mánudagur, nóvember 20, 2006

Það þarf nú svolítið...

....til að feykja 90 kílóum með blæstrinum einum saman. Kára tókst það næstum. Ég fór í sveitina í gær vegna hvassviðris sem ég átti von á. Átti eftir að setja nokkrar vindstífingar á kofann okkar. Það var ekki ofsögum sagt. Vindurinn var með ólíkindum. Beint að austan og skall á hliðinni á kofanum. Lætin voru svo mikil að asfaltið byrjaði að rifna af þakinu. Auðvitað fór ég upp til að laga þetta og stoppa fokið. Þá kom í ljós hverslags kraftur var að verki. Ég gat með herkjum hangið uppi liggjandi, en var samt við það að fjúka eins og tuska.
Ótrúlegt hvað Kári getur ýtt fast ef sá gállinn er á honum. Ég var að vonum feginn að hafa farið austur þar sem ég gat komið í veg fyrir tjón og gengið tryggilegar frá þessu.
Það er samt skondið hvað mér finnst skemmtilegt þegar náttúran byrstir sig, það er eitthvað svo magnað við það.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Kótelettukvöld í Samhjálp

Við hjónin fórum bæjarferð í gærkvöldi. Kótelettukvöld Samhjálpar var tilefnið. Í ljós kom að þetta var hin besta skemmtun og maturinn gamaldags steiktar kótelettur á gamla mátann, veltar upp úr raspi og etnar með soðnum kartöflum og bræddri feiti.
Verður að segjast eins og er að maturinn bragðaðist vel eins og við mátti búast af kótelettum.
Listamenn stigu á stokk. Jón Gnarr velti upp fyndnum hugsunum sínum og tókst að gera fornsögurnar, þegar menn vógu menn og annan að fyndnum uppákomum. Hann líkti húmor við söng. Samlíkingin ágæt en mér finnst húmor samt frekar eins og matur sbr. t.d. fornsögurnar, það er ekki sama hvernig hráefnið er matreitt, útkoman getur verið gjörólík.
Halli nokkur Reynis steig líka á stokk, trúbador sem tók nokkur lög. Fannst hann góður, ekki síst textarnir. Ég held ég kaupi diskinn hans en hann er víst búinn að gefa út geisladisk með lögum eftir sjálfan sig.
Eddi söng svo líka. Hann er orðinn virkilega góður söngvari strákurinn og verð ég að segja að þeir eru ekki margir karlsöngvararnir sem standa honum jafnfætis.. thakk fyrir....!
Fleira var á dagskrá s.s. málverkauppboð og auðvitað ræður.
Við hjónin skemmtum okkur vel. Kvöldið var gott og tókst vel í alla staði.

Takk fyrir okkur.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Fallegur morgunn

Ég sit hér einn á neðri hæðinni með kaffibollann minn og horfi á kalt útsýni yfir ána. Það er frost og logn, afskaplega fallegt og friðsælt en frekar kuldalegt. Drottningin á bænum er ennþá sofandi þótt komið sé langt fram á morgun.
Áin er frekar mikil ennþá eftir rigningar undanfarinna daga. Það er ótrúlegt hvað hún skiptir oft um svip. Það fer eftir veðri fyrst og fremst. Í kulda verður hún sakleysisleg og blá en á það til að ýfa sig og verða skapvond þegar veðrið er blautt og hlýtt enda er hún jökulvatn að helming að minnsta kosti.
Það er gaman að hafa hana svona við túnfótinn og sjá tilbrigði hennar svona mörg og ólík. Eitt sem hefur komið á óvart, hún virðist vera mikil matarkista. Allavega hefur mikil fuglaflóra verið á ánni í allt sumar og langt fram á haust. Sérstaklega hefur verið fallegt að fylgjast með álftunum sem fljúga hér upp og niður eftir ánni. Þær speglast svo fallega þegar þær fljúga bara rétt ofan við vatnsborðið, líkast og þær renni sér eftir vatnsborðinu.
Nokkur gæsapör áttu varp hér í hólmanum framanvið í sumar. Það var gaman að heyra værðarhljóðin í þeim á hreiðrunum, sérstaklega á næturnar því hljóðið berst auðveldlega til okkar yfir vatnsflötinn. Þær hafa sennilega verið í rómantískum hugleiðingum að njóta hinna björtu sumarnótta við þetta mikla vatnsfall.

