fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Ótrúlegt að hlusta á þetta....!

Það er enn til fólk sem heldur því fram, og ég held að það meini það, að aðferðafræði R listans í lóðamálum hafi ekki haft áhrif á hækkað húsnæðisverð í höfuðborginni. Rökin liggja einhversstaðar að nær sé að borgin fái arðinn af lóðunum en einhverjir byggingaverktakar. Það mætti til sanns vegar færa ef það væri eitthvað vit í þessu. Hinir sömu ættu aðeins að hugsa, til tilbreytingar. Vita ekki flestir upplýstir nútímamenn að verð vöru, hverrar ættar sem hún er, byggir helst á hinum ýmsa kostnaði við að koma henni á markað.
Það virðist öllum ljóst að ef t.d. ríkið hækkar tolla á einhverri vörutegund þá vitaskuld hækkar varan til neytenda, tollinum er bætt ofan á verðið.
Það er með hreinum ólíkindum að hlusta á fólk sem á að heita að séu að stýra borginni, halda því fram að það hafi engin áhrif haft á einbýlishúsaverð þó lóðarverð hafi hækkað. Hvar heldur þetta fólk að þessar fimmtán milljónir sem einbýlishúsalóð hefur hækkað í tíð R listans liggi...?
Svo er því haldið fram að vitleysingar komist ekki í valdastöður, sér er nú hver....

Hafi ég einhvern tíman verið pólitískur í hugsun, þá er það í borgarmálum í dag. Ekki nóg með það, skoðun mín á þessu fólki sem er að rugludallast þarna niðurfrá er komin niður undir alkul.
Ég vil gjarnan sjá einhverja með viti fara með stjórn borgarinnar eftir næstu kosningar.
D listinn virðist vera eini með viti. Þeir allavega gera sér grein fyrir einföldustu markaðslögmálum. Nóg framboð – ekkert brask.
Held raunar að það sé ekki mikil hætta á að vinstriflokkar komist að aftur. Ég held að flestir séu búnir að sjá hverslags apaspil hefur verið hér á ferð.
Eða eins og konan sagði: “Það er ekki vitlaust ef það sést ekki”
Ekki meira vinstri sukk takk.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Jarðbundinn Páfi...!

Á Reuter fréttavefnum er frétt um deilur í USA þar sem tekist er á frumvarp til laga um breytingar á kennslu í framhaldsskólum í líffræði. Frumvarpið ber með sér að jafnhliða kennslu um kenningar Darwins verði kennt að Guð hafi skapað heiminn. Það er þó ekki verið að tala um sköpunarsögu Biblíunnar. Fylgjendur þessarar kennslu reyna að koma henni í gegn meðan aðrir mótmæla og segja að þannig kennsla geti alls ekki samræmst vísindum.

Benedikt páfi í Vatikaninu í Róm sagði á fundi með meðlimum æðstaráðs trúarkennisetninga nýverið að vegna hinnar öru þróunar vísinda á 20. öld óttuðust margir að kristin trú færi halloka. Það sé ástæðulaust, vísindi og kristni uppfylli sameiginlega skilninginn um leyndardóma lífs á jörðinni. Kirkjan gleðjist yfir nútíma þekkingu og jafnframt útbreiðslu fagnaðarerindisins sem muni takast á við nútímann um leið. Pontiff nokkur, 78 ára þýskur meðlimur Vatikansins, segir að það geti verið flókið að samræma hinar ólíku skoðanir. En trú og öðruvísi röksemdir séu sættanlegar af því Guð var raunverulega Drottinn allrar sköpunar og sögu alls mannkyns.

Lesa greinina: http://today.reuters.co.uk/news/newsArticle.aspx?type=scienceNews&storyID=2006-02-10T183631Z_01_L10652640_RTRIDST_0_SCIENCE-RELIGION-POPE-SCIENCE-DC.XML

Ég tek ofan.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Útsynningur....!

Enn takast þeir á Guðsmennirnir, á síðum dagblaðanna. Kannski til að laða fleiri að trúnni.
Mér dettur stundum í hug ákveðin ferskeytla um “hávært hjal” þegar menn fara mikinn og láta stór orð falla um málefni sem hafa margar ólíkar hliðar. Ekki síst í langþreyttum málefnum samkynhneigðra.

Menn virðast geta endalaust þráttað um trú og túlkanir, ekki síst hvað þetta málefni varðar. Oft finnst mér umræðan bera ættarsvip ferskeytlunnar.
Þeir eru margir sem vilja tylla sér á bekk málflytjenda sannleikans. Ég hef á tilfinningunni að margir sem telja sig fylla þann flokk, hafi einfaldlega ekki getu til að sjá út fyrir rammann sem þeim hefur verið sniðinn, annað hvort í uppeldi eða síðar af misupplýstu fólki.
Margir telja sig hafa skýrari mynd af Guði en aðrir. Þeir fullyrða að þeir viti betur hvernig túlka eigi ritningarnar og það sem Guð hefur að segja. Oftast er túlkunin innrömmuð mynd byggð á kenningum hverrar kirkjudeildar viðkomandi rekur ættir sínar til og það er ærið fjölbreytt flóra.

