sunnudagur, nóvember 29, 2009

Bíddu... eru jólin að koma strax....?

það er engu líkara en að jólin séu á næsta leiti. Ég er búinn að sitja með nefið á kafi í verkefnum undanfarið og varla litið upp. Hrekk svolítið við þegar ég heyri að jólalögin eru komin á fullan snúning hér á bæ. Það þýðir bara að aðventan er að byrja og Erlan komin í jólagírinn. Hún er algjört jólabarn stelpan. Hún fer í annan ham þegar aðventan byrjar. Tekur meira og minna niður allt dótið okkar, pakkar því saman og setur upp allskyns jóladót í staðinn sem við höfum safnað að okkur í gegnum árin. Ég nýt góðs af þessu, því ég er ekki sama jólabarnið og hún. Ég met þó mikils að fá að fljóta með og fá svona jólaland án mikillar fyrirhafnar. Ég reyndar fæ að skreyta húsið að utan sem felst í að hengja jólaseríur hringinn í kringum húsið og í nokkur tré og runna í garðinum. Er að reyna að humma það fram af mér eitthvað meðan ég er í mestu törninni.

Ég er reyndar búinn að vera að gjóa öðru auganu annað slagið út um gluggann hér á skrifstofunni minni og fylgjast með snjóbylnum úti. Gatan er líklega orðin ófær núna. Hér eru bílar búnir að vera að festa sig eða öllu heldur bílstjórarnir bílana sína.
Það er ekki laust við að fari um mig notalegir straumar við að þurfa ekkert að fara af bæ þegar veðrið lætur svona. Naga mig samt svolítið í handarbökin að hafa skilið jeppabúrið eftir í bænum.

Snjórinn úti og jólalögin sem óma um notalegt húsið við ána núna gera andrúmið hér ævintýralegt og fallegt. Meira yndið þessi kona. Held ég verði að taka mér smá pásu - ætla að koma jólabarninu á óvart og hita súkkulaði - sykurlaust...? Nei original.

Njótið aðventunnar vinir mínir.

sunnudagur, nóvember 22, 2009

Annir

Það er orðið nokkuð um liðið síðan hér var settur inn pistill síðast. Það er búið að vera mikill annatími í skólanum. Hvert verkefnið hefur rekið annað og sum hver skarast svo sólarhringurinn hefur stundum orðið of stuttur í annan endann. Nú er kennsla annarinnar að klárast og prófatörn framundan svo þetta er ekki búið. Ég verð, ef að líkum lætur, ekki mjög viðræðuhæfur næstu vikurnar.

Dagurinn í dag er samt frekar í notalegri kantinum. Ég svaf óvenjulengi í morgun sem kannski mótast af því að sumir dagar vikunnar hafa lengst hressilega fram yfir miðnættið, sem hæfir mér illa því ég er morgunmaður og fellur illa að vinna á næturnar. Uppsafnaður lúi. En ég er nú samt búinn að sitja hér niðri dágóða stund yfir morgunmat og dagblöðum.
Við förum bæjarferð á eftir í afmæli Katrínar Töru sem verður fimm ára 3. des nk. Íris er alveg á kafi í námsefninu og próf að byrja, því hentar að hafa veisluna núna.
Það verður gott að geta aðeins slakað á eftir þá törn.

Við Erla erum búin að halda upp á afmælin okkar. Samhjálparsalurinn var leigður og Binni kokkur sá um að elda fyrir okkur. Ég er ánægður með hvernig til tókst. Held allir hafi farið heim saddir og brosandi. Takk, þið sem eydduð kvöldstundinni með okkur.

Jæja, Erlan er komin niður og kaffivélin iðar í skinninu.........

sunnudagur, nóvember 01, 2009

Gæsadagur

Margir veiðimenn láta nægja að skera bringuna af gæsinni áður en henni er hent. Það er sóun. Mér áskotnuðust 80 gæsir sem höfðu verið bringuskornar. Kokkurinn sem aðstoðar okkur við veisluna okkar í nóvember sagði mér nefnilega að hann gæti gert ótrúlega góðan rétt úr gæsalærum ef ég gæti útvegað þau. Nú er ég auðvitað að upplýsa hluta af matseðlinum í veislunni, en það er allt í lagi. Það verður m.a. villibráð, gæs og silungur.
Dagurinn hefur því farið í að slíta læri af endalaust mörgum gæsum, og auðvitað skera þær á kvið og sækja lifrina. Hún er, það sem alvöru sælkerar sækjast hvað mest eftir til að leika sér með í matargerð.
Ég á alveg stórgóða uppskrift að andalifrarkæfu sem ég smakkaði fyrst í Perlunni á villibráðarkvöldi, en við karlarnir í Erlu ætt höfum farið í Perluna í nokkur ár á villibráðarhlaðborð. Þeir kunna að kokka þar. Því miður kemst ég ekki þetta árið, en tek upp þráðinn, væntanlega á næsta ári ....eða þar næsta.
Danni bróðir kom hér um miðjan dag í heimsókn. Ólukkans fyrir hann, lenti hann í gæsaaðgerðinni með mér... óvart auðvitað. Hann er duglegur kallinn og það munaði mig heilmiklu að fá aðstoð, takk Danni minn.
Jú jú nú er maður orðinn fimmtugur eins og ALLIR landsmenn vita. Við Erlan áttum miða í Óperuna í kvöld. Ég var orðinn svo lúinn að ég nennti ekki í bæinn. Aldurinn? Eða bara hreinræktuð leti? Miðana eigum við inni hjá Óperunni svo við gerum okkur dagamun síðar.
Núna erum við að spjalla við Hrundina okkar sem var að koma úr frábærri ferð til Parísar. Skype-ið er algjör snilld.
Hafið það ætíð sem best vinir mínir.