föstudagur, mars 27, 2009

Nær er skinnið

Hvað er góð fjölskyldustefna í nútíma þjóðfélagi? Gylfi frændi minn spurði að þessu á statusnum sínum á Fésbók.
Ég skrifaði á móti það fyrsta sem mér datt í hug. "Nær er skinnið en skyrtan"
Þetta er ekki málsháttur eins og margir halda, heldur er þetta tilvitnun í Jobsbók þegar Satan vildi fá að ganga að Job sjálfum eftir að hafa kramið fjölskyldu hans og allt sem hann átti.
Þessi orð eru þegar að er gáð, afar gildishlaðin, og auðvelt að finna þeim stað í lífinu.
Það er bjargföst trú mín að mikil og náin samvera barna og foreldra sé besta veganesti sem hægt er að gefa þeim. Þau læra fyrst og fremst af foreldrum sínum - ef... þau fá tækifæri til þess.
Ég held líka að þeim sé afar nauðsynlegt að finna að þau eigi óskoraðan forgang að foreldrum sínum umfram aðra, bæði fólk og málefni, ekki í orði, heldur raunverulega - gangi fyrir. Að heimilið sé hreiður fjölskyldunnar, uppspretta ánægju og yndisauka.
Áður fyrr á árunum var fjölskyldulíf miklu samofnara, með húslestrum og spjalli. Í dag er sjónvarpið barnapía meðan börnin eru ung, svo verður það gjarnan eins og hver annar fjölskyldumeðlimur og oftast sá sem fær mesta athyglina. Það veit ekki á gott.
Innihaldsríkar samræður um lífið og tilveruna hefur mikið forvarnargildi. "Hvað ungur nemur gamall temur".

Það veltast margir ósjálfbjarga í brimgarði efnahagsólgunnar núna. Unga fólkið sem alið er upp við að fá hlutina upp í hendurnar strax, á hvað erfiðast með að finna sér viðspyrnu þar.
Ég hef þá trú að ef þessu unga fólki hefði verið kennt af foreldrum sínum hvernig ber að umgangast fé, væri það í öðrum sporum núna.
Fyrir nokkrum árum var ég í svipuðum pælingum hér á síðunni. Pistillinn er hér.
"Oft ratast kjöftugum rétt á munn" þá blöskraði mér sóunin og eyðslan hjá fólki. Þetta var samt hófsamt þarna árið 2004 miðað við það sem átti eftir að verða.
Ég held ég verði að vera sammála pistlinum mínum gamla.... og hvetja fólk til að setjast niður með börnunum sínum og kenna þeim að umgangast lífið með varúð þ.m.t. peninga. Það stendur engum nær en okkur, því nær er skinnið en skyrtan...!

föstudagur, mars 20, 2009

Einn góður fyrir helgina

Mafíuforingi, ásamt lögfræðingi sínum var mættur hjá bókaranum sínum og var ekki kátur. Hvar eru fimmtíu milljónirnar sem þú dróst þér? Bókarinn svaraði engu. Mafíósinn spurði aftur. Hvar eru fimmtíu milljónirnar sem þú dróst þér? Lögfræðingurinn ákvað að skerast í leikinn og sagði. Herra, þú veist að maðurinn er heyrnarlaus og mállaus og getur ekki skilið þig. Ég skal túlka fyrir þig. Lögfræðingurinn notaði táknmál til að spyrja bókarann hvar féð væri og bókarinn svaraði á táknmáli að hann kæmi af fjöllum og vissi ekki hvað hann væri að tala um. Lögfræðingurinn túlkaði aftur til mafíósans - hann veit ekkert hvað þú ert að tala um. Mafíósinn dró þá upp níu millimetra skammbyssu og rak hana í andlitið á bókaranum og sagði reiður - spurðu hann aftur hvar í andskotanum peningarnir mínir séu!
Lögfræðingurinn gerði eins og honum var sagt og logandi hræddur bókarinn svaraði: Ókey ókey. Peningarnir eru faldir í brúnni ferðatösku í skúrnum í garðinum heima hjá mér... Mafíósinn leit á lögfræðinginn óþolinmóður og spurði: - Nú hvað sagði hann...?
Lögfræðingurinn svaraði: - Hann sagði þér að fara í rassgat og að þú þyrðir ekki að skjóta.......!

þriðjudagur, mars 17, 2009

Refresh...

...takkinn er mikið notaður núna. Ég á von á tveimur einkunnum í dag úr málflutningsverkefninu. Önnin styttist óðum í aftari endann. Kennslu verður að mestu lokið viku af apríl. Þá hefst prófalestur. Staðreyndin er samt sú að ég er bara í þremur prófum í vor þó ég sé í fimm fögum. Hin tvö sem eftir standa samanstanda eingöngu af verkefnavinnu.