Trúverðugleiki hvers um sig veltur einhversstaðar á ás sem fáir sjá. Augljóst er að á dögum Jesú var þessi ás, sem skildi að rétt og rangt, ekki á sama stað og farísear og fræðimenn þess tíma sáu hann.
Kannski er því eins farið í dag.

Túlkun sannleikans, sú sem ég þekki einna best til, er þannig uppbyggð að menn gefa sér annarsvegar að túlkunin byggi á tíðaranda þess tíma sem ritað var og innihaldið hafi því ekki gildi í dag, og hinsvegar að túlka það sem sagt er nákvæmlega eftir orðanna hljóðan. Jafnvel orð gamla lögmálsins. Það undarlega er þó að þar virðist kylfa ráða kasti eftir hentugleika.
Það er því með svolitlum hnút í maga sem ég fylgist með þessari umræðu hafandi lært það í lagasögu að gamla lögmálið var ekkert annað en lög þess tíma sem síðan breyttust í tímans rás samanber t.d. að búið var að afnema fjölkvæni þegar Jesú gekk um, en var við lýði og blessað af Guði á dögum Salómons.

Ég skal viðurkenna að ýmislegt í allri þessari hljómkviðu veldur mér hugarangri. Ekki síst þegar ég hugsa til þess að hafa sjálfur verið þátttakandi í of sjálfmiðuðu og rækilega innrömmuðu starfi af mikilli sannfæringu til margra ára, sjóndapur, ekki samt alveg sjónlaus, á þá augljósu staðreynd að pólitík er ekki bara drifkraftur stjórnmálaflokka.

Atburðarás þar leiddi mér loks fyrir sjónir, að keisarinn var ekki í neinum fötum. Gamli ramminn var sömu ættar og gamli belgurinn, brothættur og ófær um að meðtaka nýtt vín.
Trú mín er sterk, Guð er á sama stað, Jesú sömuleiðis. Hefur þá eitthvað breyst?
Já ég hef olnbogarými, nægilegt til að sjá að teningur hefur fleiri en eina hlið.

- Hann blés af suðvestan hjá mér í dag.....!

Áður en ég hætti þá er botn ferskeytlunnar einhvernvegin svona:

“Oft er viss í sinni sök
Sá er ekkert skilur”

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Tímamót

Ættarmeðlimur telur tvö ár í dag. Já þau eru orðin tvö árin síðan við þeystum norður í ágætisveðri til að líta nýjasta fjölskyldumeðliminn. Sara Ísold hafði komið í heiminn eldsnemma um morguninn svo ekki var um margt að velja ef líta skyldi dömuna.
Við létum ekki vita um komu okkar, heldur birtumst bara í gættinni á stofunni. Ég mun seint gleyma andliti Örnu eða það litla sem sást í andlitið því hún gapti svo.
Það var skemmtileg uppákoma.
Til hamingju með árin bæði, litla afakrútt. Gaman að eiga vináttu þína - við erum nefnilega vinir.


Hún kemur oft til afa síns og segir "afi kitla" Þá á afi að kitla hana, og það finnst þeim báðum voðalega skemmtilegt.

Ekki leiðinlegt það!

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Byggingarefni Guðs?

Þegar ég var lítill drengur man ég eftir myndskreyttri bók sem átti að fjalla um sköpunina. Jesú var að leira dúfur. Þegar hann var búinn að leira dúfurnar blés hann á þær og þá lifnuðu þær við og flugu burt.
Sennilega getur þessi gamla sögn verið jafnsönn og hvað annað sem sagt er um sköpunina . Ég held að leir geti verið Honum jafneðlilegt byggingarefni og allt annað sem eðlisfræðin getur sýnt okkur fram á að virki. Fyrir utan allt hitt sem við höfum ekki fundið enn.

Vísindin eru alltaf að teygja sig lengra og lengra í viðleitni sinni til að seðja eðlislæga forvitni mannsins. Eðlisfræðingar fá sífellt meiri og meiri skilning á efnisheiminum. Mengi mannsins er kortlagt. Erfðafræðin er komin svo langt að maður fær hálfgerðan hroll. Klónun er staðreynd. Að endurvekja útdauðar dýrategundir er handan hornsins eða um leið og heilir litningar eða nógu margir bútar úr þeim finnast svo hægt verði að raða þeim saman í eina heild. Þá getum við farið að lífga við t.d. loðfíl, sverðtenntan tígur eða önnur forsöguleg dýr.

