mánudagur, desember 31, 2007

Lokaorð ársins

Góðu ári senn lokið. Við hæfi er að þakka fyrir skemmtilegar stundir, vináttu og gefandi samfélag. Ég þakka Guði fyrir ykkur öll vinir mínir og ættingjar. Árið var gjöfult og gott, ekki síst fyrir andann og sálina. Aðeins áfall bróður míns varpar skugga á það. Reyndar fékk ég hringingu frá honum áðan þar sem hann sagði mér að hann hefði getað hreyft hendina í fyrsta skipti gærkvöldi og aftur í dag. Sú frétt var góð áramótagjöf. Kannski er lífgjöf bróður míns stærsti viðburður ársins í mínum huga, hann hefði getað dáið.
Hetja ársins í mínum huga er faðirinn sem lét lífið í ójöfnum leik við sterkan straum Sogsins þegar hann reyndi að bjarga syni sínum frá drukknun......!

Nýtt ár kemur með nýjar væntingar og fullt af nýjum tækifærum sem við skulum taka við með þökkum, og nýta okkur. Annað er sóun.
Þegar litið er til þess hversu lífið er í raun stutt þarf maður að vanda sig við forgangsröðun. Tímamótin má nota til góðs. Betri rækt í garðinn sinn er gott áramótaheit. Eftir því sem árin tikka sé ég glitta betur og betur í gullið í samferðafólki mínu. Það gull vil ég pússa á nýju ári. Jafnframt skýrist sýnin á þá sem skreyta sig annarra fjöðrum, en þannig er lífið.
Verum góð hvert við annað á nýju ári, fyrirgefum misgjörðir og gleymum þeim.

Gleðileg nýtt ár lesendur mínir, verð að halda áfram með humarinn......

laugardagur, desember 29, 2007

Jólaboð

Hér í Húsinu við ána var haldið jólaboð í gær. Allri fjölskyldunni minni var boðið eins og hún leggur sig, þ.e. systkyni, makar, börn og barnabörn.
Auðvitað voru forföll eins og alltaf í stórum hópi. Við fylltum þó fjóra tugi sem er allgott. Húsið bar fjöldann vel og fannst mér á gestum að þetta félli í góðan jarðveg.
Ég hafði óskaplega gaman að þessu. Enda fátt göfugra til en að rækta ættar- og vinabönd.

Hjalli kom, mér til mikillar ánægju, þótt veðrið væri ekki upp á það besta, ískuldi og vindur. Hann er á hægum batavegi. Hann er í hjólastól en getur staðið upp og gengið við hækju. Hann er baráttumaður og tekur þessu áfalli af æðruleysi. Eitt hænufet á dag eins og hann segir sjálfur.
Það gleður mig að sjá framfarir hjá honum. Ég hef þá trú að hann eigi eftir að verða alveg sjálfbjarga og njóta lífsins, kannski meira en nokkru sinni fyrr.

Það var mér líka sérstakt ánægjuefni að sjá að “krakkarnir” okkar voru svona áhugasöm eins og raun bar vitni. Viðbrögðin voru mest úr þeirra hópi, svo virðist að þau hafi saknað þorrablótanna okkar, en við breyttum þeim fyrir tveimur árum þannig að við systkynin hittumst án barna eins og var í upphafi. Þetta var gert vegna þess að við vorum orðin svo mörg að venjulegt húsnæði var hætt að rúma þennan fjölda.

Kannski kemur þetta í staðinn að einhverju leiti. Ég er að leyfa mér að vona að þetta sé byrjun á einhverju meiru. Ég heyrði því fleygt í boðinu að einhver ættleggur haldi jólaball. Þá er leigður salur og allir mæta á jólaball. Ég er opinn fyrir því. Ég tel það mikið slys ef ættarbönd trosna vegna samvistarleysis. Ber þar hver sína ábyrgð.
Þegar allt kemur til alls er það vinátta og fjölskyldubönd sem skipta máli ef eitthvað bjátar á, þess vegna þarf að leggja rækt við þann garð og hafa hann blómstrandi.

Nota tækifærið hér vinir, og þakka fyrir góða og gefandi samveru.

þriðjudagur, desember 25, 2007

Jóladagur.....

....rann upp drifhvítur og fallegur. Það er hundslappadrífa. Ef ekki væri smá vindur þá væri útsýnið út um gluggann núna eins og á jólakorti þar sem snjókornin svífa lóðrétt niður í fallega skreyttan bæ og loða við allt sem þau lenda á. Trén svigna undan fallegu drifhvítu teppi sem hylur hverja grein og jólaljósin fá á sig ævintýralegri blæ þegar snjókornin dreifa ljósinu og búa til ný ljósbrot svo hvert ljós verður eins og skínandi margra arma stjarna. Það er hátíð í bæ. Friður innan dyra sem utan. Ylur hússins er notalegri en ella þegar snjóar svona úti.
Matarborðið okkar áðan var hlaðið afgöngum frá því í gærkvöldi. Það er einhvernveginn þannig að mér finnst maturinn oft bragðast betur daginn eftir. Að líkindum er ástæðan samt ekki sú að bragðið hafi breyst heldur er magaplássið meira en við jólaborðið á aðfangadagskvöld.

Það var fölskavalaus eftirvænting sem skein úr augum Örnudætra í gærkvöld. Hrifningin sömuleiðis þegar loksins var farið að opna pakkana. Það er erfitt að bíða þegar maður er svona lítill og tilveran hefur ekki mjög víðan sjóndeildarhring.

Morguninn fór í lestur. Ég fékk tvær bækur, Harðskafi” eftir Arnald Indriðason og “Finndu köllun þín með aðstoð munksins sem seldi sportbílinn sinn” Ég byrjaði á henni. Ég hefði sennilega ekki óskað mér hana í jólagjöf ef ég hefði ekki lesið fyrri bókina og verið jafn ánægður með hana og raun ber vitni. Þessar bækur eru stútfullar af lífsspeki sem snýr ekki síst að gildum fjölskyldunnar s.s. forgangsröðun hluta og gildi peninga í lífinu. Fjölskyldan er sett í fyrirrúm, að gefa af sér frekar en að þiggja. Þjáningin er “harla góð” enda einungis skóli lífsins og þroskar okkur og dýpkar, fyrir utan að hún gefur okkur viðmið til að njóta góðu stundanna. Áhætta er nauðsynleg til framfara og þroska enda sennilega algengasta þraut þeirra sem standa á síðustu metrum lífs síns að sjá eftir því að hafa ekki haft kjark til að taka áskoruninni sem í tækifærunum bjuggu á lífsleiðinni.

Núna er öll stórfjölskyldan komin hér í sveitina. Allir sitja í eldhúsinu undir fjörugum umræðum um lífsins gang. Börnin skoppa hér milli stofunnar og eldhússins eins og skopparakringlur. Hér er líf og fjör. Þetta minnir mig óneitanlega á gamla tíma í sveitinni forðum daga þegar ég var að alast upp og allir komu saman, þá var oft gaman og lífið einfalt.
Það eru sönn lífsgæði að fá að horfa á þennan stækkandi hóp koma hér og njóta samvista við okkur. Við Erla njótum þeirra gæða að kunna að njóta þess. “Betra en best” má eiginlega segja.

Eftir smá hlé hér er nú komið að matarborði jóladagsins. Það er að vanda hangikjöt og tilheyrandi. Það er “uppáhalds” hjá öllum.
Ætla nú að fara að njóta samvista við fólkið mitt.
Lífsgæði, lífsgæði, lífsgæði......!

mánudagur, desember 24, 2007

Svo koma jólin....!!

Og ljós á jólatrénu mínu. Var að klára að vefja seríunni um jólatréð, svo taka stelpurnar við. Það fer ekki fram hjá neinum að hefðir skipa stóran sess hér á þessum bæ. Jólatréð er aldrei skreytt fyrr en á þorláksmessukvöld. Annað nálgast helgispjöll. Það er margt sem ég hef erft úr föður(móður)húsum sem skreytir jólahaldið okkar. Maturinn átti sér sterkari hefð hjá mér, eða ég sé frekari......sem er tæplega hægt? Við höfum haldið okkur við sama mat og viðhafður var í mínu uppeldi. Sérstaklega á hrísgrjónabúðingurinn fastan sess hjá okkur en hann er engu líkur, líkist svolítið Risalamande en samt allt öðruvísi, miklu betri. Eins er með Erlu, hún hefur innleitt siði sem hún ólst upp við. Þannig hefur orðið til jólahald sem er samsett úr báðum ættum. Þetta sjáum við svo endurtaka sig í stelpunum okkar. Þær eignast maka og þannig blandast nýjar hefðir við okkar. Þetta er það sem gefur jólum hvers heimilis sérstöðu. Þeirra börn (barnabörnin okkar) munu svo ríghalda í hefðir síns uppeldis í bland við sína maka þegar þar að kemur.

Mest virði er þó að viðhalda helgi jólanna og passa að hún gleymist ekki í hraða og kapphlaupi nútímans. Gamla sagan um frelsara fæddan þarf að hafa heiðursess í jólahaldinu. Lestur jólaguðsspjallsins áður en sest er niður í pakkaupprif er góður siður sem setur fókusinn á hversvegna þetta uppistand er yfir höfuð. Það hljóta að vera skrítin jól þar sem jólabarnsins er hvergi minnst. Jólasveinarnir sem eru skemmtilegar fígúrur bera ekki með sér neina helgi eða hátíðleik. Þeir eru jólaskraut sem lífgar uppá, en þar með er það upptalið.
Jesúbarnið í jötu gefur fyrirheit um frið og fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Því yður er í dag frelsari fæddur, sögðu englarnir.
Á þessum grunni höldum við jól. Minningarhátíð um fæddan frelsara sem dó síðan krossfestur með ákveðið risastórt markmið, að brúa bilið milli Guðs og manns.

Heims um ból...... gleðileg jól.

laugardagur, desember 22, 2007

Ógnarkraftar

Nú er hún vinkona mín í essinu sínu. Bál- öskrandi reið og illvíg. Það er magnað að ganga meðfram bökkum Ölfusár þegar hún er í svona ham. Ógnarkrafturinn sem hún býr yfir er ekki bara sýnilegur heldur finnur maður einhvernveginn fyrir honum líka. Henni ber full virðing....!
Ég gekk meðfram henni áðan og tók myndir af ógnartilburðunum í henni. Það má með sanni segja að maður verður lítill við hliðina á henni. Nokkrar myndir komnar inná myndasíðuna hér til vinstri.

Annars er það helst að við höfum notið aðventunnar til ýtrasta. Við fórum til “Hafnar” eins og ein gömul kona orðaði það í flugvélinni. Kaupmannahafnar svo það skiljist nútímafólki. Þar áttum við góðan tíma. Það er lífsnautn að dvelja þar þegar maður hefur lært aðeins á hana. Allskyns gæði sem hún hefur uppá að bjóða. Við fórum á þrjá góða matsölustaði, Reef´n beef, ástralskur staður sem framreiðir villibráð, krókódíla og annað frumlegt. Det gamle apotek þar sem Jónas Hallgrímsson sat löngum og drakk, allar innréttingar eru original svo við horfðum á sömu myndir á veggjum og Jónas forðum, sömu dyrakarma og hurðir. Svo fórum við á Peder oxe sem er flottur staður í miðborginni, líkastur gömlu klaustri með flottum vínkjallara. Staðirnir áttu eitt sameiginlegt, snilldartakta í matreiðslu, það átti vel við okkur matargötin.

Við höfum líka notið aðventunnar hér heima. Tvennir tónleikar eru að baki. Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, bara eitt um þá að segja, klassaflottir.
Svo fórum við á Frostrósartónleikana í Laugardalshöll. Þar er tjaldað því flottasta sem til er. Glæsilegir tónleikar í alla staði og frábærir listamenn.
Hér heima njótum við svo samverunnar hvert við annað og höfum á borðum allskyns góðgæti sem við höfum hefðað aðventunni. Reyktur silungur sumarsins, lifrarkæfur frá Danmörku, síld og ostar og brauð. Við tókum fyrir allnokkrum árum þá frómu ákvörðun að breyta til. Smákökurnar og nammið hurfu og í staðinn kom þessi siður, brauðmeti og allskyns meðlæti eins og ég nefndi.
Svo vorum við að koma úr Rauða húsinu á Eyrarbakka áðan. Þar fengum við okkur fiskisúpuna þeirra, sem er snilldartilbrigði við sjávarfang. Troðfull af allskyns “fjörufæði” eins og einhver kallaði það.