Það er hiti og þokuloft. Einhvernveginn svo vorlegt. Mótast kannski af því að ég sit við opinn gluggann og heyri náttúruhljóðin svo vel. Hlakka til að fá Erlu og Hrund heim á eftir. þó einvera geti verið góð má hún ekki vera of mikil....þá leiðist manni. Sérstaklega svona fjölskyldukalli eins og mér.

sunnudagur, mars 15, 2009

Hart í bak

Við fórum í leikhús í gærkvöldi. Við erum hálfgerðar leikhúsrottur orðnar svo fólk er farið að gefa okkur miða í leikhús t.d. í afmælisgjafir o.þ.h. Það þykir mér algjör snilld. Það á að gefa fólki á okkar aldri eitthvað sem eyðist. Ekki glingur og skraut.
Hart í bak eftir Jökul Jakobsson er flott leikrit. Hvort tveggja er það vel flutt og sagan er skemmtileg ádeila á þjóðfélagið, sem vafalaust hefur ekki verið hugsun höfundarins þegar þetta leikrit var samið árið 1962, allavega ekki á sama hátt og nú er, enda engin brjálæðisleg peningahyggja búin að tröllríða þjóðinni þá þegar verkið var frumflutt fyrir fullu húsi í Iðnó. Gunnar Eyjólfsson leikari sló í gegn með frábærlega flottri túlkun á gömlum blindum fyrrverandi skipstjóra sem hafði strandað skipinu sínu (Gullfossi) óskabarni þjóðarinnar. Flott dramatík hvernig hann endaði ævina í einsemd og að lokum troðið á elliheimili.

Núna sit ég hér einn niðri, við opinn glugga og hlusta á árniðinn. Hann lætur svo vel í eyrum svona á morgnana. Sérstaklega þegar veðrið er svona stillt og fallegt eins og núna, sól í heiði, svo manni finnst jafnvel vorið vera farið að minna aðeins á sig.
Þessi dagur verður annars notaður í lærdóm. Gærdagurinn var svona kæruleysisdagur, lítið lært. Farið í bæinn í afmæli tengdamömmu og svo leikhúsið í gærkvöld. En svona dagar eru nauðsynlegir inn á milli.

Ég er farinn að fá einkunnir úr þessum endalausu verkefnum og er ekki fallinn enn.
Erlan var að koma niður svo "nú er nóg" eins og einhver sagði. Ætla að fara fram og hella upp á tvo bolla af nýmöluðu kaffi, bjóða henni í stofuna í límsófann og spjalla aðeins.
Lífið er dans á rósum....stundum á rósablöðunum sjálfum.

miðvikudagur, mars 11, 2009

GÆS

Maður fær vatn í munninn bara við að sjá orðið á prenti.....! Í síðasta pistli sagði ég ykkur frá endurnærandi semveru okkar hjónanna í kofanum okkar um helgina. Ég las góða bók þar,
"Með lífið að láni" eftir þá félagana og sálfræðingana Jóhann Inga Gunnarsson og Sæmund Hafsteinsson. Mæli með henni, virkilega góð fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegum þáttum tilverunnar.

Eitt atriði bókarinnar fjallar um bættan árangur. Þar segja þeir frá skemmtilegri hugrænni aðferðafræði sem byggir á orðinu GÆS, sem er skammstöfun fyrir - GET - ÆTLA - SKAL!! Sem dæmi um árangur segja þeir eftirfarandi sögu:

Faðir unglingsstúlku hafði áhyggjur af frammistöðu hennar í skólanum, hún var búin að eiga erfitt fyrir próf og stóð sig ekki nógu vel að hans mati. þannig að hann ætlaði að stappa rækilega í hana stálinu. Hann sagði henni frá þessari aðferðafræði GET ÆTLA og SKAL = GÆS.
Hún gæti allt sem hún vildi með því að venja sig á að standa fyrir framan spegilinn og fara með þessi orð, það myndi styrkja sjálfsöruggið.
Svo líður og bíður og stelpan rúllar bókstaflega upp prófunum . Pabbi hennar spyr hana þá, hvað gerðirðu eiginlega?? Þetta er ótrúlegt!!! Þá svarar stelpan.... nú, ég gerði eins og þú sagðir mér að gera, stóð fyrir framan spegilinn og sagði ÖND, ÖND, ÖND!

Máttur trúarinnar er mikill.

sunnudagur, mars 08, 2009

Hver á sér fegra föðurland?

Það eru engar ýkjur, fegurðin í Fljótshíðinni á sér fáa líka. Eftir frekar annasamar vikur undanfarið ákváðum við að skreppa austur á Föðurland. Héðan fórum við í snjóleysi og gæðaveðri. Fljótshlíðin var ekki eins snjólaus. Við sátum föst í skafli, rétt komin á leiðarenda. Ég, öskufúll út í sjálfan mig fyrir að hafa ekki farið á jeppabúrinu, mokaði snjóinn undan bílnum sem losnaði loksins eftir gott stopp, puð og líkamsrækt. Ég bað Erlu að sækja tvær ca. tveggja metra spýtur sem voru þarna nálægt, til að troða undir hjólin. Hún sótti tvær fimm metra... ó ég hélt að þetta væru tveir metrar sagði hún.......konur!

