þriðjudagur, október 28, 2008

Tækifæri

Nú snýst öll umræðan um kreppu. Allir eru uppteknir af krepputali. Allir hafa skoðanir á „þeim“ sem ollu kreppunni. Þessum fáu köllum sem skuldsettu þjóðina með þvílíkum afleiðingum. Krepputalið snýst um tvo póla „Við“ og „þeir“ Ég skynja reiði fólks í garð „útrásarvíkinganna“ svokölluðu. Þeir tóku milljarðana að láni sem eru að sliga okkur núna..... Fíflin.

Það er samt skondið að hlusta á þetta. Því að flestir sem taka til máls þyrftu að taka sér spegil í hönd.... og skoða sjálfa sig. Staðreyndin er nefnilega sú að flestir dönsuðu stríðsdansinn með þeim. Milljarðarnir sem þeir tóku að láni voru nefnilega ekki bara í þeirra staupi. Margir milljarðar runnu í veski venjulegs almúgafólks sem hélt að það væri ríkt af því að það var auðvelt að fá í glasið. Landsmenn flestir staupuðu sig með þeim og tóku þátt í partíinu af lífs og sálar kröftum, út á krít. Og það var drukkið þangað til flaskan var þurr. Um það vitnar lífsstíll langt umfram efni. Nýir bílar allstaðar og flottu húsin út um allan bæ.

Nei timburmennirnir eru ekki bara útrásarvíkinganna. Þeir eru höfuðverkur margra um þessar mundir. Það er gott til þess að hugsa að timburmenn lagast. Líka þessir. Vandinn er að hugsa jákvætt og í lausnum. Kreppan ber nefnilega í sér mörg tækifæri. Ég get fullyrt að það eru fleiri viðskiptatækifæri núna en verið hafa í fjöldamörg ár. Það er líka upplagt að nota þessi tímamót til að breyta um lífsstíl. Hætta að drekka (kreppuvaldandi yfirdrætti og kortaskuldir) og taka upp heimilissiði sem hafa haldið gildi sínu um aldir. Hagsýni og nægjusemi ásamt guðhræðslu.... það er gróðavegur.

Og... hugsa í lausnum...hugsa í lausnum ...hugsa í lausnum.

Þegar þú ferð í brimbrettabrun og aldan kemur á móti þér geturðu annaðhvort gripið ölduna og látið hana bera þig að landi eða látið hana færa þig í kaf. Rístu upp úr vandamálunum og snúðu þeim í sigur, frekar en að láta þau kaffæra þig.

laugardagur, október 25, 2008

Föðursystir mín...

...Margrét Guðnadóttir lést í gær eftir langa baráttu við hvítblæði. Hún sýndi ótrúlegt æðruleysi í veikindum sínum, svo aðdáunarvert var.

Ég votta fjölskyldu og vinum, mínar dýpstu samúðarkveðjur.

þriðjudagur, október 21, 2008

Helgin...

...leið gríðarlega hratt. Við bræðurnir vorum við veiðar. Veiddum vel að vanda, lax og fugl. Veiðar eru afar hollt áhugamál sem endurnærir andann og sálina. Það er hressandi að vesenast um móa og mel í leit að bráð (mat). Kreppan og vandamál heimsins voru alveg víðsfjarri okkur. Þannig var líka um fuglana og fiskana og allt líf náttúrunnar. Kreppan er mannanna verk, byggð á hruni spilaborgar, falsettu sem allt snerist orðið um. Mammón í veldi sínu. Virðist fallvalt.
Lífið heldur áfram, ekkert hefur breyst....nema kerfið sem heldur peningavélinni gangandi.
Verst er að við og komandi kynslóðir þurfum að borga fylleríið.

Það var gott að koma heim eftir veiðarnar. Erlan hafði það notalegt heima á meðan, ein, en leiddist það ekki. Enda getur verið gott, og raunar nauðsynlegt, að vera stundum einn með sjálfum sér, þ.e. ef manni leiðist maður ekki.
Við erum að selja hornsófann okkar úr kofanum (myndir á Erlu bloggi). Ef þið vitið um einhvern sem vantar góðan svefn hornsófa, hringið í mig.

Lexor keyrir enn á fullu afli. Verkefnin hafa sum verið blásin af, en önnur komið í staðinn.
Það hlýtur að vera Guðs blessun þegar flestum vantar verkefni. Veturinn getur orðið strembinn, nema þetta haldi svona áfram....hver veit.

Njótið daganna..... þeir eru góðir, þrátt fyrir kreppu.

laugardagur, október 11, 2008

Var í veiði......!

Er að setja inn myndir og pistil á veiðivefinn.....

Komnar myndir........!

miðvikudagur, október 08, 2008

Kreppufjármál

Við Erla ætlum að fara af stað með lítinn hóp fólks gagngert til að ræða fjármál heimilisins. Til að byrja með verður þetta heima hjá okkur, ein kvöldstund. Við ætlum að fara í nokkur undirstöðuatriði varðandi fjármál, m.a. ætlum við skoða hvernig best er að stýra útgjöldum heimilisins. Við ætlum að ræða með hvaða hætti er best að grípa í taumana ef stefnir í óefni. Við munum skoða áætlanagerð í því sambandi.
Við munum benda á leiðir til verulegs sparnaðar án þess að skerða lífsgæði að neinu marki og skoða í leiðinni hversu neyslulán geta verið hættuleg fjölskyldunni. Við ætlum líka að skoða hvernig maður varðveitir sálartetrið okkar og barnanna okkar í gegnum fjármálalegar þrengingar.
Og síðast en ekki síst ætlum við að skoða hver er besti fjármálastjóri heimilisins (mjög lógískt atriði)
Til að gæta forvitnisvarna bið ég þá sem hafa áhuga á að vera með, að hringja í mig í síma 8212929 eða Erlu í síma 8218313. Nafnleyndar verður gætt.
Dagsetning er ekki alveg klár en þetta verður mjög fljótlega.

Njótið daganna, þeir eru þrátt fyrir allt góðir......

mánudagur, október 06, 2008

Þeir.....

....lokuðu allavega á viðskipti með bréf í bönkunum. Þetta var nú meiri dagurinn svo ekki sé meira sagt. Sýnist ég hafa haft rétta tilfinningu fyrir þessu í morgun..!
Nú gildir sem aldrei fyrr hið fornkveðna. "Guðhræðsla samfara nægjusemi er mikill gróðavegur"
Besta sem hægt er að gera nú er að halda ró sinni, spara, vera nægjusamur og njóta þess sem krepputíð hefur upp á að bjóða, blákalt.

Ef....

...ég væri forstjóri Kauphallarinnar myndi ég hafa hana lokaða í dag. Þetta verður svartur fjármálamánudagur sýnist mér.....!

sunnudagur, október 05, 2008

Erla Rakel Björnsdóttir...

...er fædd. Það var þreytt en yfir sig stolt og ánægð nýbökuð móðir sem hringdi áðan í okkur og tilkynnti nýjan fjölskyldumeðlim.
Ég er hér með orðinn sjöfaldur afi og tek við þeim titli með yfirmáta þakklæti í hjarta og óska nýbökuðu foreldrunum innilega til hamingju með litlu fallegu stúlkuna þeirra sem ber þetta fallega nafn.
Þetta tilkynnir hrærður afinn.........

Hér er komin mynd af litlu hamingjusömu fjölskyldunni.

Ég bið þeim ríkulegrar blessunar Guðs.