Pólverjarnir eru farnir heim, allir nema einn. Það er því frekar rólegt í herbúðum Lexors og má segja að ég sé kominn í jólafrí. Það er kærkomið enda hefur verið mikið að gera undanfarið.
Ég vona að þið séuð að njóta þessa tíma eins og við. Ef ekki ætla ég að benda ykkur á að þetta er hluti þess að rækta garðinn sinn og þar er enginn garðyrkjumaður nema maður sjálfur. Þetta er semsagt....val.
Passið ykkur svo á jólastressinu.....

föstudagur, desember 14, 2007

Óveður

Í morgun bar svo við að ég ákvað að fresta bæjarför og fylgjast með framvindu veðursins sem nú geysar. Ég lét mennina mína líka vera heima í morgun, enda ekkert vinnuveður í höfuðborginni heldur, af fréttum að dæma.
Kári virðist í essinu sínu þessa dagana. Hver óveðurslægðin á fætur annarri og hver annarri dýpri. Rigningin lemst hér á gluggann hjá mér og vindurinn lemur húsið utan með vaxandi heljarafli. Ótrúlegt hvað loft getur innihaldið mikla orku. Erla og Hrund nýttu tækifærið og skriðu aftur undir sæng, fegnar að vera ekki að fara út í þetta veður.
Ég hinsvegar, morgunhaninn, var ekki á því að fara að sofa, enda kominn dagur.
Eins og lesendum síðunnar minnar er kunnugt hef ég gaman að hverskyns öfgum í náttúrunni. Fárviðri vekur hjá mér áhuga og jafnvel spenning, fyrir utan hvað það er notalegt að vera heima hjá sér þegar svona veður geysa. Margir sam kannast við það geri ég ráð fyrir.

Kannski væri ráð að nota dagpartinn og skella sér í að hengja upp seríur utan á húsið..... það verkefni er búið að bíða eftir mér í nokkra daga.....!!!!! Myndi örugglega gera það ef veðrið væri skárra.
Ég (ef ekki ég, þá Erla) finn mér allavega eitthvað að gera, svo mikið er víst. Hún er alltaf til í að ég haldi áfram með lagfæringar á húsinu, eða dundi við eitthvað annað.
Svo liggur fyrir að taka þvottahúsið í gegn. Það hefur verið hálfgert trésmíðaverkstæði og lager hjá mér undanfarin misseri, enda ekki hægt um vik þar sem bílskúrinn vantar ennþá. Er líka að gæla við að fara út á eftir, þegar birtir, og taka óveðursmyndir. Ef vel tekst til, set ég myndir af því á ljósmyndasíðuna mína.

Ég ætla samt ekkert að vera að stressa mig í eitthvert at, allavega meðan þær sofa hér uppi á efri hæðinni. Ég verð samt að segja að mér finnst hugsunin um þær sofandi uppi í öryggi heimilisins, afar góð og færir mér sjálfum stóíska ró og vellíðan.... Hellisbúinn í anddyrinu með konu og börn innst í öryggi hellisins.... skáldlegur, með kaffibolla :-)

Njótið aðventunnar vinir.... og veðursins.

fimmtudagur, desember 06, 2007

Köben

Þá er komið að okkar árlegu ferð til fyrrum höfuðstaðarins okkar. Við höfum farið til nokkurra ára í desember til Kaupmannahafnar í jólastemninguna sem þar er. Jólatívolíið er að verða hluti af jólaundirbúningnum hjá okkur. Það er mikil stemning að dvelja í borginni þegar jólin nálgast. Þar eru listamenn á hverju götuhorni annað hvort að spila, syngja, selja myndirnar sínar eða framkvæma einhverja gjörninga, bara gaman. Svo er alltaf gott að setjast niður á einhverjum veitingastaðnum, slappa af og fylgjast með mannlífinu og snæða góðan mat.

Við komum heim á mánudagskvöldið svo þetta er svona löng helgi. Má vel vera að við hendum einni færslu inn á síðurnar okkar ef tækifæri gefst, rétt til að láta vita hvað það verður gaman hjá okkur.
Hafið það gott á meðan.

laugardagur, desember 01, 2007

LEXOR....

....á eins árs starfsafmæli í dag 1. desember. Það er ekki lengur reyfabarn heldur tekið að braggast og farið að labba meðfram ef svo má að orði komast. Í byrjun voru tveir starfsmenn auk mín en nú eru þeir átta auk mín og Erlu sem annast bókhald og laun. Verkefnin vantar ekki. Þau virðast koma á færibandi. Ég verð að segja að allt hefur gengið eftir sem lagt var upp með. Við höfum aldrei þurft að auglýsa, þó í byrjun hafi staðið á endum að annað verkefni tæki við af öðru. Það gekk þó alltaf eftir og nú bíða að jafnaði nokkur verkefni.

Það verður þó að segjast að byggingadeildin hefur verið annasamari en lögfræðin. Það var eitthvað sem ég vissi fyrirfram. Lögfræðin er þess eðlis að markaðssetningin vinnst hægt og rólega í réttu hlutfalli við gæði verkanna sem maður skilar af sér. Ég kvarta ekki. Eftir því sem málunum fjölgar virðast fleiri og fleiri setja sig í samband vegna ýmissa vandamála, aðallega byggingamála. Þetta er líka í samræmi við það sem lagt var upp með svo ég er hæstánægður með framvinduna þeim megin.

Í tilefni dagsins ætlum við starfsmennirnir að gera okkur glaðan dag með því að gera jólahlaðborði Hótels Loftleiða skil.
Ég lít til næsta starfsárs væntandi.

Njótið helgarinnar......

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Myndir

Opnaði myndasíðu fyrir þá sem vilja skoða "englamyndir" við hliðina á öðrum óandlegri. Ég vona að fólk átti sig á samhenginu.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Ég hef...

...í sjálfu sér ekki miklu við síðustu færslu að bæta og kannski ekki heldur sérstaka þörf að sannfæra þá sem ekki taka við því sem ég lagði á borð, og þó. Það ýtir við mér að uppgötva hversu fast ranghugmynd getur skorðað sig.

Ég get bætt við til frekari skýringar að þetta er í raun sama sem gerist og þegar maður andar frá sér í köldu veðri, það myndast gufa, loftið þéttist. Andardrátturinn verður hinsvegar ekki að gufu í heitu veðri. Eini munurinn er hitastigið úti, líkamshitinn er sá sami.
Þetta er lang líklegasta skýringin hvers vegna þessar ljóskúlur sjást ekki á myndum frá kotmótum, sjaldan frost. Ef farið er í gripahús, hesthús eða fjós í köldu veðri er loft mjög rakamettað. Þessar ljóskúlur sjást einmitt á myndum teknum við þannig aðstæður, hef aðgang að slíkum. Ég hef í fórum mínum myndir teknar við Bæjarins bestu í súld, þar eru kúlurnar. Erla tók myndir í Boston í mjög röku lofti, þar eru samskonar kúlur. Síðan á ég myndir teknar eftir úðabrúsann minn eins og ég sagði frá í pistlinum. Þar eru kúlurnar í tonnavís, nákvæmlega samskonar og englamyndirnar. Kannski á ég engla á úðabrúsum......Því má líka bæta við að ryk í lofti getur framkallað samskonar myndir, eitt rykkorn = einn “engill”
Eins og sést á myndunum af mótinu falla kúlurnar hvergi bakvið hluti, þær eru alltaf í forgrunni sem helgast af því að þetta eru svífandi agnir sem lýsast upp af flassinu mjög nálægt linsunni sem skýrir líka hversvegna engar myndanna eru eins.

Einhversstaðar segir máltækið að hver sé sæll í sinni trú. Þannig verður það að vera, ég verð ekki gerður ábyrgur fyrir því.

Ég hinsvegar er ekki blindur á eitt. Ef Guð er að senda einhverja bylgju yfir Ísland þá er hæpið að Hann sé að gera það að gamni sínu. Ef Hann er að framkvæma tákn og undur til að staðfesta sjálfan sig þá er hann líklega að gróðursetja tré sem hann ætlar að bera ávöxt.
Þó það séu að koma jól held ég að þetta sé ekki jólatré sem við eigum að skreyta. Ég tel að engu manngerðu eigi að bæta við. Held það skemmi fyrir raunverulegum ávöxtum sem því er ætlað að bera.

Ef staðfest óútskýranleg tákn taka að gerast, þá er það fréttnæmt. Ég bið bara um að þessi englahugmynd komist ekki í fréttir því hún getur kollvarpað trúverðugleika raunverulegri hluta sem verða þá ekki teknir gildir....... Ég er að blikka rauðu ljósi.

Er að velta fyrir mér hvort ég ætti að opna myndasíðu sérstaklega með þessum myndum svo hver geti dæmt fyrir sig....?

laugardagur, nóvember 24, 2007

"Hafa skal það...

...er sannara reynist". Ég hef áður tjáð mig um "sóking" hér á síðunni við mismikla hrifningu þeirra sem rata hér inn. Ég get ekki sagt að skoðun mín síðan þá hafi tekið stórstígum breytingum, og þó. Ég er enn á þeirri skoðun að auðveldlega megi finna ýmislegt til foráttu í þessu, sérstaklega látbragð og leikaraskap. En ég er heldur ekki svo steinrunninn að ég geti ekki séð góða hluti í þessu líka. Þar liggur kannski mergurinn málsins, stendur ekki: “Prófið allt, haldið því sem gott er....”

Tómas (ég) hinn gagnrýni vildi ekki alveg trúa englamyndum sem mér voru sýndar. Myndir sem sýndu misstórar ljósverur svífa um loftið, teknar á móti kenndu við “sóking”. Myndir þessar hafa vakið talsverða athygli og m.a. um þær fjallað á Lindinni. Þær þykja strika undir tilvist Guðs umfram margt annað sem fram hefur komið.

Skoðandi þessar myndir, vitandi að ég er ekki sérfræðingur í ljósmyndun eða ljósfræðum almennt, sendi ég nokkur eintök til aðila sem hefur ljósmyndað lungann úr ævi sinni og er þar að auki meðlimur í Ljóstæknifélagi Íslands. Eftir vangaveltur með honum um rakaþéttingar og ljósbrot nálægt linsu myndavéla, gerði ég tilraun.
Ég tók úðabrúsa og úðaði út í loftið og smellti mynd og.......... úúúps myndavélin fangaði aragrúa engla

Eftir nokkrar tilraunir og skoðun mynda teknum í þokulofti utandyra kom í ljós hvers kyns þetta er.
Með öðrum orðum þá upplýsist hér með að “englarnir” á myndunum eru agnarsmáir vatnsdropar sem verða gjarnan til þegar margir koma saman, uppgufun verður af fólki, kalt er úti en heitt innandyra þá kemst rakastig upp að daggarmörkum. Samspil hitastigs rakamettunar og ljóss er öðru fremur ástæða ljósdeplanna á myndunum. Þegar ljósmynd er tekin í þannig aðstæðum lýsast upp droparnir næst linsunni og fram koma ljósdeplar. Stærð þeirra ræðst svo af fjarlægð dropanna frá linsunni. Með frjóu ímyndunarafli og kannski svolítilli einfeldni má alveg sjá út englamyndir... ef vill.
Vitnisburðir um Guð og hans verk, skreyttir með svona hugarburði, snúast frekar í andhverfu sína þegar í ljós kemur fáfræðin á bak við, annað sem sagt er og á sér kannski raunverulegri stoð verður ótrúverðugra fyrir vikið.

Einhverjum kann að þykja þessi pistill kámaður fingraförum trúleysis, svo er þó ekki, hvatningin að þessum skrifum eru upphafsorð þessarar greinar.

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Hér nötrar...

