega af sömu átt yfir heila nótt hér á klakanum.
Fúll út í sjálfan mig týndi ég saman ljónabrotin í morgun ákveðinn í að þau skulu viðgerð en ekki hent.
Núna er eins og áin renni upp í mót því öldugangurinn er eins og hafsjór upp í móti straumnum.
Húsið við ána stóð veðrið vel af sér eins og við var að búast. Hér inni er hlýtt og notalegt í öruggu skjóli.
Annars er allt fínt héðan. Arna gisti hér með litlu stelpukrútttin sín. Við eigum von á gestum í dag til að halda upp á afmæli Þóreyjar Erlu, en hún verður eins árs 17. október. Til hamingju með það litla gull.
Hún er mikill gleðigjafi inn í líf okkar eins og allar hinar stelpurnar líka.
Við ætlum að njóta samverunnar hér, enda er maður manns gaman eins og stendur.....!

sunnudagur, október 08, 2006

Brúðkaup í fjölskyldunni.

Það var hátíðardagur hjá okkur í gær. Eygló gekk í heilagt hjónaband. Sá heppni Björn Ingi (Bjössi) var lukkulegur með brúðina sína enda falleg með afbrigðum. Hún klæddist brúðarkjól mömmu sinnar sem síðast var notaður þegar við gengum upp að altarinu sjálf. Athöfnin fór vel fram. Teddi var presturinn og gerði þetta vel eins og við var að búast.
Það er sértstök tilfinning að ganga með dóttur sína þessa leið og gefa hana öðrum manni. Þá er gott að vera ánægður með ráðahaginn. Ég hef ekki heyrt annað en gott eitt um Bjössa hjá þeim sem til hans þekkja. Svo Bjössi minn þú er velkominn í mína ört stækkandi fjölskyldu. ”Viðtalið” var bara grín. Þetta er gert til að tilvonandi tengdasonur beri hæfilega virðingu fyrir verðandi tengdapabba.

Veislan var á fallegum stað undir Ingólfsfjalli sem nefnist Básinn. Ég hafði sagt þeim sem staðinn reka að við vildum hafa nóg af öllu og þjónustuna góða. Það stóðst allt og gott betur. Maturinn var virkilega góður og þjónustan eins og best verður á kosið, fólkið þægilegt og viljugt. Ég var ánægður með alla þætti og mæli hér með hiklaust með staðnum. Valdi Júl stýrði veislunni fyrir okkur og gerði það vel. Hildur systir bakaði kransakökuna og Ella tengdamamma brúðartertuna. Christina skreytti salinn og má ég til með að segja það hér að eigandinn hafði sérstakt orð á því hvað salurinn væri vel skreyttur. Reyndar bætti hann við íbygginn á svip að hann yrði nú bara ð segja að hann myndi ekki eftir jafnfallegu brúðkaupi í þessu húsi – gaman að því. Eins var starfsfólkið að ræða við okkur eftir veisluna, þau sögðu að þeim hafði fundist þetta svo fallegt brúðkaup að þau hefðu verðið með tárin í augunum frammi í eldhúsi – "svona eiga brúðkaup að vera" sagði ein þeirra að lokum, "við erum vanari því að fólk viti varla hvað það er að segja því drykkjan er orðin svo mikil í brúðkaupum". Það var gaman að fá þessi komment frá þeim.
Tengdasonurinn sagði svo nokkur þakkarorð í lok veislunnar og setti lag undir geislann og svo dönsuðu þau undir ljúfum ástarsöng áður en þau yfirgáfu staðinn.

Ég vil hér með færa þakkir til þeirra sem lögðu hönd á plóginn til að þetta gæti orðið eins ánægjulegt og raun varð. Það er frábært að eiga svona góða að, hrein og klár lífsgæði.

Ég er svo að fara í ferðalag á eftir að sækja þau hjónin á hótelið sem þau gistu í nótt. Ég var viss um að það væri Hótel Rangá en dóttir mín er búin að hringja í föður sinn og segja honum hvar þau eru – það er ekki Hótel Rangá heldur Hótel Geysir.....!

sunnudagur, september 24, 2006

Helgin

Það var fjölskyldudagur í Þverá í dag.
Veiðisjúklingar eins og ég geta ekki látið slíkt framhjá sér fara. Nokkuð margir voru við veiðar, eflaust misjöfn veiðin eins og gengur. Ég fór þremur löxum ríkari heim. Uni ég glaður við minn hlut, enda segir mér hugur að einhverjir hafi farið heim með öngulinn fastan í óæðri endanum.

Annars vorum við á Föðurlandi um helgina í blíðskaparveðri og fallegum haustlitum. Nokkrir heimsóttu okkur í litla kofann sem er óðum að taka á sig Erlu mynd sem þýðir að hann er að verða afar kósý og notalegur. Það sannast þar að maðurinn byggir húsið en konan gerir það að heimili. Nú vantar bara rafmagn svo vistlegt verði í honum í vetur.

Ég fór ásamt Hansa bróðir í langan göngutúr. Reyndar fjallgöngu því við lögðum af stað gangandi úr Kotinu klukkan sjö á laugardagsmorgun. Leiðin lá upp á Þríhyrning. Hansi er mikill göngugarpur og gengur lágmark þrisvar í viku. Þetta var tólfta gangan á Þríhyrning þetta árið hjá honum. Við fórum austur fjallgarðinn á hæsta tindinn. Þar fórum við síðan niður og skoðuðum gamlar þjóðleiðir og nokkur gömul sel m.a. Kirkjulækjarsel, Kollabæjarsel og Katrínarsel. Við vorum komnir til baka klukkan 12 á hádegi. Ég átti von á að vera undirlagður af harðsperrum eftir þetta afrek. Það reyndist ástæðulaus ótti, þær létu ekki kræla á sér, það er seigt í gamla.

Núna erum við komin heim á Herragarðinn okkar á Selfossi. Ölfusáin sér um að skapa hér afskaplega róandi og notalegan ár nið sem við erum að verða háð. Draumurinn núna er að kaupa verandar geislahitara. Ekki þessa gasknúnu heldur rafmagns. Það myndi gera að verkum að við gætum setið á pallinum á kvöldin í notalegum hita, þótt komið sé haust og blási köldu. Geislinn hitar ekki loftið heldur það sem hann lendir á.

Helgin var notaleg og gefandi.

Já lífið er gott.

mánudagur, september 18, 2006

Minnkaði kvótann um eina…..!


Ég keyrði á rjúpnahóp. Ein þeirra drapst og önnur flaug lemstruð í burtu, restin flaug í burtu með gassagangi, sýnilega brugðið.
Ég tók þá dánu um borð í bílinn, hún var flekkótt eins og myndin, við það að fara í vetrarbúning. Veit ekki alveg hvort ég á að elda hana eins og hverja aðra rjúpu eða henda henni.
Þær eru góðar á bragðið. Vil samt heldur skjóta dýrin sem ég elda. Bílslys er einhvernveginn ekki alveg að gera sig ofan í pottinn minn. Svo var smellfluga á henni sem flaug á mig þegar ég opnaði pokann. Ég sprautaði flugueitri ofaní pokann og batt fyrir. Þær eru ógeðslegar þessar smellflugur, þær festa sig á mann einhvernveginn og varla hægt að ná þeim af.
Held ég hendi henni bara....! Hvort sem er orðin eitruð.

