fimmtudagur, maí 29, 2008

Katastrofa...

....segja þeir í Póllandi. Ég var fjarri þegar skjálftinn reið yfir. Var akandi á leið til byggingafulltrúa á Hvolsvelli með teikningar.
Ég fékk hinsvegar símtal rétt mínútu eftir skjálftann og brunaði af stað á Selfoss.
Aðkoman..... vægt til orða tekið... allt í skralli.

Húsið okkar er samt alveg óskemmt en glingrið hennar Erlu endaði margt tilveru sína. Verst með það glingrið sem á sér sögu, keypt í ferðum okkar víða, tengist margt góðum minningum.
Ég set hér nokkrar myndir, þær segja meira en mörg orð.







Efri hæðin .......











Fjölskyldumyndirnar....











Þvottahúsið




















efri hæðin aftur













Eldhúsið....

sunnudagur, maí 25, 2008

Helgin og minningar

Ilmandi graslykt leggur inn til okkar úr garðinum. Ég sló flötina í dag og eins og alltaf, fylgir því svona indæll grasilmur. Fyrir mér er þetta ekki bara einhver lykt heldur tengi ég einhverjar ljúfar gamlar minningar við hana. Ég sé fyrir mér sólríka daga í sveitinni þegar ég var lítill snáði í hvítbotna gúmmískóm, alltaf hlaupandi og lífið allt framundan. Hænsni liggjandi í gömlum haugum sem á óx arfi, gerandi sér holur sem þær rótuðu í á sinn sérstaka hátt liggjandi ofan í holunni. Þær rótuðu mold einhvernveginn upp um vængina, eins og þær væru að reyna að moka henni ofan á sig, kroppuðu svo makindalega með hálflokuð augun af vellíðan í sólinni.
Þessi hey- eða graslykt sem var svo megn í hitanum ásamt maðkaflugusuði sem lét einhvernveginn svo vel í eyrum, gerir þessi minningarbrot friðsæl, ljúf og áhyggjulaus.

Eitthvað í þessa veruna skýst upp í hugann við ilmandi töðulykt.

Annars vorum við á Fitinni í gær. Ég er að reisa annan kofa á lóðinni. Eins og þið vitið sem þekkið mig er ég orðinn hálfgerður ættargúrú. Á orðið heila ætt eða hér um bil. Fjölskyldan hefur stækkað hratt og pínulitli kofinn rúmar fáa.

Ég steypti undirstöður á föstudaginn og vann svo í gólfgrindinni í gær, þangað til við fórum í fimmtugsafmæli Auju mágkonu minnar. Afmælið var haldið í veislusal á Hellishólum í Fljótshlíð. Merkilegt hvað hægt er að gera fjós vistlegt. Þetta var ærleg veisla með veislustjórn og öllu. Þarna hitti ég nokkra gamla sveitunga mína sem gaman var að spjalla við. Eins áttum við gott samfélag við afmælis”barnið” og aðra meðlimi fjölskyldunnar.

Veðrið var yndislegt á Fitinni í morgun, glampandi sól og hiti. Við fórum samt snemma eða um hádegisbilið. Önnur afmælisveisla var í sigtinu. Thea dóttir Theodórs varð tvítug. Það var líka fínasta veisla og samfélag vina og vandamanna. Við áttum svo samfélag hér í húsinu við ána með nokkrum dætra okkar, öðrum tengdasyninum og barnabörnum. Það er gott að fá að vera hluti af svona sterkri heild, fjölskyldu sem stendur saman gegnum súrt og sætt.

Ég er ríkur maður, blessaður með miklu barnaláni og giftur þvílíkri gersemi.

sunnudagur, maí 18, 2008

Prjónað af fingrum fram.

Ég er að skipta um þak á bernskuheimili mínu þessa dagana. Þar býr Hansi bróðir minn eins og lesendum þessarar síðu er flestum kunnugt. Hann hefur nefnt þetta við mig í nokkurn tíma hvort ég geti skipt um þakið fyrir hann.
Það verður gaman að sjá húsið með nýjan hatt. Það verður háreistara, þar sem þakið hækkar um 25 cm. Eins verða settir verklegir þakkantar hringinn í kring. Ég hlakka til að ljúka þessu verki. Ég held að húsið verði mun fallegra við þessa breytingu. Það vekur athygli mína að sjá að pabbi hefur líklega smíðað þakið í nokkrum áföngum. Það er prjónað á húsið jafnóðum og hann hefur byggt við. Það hefur ekki skipt öllu máli hvort hallinn væri sá sami á þekjunum, aðalmálið að rigningin héldist úti. Praktíkin allsráðandi. Ég verð að nota sömu aðferðafræði. Nýja þakið er prjónað ofan á gamla, alveg eins í laginu.

Ég var fyrir austan áðan. Var að hjálpa Hlyn að koma reisningu nýja hússins af stað. Þetta verður mun betra hús en gamla húsið (verðum við að vona). Það þarf reyndar ekki að vera mjög gott til þess...! Ég sá að maðkurinn er farinn á stjá í víðinum hjá mér fyrir austan svo ég verð að fara að eitra fyrir honum svo hann geri ekki skaða eins og fyrir tveimur árum. Ég fór hjólandi auðvitað. Alltaf jafngaman.