...jörð með miklum drunum og látum. Mikið getur maðurinn orðið agnarsmár þegar náttúruöflin hreyfa sig aðeins. Þetta eru ekki stórir skjálftar á Richter mælikvarða en þegar maður stendur beint ofan á þeim og þeir eru ekki á miklu dýpi verða þeir ekkert litlir eins og fréttir bera með sér. Eins og sést á myndinni eru upptök þeirra beint hér undir Selfossi. Húsið hristist eins og það sé barið utan með tröllslegum tilburðum. Drunurnar eru eins og verið sé að sprengja dýnamít hér í garðinum hjá okkur.
Þetta á við minn mann. Ég er þeirrar undarlegu náttúru að vera algerlega heillaður af náttúruöflunum, sérstaklega þegar þau byrsta sig svona. Hvort heldur er jarðskjálftar, eldgos, flóð eða annað. Ég man eftir mér hangandi tímunum saman út í glugga þegar Surtsey gaus forðum daga en það blasti við úr herbergisglugganum mínum í sveitinni. Eins var þegar gaus í Heimaey, það var ævintýri að sjá. Heklugosin öll.... Allt afskaplega spennandi.
Hrund leist ekkert á blikuna fyrst en svo held ég að henni hafi fundist þetta orðið spennandi, kannski smitast af föður sínum.
Mér sýnist þetta samt vera að ganga yfir, það eru komnir yfir þrjátíu skjálftar síðan við komum heim með tilheyrandi gauragangi. Allavega er búinn að vera lítill hristingur núna meðan ég skrifa þennan pistil, aðeins smá drunur og dynkir,

Annars er létt á mér brúnin, Erlan er að koma heim í fyrramálið. Ég hef gengið haltur þessa dagana, vitanlega, þar sem betri helminginn hefur vantað á mig. Það verður gott að heimta hana aftur. Það á illa við mig að vera án hennar, held jafnvel að hún hafi saknað mín líka......
Hrundin mín hefur séð um uppvöskunarvélina fyrir mig og búðin hefur aðeins verið heimsótt einu sinni, en Menam og fleiri veitingastaðir notið góðs af fjarveru hennar.

Með hristingskveðju E

sunnudagur, nóvember 18, 2007

“Kveður kuldaljóð, Kári í jötunmóð...”

Hugsaði um þennan kvæðisstúf í gær gangandi um Tindfjallasvæðið í öskrandi norðanroki, "...næðir kuldaél yfir móa og mel, myrkt sem hel". Gekk til rjúpna í gær ásamt Hlyn. Við tókum stefnu til fjalla í góðu veðri. Ísland er land öfganna, ekki bara í mannfólkinu heldur veðrinu líka. Þegar leið á daginn fór að hvessa..... og hvessa meira....og meira. Það endaði með að varla var stætt fyrir fullorðna karlmenn. Vindurinn kom æðandi ískaldur ofan af jökli með snjófjúki og þvílíkum gassagangi að við munum varla dæmi um annað eins og gerði sitt ítrasta til að henda okkur um koll í bröttum hlíðum Tindfjalla.
Þarna voru mjög rjúpnaleg svæði að okkar mati. Rjúpurnar virtust samt ekki vera á sama máli því ekki voru þær mikið að flækjast fyrir löppunum á okkur. Það var ekki fyrr en á niðurleið í veðurofsanum sem við veiddum nokkrar rjúpur, fimm á mann.
Eins og flestum lesendum mínum er kunnugt er ég matmaður og sælkeri svo ég hlakka til að matreiða þær. En rjúpan er mikill sælkeramatur eins og flest villibráð.

Ég gleymdi myndavélinni góðu heima, kannski eins gott, slík gæðavél fer kannski ekki vel á því að velkjast með í svaðilför eins og þessari. Ég tók hinsvegar myndir á símann minn en hann er með fimm milljón pixla gæði sem er ekki svo slæmt í síma.




Myndirnar eru kaldar eins og von er. Ég setti tvær inn á myndasíðuna mína, og svo þessi sýnishorn hér á síðuna að gamni, þó ekki sömu og á myndasíðunni.






"Einbúinn" í húsinu við ána... kveður að sinni.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Grasekkill.....

Veit ekki almennilega hvernig ég á að haga mér svona frúarlaus. Hún er farin frá mér, sem betur fer ekki nema í fimm daga. Ég var nú búinn að nefna við hana að elda fyrir hvern dag og merkja það vel svo ég gæti tekið það úr kistunni hvern morgun og sett það í örbylgjuna þegar ég kæmi heim. Ég sá ekkert slíkt í kistunni áðan....
Maður verður þá bara í megrun þessa daga, ég má svo sem við því.

Þær fóru saman saumaklúbburinn hennar en þær eru búnar að stefna að þessari ferð í nokkur ár held ég. Vonandi skemmta þær sér vel, þó auðvitað verði ekki eins gaman hjá þeim og hefði orðið ef við karlarnir hefðum verið með......klárt mál ???? eða hvað.
Ég hef raunar einhverja óljósa hugmynd um að þeim þyki jafnvel gott að hafa okkur heima í þetta sinnið, þetta á víst að vera jólagjafainnkaupaferð ásamt einhverju pínu- agnarlitlu öðru. Þekkjandi mína frú, veit ég að henni finnst betra að versla án mín..... þó ekki skilji það nokkur annar en hún, geri ég ráð fyrir.

Da da ra....Ég veit ekki alveg..... hvernig maður aktar. Það þarf víst að fara í búð, ég er nú ekki vanur því, en einhverju verður maður að næra sig á svo mikið er víst. Ég verð orðinn of hungraður ef ég bíð eftir henni, föstudagur á morgun svo laugardagur,sunnudagur, mánu og þriðju, alveg klárt mál, ég verð að styrkja kaupmanninn. Skil ekki þessa útlandasýki kvenna.
Svo er þessi uppvöskunarvél hennar. Hún hefur aldrei kennt mér á hana svo það verður orðinn stór haugurinn....! Ég segi nú bara, sér eru nú hver þægindin.
Þvottavélin, hún er þarna inni í þvottahúsi. Ég hef einu sinni á ævinni sett í þvottavél, fyrir mörgum árum, setti mýkingarefni í staðinn fyrir þvottarefni...... Eins gott að maður sæki þurrkarann í viðgerð á morgun því það er augljóst mál að það er ekki hægt að þvo þvott nema hann þorni í kjölfarið, annars myglar hann. Þó ég sæki þurrkarann á morgun stend ég samt frammi fyrir vanda. Hún hefur aldrei kennt mér á hann. Já satt, ég kann ekki á hann.
Það er hætt við að það verði líka komið þvottafjall þegar hún kemur heim. Ekki að það sé eitthvað vandamál, hún verður fljót að redda því.....

En eitt kann ég vel, að ryksuga. Ætli ég ryksugi ekki bara á hverjum degi svo ég geti sagt með góðri samvisku að ég hafi verið aktífur við heimilisstörfin meðan hún var úti.
Nokkrar nýjar myndir.......

Annars bara HJÁÁÁLP

laugardagur, nóvember 10, 2007

Laugardagur, eins og þeir gerast bestir

Veðrið er fallegt, austurhimininn glitrar af morgunlitum glitskýjum sem framkalla gullinbleika birtu sem ekki sést oft. Hekla er umvafin skýjahulu eins og eldfjalla er siður en er samt eitthvað svo tignarleg, því ég veit af henni þarna. Áin liðast í rólegheitum hér framhjá húsinu við ána og speglar þessa fallegu morgungeisla. Það er ekkert sem ýfir skap hennar núna, bara sumarleg, svo róleg að það er næstum því hægt að fara niður að henni og klappa henni.

Það er víst komið að því að maður verður að hætta að berja hausnum við steininn og viðurkenna að það er farið að hausta, kannski jafnvel fyrir einhverju síðan. Laufin eru fallin og íslenska flóran lögst í vetrarsvefn. Alltaf er samt nóg til að hafa væntingar til, það styttist í að dagana lengi aftur, jólin eru handan hornsins með litadýrð og gleði, áramót og snjór sem lýsir upp skammdegið.

Frúin á bænum er frammi í eldhúsi að hafa til morgunverð. Hún skrapp í bakaríið. Sennilega vegna þess að húsbóndinn sem séð hefur um þann þátt í gegnum árin hefur ekki sinnt því starfi sínu sem skildi undanfarið. Ég neita því ekki að það er notalegt að heyra stússið frammi og finna lyktina af nýbökuðu bakkelsi. Eru þetta ekki lífsgæði?
Hún ætlaði að skreppa í einhverja búð í leiðinni en sú var ekki opin, opnar ekki fyrr en klukkan ellefu....ekkert stress í sveitinni, svo hún ætlar bara að skjótast aftur á eftir, enda ekki nema fimm mínútna skrepp.

Við erum gjarnan spurð hvort okkur líki jafn vel að búa hérna í húsinu við ána eins og til að byrja með. Svarið er nei......
Við erum miklu nær því að líka betur og betur við staðinn eftir því sem tíminn líður. Andrúmið hér einkennist af friðsemd og stressleysi og umhverfið fallegt svo af ber.

Að keyra til höfuðborgarinnar hefur reynst lítið mál. Umferðin rennur á níutíu kílómetra hraða alla leið, enginn að taka framúr öðrum á þessum tíma og lítið fyrir akstrinum haft. Þetta er því góður tími til íhugunar, fara yfir daginn og taka ákvarðanir. Ég held jafnvel að ég myndi sakna þessa rólegheitatíma ef það breyttist. Við förum oftast á einum bíl á milli og ekki leiðist okkur samfélagið við hvort annað og Hrund sem oftast kemur með, svo þetta er gæðatími.
Ég er að fara að lita.... já tvisvar verður gamall maður barn. Ég hef litað hár konunnar minnar í mörg ár. Þetta var gert í sparnaðarskyni á sínum tíma og reyndar enn. Það er óforbetranlega dýrt að kaupa slíka þjónustu á stofu. Liturinn kostar fimm hundruð krónur skammturinn (keyptur í útlöndum) svo munurinn er ca. 9.500 í hvert skipti, ca mánaðarlega. Já molarnir eru líka brauð, en það má eiginlega frekar segja að þetta sé brauðhleyfur en moli.....

Við ætlum að bregða undir okkur betri fætinum síðar í dag og skreppa til Reykjavíkur í fertugsafmæli. Teddi mágur minn fyllir fjórða tuginn í desember nk en heldur uppá það í dag. Til hamingju með það Teddi minn. Teddi er tryggingaráðgjafi af lífi og sál. Mikill sölumaður í sér sem gerir að verkum að hann getur verið svo sannfærandi að honum tekst jafnvel að selja sjálfum sér hugmyndir sem honum annars dytti ekki í hug að kaupa....! Honum gengur vel í þessu starfi sínu og væri fengur fyrir hvern þann sem þarf að koma vöru sinni á framfæri að njóta krafta hans við það.

Núna er Erlan sest ínn í stofu með kaffibolla, ég er búinn að lita en liturinn þarf að verka í ca hálftíma. Hún togar í mig fastar en tölvan svo ég læt staðar numið hér og bið ykkur vel að lifa og njóta.

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Innistæðuleysi

Ábyrgð fylgir orðum. Það er heilladrýgra að segja minna og geta staðið við það sem sagt er. Slúður er einn svartra bletta mannkyns. Slúður þrífst auðvitað ekki nema með aðstoð slúðurberans. Slúðurberi og rógberi eru síams, þeir vinna eins. Smásálarlegar kenndir fara af stað í huga þeirra þegar eitthvað ber á góma sem hægt er að kjamsa á og helst bæta við. Aukaatriðið sannleikur er aldrei atriði í huga þeirra. Smásálarkenndir þeirra þurfa fullnægju sem felst í því að velta sér upp úr slúðri eins og svín í for, og bera það svo áfram til næsta viðtakanda sem finnst, að viðbættu kryddi, allavega á aðra hliðina.

Einhverra hluta vegna detta sumir ofan í þessa lítilmennskuvilpu og veltast þar sem eftir er.
“Líf og dauði er á tungunnar valdi” segir í helgri bók og einnig “af orðum þínum muntu dæmdur verða”. Þess vegna er hollt að skoða sjálfan sig í spegli eigin samvisku áður en dæmandi orð falla um náungann, rétt eða röng. Allavega má ljóst vera að þú verður ekki dæmdur fyrir það sem aðrir gera eða segja hvorki við gullna hliðið eða fyrir jarðneskari dómstólum.