þriðjudagur, september 12, 2006

Sjónarspil......

Það hefur vakið sérstaka eftirktekt mína hvað veðrabrigðin hér austan fjalla hefur verið tilkomumikið sjónarspil undanfarna daga.

Ég smellti nokkrum myndum í gærkvöld þegar ég renndi hér inn í bæinn austanfrá. Birtuskilyrðin voru svo mögnuð að ég varð að stoppa bara til að njóta málverksins alls.

Það getur verið svo magnað hvernig ljós og skuggar leika listir sínar á himninum þegar veðrabrigðin hanga í loftinu og sólin og rigningin heyja einvígi










Í dagrenningu í morgun fór ég aftur austur úr bænum og þá blasti við ný mynd

Þessi er tekin í austur á leið út úr bænum.

Þessi síðasta er tekin

áðan á kvöldgöngunni upp með á.

Náttúran er ótrúleg, alveg mögnuð verð ég að segja

Njótið lífsins vinir.....

miðvikudagur, september 06, 2006

Er maður orðinn kjelling!


Þegar ég var 23ja ára eignuðumst við kött. Stelpurnar sem þá voru litlar héldu að hann væri leikfang og toguðu hann milli sín svo hann kviðslitnaði.
Í framhaldi þurfti að svæfa hann. Svefninn langi var framkvæmdur með byssu í minni eigu. Ekki minnist ég þess að það hafi verið svo erfitt.

Í dag fór ég með köttinn okkar Skvísu á fund feðranna. Hún var svæfð með sprautu.
Kannski gera árin mann svona veikgeðja en mér fannst þetta langtum leiðinlegra verk nú en forðum og þó framkvæmdi ég það sjálfur þá.

Hún ber beinin í Föðurlandi í Fljótshlíð. Fékk þar tilhlýðilega jarðarför í dag.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Afmæli

Frumburðurinn okkar hún Íris á afmæli í dag. 28 ár eru síðan hún kíkti í þennan heim agnarsmá og nett.
Erla er með pistil um þennan dag forðum á síðunni sinni; www.erlabirgis.blogspot.com

Til hamingju með daginn elsku Íris mín og gangi þér vel við lesturinn í vetur.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Ísland er best.....!

Margt hefur á dagana drifið undanfarið. Við eyddum tveimur vikum suður á Spáni með vinum okkar Heiðari og Sigrúnu. Tveir bræðra minna Hlynur og Hansi með sín föruneyti voru þarna suður frá á sama tíma og hittumst við nokkrum sinnum. Farið var í þriggja daga ferð suður til Andalúsíu þar sem við skoðuðum bæði Alhambra höllina og hellana í Nerja. Hvorttveggja mikilfenglegt. Annað mannanna smíð og hitt verk náttúrunnar sjálfrar. Náttúran hafði betur og uppskar óskipta aðdáun okkar. Síðan fórum við líka í eins dags ferð norður í Guadalest sem er Mára virki, það síðasta sem kristnir náðu undir sig á Spáni.
Það er alltaf gott að láta sólina verma sig, þó stundum geti hún farið offari í því hlutverki sínu. Hitinn var mikill, sérstaklega fyrstu dagana en svo kólnaði og varð bærilegra norðurhjarabúum eins og okkur. Við fórum þrisvar á ströndina. Það var gott því sjórinn er passlega heitur til að fara í sjóbað og kæla sig þegar manni finnst maður orðinn eins og brenndur snúður.

Moskítóflugur herjuðu á okkur, illskeyttar blóðsugur sem ógerlegt er að verjast því þær stinga mann án þess að maður verði var við og svo klæjar í bitið meira en orð fá lýst.
Okkur reyndist líka svolítið erfitt að finna veitingastaði sem pössuðu smekk okkar, allavega mínum svo ég tali bara fyrir mig. Tveir matsölustaðir stóðust þó vel kröfur minna freku bragðlauka, annar var kínverskur Wok staður og hitt spánskt steikhús sem við enduðum ferðina á að heimsækja. Flott Spánar stemning þar og góður matur
Húsið sem við dvöldumst í eiga þau Kiddi og Ásta ásamt Heiðari og Sigrúnu. Húsið er fínt og vel búið húsgögnum svo vel fór um okkur þar.
Umhverfi Torrevieja er flatlent og mjög þurrt. Ekki alveg heillandi að mínum smekk en bæði norðurfrá og suðurfrá er mun meiri gróður og landslag.

Við fórum á Fitina á föstudaginn og eyddum síðustu dögum sumarfrísins okkar í íslenskri sveitarómantík á Föðurlandi voru í Fljótshlíðinni. Ekkert moskító, ekkert rusl, bara ilmur af íslenskri töðu bændanna og smárablómum sem eru við það að fella krónuna sína, það var yndislegt. Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta og minnti okkur enn einu sinni á hversu ótrúlega fallegt landið okkar er.
Við skruppum í berjamó undir Dímon. Þar er krökkt af berjum, risastórum hnullungum sem eru við að springa af safa.
Borðuðum góðan mat af grillinu og nutum lífsins í botn.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Öðruvísi verslunarmannahelgi

Við hjónin höfum verið á faraldsfæti þessa helgina. Þó ekki þessum venjulega faraldsfæti okkar að þeysa um landið, heldur hefur rúnturinn verið milli Selfoss og Fitarinnar. Það tekur ekki nema rúman hálftíma að "skjótast" heim.
Ég náði að gera “kofann” íbúðarhæfan fyrir helgina eins og að var stefnt. Þar hefur Arna gist með dæturnar sínar.



Þess á milli hefur hann verið félagsmiðstöð fjölskyldunnar. Þetta er aldeilis virkilega notalegt að eiga svona athvarf sem ekki hristist í roki eða blotnar í gegn í rigningu. Þegar við fórum í gærkvöldi voru þær að koma sér fyrir og það verður að segjast að notalegt var að sjá þær lagstar út af og sumar sofnaðar.






Við hliðina á kofanum komu þau sér fyrir Íris og Karlott með afagullin mín. Þau búa svo vel að eiga fínan og notalegan tjaldvagn. Hrund tjaldaði undir gaflinum norðanmegin og Eygló og Bjössi við hliðina á henni. Þannig að öll fjölskyldan er þarna saman á lófastórum bletti. Gaman að því.

Í gærkvöldi var árleg grillveisla okkar stórfjölskyldunnar. Gerða bar veg og vanda af aðstöðunni, en þetta var á hennar lóð. Tveir sendibílar og plastdúkur strengdur á milli þeirra gerði gæfumuninn þegar litið er til þess að alltaf rignir um verslunarmannahelgi.