Er maðurinn að teygja sig inná verksvið Guðs eins og heyrist víða frá kristnum mönnum?
Ég er ekki viss um það. Hvað þýðir það að Guð skapaði manninn í sinni mynd? Kannski er það ástæðan fyrir því að maðurinn er fær um að nota byggingarefni Guðs, eðlisfræðina.
Þýðir það að nota þá þekkingu sem Guð hefur gefið okkur, að við séum að seilast inná svið Hans?
Er hægt að gera eitthvað úr engu?
Við verðum þá að vita hvað er ekkert. Við getum t.d búið til ógnarkrafta með því að kljúfa atóm sem virðist hverjum meðalmanni vera ekki neitt.
Við sækjum okkur ýmis konar orku hingað og þangað og virkjum hana í þjónustu okkar. Skilningur okkar eykst stöðuglega.

Þegar afi minn virkjaði bæjarlækinn forðum, urðu bændur sem áttu land neðar við lækinn mjög óhressir út í hann. Þeir vildu líka virkja, sem þeir náttúrulega töldu ekki hægt þar sem afi var búinn með allt rafmagn úr læknum.
Ætli fávísin sé ekki einmitt það sem setur okkur á þann stað að finnast við vera komin á stað sem Guð á einkarétt á.
Allavega virðist allt þetta byggingarefni vera til staðar. Annars værum við sannarlega ekki að gera þessa hluti. Allt þetta sem var okkur ósýnilegt, var þarna samt. Og margt sem við sjáum ekki í dag, er þarna samt. Þegar maðurinn skapar er hann bara að vinna með byggingarefni sem Guð hefur sett í kringum okkur, það sama og hann notar sjálfur. Að vísu hlýtur höfundur alls að vita langtum meira en við og notar án nokkurs vafa allskyns lögmál eðlisfræðinnar sem við höfum ekki komið auga á enn, þó þau séu þarna.

Ef miklihvellur er málið, afhverju þarf það þá að stangast á við trú manna á Guði?
Miklihvellur styðst við þá hugmynd að allt efni hafi orðið til úr engu. Gríðarleg sprenging og allur massi himingeimsins varð til.
Miklihvellur ætti frekar að ýta undir trúarvitund manna, því hver annar en Guð getur smellt fingri og, bang, allt varð til....?

Spáðu í það....!

sunnudagur, febrúar 05, 2006

List og lyst

Það er fátt sem jafnast á við góðra vina fund, kannski helst góðra vina fundur kryddaður matargerðarlist eins og hún gerist best.
Við hjónin eyddum föstudagskvöldinu við slíka iðju. Vinirnir voru Baddi og Kiddý og Heiðar og Sigrún.

Við vorum á heimili Badda og Kiddýar. Kiddý er kokkur, ekki af verri gerðinni, hún eldaði saltfisk af einstakri list að portúgölskum hætti. Hann bar hún fram eftir að hafa boðið uppá forrétt sem samanstóð af spænskri riccoli skinku, salati og sérstakri hindberja sósu sem ég kann ekki nánari skil á. Saltfiskurinn var afar góður, með miklu hvítlauksbragði, bakaður í ofni með gullinbrúnni húð ofan á. Ólíkur flestu sem ég hef smakkað.
Það var verulega skemmtilegt að bragða svona öðru vísi eldaðan saltfisk sem venjulega er soðning hjá flestum Íslendingum. Ég verð að viðurkenna að saltfiskurinn kom mér skemmtilega á óvart og um mig fór léttur sæluhrollur þegar ég naut þessa góða matar. Það skemmdi ekki að fallega var lagt á borð.

Í eftirrétt var svo sherrytriffle að hætti minnar góðu konu. Henni brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn, rétturinn bragðaðist afbragðsvel.
Kvöldið leið hratt eins og flestar góðar stundir og klukkan farin að halla í þrjú þegar við loksins héldum heimleiðis. Það er auðvelt að gleyma sér við skemmtilegt spjall.

Þetta kvöld varð svo kveikja að framhaldi..... Þetta verður endurtekið, næst hjá okkur. Það kallar bara á eitt. Maður verður að fara að læra að elda, svo mikið er víst.

Annars var ég að vinna um helgina, í tvennum skilningi. Við smíðar, þar sem ég var að setja anddyri á hús í Kópavogi og við ritgerðarsmíð. En BA ritgerðin verður víst ekki til nema með mikilli vinnu....... segja þeir!

Erling gourmet kall

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Konur......!

Heilladísin sagði við gift par: Þar sem þið hafi verið hamingjusamlega gift í 35 ár ætla ég að veita ykkur hvoru eina ósk. Eiginkonan sagði: Ég vil fara í heimsreisu ásamt mínum ástkæra eiginmanni. Heilladísin veifaði sprotanum sínum og AKABRADABRA það birtust tveir farseðlar með það sama. Nú var komið að manninum og hann hugsaði sig um í smá tíma og sagði svo, tja þetta er nú rómantísk stund en svona tækifæri gefst bara einu sinni á ævinni,............. því miður mín kæra, mín ósk er að eiga konu sem er 30 árum yngri en ég. Konan varð að vonum skúffuð en ósk er ósk. Heilladísin veifaði töfrasprotanum ............. AKABRADABRA og maðurinn...... varð 90 ára með það sama.
Karlmenn eru kannski svolítil svín, en heilladísir.........eru konur,
og konur standa saman.