Eitthvað lífsmark á efri hæðinni heyri ég, mér heyrist drottningin vera að vakna til lífsins. Ég ætla að hella upp á nýtt kaffi fyrir hana. Ég held henni finnist notalegt að finna kaffi ilm þegar hún kemur niður eftir langan svefn.
Arna kemur á eftir með litlu afastelpurnar mínar og verður hér í dag. Alltaf gaman að fá þær í heimsókn. Daníu Rut fer svo mikið fram þessa dagana, hún talar meira og meira og er farin að syngja texta. Dugleg stúlkan sú.

Ég er að gera upp við mig hvort ég á að taka þennan dag allan í svona rólegheit eða hvort ég ætti að skella mér í að skipta um glugga í eldhúsinu. Ég er búinn að smíða nýjan stóran glugga sem bíður þess eins að verða settur á sinn stað. Ég er að þessu vegna útsýnisins frá þessu horni í eldhúsinu sem verður alveg stórkostlegt, en sést ekki nógu vel eins og þetta er núna, í gegnum lítið opnanlegt fag, ofarlega á vegg.
Jæja, læt þetta nægja af þessu morgunhugarflugi þar sem hennar hátign er að koma niður stigann og ég ætla að eiga smá notalegheit með henni og nýja kaffinu.

Njótið dagsins.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Héraðsdómur

Ég var fyrir Héraðsdómi í dag. Var þar hvorttveggja sem aðili máls og sem vitni. Málið snerist um skaðabætur vegna byggingar sem ég skrifaði uppá fyrir vini mína fyrir 6 árum síðan. Aðkoma mín að byggingunni var ekki meiri en að rita nafnið mitt á blað. Eitthvað fór úrskeiðis á sínum tíma hjá þeim sem gerði að verkum að hjónin sem húsið keyptu fengu afslátt upp á nærri 4 milljónir króna. Þannig átti málið að vera uppgert. Þessi hjón eru nú að reyna að sækja meiri skaðabætur eða 1.8 milljónir í viðbót. Gangi það eftir fá þau þetta 250 fm hús á rúmar 10 milljónir. Það er von að þau þurfi að sækja sér bætur þar sem þau fá víst ekki nema 100 milljónir fyrir húsið eins og það er. Þetta er VILLA á einum besta útsýnisstað í Reykjavík. Það var gaman að vinna að þessu máli með lögmanni Tryggingamiðstöðvarinnar en við undirbjuggum þetta mál í sameiningu. Það var svo stórfróðlegt að fylgjast með lögmönnunum takast á í réttarsalnum þó ég hafi reyndar séð þetta áður. Þarna kom vel í ljós hversu menn eru misjafnir í þessu starfi og má furðu sæta að sumir geti haldið úti lögfræðiþjónustu.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu lýkur en ég verð að segja að ef þau tapa ekki þessu máli þá veit ég ekki með íslenska dómskerfið, það á að gæta réttarins í landinu en alls ekki ekki hygla fólki sem hefur svona bilaðan málstað að sækja. Þetta fólk er að mínu áliti illa farið af peningum og frekju.
Það er reyndar mín tilfinning að málið sé unnið, en ... spyrjum að leiks lokum, eins og máltækið segir, það er ekki alltaf gott að vera of sigurviss.
Læt vita þegar niðurstaðan liggur fyrir.
Njótið lífsins vinir.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Apavatn

Ég átti afar góða helgi í faðmi stórfjölskyldunnar, Erlu megin. Við dvöldum á Apavatni í stóru húsi Rafiðnaðarsambandsins. Þótt hann blési væsti ekki um okkur.
Þessi helgi færði mér enn sanninn um að fólkið manns eru þau verðmæti sem skipta máli. Samfélag við þá sem manni þykir vænt um er það sem gefur lífinu gildi umfram annað.
Það er óhætt að segja að þessi helgi hafi verið sálarnærandi, þó líkaminn hafi auðvitað ekki verið skilinn útundan, það var hraustlega tekið til matarins sem endranær enda nánast guðlast að sinna því ekki vel í þessum hópi.

Ég var óhress með sjálfan mig að skilja veiðistöngina eftir heima, þangað til að ég sá að vatnið var nánast ísilagt. Þessi krappa haustlægð sá þó um að brjóta upp ísinn. Verð sennilega að fara að viðurkenna að veiðitíminn er liðinn þetta árið.


Takk vinir fyrir góða og gefandi samveru.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Bush :-)

"Óvinir okkar eru hugvitssamir og úrræðagóðir, og það erum við líka. Þeir hætta aldrei að hugsa um nýjar leiðir til að skaða land okkar og þjóð og það gerum við ekki heldur".
- George W. Bush 5. ágúst 2004