Auðvitað rigndi og dúkurinn kom í góðar þarfir, flestir sátu þurrir undir honum. Farið var í leiki, börn og fullorðnir saman, virkilega gaman að því.
Kvöldið endaði með varðeldi. Skógarhöggið mitt frá í vor var uppistaðan í eldmatnum. Það tókst þó ekki að brenna allt trjáfjallið, verður að bíða betri tíma að klára það.
Ég er ánægður með þessi grill okkar. Þetta er gott fyrir fjölskylduböndin og styrkir samband okkar hvert við annað.

Nú er hætt að rigna. Allavega hér á Selfossi. Þeir eru mættir hér á bakkann veiðimennirnir. Það er dagleg sjón hér að horfa á veiðimenn berja ána með flugum sínum. Sumir veiða, aðrir ekki, þannig er veiðin.

Erlan er komin niður núna. Hún er ekkert að flýta sér á fætur þessa morgna þegar hún þarf ekki að fara í vinnu. Enda bara gott að geta sofið. Hvar gæti það svo sem verið betra en hér í sveitasælunni að sofa út á fallegum morgni?

Ég ætla að lauma mér að borðinu hjá henni og skenkja henni kaffitári, hún á það svo margfalt inni.

CU

sunnudagur, júlí 30, 2006

Alla étið hafði þá ....

Fuglalífið á Fitinni er engu líkt á þessum árstíma. Ég hef verið að reisa bjálkakofa þar austurfrá síðustu daga. Þúfutittlingar höfðu gert sér hreiður í brekkunni við hliðina á húsinu. Þeir voru ekkert yfir sig hrifnir af nýja nábúanum, mér, þegar ég hófst handa. Með okkur tókust þó ágætis samskipti við nánari kynni. Þeir báru orma í svanga gogga í gríð og erg og leyfðu mér fyrir rest að fylgjast með. Í hverri ferð stoppuðu þeir í trjátoppunum og könnuðu umhverfið og ef ekkert annað en ég var á ferðinni steyptu þeir sér niður í hreiðrið þar sem sísvangir goggar göptu eftir næringarríkum lirfum og öðru góðgæti.
Það var gaman að fylgjast með eljuseminni í þeim við verkið og greinilegt að þau tóku foreldrahlutverkið afar alvarlega.
Annað slagið stoppaði annað þeirra vinnuna og settist á grein og söng. Mjög hljómfallegt og hrífandi nett hljóð, ég minnist ekki að hafa fyrr heyrt þúfutittling syngja á þennan hátt.

Í fyrradag þegar ég mætti á staðinn voru þeir ekki að vinna eins og venjulega. Ég fór þessvegna og kíkti ofan í holuna þeirra. Tóm.......!
Skemmdarverk, eitthvert kvikindi hafði étið alla ungana. Sorg, þau voru orðnir góðkunningjar mínir og skemmtilegir nágrannar. Kvikindið sem át þá var afar heppið að sýna sig ekki þarna á þessari stundu. Ég hefði fullnægt réttlætinu með auga fyrir auga aðferðinni, klárlega.

Kofinn verður tilbúinn fyrir verslunarmannahelgi sýnist mér, eins og stefnt var að.
Arna mun gista þar um helgina með þrjár af afagullunum mínum.

Annars vorum við Erlan mín í brúðkaupi í dag, Hafdís dóttir Danna bróður míns gifti sig úti undir berum himni í garðinum heima hjá móður sinni. Veðrið var fallegt eins og brúðurin sjálf. Einstaklega fallegt og vel gert og veisluhöld flott.

Já lífið er fallegt ferðalag.

sunnudagur, júlí 16, 2006

Sunnudagsrólegheit

Það hefur ekki verið neitt sérlega fallegt veðrið undanfarið. Nú er undantekning á því. Logn, og skýin ekki svört heldur ljósgrá.....! Ég var í sveitinni í gær að moka fyrir undirstöðum að kofanum okkar. Ég hef sjaldan lent í annarri eins rigningu. Það var eins og ég væri miklu sunnar á hnettinum þvílíkt var úrhellið. Ég þurfti auðvitað að velja þennan blautasta dag ársins (geri ég ráð fyrir) til að standa úti og grafa holur...!
En næst er að steypa í þessar holur og fara svo að reisa mannvirkið.
Þetta verður 15 fermetra fjallakofi úr bjálkum. Það finnst mörgum lítið, en ef maður spáir í því t.d. hversu stór stærstu fellihýsi eru, þá er þetta mun stærra en það.
Allavega erum við alsæl með þetta og ætlum að njóta þessara fermetra vel.

Hér í húsinu við ána hefur verið gestkvæmt þessar vikur síðan við fluttum. Það litar tilveruna á skemmtilegan hátt. Við höfum alltaf viljað hafa fólk í kringum okkur, því eins og máltækið segir, og er svo rétt, þá er maður manns gaman.
Baddi og Kiddý voru að fara frá okkur. Þau hafa lengi verið vinir okkar og nú matarklúbbsfélagar líka, ásamt Heiðari og Sigrúnu sem voru hér í gærkvöldi. Ekki amalegt að hafa frú Kiddý kokk í slíkum klúbb.
Við erum enn jafn alsæl með húsið okkar við ána. Hvert rýmið á fætur öðru tekur á sig endanlega mynd eftir því sem tíminn líður. Ég mála og smíða en Perlan mín sér um restina, að gera húsið að heimili. Hún hefur einstakt lag á að gera notalegt í kringum okkur. Það eru mín forréttindi að eiga hana og deila með henni stað sem þessum. Svo eru nágrannarnir hér einstaklega elskulegir og áin heillar okkur með kynngimagnaðri nærveru sinni.

Ég hef nú náð markmiðinu með kílóin. Ég ákvað í janúar að taka af mér 15 kíló sem nú eru farin og eitt til viðbótar, þökk sé danska. Ég hef reyndar ekki verið heittrúaður í kúrnum heldur haft hann til hliðsjónar. Ég held að grænmetisát sé lykillinn að því að nálgast rétta þyngd, á við um alla, konur og kalla.

Við erum í fríi í dag og erum bara að njóta tilverunnar hér, í léttum vangadansi við lífið.
Ljúft og notalegt.

mánudagur, júlí 03, 2006

Rúlletta

Tvö banaslys um helgina. Farið varlega í umferðinni....! Tek undir orð formanns umferðarráðs: ”Það er betra að halda lífi en áætlun.”
Höfum það á bak við eyrað....!

miðvikudagur, júní 21, 2006

Annasamir dagar

Það má með sanni segja að dagarnir eru búnir að vera annasamir. Brjálað að gera í lögfræðinni....!
Reyndar er meira að gera í smíðum hjá mér þessa dagana, enda lögfræðin þess eðlis að ég þarf að markaðssetja mig þar smátt og smátt.
Ég var að koma norðan af ströndum. Var þar að innrétta eldhús í vinnubúðir fyrir Hjalla bróðir, bara gaman að því. Sótti mér kraft í vestfirsku fjöllin og er nú endurnýjaður að afli og orku.
Áður en ég fór vestur, fór ég í Þórisvatn ásamt Hlyn, Heiðari, Rúnari og Gylfa, stóru strákarnir og litlu. Það veiddist vel að vanda. Nefni engar aflatölur, það er svo montlegt, en aflinn var góður.