Kjarninn er, eigðu innistæðu fyrir því sem þú segir, eins og máltækið segir: “Hafðu orðin þín sæt, það gæti verið að þú þyrftir að éta þau sjálfur á morgun”.

Btw.... nokkrar nýjar myndir á myndasíðunni.

sunnudagur, október 28, 2007

Kom að því...

....að ég setti upp myndalink. Ég er að þreifa mig áfram með þetta. Ég vona að einhverjir hafi ánægju af því að kíkja á myndirnar.

laugardagur, október 27, 2007

Vinaþel

Ég varð árinu eldri í gær. Er þakklátur fyrir það, annars væri ég lík. Í dag komu gestir hingað í húsið við ána þótt að mínu viti hafi ekki átt að vera afmæliskaffi.
Erlan mín er mikið afmælisbarn og finnst afmælisdagar merkilegri en aðrir dagar. Hún sá um að hér væri ekki bara kaffi á könnunni eins og siður er heldur var hin flottasta veisla hér á borðum án þess að ég fengi rönd við reist. Ég er eins lítill afmæliskall og hægt er að vera. Löngu hættur að fylgjast með hvenær árið fullnast og ég tel einum hærra. Þá er gott að eiga förunaut sem tekur af manni ómakið að vera að muna svona alla skapaða hluti.
Vinir og vandamenn heiðruðu mig með nærveru sinni, ég fékk meira að segja tvær ræður, eina vísu ...... og nýjan afmælissöng sem Petra Rut var búin að læra í leikskólanum, allt öðruvísi og miklu flottari.......! Allt góðar gjafir og nærandi nærvera.
Arna og skvísurnar hennar gista hér í nótt. Bara notalegt.
Ég er mikill gæfumaður að lifa við þann kost sem ég bý við. Umvafinn fólki sem ég met og elska hring eftir hring eftir hring.

Það er mikið að gera í vinnubúðum Lexors. Verkefnin hlaðast inn og nú er svo komið að þau bíða í halarófu. Ég hef þann háttinn á að gefa ekki út dagsetningar hvenær byrjað verður á nýju verki heldur segi ég fólki hvar í röðinni það sé. Mér finnst það betri háttur því það kemur í veg fyrir að ég þurfi að svíkja nokkuð ef verk dregst einhverra hluta vegna. Ef einhver vill dagsetningu eftir sem áður þá er það einfaldlega ekki fyrir hendi.....
Ég er með tvo vinnuflokka í gangi í einu og er að sérhæfa hvorn hópinn um sig í ólíkum verkum. Hver veit nema hægt verði að búa til fleiri slíka sérhæfða hópa síðar.
Svo er stækkandi markaður fyrir lögfræðinga sem gera út á gallamál í byggingum, af nógu virðist að taka, m.ö.o. annríki einkennir dagana.

Ég á samt því láni að fagna að vera meðvitaður um að lífið snýst ekki um fyrirtækjarekstur, hvað þá peninga. Hin misjöfnu veðrabrigði lífsins hafa kennt mér þá mikilvægu lexíu að hamingjan verður aldrei keypt fyrir fé. Þegar peningaeign verður meiri en til að uppfylla þarfir, hættir hún að gagnast. Hún verður í raun einskis virði.
“Því hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn.......”
Sálartetrið er ekki bara meira virði, heldur MIKLU meira virði en allir þeir peningar sem nokkru sinni er hægt að ná í.
Lífsgæðin búa nefnilega í sáttri sál......við Guð og menn.

Njótið daganna, þeir eru góðir

mánudagur, október 22, 2007

Góðar fréttir

Sigrún hans Hjalla hringdi áðan þegar við vorum á leiðinni yfir Hellisheiði í þvílíkri úrhellisrigningu og roki að ég man ekki eftir öðru eins.
Tilefnið var gott. HJALLI FÆRÐI VINSTRI FÓTINN FRAM FYRIR ÞANN HÆGRI OG TYLLTI Í HANN.....!
Sigrún var að vonum ánægð og sagði mér að starfsfólkið talaði um kraftaverk............! Ég sagði henni að þetta skrifaðist bara á himnaföðurinn, enda sannfærður um að máttur bænarinnar er að reisa hann á fæturnar aftur. Mér heyrist að Hjalli sé sömu sannfæringar.

Kannski eru þetta betri fréttir en ég þorði að vonast eftir svona snemma, en trúarskammtur minn, sem betur fer, hvorki eykur við eða takmarkar mátt Guðs. Hann vinnur ekki sitt verk eftir duttlungum manna þó margir vilji meina að svo sé.
Sköpunin í öllum sínum mikilfengleika hvort sem þú trúir sköpunarsögu Biblíunnar bókstaflega eða þróunarkenningunni hefði líklega seint orðið sú sem hún er ef hún hefði byggst á trú eða vantrú manna. Enda, hvora kenninguna sem þú aðhyllist þá voru menn ekki til lengst af.

Minni ykkur á orð Hjalla, að þakka......

Ég varð að segja ykkur þetta.

laugardagur, október 20, 2007

Lagið á löppinni

Það má segja að gleði hafi ríkt í systkinahópnum mínum og mökum í gærkvöldi. Við hittumst með Hjalla bróðir í afmælisveislu hans sjálfs á Grensásdeild.
Sigrún bauð til smá kaffis, eitthvað lítið og einfalt, eins og hún nefndi það. Mér varð nú hugsað til hvað hún kallar stórt og flókið. Veislan var í fyrsta lagi flott og í öðru lagi bragðgóð. Sigrún hafði snittur, allskyns brauð og tertur sem bragðaðist allt sérstaklega vel.

Hjalli kunni vel að meta að fá fólkið sitt í heimsókn og má segja að hann hafi leikið á alls oddi. Hann trillaði á milli aðila í hjólastólnum sínum með annarri löppinni og spjallaði við alla. Hann sagði að þetta ástand sitt að þeytast um á annarri löppinni minnti sig svo á lagið
“Ég oftast er kallaður Kiddi á Ósi.......” því hann hafði oft sungið þetta fyrir strákana sína þegar þeir voru litlir og hoppaði þá alltaf á annarri löppinni með laginu. Síðan kalla drengirnir lagið alltaf "lagið á löppinni".
Hann blandar greinilega mikið geði við aðra sjúklinga á deildinni því hann bauð þeim að koma inn og fá sér hressingu eins og hann orðaði það.

Hann kvað sér hljóðs þegar allir voru að tygja sig til brottfarar. Sagðist þurfa að segja okkur sögu. Svo sagði hann frá hvernig hann í gegnum tíðina hefur ekkert viljað með trú eða bænir hafa þótt hann hafi fengið trúarlegt uppeldi, sagði sig hafa verið mikinn járnkall. Hann sagði okkur frá upplifun sinni á sjúkrabeðinu, frá styrk bænarinnar og hvað hann væri raunverulegur. Hann endaði ræðuna sína svona: “Þið verðið að vita þetta, og kenna börnunum ykkar þetta líka, því þetta er ótrúlegt”.
Ég gladdist yfir þessari ræðu. Ekki fyrir orðskrúð heldur fyrir einlægni og innihald sem sagði meira en þúsund predikanir í kippum.

Ég segi það aldrei nógu oft að stóru lífsgæðin okkar eru að njóta augnabliksins í núinu. Gimsteinanna sem liggja á veginum okkar daglega. Sú mynd hefur greipst enn fastar í hug okkar eftir að bróðir minn lenti í áfallinu. Hann er okkur lifandi áminning um að framtíðin er ekki það sem við getum byggt á, því hún er ekki í hendi. Dagurinn í dag er penninn sem skrifar söguna og þar með uppfyllingu draumanna líka.
Það er mikilvægt að setja fókusinn á hluti sem skipta máli. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að raunveruleg auðæfi eru ekki fólgin í peningum, heldur fólki.

Við Erlan erum að fara að tygja okkur austur. Þá meina ég enn austar, alla leið á Föðurland. Kofinn litli kúrir þar á flötinni og bíður eftir okkur, hann gefur fögur fyrirheit um notalega og endurnærandi helgi.

Föðurlandið kallar, verð að fara að koma okkur af stað......

laugardagur, október 13, 2007

Ariadne

Við Erla og Hrund fórum í Íslensku Óperuna í gærkvöldi að sjá og hlusta á Ariadne eftir Richard Strauss. Það vakti sérstaklega áhuga okkar að fara að ung kona Arndís Halla Ásgeirsdóttir söng hlutverk Zerbinettu, annað aðalhlutverkið. Arndís Halla var á tímabili aðili í samfélagshóp hjá okkur. Hún var þá þegar farin að snúa sér að söng en hefur búið í Berlín síðan við nám og söng.
Hún söng hlutverkið sitt af innlifun og öryggi. Hefur ekki bara mikla sönghæfileika heldur afbragðs leikari líka.
Við höfum ekki verið mikið óperufólk en á því kann að verða breyting. Þetta var klassa upplifun og verulega skemmtilegt.

Í dag er hátíð hér í húsinu við ána. Þórey Erla litla vinkona mín Örnudóttir er tveggja ára í dag. Afmælisveislan verður haldin hér að vanda þar sem plássið er meira hér en heima hjá Örnu. Það er gaman að fá þessa gullmola í heimsókn og ekki spillir að afmælisdagur er jú stór dagur hjá börnunum. Hér er því ekki lágdeyða eins og máltækið segir “daufur er barnlaus bær” Þessar litlu hnátur eru miklir yndisaukar og skreyta lífið með nærveru sinni einni saman. Það er mikið ríkidæmi að eiga svona fjársjóð í fólkinu sínu, kannski er samt mesta ríkidæmið að gera sér grein fyrir því.
Ég kannast reyndar ekki við deyfð hér í bænum sbr. máltækið, bara ró og frið sem við kunnum vel við í bland við annað.

Hjalli bróðir minn er kominn á Grensásdeild. Þar fær hann mikla þjálfun og umönnun í háum gæðaklassa. Hann hefur ekki fengið máttinn vinstra megin. Kannski er of mikið að segja engan mátt því hann virðist geta hreyft lítillega fótinn (dregið hann til) og aðeins hendina. Það er ekki mikið, en samt, og á því verður byggt í endurhæfingunni.
Hann þakkar það bæninni hvað hann er núna. Það er vissulega umhugsunarefni sem hann hefur að segja um þessa hluti. Hugsun hans er alveg skýr og upplifun hans er ekta. Hann segir ekkert hafa snert eins við sér og bænirnar.
Hann liggur á stofu með Friðrik bróður Sigrúnar hans Heiðars. Ég heilsaði Friðrik og hann þekkti mig, var kátur að sjá mig og spjallaði svolítið.

Það er skrítið hvað veðráttan er orðin öðruvísi. Sumarið var að skrælna úr þurrki en haustið það blautasta sem um getur. Það er eins og skaparanum hafi þótt vissara að klára allan vætuskammtinn í haust sem átti með réttu að skvettast á okkur í sumar. Það má samt segja að við erum nær norminu núna en í sumar þegar ekki kom dropi úr lofti.

Ég ætla að skreppa í Vola á mánudaginn. Kemst reyndar ekki nema dagshluta vegna vinnunnar en Karlott mun hrella fiskana fyrir mig og kannski einhver annar sem hefur áhuga á að taka daginn á móti mér. Eins og ég hef sagt hér á síðunni áttum við Hansi góða ferð þangað um daginn. Þarna eru allir fiskar sem hægt er að fá í ferskvatni á Íslandi. Staðbundinn urriði, sjóbirtingur, staðbundin bleikja og sjógengin, lax, áll og flundra.
Fyrir þá sem ekki vita er flundra flatfiskur líkastur kola eða lúðu en gengur í ferskvatn.
Ég hef ekki veitt flundru en hún er talin góður matfiskur.
Birtingurinn er skemmtilegastur að mínu mati.

Njótið helgarinnar

fimmtudagur, október 11, 2007

ERR...or

Var ekki komið nóg af hringlanda R listans?
Alveg grátleg niðurstaða í máli sem mátti auðveldlega lenda farsællega. Björn Ingi Hrafnsson gegndi allt of mikilvægri oddastöðu til að hægt væri að byggja eitthvað á þessu samstarfi, stóð enda ekki undir henni. Lítilmennskan reið ekki við einteyming.
Hvað á að gera við svona fólk í pólitík?
Nú errrrr fjandinn laus .......aftur.

miðvikudagur, október 10, 2007

Tómas....