Kofinn tók vel á móti okkur. Ekki ískaldur eins og vanalega, heldur var smá ylur á ofnum sem við skildum eftir síðast þegar við fórum. Kamínan var kynt og fljótlega var orðið hlýtt og notalegt inni. Þetta eru lífsgæði að geta farið þangað og notið sveitarinnar.
Ég var búinn að bíða lengi eftir tilefni til að elda rjúpur sem ég skaut. Fyrir löngu ákvað ég að það hlyti að vera gott að glóðarsteikja þær á grilli. Ég marineraði þær hér heima og sló svo upp tveggja manna veislu í kofanum. Rjúpurnar voru að mínu mati nálægt því að vera það besta sem ég hef smakkað á minni löngu ævi og hef ég nú smakkað ýmislegt. Sterkt lyngbragð og villikeimur sem mér féll svona svakalega við, lungamjúkt kjöt og bragðmikið rauðvín með. Óóótrúlega góður matur. Gæði, gæði, gæði fyrir bragðlauka.

Við áttum svo algeran rólegheitadag í dag, létum kamínuna malla í rólegheitum, gamla klukkan var trekkt upp til að fá notalegt tikkið í gang og fallegan slátt á heilum og hálfum tíma. Svo var lesið (ég) og prjónað (Erla) og drukkið kaffi þess á milli og spjallað um lífið og tilveruna.
Notaleg helgi í Föðurlandi voru og kreppan úti í móa einhversstaðar.

fimmtudagur, mars 05, 2009

Er heima í dag.

Ég átti reyndar að vera í fyrirlestri í vátryggingarétti í morgun. Verð að viðurkenna að ég nennti ekki til Reykjavíkur fyrir tvo fyrirlestra í persónutryggingum, fagi sem ég vann við í tvö ár. Það er búið að vera mikið að gera í skólanum undanfarið, endalaus verkefni. Í gær fluttum við "héraðsdómsmál" varðandi ýmsa riftanlega gerninga í bankafallinu. Tilbúin dæmi auðvitað en líkleg til að koma upp í veruleikanum. Skemmtilegt fag.

Ég er núna sestur niður við verkefni í skuldaskilarétti, efnismikið og feitt.
Hugtakið "rannsóknatengt nám" byggir á þessari aðferðafræði, endalaus raunhæf verkefni, praktík, praktík, praktík. Ég er ánægður með þetta, læri meira á einu svona verkefni en lestri margra bóka.

Það er ánægjulegt hvað daginn hefur lengt. Sveitamaðurinn í mér er farinn að hlakka til vorsins. Það kemur alltaf einhver fiðringur í mig á þessum tíma. Eina sem ég kvíði núna er að þurfa að vera inni að lesa fyrir prófin í vor. Hef oft átt svolítið bágt, hlustandi á vorhljóðin úti, fastur yfir bókunum.

Það er svo sem fátt sem bendir til komu vorsins núna, 7 stiga frost og strekkingsvindur. Húsið við ána kúrir hér á árbakkanum í norðangarranum. Áin er illvíg núna með mikinn klakaburð, samt finna álftirnar sér fæðu innan um krapann, kafa með hausinn niður á botn og virðast finna þar eitthvað sem seður.
Feginn er ég að vera ekki álft....!

sunnudagur, mars 01, 2009

Sviðið er stríð....

Hörmungar sem því fylgja þekkjum við ekki af eigin raun sem betur fer. Það var hrollvekjandi að skyggnast inn í hugarheim stríðsmannsins sem hefur misst allt. Manns sem með brjáluðum hug er orðinn svo tilfinningalaus og gersneyddur öllu sem heitir siðferði, að hann viljandi fremur athæfi og virðist njóta þess, sem aðeins lægstu hvatir mannlegs eðlis geta fundið upp á. Hryllingur, settur fram af ótrúlegri list gerir þetta verk ógleymanlegt. Ingvar E. Sigurðsson er bara snillingur. Þau Kristín Þóra Haraldsdóttir og Björn Thors sýndu líka snilldartakta. Þetta er þríleikur í sérklassa.

Rústað, er ótrúleg sviðsetning og alls ekki fyrir viðkvæma. Ef þú hefur áhuga á verki sem skilur ekki bara eftir amerískan graut þar sem allt endar vel og þau gifta sig, heldur einhverju áleitnu sem langan tíma tekur að meðtaka og melta, gæti þetta verið fyrir þig.

Annars var ég í skólanum í dag. Ég viðurkenni fúslega að það var ekki það sem ég vildi eyða þessum góða sunnudegi í. En svona er lífið, ekki alltaf jólin.
Á að vera að skrifa ræðu núna fyrir munnlegan málflutning sem verður á miðvikudaginn. Ætla að sleppa því í kvöld og taka morgundaginn með trompi í staðinn. Kvöldinu verður eytt með Erlunni og dótturinni í límsófunum. Alltaf jafn gaman að sitja þar og spjalla um lífið og tilveruna.