Ég gekk í veiðifélagið hér á Selfossi í morgun. Það á reyndar ekki að gerast nema á aðalfundi einu sinni á ári. Datt óvart inn í klíkuna svo mér var boðið að gerast meðlimur strax. Ég mun svo veiða hér á baklóðinni í þrjá daga í ágúst. Ánægður með það.

Ég var að slá blettinn áðan þegar Valdimar nágranni minn kom yfir og spjallaði við mig um veiði í ánni. Ég hitti hann í morgun við inngönguna í félagið. Ég heyrði á honum að hann þekkir ána mjög vel, svo mér varð að orði að við þyrftum að fá okkur göngutúr upp með ánni einhvern góðan veðurdag, því það væri óborganlegt að fá tilsögn svona manna eins og hans. Hann tók mig á orðinu og spurði hvort við ættum ekki að rölta núna. Við röltum fyrst niðureftir og svo upp með ánni. Hann sýndi mér staðina og meira að segja punktana sem á að renna á. Góður Valdimar. Ég hafði líka gaman að því að hann hafði orð á því að þetta hefði hann ekki séð í mörg ár, að grasið væri slegið á lóðinni minni.....!

Ég er að hamast við að rífa veggi, innrétta, sparsla, mála, slípa parket, lakka, saga handrið og smíða eitt og annað hér heima. Og vinna þess á milli fyrir salti í grautinn. Dagarnir hafa verið langir en skemmtilegir.
Við hjónakornin fórum í göngutúr hér upp með á í gærkvöldi, í bullandi rigningu og logni, það var einfaldlega frábært. Fuglasöngur og árniður. Svæðið er einstakt hér í kring. Við tímdum varla að fara inn og tókum aukakrók.... rennandi blaut.
Já það má segja að grasið er sko grænt hér, svo grænt.... að það er blátt.

Njótið daganna.........!

sunnudagur, júní 11, 2006

Nýr titill....!

Það tilkynnist hér með að ég er orðinn lögfræðingur. Lögskipaður í bak og fyrir.
Ég var búinn að segja minni heittelskuðu að ég ætlaði ekki að hafa neitt tilstand.
Það féll í góðan jarðveg .....að mér fannst. Hún sagði mér að stelpurnar langaði til að hafa smá kaffi handa mér eftir útskrift heima hjá Írisi og Karlott. Eg samþykkti það og fannst það vel til fundið. Ég er smátt og smátt að ná málinu aftur því þegar þangað kom var múgur og margmenni þar samankomið. Bílar faldir á nærliggjandi bílastæðum svo ég fattaði ekkert. Ferfalt húrrahróp tók við mér þegar ég gekk í hús.
........Orðlaus er rétt lýsing.
Það eru mín gæði að eiga vini í þessum gæðaflokkki. Vinir eru það sem gefur lífinu gildi. Erla ásamt fleirum höfðu undirbúið svona glæsilega veislu með vinum mínum og vandamönnum.
Þeim tókst að koma mér svona algerlega í opna skjöldu. Þið eruð yndigull öll.
Ég get ekki neitað því að þetta kom við sálina í mér. Að allir þessir skyldu taka sér tíma til að samfagna með mér... segir meira en mörg orð.... takk fyrir mig vinir mínir.
Ekki nóg með það heldur fékk ég flottar gjafir í tilefni dagsins. Takk kærlega fyrir mig.....!
Ég er lukkulegur maður.............. þið fáið öll afslátt af taxta :-)
Er byrjaður að taka niður númer.....

miðvikudagur, maí 31, 2006

Gott hjónaband......

Allavega heldur það vel. Sjálfstæðismenn og framsókn enn í eina sæng. Ég á víst ekki svo mikilla hagsmuna að gæta lengur í borgarmálunum þ.e Reykjavíkurborgarmálunum að það skipti mig jafn miklu máli og það gerði. Þó verð ég að segja að ég fer héðan sáttari með þessa blöndu við stýrið, en þá fráfarandi. Vonandi tekst þeim að afnema okurlóða stefnu R-listans sem fyrst og fara að haga skipulagsmálum af einhverri skynsemi.

Nú eru það borgarmálin í Árborg sem skipta mig meira máli. Ég er reyndar ekki mikið inní málefnum Árborgar enn sem komið er, svo forsendur vantar til að mynda mér skoðun á því hvað best fer þar. Mér leist samt ekkert á vinstri Err blönduna sem virtist í uppsiglingu þar. Það sprakk sem betur fer eins og við mátti búast. Nú eru þeir að stíga í vænginn hver við annan, engir aðrir en sjálfstæðismenn og framsókn.....! Gæti verið gifting í vændum á þeim bæ. Eini vandræðagangurinn er hver á að verða borgarstjóri.
Ég held að Eyþór Arnalds hafi skemmt mikið fyrir sér og flokknum með hittni sinni á staurinn í Reykjavík. Hann komst þó þokkalega frá þessu með því að viðurkenna mistökin.

Annars erum við að fá Óðalið afhent á morgun. Þá þarf að mála og taka aðeins til hendinni við húsið áður en við flytjum þann 11. júní n.k.
Býð hér með til pizzuveislu eftir síðasta kassa í hús .... þeim sem nenna að hjálpa okkur að bera þá.
Það verður lyfta sem ber dótið niður af 3ju hæð í Vesturberginu, en hendur (veit ekki enn hversu margar) sem bera það inn í Óðalið á Ölfusárbökkum.
Núna sit ég í austurherberginu og horfi út um gluggann. Yfir borginni er þykk skýjahula. Beint í austri, út við sjóndeildarhringinn brestur hulan, þar glittir í sólina og hitann..... Selfoss here we come.

Ég er sprækur ...eins og lækur

fimmtudagur, maí 18, 2006

“Hún er aggresív”

Sagði Erlendur Gíslason um ritgerðina mína, annar leiðbeinenda minna. Ég hváði aðeins og spurði á móti hvort hún væri of aggresív? Hann svaraði snöggur, nei alls ekki, þú ert bara að velta upp hlutum sem ekki hefur verið gert áður. Hún ber merki reynslu þinnar af byggingamarkaðnum, og augljóst að 23ja ára nemandi hefði skrifað öðruvísi ritgerð um þetta efni.
Ég þakkaði fyrir og sagði honum að þetta væri búið að vera fróðlegt að nálgast þessi mál frá lögfræðilegu hliðinni og afar gagnlegt að kynnast þeim (Erlendi og Othari). Hann sagði það vera gagnkvæmt frá þeirra hendi og þeir væru sammála um að þetta væri ný og athyglisverð nálgun.