Er nýkominn heim, búinn að snæða og spjalla við fólkið mitt sem var í heimsókn. Núna er ég sem sagt sestur niður og farinn að skrifa. Ég sit við opinn gluggann og hlusta á vorhljóðin utandyra. Góður tími vorið.

Það er mikið að gera hjá mér þessa dagana svo það er gott að gíra niður í stóíska leti hér á árbakkanum. Húsið við ána er afstressandi, það gerir árniðurinn og nálægðin við náttúruna.

Hér er ró og hér er friður, hér er gott að setjast niður.

mánudagur, maí 12, 2008

Helgin var góð.

Við skruppum í kofann á laugardags eftirmiðdag. Það var ljúft að vanda. Núna er fuglalífið í algleymi. Ótrúlega skemmtilegt að vakna við sinfóníuna þeirra. Ég vaknaði upp um sex leytið á sunnudagsmorguninn við nótu sem átti ekki að heyrast í þessari sinfóníu. Ég lá og hlustaði hvort ég hefði heyrt rétt, og jú það var rétt, þarna einhversstaðar í nágrenninu var hani að vekja sínar hænur til morgunverka.
Hanagal, rammíslenskt eins og í gamla daga. Ég verð að segja að mér fannst það bara vinalegt og skemmtileg aukanóta í sinfóníuna.

Á sunnudeginum voru gestakomur. Gylfi og Christina kíktu óvænt, voru í bíltúr og sáu að við vorum komin, þau voru drifin í kaffitár. Meðan þau voru hjá okkur hringdi síminn og Kjartan og Sue boðuðu komu sína. Þau birtust einni mínútu síðar, voru rétt hjá okkur. Alltaf gaman að fá gesti. Hildur systir kíkti svo þegar þau voru að fara.
Hjalli bróðir var í sínu húsi ásamt konu og einhverju af börnum. Við sátum góða stund og spjölluðum við þau og Hansa og Auju sem kíktu líka þangað.
Þar sem Erla hefur ekki verið sérlega hress (kvefuð) undanfarið ákváðum við að drífa okkur heim í eftirmiðdaginn. Það er alltaf gott að koma heim. Grilluðum svínahnakkasneiðar fyrir okkur og youngsterinn sem var heima að læra, enda á kafi í prófum.

Í dag komu svo allar hinar skvísurnar okkar með sitt fríða föruneyti, nema stelpurnar hennar Örnu en þær voru hjá pabba sínum. Það var glatt á hjalla eins og venjulega þegar við hittumst öll. Einstaklega gott að vera svona saman. Við enduðum daginn með sameiginlegum kvöldverði.

Ég skrapp samt í útreiðatúr á sleggjunni (nafnið á hjólinu mínu). Sá skreppur endaði í Fljótshlíðinni. Veðrið var einstakt í dag og gaman að hjóla. Vindurinn hlýr og vorlykt í lofti. Því fylgir mikil frelsistilfinning að þeysa svona með vindinn í fangið.

Núna eru bara róleg notalegheit hér í húsinu við ána, Erlan mín að raða Egyptalandasmyndum í hinni tölvunni og youngsterinn er úti á palli að læra. Henni finnst ekkert notalegra en að læra undir berum himni undir hitaranum á veröndinni. Enda, hvað er betra en íslenska fjallaloftið, árniður og fuglasöngur.

sunnudagur, maí 04, 2008

Hvunndagshetja...

...heldur upp á afmælið sitt í dag þótt hún fylli ekki árið fyrr en á miðvikudaginn næsta 7. maí.
Móðir mín verður 87 ára. Hún er nú á hjúkrunarheimilinu á Vífilsstöðum. Þar hefur hún dvalið undanfarin ár. Henni líður vel þar enda vel um hana hugsað. Hún er með alsheimer sjúkdóminn sem smátt og smátt dregur hana fjær raunveruleikanum og býr henni til nýjan veruleika, eigin hugarheim. Hún á til að þekkja ekki fólkið sitt þó ég hafi ekki lent í því sjálfur ennþá. Oftast er hún kát og hress og syngur mikið.
Ég lít til hennar sem hetju. Lífið hefur sýnt henni á sér tvær hliðar. Önnur er hrjúf og óblíð, krappra kjara og mikils vinnuálags, hin vafin fallegum minningum sveitarómantíkurinnar, bæði í vestfirskri bernsku hennar og svo á góðum stundum í Kotinu þar sem hún naut vina og vandamanna. Oftast þó þjónandi öllum.
Hún kom okkur á legg, átta einstaklingum, við bágan fjárhag og kröpp kjör, oftast. Að auki tók hún oft, ásamt pabba, einstaklinga inn á heimilið. Einstaklinga sem áttu um sárt að binda, gjarnan fjötraðir í áfengi og afbrot.
Aldrei man ég eftir að hafa heyrt hana minnast á þessa hluti eða finnast hún hafa skilað góðu dagsverki.
Þessvegna minnist ég á þetta hér. Hvunndagshetjur eru þessarar gerðar.
Mamma er ein þeirra. Ég setti saman kvæðisstúf fyrir nokkrum árum sem lýsir mömmu vel, hann má finna á þessari slóð: http://erlingm.blogspot.com/search?q=sokka

Ég óska henni til hamingju með afmælið og bið Guð um sérstaka blessun yfir hana.