föstudagur, september 28, 2007

Fjölskyldufundur.....

....var haldinn með lækni og hjúkrunarliði á sjúkrahúsinu í dag vegna Hjalla. Þar var nokkrum staðreyndum málsins teflt fram af fagfólki. Hjalli er með alvarlega lömun í vinstri hlið líkamans. Hann er með bjúg í heilanum sem orsakar þrýsting sem mun hjaðna á næstu vikum. Blóðþrýstingurinn þarf að vera hár meðan bjúgurinn er til staðar til að yfirvinna þrýstinginn inni í höfðinu svo eðlilegt blóðflæði verði um heilann.
Hann er með svokallað gaumstol (hef ekki heyrt orðið fyrr) sem þýðir að hann hefur ekki skynjun til vinstri, veit varla um vinstri hliðina á sér. Þetta gaumstol er að sögn læknisins alvarlegra en lömunin sjálf því ekki er hægt að þjálfa neitt upp nema þetta gaumstol minnki eða hverfi. Hann gaf þó góða von um að þetta gengi til baka vegna þess að blæðingin var svo djúpt inni í heilanum. Það hefði litið verr út ef blætt hefði nær heilaberkinum.
Það er ljóst að núna tekur við mikil vinna og erfiði hjá honum og fjölskyldunni. Það kom að því að vestfirska þrjóskan sem hann er þekktur fyrir kemur að gagni.
Allavega mun viljastyrkur og dugnaður koma að góðum notum við átökin framundan.

Hlutverk okkar hinna er það sama og Péturs forðum þegar hann læknaði lama manninn við Fögrudyr “Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef gef ég þér, í nafni Jesú Krists statt upp og gakk”
Kannski ekki í orðsins fyllstu þar sem slíkt krefst gríðarlega sterkrar trúar, eeeen.....
“Postularnir sögðu við Drottinn: Auk oss trú”. Það var snilldarbæn. Það er jú víst trúin sem fytur fjöll og reisti við lama manninn. Höfum þetta því hliðar bænina okkar.

Við tökum upp kartöflur á hjánum. Við uppskerum andlega hluti, (bænasvör)
.....oftast líka á hnjánum.

fimmtudagur, september 27, 2007

Hjalli...

...var aftur með hita í morgun, 38 gráður. Hann hefur ekki fengið máttinn aftur í vinstri hliðina. Talaði við Sigrúnu í dag, hún sagði hann aðeins slakari í dag en í gær. Blóðþrýstingurinn er samt mun betri.
Bænin skiptir máli, það hafa vísindamenn getað sýnt fram á. Ég held í það hálmstrá að bænir margra hafi vægi á þessari vogarskál, og hún fari að síga í rétta átt. Því bið ég ykkur að halda áfram og toga fast í bænaspottann.
Eitt atriði benti Kristur okkur á í Matteusarguðspjalli varðandi bænina, hann sagði: "Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim". Langar að planta þessu versi í ykkur varðandi Hjalla

....og biðja ykkur að vera einhuga um eitt aðalatriði. LÆKNINGU......!

miðvikudagur, september 26, 2007

Enn af bróður......

Ég hitti hann í dag. Hann lítur betur út. Ekki eins þrútinn og skilst betur það sem hann segir. Hann fékk 39° hita í gærkvöldi og var fárveikur. Læknarnir óttuðust að þetta kynni að vera þvagfærasýking eða jafnvel lungnabólga.
Þeir dældu í hann breiðvirkandi pensilíni sem virkaði svona vel að hitinn var að mestu farinn í morgun.
Hann hefur enn engan mátt. Reyndar taldi sjúkraþjálfari sem kíkti á hann í morgun að hann greindi smá viðmót bæði í handlegg og fæti. Ef það reynist rétt er það kannski eitthvað sem hægt verður að byggja á þegar kemur að þjálfun.

Hafið bestu þakkir fyrir fyrirbænir og kveðjur.

þriðjudagur, september 25, 2007

Meira af Hjalla...

Ég heimsótti hann í dag á spítalann. Líðan hans er eins. Hann hefur ekki fengið neinn mátt ennþá vinstra megin og blóðþrýstingurinn er allt of hár. Ég sá mælirinn slá í 205/103 sem er hættulega mikið. Það heyrist vel á honum að sinnið er í góðu lagi, virðist vera bara líkaminn, sem er samt auðvitað ekkert bara, hann er lamaður.
Ég bið enn um fyrirbæn fyrir honum. Biðjið Þann sem öllu ræður að skrúfa niður þennan háa þrýsting því hann hlýtur eðlis síns vegna að auka hættu á annarri blæðingu.

Biðjið líka fyrir Sigrúnu og fjölskyldunni, þetta er mikið áfall fyrir þau öll.

mánudagur, september 24, 2007

Hjalli bróðir minn...