Ég er sem sagt búinn að skila BA ritgerðinni minni. Þetta var brot úr samtali við það tækifæri, ég var ánægður með viðtökurnar og er svona í og með að monta mig svolítið yfir viðbrögðunum. Hún fór í prentun í morgun og tilbúin um hádegið, innbundin.

Svo nú er þessum skyldum vetrarins lokið. I fly away...... og við taka skyldur sumarsins.

Vinna, flytja, lifa og leika sér.

laugardagur, maí 13, 2006

Prófalok

Það hefur tekið svolítið á þetta vorið að beita sig hörðu og loka sig inni við lestur. Það má því segja að ég sé frelsinu feginn og stökkvi út í vorið.....fagnandi.

Ég var sem sagt í síðasta prófi ársins í morgun. Tilfinningin var góð. Ég fann fyrir einhverri ómótstæðilegri löngun til að öskra og láta eins og fífl. Ég lét það ekki eftir mér....allavega ekki ennþá.

Ég tók saman að gamni hvað ég hef verið að gera þessi ár. Ófullkomin nálgun á lestri til BA gráðu í lögfræði gæti verið með öllum bókum, dómum, álitum, glósum, glærum og ítarefni, á bilinu 25 - 30 þúsund blaðsíður. Þetta er miðað við að efnið sé lesið einu sinni. Lesturinn er líklega mun meiri þar sem efnið er oftast lesið aftur fyrir próf að stórum parti. Kæmi ekki á óvart þó það lægi nær 40 - 45 þúsund síðum Ég hef setið um 1.100 fyrirlestra. Unnið um það bil 70 verkefni til prófs og tekið 23 lokapróf. Og svo eitt stykki BA ritgerð núna í lokin.

Þetta er hálf ógnvekjandi fjall og eins gott að það blasti ekki allt við þegar ég stóð við rætur þess og lagði af stað, farinn svolítið að silfra í vöngum....!
Ég las fyrstu bókina í síðustu útilegu ársins 2003. Þá vorum við í fellihýsinu að Laugarási í Biskupstungum. Þá hélt ég að ég væri nokkuð vel að mér í lögfræði. Nú veit ég þó allavega að ég vissi ekkert, maður hefur þá lært eitthvað. Mér sýnist þetta vera þannig að eftir því sem maður lærir meira því betur sér maður hversu lítið maður veit. Kannski er það besta skólunin.

Ég ætla að viðurkenna hér að ég gerði mér ekki grein fyrir hversu gífurleg þekking liggur að baki akademísku námi. Ég vissi ekki að til væri fólk með svona ótrúlega hæfileika sem liggja að baki þessu öllu.
Hugsun mannsins er mikið undur. Rökhugsun getur af sér þau lífsgæði sem við búum við í dag.
Merkilegt ekki satt.

Þessi þrjú ár hef ég notið góðs byrs í seglin frá því besta sem ég á, fjölskyldunni minni. Dugnaður og nægjusemi Erlu minnar, stuðningur hennar og annarra meðlima fjölskyldunnar hefur gert þetta mögulegt. Skilning og nægjusemi Hrundar minnar met ég mikils. Það er ekki endilega auðvelt að vera yngst og dekurrófa þegar pabbi sest allt í einu á skólabekk og hefur minni fjárráð. Því þá er minna hægt að veita af ýmsum lífsins gæðum.
Það er vandfundið alvöru ríkidæmi sem jafnast á við mitt.

Já hann er ánægður með prófalok. Hann ætlar út í vorið á morgun.

föstudagur, maí 12, 2006

Pólska mengunin farin

.....og hitinn með. Í staðinn er komin fjallasýn sem ekki sést í pólsku lofti. Ég hef fylgst með öspunum hér fyrir utan undanfarna daga. Ég hef aldrei séð þær laufgast svona hratt. Allt í einu eru þær orðnar grænar en ekki brúnar lengur.
Ég var svo lukkulegur að hafa fengið Gylfa frænda minn til að klippa fyrir mig á Fitinni, það kann hann betur en flestir. Nú væri ég orðinn of seinn til þess.

Sá það í fréttum að Bush kallinn hefur gaman að veiði. Eftirminnilegasta atvik hans úr forsetatíð sinni er þegar hann veiddi 8 punda Abborrann, skondið að hugsa til þess að ekkert af allri frægðinni og vellystingunum stekkur hærra en einn fiskidráttur......! Hann ætti að prófa að veiða hér á Íslandi, þá myndi hann fatta hvað við erum að tala um. Abborrar eru bara ormétin kvikindi sem lítið er gaman að veiða, hef sjálfur prófað.

Ég er löngu orðinn ær inni í mér af þessu kafsundi í bókaflóði lagafræðanna núna, með sólina og vorið gauðandi á gluggann hjá mér. Er farinn að iða í skinninu að komast úúúút.
Nú er samt alveg að koma að leiðarlokum í skólanum – í bili. Síðasta próf þetta árið er á morgun laugardag.
Réttar þrjár vikur í afhendingu á Ölfusáróðalinu. Svo á ég líka von á tilboði í íbúðina í dag.
Allt að gerast.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Lífsspeki

Lífið er stöðuglega að uppfyllast. Ef þú hefur ekki eignast nýtt áhugasvið á einu ári – ef þú hugsar enn eins, byggir á sömu reynslu, bregst alltaf eins við – þá er persónuleiki þinn staðnaður. - Nancy Van Pelt.

Ef svo er, gæti verið ráð að breyta til. Þó ekki væri af annarri ástæðu en eftirfarandi saga kennir: "Lítill fjögurra ára snáði þrýsti nefinu ofan í glerborð í sælgætisverslun. Mamma hans var að flýta sér og sagði: Drífðu þig nú að ákveða þig, láttu konuna fá aurana þína svo við getum farið heim. – En, mamma, sagði strákurinn – ég á bara eina krónu".

Og við eigum bara eitt líf.
Kannski er rétti tíminn núna að yfirvega vandlega hvað við veljum okkur - fyrir næsta áfanga.
Því eins og hún móðir mín segir “ Lífið er allt of stutt”.

sunnudagur, maí 07, 2006

Móðir mín!

Er áttatíu og fimm ára í dag. Hún er hvunndagshetja. Hún lætur hverjum degi nægja sína þjáningu. Mamma er blind. Hún er hjartveik. Hún er með alsheimer. Hún er í hjólastól. Hún kvartar aldrei, kann það ekki. Henni líður alltaf vel, of vel segir hún stundum.
Hún segir að lífið sé of stutt.
Við héldum henni veislu í dag. Hún var í essinu sínu. Sagðist lítið hafa sofið fyrir spenningi. Gjafirnar voru föt. “Ég hef aldrei átt svona mikið af fallegum fötum sagði hún, mig vantar kommóðu.
Sagan hennar er sveipuð fórnfýsi. Hversu marga útigangsmenn tóku þau inn á heimilið sitt? Hef ekki tölu á því. Hversu mörg “vandræðabörn”? Veit það ekki heldur.
Að starfa þannig að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir, varð hlutskipti hennar. Þeirra beggja.
Hún hefur aldrei skreytt sig með þessu.
Hún á launin inni.
Guð blessi hana.

laugardagur, maí 06, 2006

Við freistingum gæt þín.....

og falli þig ver, því freisting hver unnin til sigurs þig ber.