....bróðir minn..... öðru nafni Hjalli, gerði boð eftir mér. Ég segi Tómas því hann hefur ekki verið mikið upp á Guðshöndina gegnum tíðina (sjáanlega, sem segir samt ekkert um hjartalagið). Hann þurfti að segja mér nokkuð sem hann hafði ekki skýringu á aðra en að Kristur sjálfur hlyti að hafa kíkt á hann á sjúkrabeðið, eins og hann orðaði það sjálfur. Efasemdamanninum vantaði skýringu....

Hann var vakandi um miðja aðfararnótt 8. október, gat ekki sofið vegna hroðalegra verkja. Þá fannst honum að einhver kæmi inn á stofuna til hans. Því fylgdi mikil hlýja og velllíðan og það magnaðasta, verkirnir hurfu.
Maga vesenið er nánast úr sögunni og verkurinn sem var að drepa hann í mjöðminni er horfinn og hefur ekki enn komið aftur.....!
Hann bað mig um að skila þakklæti til ykkar allra fyrir bænirnar og jafnframt að það mætti hætta að biðja og fara að þakka fyrir skjót viðbrögð. Sagði að sér hefði verið sagt það einhvernveginn þarna um nóttina.

Trúarleg upplifun sem hann reynir á ögurstund. Ekki ólíkt fjölda annarra vitnisburða. Líklegasta skýringin er sú að Guð er ekki moðreykur heldur raunverulegt afl sem grípur inn í kringumstæður þegar neyðin er stærst, þá er líklega hjálp Hans næst.... án verðskuldunar, án fyrirhafnar og vinnu.

Hann er bjartsýnn á lífið, ég er ánægður með það.

sunnudagur, október 07, 2007

Lífið....

....er sannarlega eins og veðrið. Það skiptast á skin og skúrir. Við áttum góðan og ánægjulegan dag í gær og stóran í hugum okkar margra. Það var barnablessun í fjölskyldunni, Erling Elí, litli kúturinn var “borinn fram” eins og við höfum kallað þá athöfn. Athöfnin líkist skírn en þó með einni undantekningu sérstaklega, barnið er ekki ausið vatni. Forskriftin er frá Kristi sjálfum þegar hann bannaði lærisveinunum að reka burtu börnin og tók þau þess í stað í fang sér og blessaði þau.
Mér á óvart en til ánægju fólu foreldrar litla kútsins mér þann heiður að blessa litla nafna minn. Ég hafði gaman af athöfninni vitandi að blessun Guðs fer ekki í manngreinarálit þó preststimpilinn vanti í kladdann minn.



Veislan var þeim hjónunum til sóma eins og við var að búast. Tertan vakti athygli fyrir hversu flott hún var, ekki síst þegar í ljós kom að höfundur hennar var húsmóðirin sjálf.
Mér datt nú ekkert nær sanni í hug en “sjaldan fellur eplið langt frá eikinni”, svona í allri auðmýkt. Tertur móður hennar eru rómaðar langt út fyrir fjölskylduna. Það var margt um manninn en íbúðin rúmaði þetta vel.

Við kíktum á Hjalla bróðir minn eftir þetta. Hann lítur betur út en er algjörlega lamaður vinstra megin ennþá. Hörð lífsreynsla fyrir hann og líklega erfiðari fyrir það að hugsunin er algjörlega í lagi. Hann er beygður og bað um fyrirbænir. Ég sagði honum frá öllum sem biðja fyrir honum og hann bað mig um að færa ykkur þakkir fyrir það. Kem því hér með til skila. Við áttum svo bænastund saman bræðurnir og Erlan mín, það var gott.

Hjalli hefur átt við háan blóðþrýsting að stríða í mörg ár, mjög háan. Hann var settur á blóðþynningarlyf um daginn til að undirbúa hann fyrir rafstuð til að stilla hjartsláttinn.
Í gærkvöldi vorum við hjá Sigrúnu konunni hans og hún sýndi mér lyfið. Þegar ég las fylgiskjalið sem fylgdi lyfinu kom í ljós að lyfið má alls ekki gefa fólki með of háan blóðþrýsting........!
Ég veit ekki hvað þetta þýðir eeeen...... ætla sannarlega að komast að því.
Ekki er ein báran stök hjá honum. Hann skilar ekki því sem hann borðar, og hefur ekki gert í þennan hálfa mánuð frá því hann lamaðist. Hann er mjög kvalinn vagna þessa. Þetta er mjög alvarlegt ef það lagast ekki. Biðjið sérstaklega fyrir þessu.

Síðastliðinn fimmtudag fórum við Hansi bróðir í veiði í Vola eða Volalæk eins og sumir kalla hann. Voli er vatnsfall sem allir hafa keyrt yfir en fáir vita nokkuð um. Hann liggur um tíu kílómetra hér austur af Selfossi þar sem Flóaveituskurðurinn rennur við Þingborg. Þar suður allt fram í sjó er falleg veiðiá full af sjóbirtingi. Hún heitir reyndar fjórum nöfnum, nyrst er Bitrulækur þá Voli svo Hróarskeldulækur og syðst er Baugsstaðaós. Ferðin var frábær, veiddum vel. Sjóbirtingurinn var nýrunninn, silfraður og fallegur. Þeir stærstu voru um sex pundin.
Það er oft ótrúleg sjón að sjá hann taka, gjörólíkt laxinum. Hann stekkur upp úr vatninu og á það til að þeytast hylinn á enda hálfur upp úr vatninu. Sá stærsti minn gerði þetta og þeyttist næstum upp á bakkann. Ég kom með sjö birtinga heim og Hansi nær tíu.
Þetta verður endurtekið....!

Það er sól og bjart úti. Ölfusáin skartar sínu fegursta hér út um gluggann minn. Það er líka sól í sálinni, svo margt góðra hluta, þó ekki alveg heiðskýrt. Heilablóðfall bróður míns varpar skugga á tilveruna.

Biðjum áfram, þetta er ekki búið.

föstudagur, september 28, 2007

Fjölskyldufundur.....

....var haldinn með lækni og hjúkrunarliði á sjúkrahúsinu í dag vegna Hjalla. Þar var nokkrum staðreyndum málsins teflt fram af fagfólki. Hjalli er með alvarlega lömun í vinstri hlið líkamans. Hann er með bjúg í heilanum sem orsakar þrýsting sem mun hjaðna á næstu vikum. Blóðþrýstingurinn þarf að vera hár meðan bjúgurinn er til staðar til að yfirvinna þrýstinginn inni í höfðinu svo eðlilegt blóðflæði verði um heilann.
Hann er með svokallað gaumstol (hef ekki heyrt orðið fyrr) sem þýðir að hann hefur ekki skynjun til vinstri, veit varla um vinstri hliðina á sér. Þetta gaumstol er að sögn læknisins alvarlegra en lömunin sjálf því ekki er hægt að þjálfa neitt upp nema þetta gaumstol minnki eða hverfi. Hann gaf þó góða von um að þetta gengi til baka vegna þess að blæðingin var svo djúpt inni í heilanum. Það hefði litið verr út ef blætt hefði nær heilaberkinum.
Það er ljóst að núna tekur við mikil vinna og erfiði hjá honum og fjölskyldunni. Það kom að því að vestfirska þrjóskan sem hann er þekktur fyrir kemur að gagni.
Allavega mun viljastyrkur og dugnaður koma að góðum notum við átökin framundan.

Hlutverk okkar hinna er það sama og Péturs forðum þegar hann læknaði lama manninn við Fögrudyr “Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef gef ég þér, í nafni Jesú Krists statt upp og gakk”
Kannski ekki í orðsins fyllstu þar sem slíkt krefst gríðarlega sterkrar trúar, eeeen.....
“Postularnir sögðu við Drottinn: Auk oss trú”. Það var snilldarbæn. Það er jú víst trúin sem fytur fjöll og reisti við lama manninn. Höfum þetta því hliðar bænina okkar.

Við tökum upp kartöflur á hjánum. Við uppskerum andlega hluti, (bænasvör)
.....oftast líka á hnjánum.

fimmtudagur, september 27, 2007

Hjalli...

...var aftur með hita í morgun, 38 gráður. Hann hefur ekki fengið máttinn aftur í vinstri hliðina. Talaði við Sigrúnu í dag, hún sagði hann aðeins slakari í dag en í gær. Blóðþrýstingurinn er samt mun betri.
Bænin skiptir máli, það hafa vísindamenn getað sýnt fram á. Ég held í það hálmstrá að bænir margra hafi vægi á þessari vogarskál, og hún fari að síga í rétta átt. Því bið ég ykkur að halda áfram og toga fast í bænaspottann.
Eitt atriði benti Kristur okkur á í Matteusarguðspjalli varðandi bænina, hann sagði: "Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim". Langar að planta þessu versi í ykkur varðandi Hjalla

....og biðja ykkur að vera einhuga um eitt aðalatriði. LÆKNINGU......!

miðvikudagur, september 26, 2007

Enn af bróður......

Ég hitti hann í dag. Hann lítur betur út. Ekki eins þrútinn og skilst betur það sem hann segir. Hann fékk 39° hita í gærkvöldi og var fárveikur. Læknarnir óttuðust að þetta kynni að vera þvagfærasýking eða jafnvel lungnabólga.
Þeir dældu í hann breiðvirkandi pensilíni sem virkaði svona vel að hitinn var að mestu farinn í morgun.
Hann hefur enn engan mátt. Reyndar taldi sjúkraþjálfari sem kíkti á hann í morgun að hann greindi smá viðmót bæði í handlegg og fæti. Ef það reynist rétt er það kannski eitthvað sem hægt verður að byggja á þegar kemur að þjálfun.

Hafið bestu þakkir fyrir fyrirbænir og kveðjur.

þriðjudagur, september 25, 2007

Meira af Hjalla...

Ég heimsótti hann í dag á spítalann. Líðan hans er eins. Hann hefur ekki fengið neinn mátt ennþá vinstra megin og blóðþrýstingurinn er allt of hár. Ég sá mælirinn slá í 205/103 sem er hættulega mikið. Það heyrist vel á honum að sinnið er í góðu lagi, virðist vera bara líkaminn, sem er samt auðvitað ekkert bara, hann er lamaður.
Ég bið enn um fyrirbæn fyrir honum. Biðjið Þann sem öllu ræður að skrúfa niður þennan háa þrýsting því hann hlýtur eðlis síns vegna að auka hættu á annarri blæðingu.

Biðjið líka fyrir Sigrúnu og fjölskyldunni, þetta er mikið áfall fyrir þau öll.

mánudagur, september 24, 2007

Hjalli bróðir minn...

...er ekki vel haldinn núna. Flestir lesendur mínir vita um heilablæðinguna sem hann lenti í á föstudagskvöldið. Hann er algjörlega lamaður vinstra megin og er með bjúg á heila sem þó er ekki svo svæsinn að opna þurfi höfuðkúpuna, allavega ekki ennþá. Hann sefur mikið og mókir en er alveg klár í kollinum, er að velta fyrir sér vinnunni, hvað þurfi að gera á morgun og þessháttar. Á þó erfitt með tal. Það blæddi hægra megin sem er betri helmingurinn, sagði hjúkrunarfræðingurinn. Það er að segja að það er skárra að blæði þeim megin, það skemmir síður sinnið, en lamar líkamann.

Það er vont að horfa á bróður minn svona á sig kominn. Ég bið þess að Guð gefi honum máttinn aftur. Það verður erfitt fyrir orkubolta og lífskúnster eins og hann að takast á við hjólastólinn ef hann er framtíðin, þó auðvitað verði það þakkarvert ef ekki fer verr.

Ég biðla til ykkar sem lesið bloggið mitt að bera hann bænarörmum næstu daga, þeir skera úr um hvernig honum reiðir af.

Já dagarnir eru misgóðir.........!

fimmtudagur, september 20, 2007

"það eiga ekki alltaf allir vísa heimferð"....