...er ekki vel haldinn núna. Flestir lesendur mínir vita um heilablæðinguna sem hann lenti í á föstudagskvöldið. Hann er algjörlega lamaður vinstra megin og er með bjúg á heila sem þó er ekki svo svæsinn að opna þurfi höfuðkúpuna, allavega ekki ennþá. Hann sefur mikið og mókir en er alveg klár í kollinum, er að velta fyrir sér vinnunni, hvað þurfi að gera á morgun og þessháttar. Á þó erfitt með tal. Það blæddi hægra megin sem er betri helmingurinn, sagði hjúkrunarfræðingurinn. Það er að segja að það er skárra að blæði þeim megin, það skemmir síður sinnið, en lamar líkamann.

Það er vont að horfa á bróður minn svona á sig kominn. Ég bið þess að Guð gefi honum máttinn aftur. Það verður erfitt fyrir orkubolta og lífskúnster eins og hann að takast á við hjólastólinn ef hann er framtíðin, þó auðvitað verði það þakkarvert ef ekki fer verr.

Ég biðla til ykkar sem lesið bloggið mitt að bera hann bænarörmum næstu daga, þeir skera úr um hvernig honum reiðir af.

Já dagarnir eru misgóðir.........!

fimmtudagur, september 20, 2007

"það eiga ekki alltaf allir vísa heimferð"....

....sagði hann við mig hjálparsveitarmaðurinn sem ég talaði við í dag upp við Sog, reyndur miðaldra karl. Það getur verið hollt að hafa þann vísdóm með sér í ferðalagið.
Ég er að fara í veiði um helgina og ætla að hafa þetta í farangrinum mínum sem varnaðarorð.
Það er gremjulegt hversu oft er stuttur spottinn sem skilur milli feigs og ófeigs.
Ég hef oft vaðið straumvötn og þekki kraftinn í ólgandi vatninu. Oft hef ég hugsað um, hvað ég gerði ef hann felldi mig...? Maður reiknar með að synda til lands sem líkast til er mikil bjartsýni. Gráðurnar eru ekki margar í íslensku fjallavatni og eflaust auðvelt að krampa.

Þessi vesalings maður sem týndist í Soginu og lítil von er til að finna, hefur vafalítið hugsað á svipuðum nótum.

Biðjum fyrir fólkinu hans sem bíður vonlítilli bið eftir fréttum, jafnvel bara að hann finnist... lífs eða liðinn og sérstaklega fyrir syninum sem var með honum við veiðarnar.

Biðjum um líkn með þraut.

sunnudagur, september 16, 2007

Skall hurð nærri hælum

Það er ljóst að veturinn ætlar að banka snemma uppá þetta árið. Í gær var vetrarlegt um að litast hér og ekki nóg með það heldur fylgdu umferðaróhöpp eins og gjarnan verður þegar fyrsti snjórinn (slyddan) fellur. Ég verð nú að segja að mér finnst hann freklega snemma á ferðinni í ár, varla komið haust.

Ég er þakklátur maður.
Hrundin mín fór af stað til höfuðborgarinnar í gærkvöld. Ég hafði skoðað vefmyndavélina sem staðsett er á Hellisheiði á internetinu áður en hún fór og sýndist marauð gata.
Stuttu eftir að hún lagði af stað var kominn þykkur krapi á veginn.
Eins og reyndir bílstjórar vita er það eitt allra hættulegasta færi sem hægt er að aka í. Við erum auðvitað ekki búin að skipta yfir á vetrardekk því skv. mínu dagatali á að vera nánast sumar ennþá.

Hún missti stjórn á bílnum og hann snerist í hring á veginum eftir að hafa farið yfir á rangan vegarhelming áður og stoppaði hálfur útaf að aftan. Þarna er bratt niður og skurður. Ég er þakklátastur fyrir að ekki var umferð á móti á þessu augnabliki, að enginn var á eftir henni sem náði ekki að stoppa og skurðurinn tók ekki á móti henni. Hellisheiðinni hafði verið lokað vegna slyss svo hún sneri við heim. Á heimleiðinni missti hún svo bílinn aftur....... án slyss.

Hverjum er ég þakklátur? Þeim sem ég hef beðið um að vera með henni og gæta hennar á vegum hennar frá því hún fæddist. Ég þakka þetta varðveislu Guðs, hef enda engan mælikvarða sem sannar það eða afsannar, bara trúi því.

Annað er það að frétta héðan úr sveitinni að við vorum með matarklúbb í gærkvöldi. Kiddý og Baddi ásamt Heiðari og Sigrúnu voru með okkur. Það var skemmtilegur góðra vina fundur og maturinn hennar Erlu eins og henni einni er lagið.

Matarklúbbar eru skemmtileg fyrirbæri sem sælkerar vítt og breytt stunda..... jafnvel víðar en í mannheimum.