Held mér fast í þetta stef úr sálmabókinni þessa dagana. Bókstaflega. Veðurspáin er andstyggilega nastí þessa helgina. 18 gráðu hiti og sól! .....Hrmff.
Þetta á ekki alveg við mig núna að vera lokaður inni að lesa. Ég gjóa augunum reglulega á fluguboxin mín. Tek þau annað slagið fram og opna. Það veitir smá fró að snerta þær og velja eina og eina flugu fyrir ímyndaða vatnabúa sem ég gæti hugsað mér að egna fyrir.

Hlynur er búinn að hringja í mig tvisvar allavega í líki freistarans til að plata mig í eggjaleiðangur, (ekki hætta því!!!). Það hefur verið háttur okkar bræðranna síðustu árin að skreppa nokkrar ferðir á vorin. Allt í þágu fjölskyldunnar auðvitað, þau þurfa sinn mat....! Erla er reyndar búin að leggja drög að því að ég sleppi þessu þetta árið vegna kvefsins.... fuglakvefsins. Ég reyni í veikum mætti að verjast. Það er nú mark takandi á landlækni, að ég tali nú ekki um yfirdýralækni.
Þeir eru sammála mér báðir að við þurfum lítið að óttast.
Ég þarf eiginlega nokkur “sammála komment” með viturlegu innleggi á þessa grein, svona okkar á milli, það styrkir málstaðinn!

Ég hlakka til annars mánudags. Ritgerðarskil, próf búin og lok síðustu annarinnar. Þá geri ég ráð fyrir að BA verði í öruggri höfn.

Vorkenni ykkur að þurfa að vera úti að flækjast í svona illviðri.
Greyin.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Fingrafar

Átti fund með lögfræðingi í Umhverfisráðuneytinu í dag. Kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún situr í nefnd sem vinnur að heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga. Sú var líka ástæða fundarins.
Ég spurði hana í þaula um nýtt frumvarp sem nefndin er að smíða. Aðallega þó um byggingarstjóra og iðnmeistara en það er efnið sem ritgerðin mín fjallar um.
Þetta var fróðleg yfirferð... og skemmtileg.
Það skemmtilegasta var að ég lagði á borð nokkrar hugmyndir sem koma fram í ritgerðinni minni sem ganga svolítið á skjön við það sem haldið er fram í dag. Málefni sem þau hafa ekki verið að skoða, en skipta máli.
Til að gera langt mál stutt þá keypti hún þau rök sem ég var að leggja á borð. Frumvarp til nýrra byggingalaga verður með fingrafari mínu - að líkindum.

laugardagur, apríl 29, 2006

"Fjórða valdið"

Oft er sagt að fréttamiðlar séu fjórða valdið. Það má alveg til sanns vegar færa. Vald þeirra getur verið óhugnanlegt í skjóli ritfrelsis. Ritfrelsið er stjórnarskrárvarinn réttur sem auðvelt er að misnota. Sérstaklega af blaðamönnum sem finnst ekki tiltökumál að matreiða sannleikann eftir eigin smekk.
DV fór oft langt yfir strikið í umfjöllun sinni og uppskar réttláta reiði almennings og sýpur nú seyðið af því. Það er skömm þeirra sem að því stóðu, því frjáls og beittur fréttamiðill sem þekkir sín landamæri getur verið gífurlega góður þjóðfélagsrýnir og í raun nauðsynlegt verkfæri til aðhalds á ýmsum sviðum þjóðfélagsins.
Umfjöllunin verður að vera innan ákveðins ramma, þess að maður er saklaus uns sekt sannast. Þetta er lögreglumál og þarf að meðhöndlast sem slíkt.
En þetta er gott mál.
DV varð ekki stöðvað nema af einum dómstóli. Dómstóll götunnar hefur fellt dóm í málinu. Fjórða valdið í birtingarmynd DV hefur nú verið afhausað.

Þessi andlátsfrétt DV veltir samt upp spurningunni um hvort fjórða valdið sé ekki frekar í höndum neytenda heldur en fréttamiðla. Neytendavaldið er miklu aflmeira en neytandinn sjálfur gerir sér grein fyrir. Ekkert rekstrarlegt líkan gengur til lengdar nema neytendur séu tilbúnir að borga brúsann
Með það í huga mætti t.d. lækka bensínverðið....eða veiðileyfin....eða strætó....eða hækka lægstu laun...!
Meira að segja gæti almenningur afhausað sjálfan Baug, ef honum sýndist svo.... allavega fræðilega!
Neytendur hafa mikinn bitkraft þegar þeir eru sammála um að glefsa.

Njótið helgarinnar.

föstudagur, apríl 28, 2006

Pólitík

Hugtakið Dagsatt hefur fengið aðra og nýja merkingu að sögn. Það er t.d. alveg Dagsatt að Framsókn sópar að sér fylgi....!

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Undirritun í votta viðurvist

Í gær lögðum við land undir fót sem leið lá austur á Selfoss. Endanlegir pappírar voru undirritaðir og við erum orðin löggildir óðalsbændur á Ölfusárbökkum. Afhending verður þann 1. júní n.k. sem er ekki nema rúmur mánuður. Við sömdum um að skúrinn ljóti á lóðarmörkunum, sem tilheyrir nágrannanum, verði farinn þegar við komum. Það var góð lending í því máli.

Þessi næsti kafli sögunnar okkar verður væntanlega öðruvísi. Við höfum einu sinni áður búið utan Reykjavíkur. Það var á Akranesi á fyrstu metrunum okkar saman. Ég lærði þar til smíða. Það var góður tími, sem ég hugsa gjarnan svolítið værðarlega til.
Ég hef mikla trú á að við munum finna þessa notalegu tilfinningu í húsinu við ána.

Mér er ofarlega í huga við þessi tímamót hversu ótrúlegar stefnur lífið getur tekið. Það er með miklum ólíkindum að líta yfir farinn veg undanfarinna ára. Hvernig Thermo fyrirtækið reyndist lymskuleg svikamylla sem sendi okkur fjárhagslega niður á byrjunarreit aftur, eftir tíu ára streð við að vinna okkur upp úr gjaldþroti. Ólíkindaleg viðbrögð fólks við því, og svo viðskilnaður okkar úr kirkjunni í framhaldi af því.
Ég hef aldrei haft skýrari mynd af öllu þessu ferli en nú. Reynsla áranna hefur kennt mér á nótnaborð manneðlisins, hversu við erum mis innréttuð. Sumir eru af Guði gerðir þessi gæða manngerð, meðan aðrir eru í eðli sínu, flagð undir fögru skinni.
Það síðarnefnda hef ég, af einskærri sjálfselsku, hætt að nenna að eiga samskipti við.
Sumum finnst þetta vafalítið hrokafullt viðhorf. Það er samt ekki svo, heldur frjálst val. Enda eigum við góða vini í kringum okkur sem sprengja gjarnan gæðastaðla.