....sagði hann við mig hjálparsveitarmaðurinn sem ég talaði við í dag upp við Sog, reyndur miðaldra karl. Það getur verið hollt að hafa þann vísdóm með sér í ferðalagið.
Ég er að fara í veiði um helgina og ætla að hafa þetta í farangrinum mínum sem varnaðarorð.
Það er gremjulegt hversu oft er stuttur spottinn sem skilur milli feigs og ófeigs.
Ég hef oft vaðið straumvötn og þekki kraftinn í ólgandi vatninu. Oft hef ég hugsað um, hvað ég gerði ef hann felldi mig...? Maður reiknar með að synda til lands sem líkast til er mikil bjartsýni. Gráðurnar eru ekki margar í íslensku fjallavatni og eflaust auðvelt að krampa.

Þessi vesalings maður sem týndist í Soginu og lítil von er til að finna, hefur vafalítið hugsað á svipuðum nótum.

Biðjum fyrir fólkinu hans sem bíður vonlítilli bið eftir fréttum, jafnvel bara að hann finnist... lífs eða liðinn og sérstaklega fyrir syninum sem var með honum við veiðarnar.

Biðjum um líkn með þraut.

sunnudagur, september 16, 2007

Skall hurð nærri hælum

Það er ljóst að veturinn ætlar að banka snemma uppá þetta árið. Í gær var vetrarlegt um að litast hér og ekki nóg með það heldur fylgdu umferðaróhöpp eins og gjarnan verður þegar fyrsti snjórinn (slyddan) fellur. Ég verð nú að segja að mér finnst hann freklega snemma á ferðinni í ár, varla komið haust.

Ég er þakklátur maður.
Hrundin mín fór af stað til höfuðborgarinnar í gærkvöld. Ég hafði skoðað vefmyndavélina sem staðsett er á Hellisheiði á internetinu áður en hún fór og sýndist marauð gata.
Stuttu eftir að hún lagði af stað var kominn þykkur krapi á veginn.
Eins og reyndir bílstjórar vita er það eitt allra hættulegasta færi sem hægt er að aka í. Við erum auðvitað ekki búin að skipta yfir á vetrardekk því skv. mínu dagatali á að vera nánast sumar ennþá.

Hún missti stjórn á bílnum og hann snerist í hring á veginum eftir að hafa farið yfir á rangan vegarhelming áður og stoppaði hálfur útaf að aftan. Þarna er bratt niður og skurður. Ég er þakklátastur fyrir að ekki var umferð á móti á þessu augnabliki, að enginn var á eftir henni sem náði ekki að stoppa og skurðurinn tók ekki á móti henni. Hellisheiðinni hafði verið lokað vegna slyss svo hún sneri við heim. Á heimleiðinni missti hún svo bílinn aftur....... án slyss.

Hverjum er ég þakklátur? Þeim sem ég hef beðið um að vera með henni og gæta hennar á vegum hennar frá því hún fæddist. Ég þakka þetta varðveislu Guðs, hef enda engan mælikvarða sem sannar það eða afsannar, bara trúi því.

Annað er það að frétta héðan úr sveitinni að við vorum með matarklúbb í gærkvöldi. Kiddý og Baddi ásamt Heiðari og Sigrúnu voru með okkur. Það var skemmtilegur góðra vina fundur og maturinn hennar Erlu eins og henni einni er lagið.

Matarklúbbar eru skemmtileg fyrirbæri sem sælkerar vítt og breytt stunda..... jafnvel víðar en í mannheimum.

Á tveggja mánaða fresti hittumst við hjá hvert öðru og bjóðum til sælkeraveislu. Þá er tjaldað því besta hverju sinni og eldað af mikilli innlifun.
Undir miðnætti í gærkvöld var svo heljarinnar flugeldasýning í tilefni kvöldsins. Risa flugeldar, tívolíbombur eins og þær gerast flottastar, risa kökur sem skjóta í nokkrar mínútur og glæsileg blys. Það var toppurinn.
Reyndar var sýningin hugsanlega ekki bara í tilefni matarklúbbsins. Það er einn annar möguleiki. Það kann að vera að 60 ára afmæli Selfosskaupstaðar hafi haft einhver áhrif á þetta líka........ Það verður allavega, hvernig sem á það er litið, erfitt fyrir þau að toppa okkur eftir þetta.

Erlan var að koma niður enda hennar tími kominn (hádegi) svo ég ætla frekar að fá mér morgun....eða öllu frekar miðdags kaffi með henni.

Njótið dagsins, hann er góður.

laugardagur, september 08, 2007

Heima...

...er best. Þrátt fyrir vel heppnaða ferð og mikið afslappelsi í sól og hita ásamt vellystingum í góðra vina hópi verð ég að segja að ekkert jafnast á við að koma heim til sín. Ísland er alltaf best hvernig sem á það er litið.
Við lentum á Keflavíkurflugvelli um átta leytið í gærkvöldi. Íslenska veðráttan tók á móti okkur opnum örmum, hressilegum. Tilfinningin að lenda á þessu ástkæra landi er alltaf blendin væntumþykju og þjóðrækni, jafnvel svolítilli þjóðrembu. Það er sama þó komið sé úr heitu loftslagi suðrænna landa inn í ískulda norðursins, sem þó átti ekki við í þetta sinn, finn ég alltaf þessar sömu heitu tilfinningar til landsins.
Ég gæti aldrei flutt mig búferlum til annars lands, held að þjóðræknin í mér myndi aldrei hleypa mér.

Ég vaknaði nokkuð snemma í morgun og kíkti út. Það var allt eitthvað svo ferskt og svalandi. Búið að rigna mikið og áin ekki lengur eins og saklaus bergvatnsá, orðin eins og hún á að sér að vera, mikil og voldug.

Ég fór í göngutúr upp með henni í morgun, meðan Erla svaf ennþá, og var með myndavélina góðu að vopni. Haustlitirnir eru farnir að láta kræla á sér þó ekki fari mikið fyrir þeim ennþá. Þeir eru endalaus myndefni og gaman að láta ímyndunaraflið leita að fallegum myndum. Árangurinn er auðvitað misjafn en stundum hittir maður á eitthvað sem úr verður eitthvað fallegt og þegar best tekst til jaðrar við að til verði listsköpun, pínulítið stolið brot úr stórkostlegu listaverki skaparans. Þetta hefur að gera með nógu margar endurtekningar. Taka margar myndir þá er líklegt að nokkrar verði góðar. Svolítið í ætt við máltækið: Oft ratast kjöftugum rétt á munn”. En samt er það fyrst og fremst myndefnið sem oft er svo fallegt að erfitt getur verið að taka ljótar myndir af því.
Íslenskt haust er svo litríkt og fallegt. Þá er oft auðvelt að fanga fallega liti og tilbrigði náttúrunnar. Eins er haustið mér alltaf áminning um hversu hringrás tímans fer sínu fram og gerir ekki greinarmun á kóng eða presti, manni eða skepnu. Árin tikka.

Enn einu sinni er komið að árlegri haustveiðiferð okkar bræðranna. Hún er orðin hefðuð og á sérstakan sess hjá okkur, heil helgi tekin í að leika sér á veiðilendum Fljótshlíðar sem auðvitað eiga sér enga líka. Þar liggja enda bernskusporin okkar þótt auðvitað hafi fennt í slóðina víða. Veiðiferðin verður oft uppspretta gamalla minninga sem við rifjum upp og höfum ánægju af.

Við fengum góðar heimsóknir í dag. Allar stelpurnar okkar og hluti barnabarnanna komu. Við áttum góðan dag í faðmi fjölskyldunnar. Erla bakaði pitsur eins og henni einni er lagið. Sjávarréttapitsan hennar á sér enga líka, að ég best veit....!
Barnabörnunum virðist líka vel að kíkja í sveitina. Sagt er að dóttursonurinn og nafninn líkist afa sínum, blessað barnið getur ekki gert að því en ekki verður annað séð að sögn kunnugra að afanum þyki það ekkert sérstaklega leiðinlegt.

Ég ætla að henda nokkrum myndum morgungöngunnar hér inn, svona að gamni. Svo þið gleymið ekki hvað bakgarðurinn okkar er stór og víður ...og fallegur.....!





Fann engan fjögurrablaða.... en breiðu af þriggja












Reyniberin í garðinum mínum, það er komið haust











Anker sem hefur skilað hlutverki sínu









Hér er lífið í hnotskurn... stutt inngrip í söguna. Það er eins og mýflugan þarna viti það.
Ég kann orðið nokkuð vel við mýflugur eftir kynni mín af frænkum hennar í suðurhöfum Moskító ...andstyggðar kvikindi.








Lággróðurinn roðnar, hrörnar......og deyr.






Góður dagur runninn.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Í fréttum er tetta helst......

Jaeja...
Nú erum vid stodd a Cala dor ad rifja upp gamlar minningar. Allt her sem minnir a gomlu ferdina okkar med allar stelpurnar. Hitinn er um 30 gradur sem er agaett, verra ef hann verdur haerri.
Vid dveljum annars a frabaerum stad vid litla vik sem engir solumenn eru ad hrella mann, sundlaugin nidur vid sjoinn og umhverfid ohemju fallegt. Vid hlokkum mikid til ad koma heim og hitta allt okkar frabaera folk tvi tad er enginn vandi ad sakna ykkar sem okkur tykir svo vaent um to vid seum her i miklu dekri....
Tad er ohaett ad segja ad lifid leiki vid okkur hjonin sem endranaer.
Tetta var kvedja fra Erling.....

Kvedja fra Erlu.....
nu tegar vid erum a eyjunni okkar fogru í Midjardarhafinu ta nyt ég tess ad stinga tanum i ylvolgan sjoinn og finna solina baka mig og smatt og smatt tekur hudin a sig fallegan brunan lit. Svo sannarlega leikur lifid vid okkur, vid bordum uti a hverju kvoldi, sofum eins lengi a morgnana og vid viljum og vokum eins lengi a nottunni og okkur langar til. Fra svolunum okkar sjaum vid ut a sjoinn og i gaekvoldi ta var toluvert brim og meirihattar ad sitja uti a svolum, finna heitan vindinn leika um andlitid og heyra sjavarbrimid skella a klettunum.
Allt umhverfi tar sem vid erum er aevintyri likast og vid hofum aldrei verid a eins fagudum stad og finum an tess to ad folk se snobbad her. Vid sundlaugina eru tjonar sem faera okkur tad sem vid pontum og allt er hreint og fint. Her eru engir Islendingar nema vid enda fara ferdaskrifstofurnar ekki hingad.
Sjaumst hress og kat heima a Froni sem er tratt fyrir allt besta land i heimi og tott tad se gaman ad ferdast ta vildi eg hvergi annars stadar bua en tar.
Tangad til naest vinir minir.......

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Í sól og sumaryl.........

Mér sýnist akkúrat passlegt að fara utan núna. Farið að kólna hér norðurfrá og gott að lengja sumarið aðeins með því að skreppa sunnar. Við höfum ekki farið til eyjunnar fögru í miðjarðarhafinu í sjö ár. Við ætlum að dvelja þar í tvær vikur með vinum okkar Heiðari og Sigrúnu. Staðurinn sem við verðum á heitir Port´d Andratx, vestur af Palma.

Mæjorka (íslenska heitið) er heillandi staður. Hún skipar sérstakan sess í huga okkar enda fyrsti sólarstrandar staðurinn sem við fórum til.
Þá skruppum við með sömu vinum okkar í fjögurra daga ferð, eftir níu ára sumarfríslaust vinnualka tímabil. Eftir það varð ekki aftur snúið. Við höfum síðan farið í margar ferðirnar saman bæði innan- og utanlands sem skreyta minningatréð okkar. Gott að eiga góða vini.

Myndin er frá Port´d Soller, stað sem við eigum góðar minningar frá. Minnir mig t.d á snilldar góðan nýkreistan appelsínusafa beint af akrinum.

Það er aldrei að vita nema við látum heyra í okkur á síðum bloggsins ef við finnum nothæfa tölvu til þess.
Hafið það gott á meðan vinir mínir nær og fjær.

Með ssssssssssssssólarkveðju

sunnudagur, ágúst 19, 2007

Vegir Guðs eru órannsakanlegir...

Ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um það sem ég nefni hér, sökum reynsluleysis. Ég hef alltaf haldið að Guð væri einni bæn í burtu, var kennt það í bernsku og síðan talið mig einmitt geta miðlað af þeirri reynslu minni. En nú er það “Soaking center”. Menn og konur flykkjast til Kanada til að sækja eitthvað sem talið er gefa meira af Guði en áður hefur þekkst. Ég leyfi mér að hafa skoðun á þessu. Hafandi í fórum mínum reynslu af “Toronto blessuninni” svokallaðri sem gekk yfir eins og bylgja fyrir einum áratug eða svo. Það fyrirbæri fjaraði út með útfallinu eins snögglega og það kom að landi. Ég hafði margar spurningar varðandi það forðum, fannst það líkjast um of Benny Hinn aðferðafræðinni. Það sama má segja um þetta fánum skrýdda fyrirbæri sem nú ríður yfir, líka frá Toronto. Ég met mikils hreina og falslausa trú, en trúgirni sem labbar sér út fyrir landssteinana haldandi að kraftur eða nærvera Guðs sé í meira mæli eða allavega auðveldari í nálgun fáist með því einu að hafa efni á að fljúga vestur um haf, á ekki upp á mitt pallborð.
Það tel ég of þröngan ramma til að Guð komist í hann. Eitthvað annað hlýtur þá að vera á ferðinni... Að mínu mati saklaust, bara dýrt, tilfinningaflipp.
Já svona er nú trú mín.

sunnudagur, ágúst 12, 2007

Afmælisgjöf

Löngu fyrir tímann. Mér var færð forláta myndavél. Canon EOS digital Rebel XT. 8 milljón pixla linsuvél. Gjöfin var frá Erlunni minni og Hrund og Örnu.

Ég hef lengi haft gaman af því að taka myndir en aldrei átt vél sem uppfyllir einhverja gæðastaðla. Þessi er mjög góð með grilljón möguleika á mismunandi stillingum. Ég verð líklega að fara á námskeið svo hún nýtist mér eins og hún hefur möguleika til.

Við dvöldum á Föðurlandi um helgina, reyndar frá fimmtudegi til sunnudags. Frábær tími og notalegur. Ég missti mig alveg í myndatökum um helgina. Ég tók ekki nema ca 400 myndir, misgóðar auðvitað. Ég ætla að setja nokkrar hér inn á síðuna svo þið getið séð smá sýnishorn.




Skýjafarið var eitthvað svo magnað,













Kvöldsett












og dalalæða læddist yfir þegar ekki naut sólar lengur. Sjáið hestana gægjast upp úr þokunni......










Ekki alveg í fókus, fannst Þríhyrningur bara svo flottur þarna.





Átti ágætis spjall við þennan






Smá rómantík var viðhöfð líka.....










Það er hægt að stækka myndirnar með því að klikkja á þær......






Langar að koma mér upp myndasíðu. Held ég þurfi hjálp við það.....auglýsi hér með eftir sjálfboðaliða, gæti heitið Íris t.d...... !
Njótið daganna.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Verslunarmannahelgin...

...enn einu sinni liðin. Tók vegatollinn sinn eins og svo oft áður. Eitt banaslys, einu of mikið. Átakanlegt. Flestir hafa þó vonandi átt góða helgi. Veðrið var allavega miklu betra en á horfðist. Lítil sem engin rigning, reyndar rok, en þurrt.
Í gær vorum við heima og nutum næðis við grænar grundir og nið vatna. Hér er gott að búa.... hef ég kannski sagt það áður? Pallurinn var notalegur í sólinni.
Núna næ ég í jarðarber í garðinn minn á hverjum degi, nokkur í senn. Þau bragðast alltaf best beint af plöntunni.
Áttum góða helgi á Föðurlandi með dætrunum og börnum þeirra á daginn og hér heima í sælunni á næturnar. Enda ekki lengi verið að skjótast austur. Íris og Karlott gistu kofann okkar með yngsta meðlim fjölskyldunnar Erling Elí. Það er gott að hafa þetta athvarf.
Við skruppum á eina samkomu á Kotmóti. Ræðumaðurinn var Skoti, man ekki nafnið. Hann var góður. Með báða fætur á jörðinni og tók sjálfan sig ekki of hátíðlega. Var samt með kröftugan og réttan boðskap.

Ég var ekki eins hrifinn af boðskap fólks sem sá ástæðu til að auglýsa hversu góðir gjafarar þau höfðu verið í gegnum lífið og töldu sér það til tekna. Mér hugnast betur þegar sú vinstri veit ekki hvað sú hægri gjörir. Í gamla daga var þetta kallað að taka út launin sín fyrirfram.
Ég hef hvort sem er svo oft verið stimplaður fyrir gagnrýni, svo mig munar ekki um einn í viðbót.

Alltaf má samt deila um hver er að gera rétt og hver minna rétt. Maður ber jú þegar upp er staðið bara ábyrgð á sjálfum sér, sem gerir að verkum að gott er að hafa spegil í farteskinu og skoða verkin sín. Og hafa manndóm til að taka því sem maður sér.
Enginn er meiri en annar þegar öllu er á botninn hvolft. Haldi einhver annað er það aumasti hégómi og hroki.

Rétt er að njóta daganna og horfa á flóruna í kringum sig eins og regnbogann, hann er fallegur svona marglitur.
Það er gott að mannlífið er ekki einsleitt, það væri leiðinlegt.

mánudagur, júlí 30, 2007

Rigning á Föðurlandi

Farið að rigna enda komið undir verslunarmannahelgi. Það er árvisst að þá helgi rignir oftast meira en nokkur kærir sig um. Siggi Stormur sagði í blaðinu í gær að von væri á breytingum í veðrinu, lægðirnar færu að fara sinn vanagang, sumsé yfir Ísland.
Það þýðir ekkert að vera að gretta sig yfir því, við höfum búið við þetta eins lengi og elstu menn muna og ekki má gleyma því að við þurfum á vatninu að halda.

Veðrið í sumar hefur verið einstaklega elskulegt og mannbætandi. Fólk er ekki eins brjálað að komast suður í sólina. Enda íslenska sólin best eins og allt annað íslenskt.
Nú tekur maður fram regnfötin og undirbýr sig fyrir vætuna framundan.
Verst þykir mér að ég ætlaði að reyna að skipta um þak á eldra húsi í Mosó. Það er allajafna vænlegra að gera slíka hluti í þurrki en miklum rigningum. Einhvernveginn hefur þetta samt alltaf gengið nokkurnveginn. Varla í fyrsta sinn sem skipt er um þak á Íslandi.

Við Erla eyddum helginni í kofanum okkar á Föðurlandi. Við höfum nú rafmagn svo hitinn er orðinn jafn og heimilislegur. Og sjálfrennandi vatn inn úr vegg eins og afi minn kallaði það forðum þegar hann leiddi vatnspípu úr læknum inn í hús.
Ísskáp fundum við auglýstan í staðarblaðinu. Tveggja ára Electrolux, nógu lítinn til að komast undir borð. Svo er tveggja hellna gaseldavél við hliðina á vaskinum. Fínasta græja sem við fengum skipt fyrir aðra tegund sem við höfðum keypt áður, en reyndist gölluð.

Erla hefur gert þessa fáu fermetra að sælureit sem erfitt getur verið að slíta sig frá. Ég hlakka til að eyða stundum þarna, ekki síst í skammdeginu þegar veturinn hamast kaldur á glugga en ylur og notalegheit hússins umlykur okkur innandyra. Það á vel við mig.
Um helgina gerði þvílíkar hellidembur að það líktist mest hitabeltisrigningu. Stórir dropar beint niður í svo miklu magni að túnið varð eins og sundlaug á augabragði. Það jók á notalegheitin að heyra rigningardropana berja á þakinu og sjá vatnið fossa fram af þakbrúninni.

Eins og ég sagði hefur Erla einstakt lag á að búa til notalegt umhverfi. Ég er löngu hættur að nöldra yfir "draslinu" sem hún ber inn og raðar út um alla veggi og gólf og glugga og loft og hillur og.... Þetta er hið kvenlega innsæi sem við karlhormónabunkarnir höfum ekki.
Við ákváðum strax í byrjun að reyna að koma öllu haganlega fyrir þar sem plássið væri ekki þannig að við færum mikið í feluleiki. Reynslan frá fellihýsaárunum hefur komið í góðar þarfir en í fellihýsi er mjög mörgu komið fyrir í litlu plássi.
Stefnan var líka að gera þetta ódýrt. Við vorum að taka saman kostnaðinn við innréttingu hússins. Með ÖLLU...... 80 þúsund kall ríflega. Barnaland er snilld.
Hún er heimilisleg hér fyrir ofan í notalegu umhverfi frúin á bænum.
Þetta er ekkert minna en gargandi snilld.

föstudagur, júlí 20, 2007

Sveitarómantíkin....

....blómstrar hjá okkur hér austan fjalls, sem fyrri daginn. Lítið lát hefur verið á góðviðri hér eins og annars staðar á Íslandi. Maður er farinn að reikna með sól hvern dag sem maður vaknar. Rigningin er samt góð. Maður er meira að segja farinn að skilja vanda þeirra sem búa við viðvarandi þurrka. Gróðurinn hlýtur að fagna þessari vætu því hann er víða farinn að skrælna. Ég vona að þetta verði nægjanleg rigning til að vökva almennilega.

Gestahjónin okkar á Föðurlandi hafa nú brugðið búi sínu og eru farin með ungana sína á vit lífsins.Við Erla ætlum að athuga hvort við sjáum fjölskyldurnar eitthvað, en við ætlum að dvelja í faðmi Föðurlandsins okkar um helgina. Ég er hræddur um að hættur leynist bak við hverja þúfu hjá þessum litlu krílum. Einhvernvegin reiðir þeim af svo mikið er víst. Við getum bara vonað að auðna fylgi þeim. Það er gaman að fá svona gesti á landið okkar, einhvernveginn svo vinalegt.

Vikan hefur verið ásetin svo það verður gott að hvíla sig yfir helgina. Pólverjarnir “mínir” vinna á morgun, reyndar vinna þeir alla laugardaga enda hér fyrst og fremst til að vinna. Þeir vinna hinsvegar aldrei á sunnudögum enda kaþólskir og kaþólsk trú gerir ráð fyrir að halda hvíldardaginn heilagan.
Þrír þeirra eru nú í Póllandi í sumarfríi. Þeir eiga gott frí skilið eftir mikla vinnutörn. Góðir vinnumenn og karakterar sem margir mættu taka til fyrirmyndar. Stundvísir og áreiðanlegir í vinnu.
Ég er samt ekki mannalaus því ég er búinn að ráða nokkra í viðbót sem ekki eru í fríi.
Lexor er nú rúmlega hálfsárs og aðeins farið að mótast í það far sem því var ætlað. Ég er ánægður með ferlið eins og það er, mér finnst ég vera að hnoða leirinn.

Að allt öðru. Ég sá fallega grafskrift hjóna núna í vikunni. Segir meira en mörg orð um hjónin.

Háa skilur hnetti himingeimur,
blað skilur bakka og egg
En anda, sem unnast
fær aldregi eilífð að skilið.
JH.

Kannski þetta sé svona. Hver veit það svo sem.

Hlakka til morgundagsins.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Krúsað um sveitirnar

Ég verð að segja að langþráður draumur hafi ræst þegar við Erla brunuðum austur í sveitir um helgina á mótorhjóli íklædd leðurgöllum frá toppi til táar. Bráðum gift í þrjátíu ár og látum eins og nýgiftir krakkar. Við eyddum helginni á Fitinni ásamt mánudegi og þriðjudegi. Veðrið var lyginni líkast. Sól og hiti allt að tuttugu og þremur gráðum í skugga..
Það var mjög gaman að krúsa í Fljótshlíðina.

Síðan skruppum við austur á Skóga. Þar var veðrið jafn hlýtt. Við renndum framhjá innganginum í sundlaugina þar sem ég lærði að synda forðum. Sama gamla hurðin og allt eins nema búið er að malbika planið, drullupollarnir horfnir. Gaman að rifja upp horfin sporin manns. Mér fannst ég geta séð krakkana eins og þeir létu í gamla daga. Ærslin og gamanið. Minningin segir að það hafi alltaf verið svona gott veður eins og reyndin var um helgina. Mér segir svo hugur að það hafi nú samt ekki alltaf verið þannig.