Á tveggja mánaða fresti hittumst við hjá hvert öðru og bjóðum til sælkeraveislu. Þá er tjaldað því besta hverju sinni og eldað af mikilli innlifun.
Undir miðnætti í gærkvöld var svo heljarinnar flugeldasýning í tilefni kvöldsins. Risa flugeldar, tívolíbombur eins og þær gerast flottastar, risa kökur sem skjóta í nokkrar mínútur og glæsileg blys. Það var toppurinn.
Reyndar var sýningin hugsanlega ekki bara í tilefni matarklúbbsins. Það er einn annar möguleiki. Það kann að vera að 60 ára afmæli Selfosskaupstaðar hafi haft einhver áhrif á þetta líka........ Það verður allavega, hvernig sem á það er litið, erfitt fyrir þau að toppa okkur eftir þetta.

Erlan var að koma niður enda hennar tími kominn (hádegi) svo ég ætla frekar að fá mér morgun....eða öllu frekar miðdags kaffi með henni.

Njótið dagsins, hann er góður.

laugardagur, september 08, 2007

Heima...

...er best. Þrátt fyrir vel heppnaða ferð og mikið afslappelsi í sól og hita ásamt vellystingum í góðra vina hópi verð ég að segja að ekkert jafnast á við að koma heim til sín. Ísland er alltaf best hvernig sem á það er litið.
Við lentum á Keflavíkurflugvelli um átta leytið í gærkvöldi. Íslenska veðráttan tók á móti okkur opnum örmum, hressilegum. Tilfinningin að lenda á þessu ástkæra landi er alltaf blendin væntumþykju og þjóðrækni, jafnvel svolítilli þjóðrembu. Það er sama þó komið sé úr heitu loftslagi suðrænna landa inn í ískulda norðursins, sem þó átti ekki við í þetta sinn, finn ég alltaf þessar sömu heitu tilfinningar til landsins.
Ég gæti aldrei flutt mig búferlum til annars lands, held að þjóðræknin í mér myndi aldrei hleypa mér.

Ég vaknaði nokkuð snemma í morgun og kíkti út. Það var allt eitthvað svo ferskt og svalandi. Búið að rigna mikið og áin ekki lengur eins og saklaus bergvatnsá, orðin eins og hún á að sér að vera, mikil og voldug.

Ég fór í göngutúr upp með henni í morgun, meðan Erla svaf ennþá, og var með myndavélina góðu að vopni. Haustlitirnir eru farnir að láta kræla á sér þó ekki fari mikið fyrir þeim ennþá. Þeir eru endalaus myndefni og gaman að láta ímyndunaraflið leita að fallegum myndum. Árangurinn er auðvitað misjafn en stundum hittir maður á eitthvað sem úr verður eitthvað fallegt og þegar best tekst til jaðrar við að til verði listsköpun, pínulítið stolið brot úr stórkostlegu listaverki skaparans. Þetta hefur að gera með nógu margar endurtekningar. Taka margar myndir þá er líklegt að nokkrar verði góðar. Svolítið í ætt við máltækið: Oft ratast kjöftugum rétt á munn”. En samt er það fyrst og fremst myndefnið sem oft er svo fallegt að erfitt getur verið að taka ljótar myndir af því.
Íslenskt haust er svo litríkt og fallegt. Þá er oft auðvelt að fanga fallega liti og tilbrigði náttúrunnar. Eins er haustið mér alltaf áminning um hversu hringrás tímans fer sínu fram og gerir ekki greinarmun á kóng eða presti, manni eða skepnu. Árin tikka.

Enn einu sinni er komið að árlegri haustveiðiferð okkar bræðranna. Hún er orðin hefðuð og á sérstakan sess hjá okkur, heil helgi tekin í að leika sér á veiðilendum Fljótshlíðar sem auðvitað eiga sér enga líka. Þar liggja enda bernskusporin okkar þótt auðvitað hafi fennt í slóðina víða. Veiðiferðin verður oft uppspretta gamalla minninga sem við rifjum upp og höfum ánægju af.

Við fengum góðar heimsóknir í dag. Allar stelpurnar okkar og hluti barnabarnanna komu. Við áttum góðan dag í faðmi fjölskyldunnar. Erla bakaði pitsur eins og henni einni er lagið. Sjávarréttapitsan hennar á sér enga líka, að ég best veit....!
Barnabörnunum virðist líka vel að kíkja í sveitina. Sagt er að dóttursonurinn og nafninn líkist afa sínum, blessað barnið getur ekki gert að því en ekki verður annað séð að sögn kunnugra að afanum þyki það ekkert sérstaklega leiðinlegt.

Ég ætla að henda nokkrum myndum morgungöngunnar hér inn, svona að gamni. Svo þið gleymið ekki hvað bakgarðurinn okkar er stór og víður ...og fallegur.....!





Fann engan fjögurrablaða.... en breiðu af þriggja












Reyniberin í garðinum mínum, það er komið haust











Anker sem hefur skilað hlutverki sínu









Hér er lífið í hnotskurn... stutt inngrip í söguna. Það er eins og mýflugan þarna viti það.
Ég kann orðið nokkuð vel við mýflugur eftir kynni mín af frænkum hennar í suðurhöfum Moskító ...andstyggðar kvikindi.








Lággróðurinn roðnar, hrörnar......og deyr.






Góður dagur runninn.