Í lagadeild hef ég líka kynnst mörgum með þessi gæða gen. Kannski hefur það eitthvað að gera með hvað þessir krakkar eru “heppnir í höfðinu”. Það eru forréttindi að fá að kynnast svona hópi einstaklinga sem skara fram úr hvað greind og atgervi varðar. Margir þeirra hafa allt til að bera til að verða frábærir kennimenn og stjórnendur og eiga án nokkurs vafa eftir að verða áberandi einstaklingar í þjóðfélaginu - á eigin verðleikum. Í þessu síðastnefnda liggur þunginn, því mikil gjá skilur að þessa manngerð, og þá sem þurfa að skreyta sig annarra fjöðrum.

Lífið er svo stórkostlegt. Fjölbreytileiki þess er svo mikill ef maður leyfir því að dansa við sig. Sum danssporin verða að vísu svolítið þungbær eins og t.d. þau sem ég lýsti hér að ofan. En það góða er að ef maður leyfir dansinum að halda áfram, þá er eins og lífið sjálft leiði sporin og ákveði taktinn, og úr verður fallegur tangó.

Það er tilhlökkun í okkur.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Það er komið sumar, sól í heiði skín........

Það heilsaði fallega í þetta skiptið. Gleðilegt sumar lesendur góðir.
Ég hef verið í sumarskapi í dag. Það er svo gaman þegar þessi tími rennur í garð. Farfuglarnir eru að koma með ..... flensuna sína.
Þau vöktu athygli mína orð landlæknis, held ég, frekar en yfirdýralæknis að þetta afbrigði fuglaflensu væri búið að vera í tíu ár meðal fugla heimsins. Aldrei orðið faraldur og aldrei breytt sér svo hún smitist milli manna.
Góðar fréttir, en fara ekki hátt. Ég held að við ættum ekki að vera að æðrast yfir þessu fuglakvefi. Við ættum frekar að hafa áhyggjur af einhverju öðru nærtækara.
T.d. virðist sem afskipti Danske Bank og fleiri preláta af þeim stofni, séu að hafa meiri og alvarlegri áhrif á íslenskt samfélag en nokkurn grunaði í byrjun .
Að vísu verður að segjast að íslendingar eru búnir að vera alltof neysluglaðir í góðærinu. Ótrúlegur fjöldi fólks er á kortaspítti þessa dagana og kann ekki leiðina út úr því. Því má segja að það hafi verið réttmætt hjá Den danske að spá timburmönnum.

Ég fékk sumargjöf frá Erlunni minni. Henni líkt. Það var dvd diskur “Veiðilandið” og er um þessa veiðiparadís sem landið okkar er. Ég var friðlaus eftir að hafa horft á hana.
Er að hugsa um að skella mér austur í Brúará í bleikjuna......!
Nei annars kannski ekki fyrr en eftir próf. En freistingin er fyrir hendi skal ég segja þér.
Annars er ég búinn að vera gríðarlega harður við sjálfan mig þessa prófatörn. Setti upp stífa stundatöflu fyrir mánuðinn og hef farið eftir henni nánast bókstaflega. Nokkuð kátur með það bara.
Ritgerðin er á síðustu metrunum. Ég er að skrifa um áhugavert efni sem gaman verður að sjá viðbrögðin við.
Eigið annars góða daga og njótið sumarsins framundan..

sunnudagur, apríl 16, 2006

Páskar!

Ættu að vera stærsta hátíð kristinna manna. Þeir eru samt einhvern veginn skör lægra settir hjá almenningi, en t.d jólin. Um þessa hátíð ættum við að hafa fleiri orð en annað. Ekkert í kristni skiptir jafnmiklu máli og páskar. Ekkert sem jafnast á við þá merkilegu atburði sem gerðust þá.
Atburðir sem eru staðfestir af ótal samtímariturum. Upprisan, sem á sér enga hliðstæðu í sögunni, upprisan sem er grundvallaratriði trúarinnar.

Hjá okkur fjölskyldunni eru páskar fyrst og fremst fjölskylduhátíð. Við hittumst öll í eftirmiðdaginn og elduðum lamb saman. Við hæfi í tilefni dagsins, og ekki skemmir hið óviðjafnanlega gamaldags bragð, ekkert annað krydd notað en gert var í gamladaga, sósan brún, gamaldags, gerð úr soðinu.
Þetta var gott samfélag. Ekki var lesinn stafkrókur í lögunum og ekkert skrifað í ritgerðinni í dag. Dagurinn var algerlega helgaður tilefninu.

Erla er að búa til “málshátt” sem hún ætlar að gefa mér á eftir. Ég er búinn að búa til einn sem hún fær. Þetta er smá frumraun og auðvitað er ekki um málshátt að ræða þar sem við erum að búa þetta til. En það er alltaf gaman að gera eitthvað nýtt. Ég hlakka til að lesa hvað hún segir.
Minn er svona:
“Henni snemma varð það ljóst, að gefa af eigum sínum væri lítil gjöf, hin sanna gjöf væri að gefa af sjálfri sér, af þeirri gjöf hennar erum við fjölskyldan ríkust.”

Þetta á vel við hana, enda er konan fágæt perla og vandfundin. Þannig perlur verða djásn.

Gleðilega Páskahátíð vinir mínir

laugardagur, apríl 15, 2006

Er að skoða grill.....

Hef aðeins verið að kíkja á grill á pallinn fyrir sumarið. Það er svo margt í boði. Á reyndar eitt st’Erling grill, mjög gott og ber fallegt nafn. En ég veit ekki hvort það annar öllum laxinum sem fer upp Ölfusá...!
Ég er búinn að finna eitt sem ég skoða á hverjum degi. Mér líst rosa vel á það. Það er átta gata, mjög flott. Hægt að grilla marga laxa í einu á því....ef margir koma í heimsókn.


Ég sé mig í anda, grilla og grilla og grilla og grilla og..............grilla.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Heilsan!

Er hún ekki stóra málið? Ég er búinn að vera kvefaður síðan í janúar, með hóstakviðum mismiklum. Ég hélt nú að þetta myndi rjátlast af mér, en svo hefur ekki orðið. Ég skrapp því loksins til læknis í morgun og lét hann kíkja á mig.
Niðurstaðan var sterkt sýklalyf. Óværan er að grassera í lungunum á mér og eins gott að reyna að kveða hana niður, áður en verra hlýst af. Hélt í nótt að ég væri kominn með lungnabólgu og er ekki frá því að sá grunur minn sé að styrkjast, þar sem ég er nú kominn með hita.

Gamli er því lasinn. Hann má illa við því. Hann á að vera að lesa fyrir próf og skrifa ritgerð.
Í það fer næsti mánuður og rúmlega það. Ég segi það enn: Það er mannréttindabrot að læsa náttúrubarn inni á þessum tíma......!