Við keyptum okkur snarl á Skógum og héldum svo heim á leið í blíðunni. Það var stoppað nokkuð oft og skoðað sem fyrir augu bar. Fossar og falleg iðjagræn tún.


Kýr í haga, afskaplega kyrrlátar og sumarlegar með Eyjafjöllin í baksýn. Þær létu okkur ekki raska ró sinni og jórtruðu tugguna sína eins og ekkert hefði í skorist.

Það er óhætt að segja að þessi ferðamáti er afskaplega ólíkur því sem við eigum að venjast. Það er mikil frelsistilfinning að finna vindinn leika um sig um leið og þeyst er yfir landið á kraftmiklum mótorfák. Öll lykt af landinu kemur einhvernveginn beint í æð. Við renndum framhjá bændum sem voru að taka saman hey, ilmurinn fyllti vitin. Græn og angandi taða sem kallaði fram ljúfar minningar horfins tíma úr sveitinni. Skrítið hvað lykt getur kallað fram margar minningar. Sérstaklega heylykt. Hefur líklega að gera með umhverfið sem ég ólst upp í. Fiskilykt kallar ekki fram neinar minningar til dæmis.

Hitinn á Fitinni var slíkur að við komum eins og steiktir tómatar heim. Sólin er ekkert mildari hér á Fróni en annarsstaðar. Þetta var góður tími sem ég var ekkert endilega til í að kláraðist svona snemma. En það kemur dagur eftir þennan dag. Lífið snýst ekki bara um að hafa það gott. Saltfiskurinn verður að vera á sínum stað, annars þýðir víst lítið að hugsa um frí. Þó ekki séu heyannir hjá mér lengur, er samt annatími.


Sumarið hefur verið gott og gjöfult. Þá ekki bara af veraldlegum gæðum, jafn góð og þau eru, heldur af vináttu og samfélagi við þá sem ég elska. Garðurinn minn er í blóma. Það er auðlegð sem skiptir máli.


Þó ég sé ekki endilega ánægður með alla er ég samt ánægður með ykkur flest, þannig er bara flóran og ég er virkilega ánægður með lífið eins og það er.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Það er mikill...

...annatími á vegunum núna, kannski ekki úr vegi að minna á orð formanns umferðarráðs frá því í júlí í fyrra: ”Það er betra að halda lífi en áætlun.”
Höfum það hugfast og flýtum okkur hægt.

laugardagur, júlí 07, 2007

Borgarfjörðurinn fallegur

Skrapp í vinnuferð í Húsafell til að setja niður heitan pott og klæða utan um hann timbur.
Það gekk hratt og vel fyrir sig. Mývargur reyndi að gera mér lífið leitt en tókst ekki því ég beitti krók móti bragði og setti á mig net.
Ég kom við hjá skólabróður mínum sem á sumarbústað í Vatnaskógi. Hann vantar að láta smíða verönd kringum bústaðinn sinn og biðlaði til mín með mannskap í það. Það verður að koma í ljós hvort ég anni því.

Mikið annríki einkennir dagana núna. Ég ætlaði að vera í fríi að mestu leiti þessa vikuna enda Erlan mín í fríi. Það hefur ekki tekist alveg eins og ég hefði kosið en ég sé fram á bjartari tíð næstu daga.

Ég ætla að skreppa í bæinn á eftir með Erluna og finna á hana galla svo við getum krúsað saman á hjólinu austur í sveitir.
Föðurlandið freistar. Freistingar eru víst gerðar til að falla fyrir þeim, svo við verðum á Föðurlandi um helgina. Þar er auðvelt að eiga góðar stundir. Kvöldin fara einstaklega vel með okkur. Oftast dettur á logn þegar sólin sígur niður og fuglarnir halda uppi fjörinu með ákaflega fallegum tónum. Þá er gaman að sitja á veröndinni með ost og rauðvín eða fara í göngutúr og njóta þess að vera hluti þessarar tilveru.
Tvenn hjón hafa tekið sér búsetu hjá okkur á Föðurlandinu. Hvorttveggja Þúfutittlingspör. Það eru komnir ungar hjá báðum fjölskyldunum. Vonandi tekst þeim að koma þeim á legg.

Kominn tími á kaffibollann með konunni fyrst hún er komin niður svona “snemma”.

Njótið daganna því þeir eru góðir....!

þriðjudagur, júní 26, 2007

Alltaf jafngaman....

.....í veiðiferðum okkar frændanna. Þórisvatn er alveg sérstakt vatn að veiða. Auðn, svartur sandur, varla stingandi strá nokkursstaðar. En fallegur fiskur og sá bragðbesti sem ég veit um.
Það veiddist minna en árin á undan. Ég veit ekki ástæðuna. Aðstæður voru eins og best er. Gola, mikill hiti og lítið í vatninu. Ég fékk þó mest að vanda :-)
Ég hafði gaman af óhörðnuðun veiðisálum, sérstaklega fyrri daginn. Heiðar fékk góða byrjun. Gumaði af, enda alls óvanur þess háttar. Hann fékk gott forskot á hina og hefði því átt að fara með flesta fiskana heim. Aflatölurnar enduðu þó ekki fjarri hlutfalli undanfarinna ára. Ég held samt að allir hafi farið sáttir heim. Kannski síst Hlynur þar sem veiðigenin urðu eftir heima svo aflinn hans var ekki alveg skv. hefðinni.

Ferðin var ljúf og góð í alla staði og gott ræktunarstarf fyrir frændgarðinn okkar, einskonar vökvun. Sennilega friðardúfa sem sést á myndinni ef hún er stækkuð.....varla fluga.
Ég er ánægður með þessa hefð okkar að fara svona saman í veiðitúr.



Að öðru, þá var ég með kvikindi í pössun un helgina síðustu. Það var vélfákurinn hans Kidda mágs míns. Ekki að ég sé óánægður með minn eigin, hann er bara allt annars eðlis. Kiddi á stórt mótorhjól sem ég leit eftir meðan hann var í Danmörku. Á sunnudaginn komu hér Baddi og Jakob félagi hans á sínum fákum. Ég slóst í för með þeim. Þingvallahringurinn var þræddur í blíðskaparveðri og góðum félagsskap.




Þetta var stórskemmtilegt og á vonandi eftir að endurtaka sig einhverntíman.




Við sátum hér úti á veröndinni áðan í sól og roki. Hitarinn gerir að verkum að hægt er að sitja úti þótt hitastigið sé ekki svo hátt. Við urðum vör við óvenju mikið af geitungum. Þegar við fylgdumst með þeim kom í ljós að þeir hurfu undir sólpallinn hjá okkur. Kvikindin eru að gera sé bú hér undir pallinum..... hrmpff.
Ég neyðist til að gera ráðstafanir til að drepa þá. Kannski tala ég bara við meindýraeyði, það er auðveldast. Eða set mig í stellingar og geri atlögu að þeim með því að rífa pallinn í fullum herklæðum, og finna búið.
Jú ég hef verið svo kátur með allt lífið hér í kring en geitungar eru illa innrættir. Þeir kunna ekki einu sinni lágmarkssamskipti við fólk.
Það undarlega hefur samt gerst að Erlan mín er hætt að garga þegar hún sér þá, heldur fullri ró sinni og nær í flugnabana. Það er af sem áður var.

Sumarið er tíminn........ sagði veiðimaðurinn
Ég er sammála.

þriðjudagur, júní 12, 2007

Dagarnir eru góðir...

...eins og við er að búast. Ég var að koma úr ferð inn á Uxahryggi. Enn að vinna aðeins fyrir Hjalla bróðir. Það er fallegt á fjöllum því verður ekki neitað. Skjaldbreið, Kvígindisfell og Botnsúlur kölluðust á í góðviðrinu. Það er þessi einstæða fjallakyrrð sem hefur svo róandi áhrif á sálartetrið sem er svo góð.

Þórisvatn er handan hornsins. Þar er fjallakyrrðin áþreifanleg, einstök í þessari svörtu auðn. Það er rétt vika þangað til við förum í frændaferðina, ég, Rúnar, Gylfi, Heiðar og Hlynur.
Þessi ferð verður góð ef að líkum lætur. Í fyrra var þetta einskonar óður til fortíðar. Við vorum nefnilega allir leikfélagar þegar við vorum snáðar. Stóru og litlu strákarnir.
Þeir litlu voru reyndar miklir nördar í augum okkar stóru, eltu okkur á röndum og létu okkur fullorðna fólkið aldrei í friði.
Þeir elta okkur enn. En í dag erum við allir jafnaldrar og munurinn vart sjáanlegur.
Ég hlakka til samfélagsins við þá .......og að halda áfram að kenna þeim undirstöðuatriði veiðinnar og sjá þá ná betri og betri tökum á þessu, já já.

Hér var mikið skvísupartý þegar ég kom heim. Kvennópíur, fjórar skólasystur Erlu, Helga, Elínborg, kölluð Ella, Guðrún og Selma komu hér í heimsókn í húsið við ána. Þær virðast alltaf skemmta sér vel þegar þær hittast, enda alltaf verið vinkonur. Það er gott þegar vinabönd halda þótt fólk fjarlægist með árunum.
Lífið snýst nefnilega um fólk og vináttan er eitt það mikilvægasta sem við eignumst á lífsleiðinni. Hún er alvöruhlutur sem skiptir meira máli en flest annað þegar öllu er á botninn hvolft.

Það er mikið að snúast hjá mér þessa dagana. Ég er að bæta við Pólverjum hjá Lexor. Starfsemin vex þéttingsfast, bæði í byggingunum og lögfræðinni.
Ekkert nema gott mál.

laugardagur, júní 09, 2007

Það er komið sumar

Sólin kannski ekki hér akkúrat núna en þurrt og hlýtt. Ég er þessi lukkunnar pamfíll eins og þið vitið að búa hérna í sælunni, en nú hefur alvara lífsins tekið við. Ég er að taka mótorhjólapróf. Fór í vikunni í bóklega prófið ... og gekk bærilega. Núna í dag er svo verkleg kennsla. Þrír stuttir klukkutímar milli matar og kaffis. Baddi er með mér í þessu.
Miðaldra kallar eru víst uppistaðan í þessu mótorhjólaæði sem nú tröllríður landinu. En strákar eins og við megum líka vera með....
Það verður svo þrautin þyngri að finna hjól sem er nógu stórt fyrir okkur bæði og veskið samþykkir. Oft einhver óþverraskapur í því við okkur.

Erling Elí dafnar vel. Við heimsóttum þau í gær, borðuðum saman pizzu al-a Karlott og mjúkan ís. Það var gaman. Sá stutti líkist móður sinni.... og þar með afa, sem er ekki leiðinlegt. Það styttist í að sýna honum nokkur undirstöðuatriði í veiðinni. Best að byrja snemma þá verður þetta eiginlegra.
Í þessari ætt eru veiðigenin fljótandi í æðum, bæði karla og kvenna.

Það er kominn tími á kaffitár með konunni fyrst hún er vöknuð. Að setjast út á fákinn okkar í góða veðrinu og krúsa austur í sveitir verður að bíða um sinn.
Sjáum til hversu lengi.

sunnudagur, júní 03, 2007

Lítill herramaður fæddur.

Þær fréttir hef ég að færa hér að lítill drengur er fæddur inní okkar ört stækkandi fjölskyldu. Það markar tímamót að drengur fæðist en 9 stúlkur höfðu komið í röð.
Tölfræðin segir að líkurnar á að enn fæddist stúlka væri orðin yfir einn á móti þúsund þótt auðvitað séu líkurnar alltaf 50% við hverja fæðingu.



Afinn er sérlega stoltur því honum veittist sá einstæði heiður að barnið heitir í höfuðið á honum. Hann heitir Erling Elí Karlottsson.
Og það verð ég að segja að meiri heiður hefur mér ekki hlotnast á minni löngu ævi.
Ég er þakklátur maður fyrir þá auðlegð sem mér er færð og finn mig lítils verðugan slíkra gjafa.



Stóru systur lítla bróður voru hjá afanum og ömmunni í dag og fóru með okkur áðan að kíkja á nýja snáðann. Hann er kröftugur og myndarlegur og sver sig í ættina með sóma.





Eins og ég hef sagt ykkur áður, við Erla erum rík.... moldrík.