Ég hélt fyrirlestur um ritgerðina mína í gær fyrir nemendum og kennurum háskólans, fékk góðar viðtökur og mikið af spurningum úr sal. Held þetta hafi tekist nokkurn veginn skammlaust.

Ég verð samt að segja að efnið er þæfnara en ég átti von á. Ótrúlegt hvað fræðimenn eru á öndverðum meiði í þessum efnum og dómaframkvæmd er vægast sagt, afar misjöfn. Ég hélt að ég yrði ekki í vandræðum með að snara fram úr erminni góðri ritgerð úr verktakarétti, þó ég væri ekki búinn að læra hann. Það er bara í boði á meistarastigi.
Ég hef hinsvegar komist að því að lögfræðileg nálgun á efninu á lítið skylt við að vinna við fagið, sem ég gerði árum saman.
Samt finn ég að skilningur minn er dýpri á lögfræðilegu hliðinni vegna þessa bakgrunns. Enda eins gott þar sem stefnan var sett á byggingamarkaðinn strax í byrjun námsins.
Ég minnist orða Dr. Matthíasar G. Pálssonar sem kenndi mér samningarétt. Hann fór rétt lítillega inn á verktakarétt, en sagði til útskýringar á því, að verktakaréttur væri ekkert fyrir lögfræðinga, þetta væri heimur verkfræðinga. Margt til í því. Samt sem áður verða einhverjir lögfræðingar að sérhæfa sig á þessu sviði, því nóg er af málunum sem upp koma.

Ég held ég taki það rólega í kvöld og slaki á í hornsófanum með konunni minni, sjá svo til hvort ég verði ekki sprækari í fyrramálið.....

Njótið daganna vinir!

laugardagur, apríl 08, 2006

"Ég er ekki bara titill..!"

Ég stoppaði aðeins við þessi orð. Fannst hann ramba á athyglisverðan punkt.
Það er lítill vandi að fljóta með straumnum sem ber með sér gildi þjóðfélagsins hverju sinni og gleyma einmitt þessum sannleika.

Titladýrkun er óhugnanlega mikil í þjóðfélaginu í dag. Best er ef titillinn ber með sér ríkidæmi eða völd. Þá ertu merkilegur í augum samborgaranna.
Oft hefur farið í taugarnar á mér sá smáborgarabragur sem felst í því að tipla á tánum kringum stjórnmálamenn, eins og þeir séu guðlegar verur. Það er þó annar kapítuli sem væri efni í langan pistil.
Það er þannig, held ég, að menn átta sig oft ekki á þessum sannleika, sem Árni Sigfússon Sjálfstæðismaður og bæjarstjóri í Reykjanesbæ rambaði á í viðtali við Morgunblaðið í dag, fyrr en einhverskonar vanda ber að höndum sem er mönnum ofviða.
Það er oft þar, sem menn sjá hversu litlir þeir eru og hversu lífið er fallvalt og ofurselt
ytri aðstæðum sem menn ráða ekki við, - been there done that. Ég held að það hafi líka þau áhrif á menn að þeir koma auga á hvað þeir sjálfir, standa, þegar öllu er á botninn hvolft, nákvæmlega jafnir háu titlunum. Árni var eitt sinn borgarstjóri Reykjavíkur en er nú bæjarstjóri, hann var spurður út í ósigra á hinum pólitíska vettvangi í tilefni af því.
Hann hefur staðið frammi fyrir krabbameini í líkama eiginkonu sinnar, sem ekki leit vel út. Það hefur án efa fært honum í hendur verkfæri til að rekja hismi frá höfrum.

Ég held að það sé manninum hollt að standa frammi fyrir erfiðum kringumstæðum þar sem hann áttar sig á smæð sinni. Erfið reynsla getur skyndilega og óvægið sýnt fram á að verðmæti lífsins felast í allt öðru en fjármagni eða manndómstitlum. Þá verða titlar og peningar einskis virði, fyrir utan afatitilinn auðvitað....! Það sem þá öðlast vægi er utan þessara gervigilda, það verður mannlega hliðin sem snýr að einstaklingnum, sem tekur yfir öll gildi. Orð sem hlýja, handtak sem yljar, samkennd sem virkar, eins og lífgefandi afl inn í ofviða kringumstæður.
Ráðherrann, forstjórinn og doktorinn eru jafnberskjaldaðir frammi fyrir óumflýjanlegum ofviða kringumstæðum eins og róninn niðri á Austurvelli, allir eru jafnir.

Boðskapur páskanna ber með sér aðmýkingu sem færði jafnvel sjálfan Guðsson upp á kross, þar sem hann lét lífið sem sakamaður. Hann veifaði ekki titli sínum... þó ekkert hefði verið auðveldara!
Hvaða hrokagikkur æti ekki hattinn sinn, ef hann bara stæði í skugganum af honum?

föstudagur, mars 31, 2006

Vér Selfyssingar....

Það er þessi kyrrð og þessi afslappaða stemning þegar maður getur gleymt bæði stað og stund í dýrðinni sem gerir sveitarómantíkina svo ánægjulega. Engir reykspúandi bílar, gjallandi umferðarniður eða truflandi áreiti allsstaðar, sjónvarp eða aðrir glymskrattar. Maður gleymir meira að segja að eltast við að hlusta á fréttir og jafnvel að hringja áríðandi símtal eins og búið var að semja um. Hugurinn verður fanginn af því að fylgjast með Maríuerlunni fóðra ungana sína og hlusta á Lóuna og aðra mófugla hefja upp róminn í ægifallegri sinfóníu hver í kapp við annan. Þetta er hreinræktuð ánægja og lífsnautn að upplifa. Það gerist samt ekki fyrr en nálægðin við sköpunina nær að fanga hugann nægilega til að augun opnist fyrir stórfenglegum margbreytileikanum sem í henni felst.

Hér ert þú auðvitað búinn að fatta að ég er að tala um bakgarðinn okkar í sveitarómantíkinni "utan ár" á Selfossi....!

Það er því með eftirvæntingu sem ég hugsa til sveitarinnar þar sem við ætlum von bráðar að búa. Ég held án gríns að staðsetning hússins okkar muni bjóða upp á þessa stemningu. Ég er þegar farinn að sjá fyrir mér göngutúrana mína og reykjavíkurmærinnar upp með ánni, með skóginn á aðra hönd, iðandi af lífi sem hressir sálina og gleður augað , og laxinn í ánni á hina. -- Góður bakgarður þetta.....!
Ný útskrifaður lögfræðingur úr lagadeild áður en við leggjum af stað.....!!!! Ætli megi ekki segja að leikhléi sé lokið og þetta sé upphaf seinni hálfleiks.
“Sjá veturinn er liðinn...rigningarnar um garð gengnar - á enda.... kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru”.
Vinir mínir og vandamenn! Þið verðið aufúsugestir í “Húsinu við ána”