miðvikudagur, ágúst 25, 2010

Baugstaðaós

Kallinn kom alsæll heim eftir velheppnaðan veiðitúr í Baugstaðaós. Það er eitthvað við það að vera á ósasvæði við veiðar. Maður veit ekkert á hverju er von þegar bítur á. Baugstaðaósinn fellur vel að þessu. Ég veiddi 7 birtinga og einn lax.
Þarna er öll flóran sem finnst í íslenskum veiðiám. Á háflóðinu var eins og allt færi á suðu. Þá fór hann að taka eins og vitlaus í smástund og svo datt það niður aftur.
Ég hef aldrei séð aðra eins töku og gerðist hjá Hansa bróður. Hann var aðeins úti í vatninu þegar fiskur tekur með svo miklum látum að Hansi hálfsnerist og var nærri dottinn undan átakinu. Þetta var gríðarvænn birtingur sem sleit girnið eins og tvinna. Betra að hafa hjólið rétt stillt. Þarna var bremsan allt of stíf. Það hefði verið gaman að sjá þennan fisk koma á land.

Það verður víst seint sem veiðidellan fer af manni, þetta er veirusýking sem ekki hefur fengist lækning við ennþá. Það vegur samt kannski þyngst að ég hef ekki áhuga á lækningu.
Veiðin er heilbrigt og hollt sport og náttúruskoðun í leiðinni. Big like á það eins og sagt er.

þriðjudagur, ágúst 10, 2010

Pása

þá er það kærkomin pása. Okkur hefur aldrei leiðst Danmörk að ráði ef marka má fjölda ferða okkar þangað. Það má alveg segja að danskurinn hafi hitt okkur sérlega í mark með matargerð og fleiru sem hefur fallið að smekk okkar í gegnum tíðina.
Nú er ferðinni enn heitið þangað. Við bregðum út af vananum í þetta sinn og gistum hjá Bitten og fjölskyldu en Bitten er gömul pennavinkona Erlu frá ómunatíð. Við höfum hist annað slagið og kunningsskapur haldist í gegnum árin.
Síðan förum við norður til Óla og Annette og við náum líka Tedda og Kötu áður en þau koma heim.
Fyrst og fremst er þetta kærkomið frí frá önnum sumarsins. Það verður gott að taka sig frá og njóta þess að vera til, hafa engar skyldur nema að hafa það gott.

Íslandus er í góðum höndum Hrundar á meðan við erum í burtu ásamt starfsfólki sem er farið að ráða betur og betur við starfið.

Njótið daganna gott fólk á meðan við erum í burtu.

mánudagur, ágúst 09, 2010

Gangaþankur

Ég sá um daginn einhversstaðar að kristindómur og Kristur ættu orðið fátt sameiginlegt. Hef hugsað annað slagið um þetta síðan þá.
Margir telja sig kallaða til að prédika kristindóminn og hafi til þess sérstaka hæfileika og óskorað umboð, líkt og Farísear töldu sig hafa forðum. Mér virðist einhvernveginn of fáir þessara útvöldu eiga innistæðu í prédikun sinni fyrir orðunum "gerðu eins og ég geri" í stað "gerðu eins og ég segi".

Það getur svo sem verið að enginn hafi innistæðu til að hvetja til eftirbreytni við sjálfan sig - og þó. Ég gæti bent á örfáa sem ég teldi uppfylla skilyrðin. Þeir aftur á móti, einhverra hluta vegna fara með trú sína eins og gullegg og passa betur upp á hana en öll heimsins gæði og enginn þeirra prédikar - úr púlti. Prédikun þeirra er samt svo hávær að ég heyri ekki til þeirra sem mest láta fyrir þessum lágstemmdu og hógværu prédikurum sem einungis með lífi sínu og verkum fara á stall með Kristi sjálfum. "Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá".
Þá er ég kominn að kjarna þessa örpistils. Orð eru innantómt bergmál þegar verkin segja annað.
Kristindómur snýst gjarnan um orðræður og endalaust meiri orðræður. Kristur talaði líka en verkin undirstrikuðu orðin, hann var m.ö.o. maður orða sinna.

laugardagur, ágúst 07, 2010

Skrapp í veiði

Mér áskotnaðist hálfur dagur í Þverá í Fljótshlíð. Það var gaman eins og alltaf. Ég fékk reyndar engan lax á land þó ég missti fjóra eftir talsverða baráttu við hvern þeirra. Þeir eru nýrunnir núna og silfraðir og því mjög sterkir og sprettharðir.
Heiðar fékk að fara með og fékk maríulaxinn sinn. Hann komst ekki hjá því að bíta veiðiuggann af og kyngja eins og sönnum veiðimönnum ber að gera á fyrsta laxi. Kyndugur svipurinn á andlitinu en hann lét sig hafa það.
Ég fékk hinsvegar fallegan urriða, sennilega nær 5 pundum. Hann var sterkur og gaman að landa honum.

Veiði sumarsins er vonandi ekki þar með lokið enn. Ég hef reyndar oftast veitt mest á haustin þegar sjóbirtingurinn er kominn í árnar. Ég á dag í Baugsstaðaós núna síðar í mánuðinum og svo á ég daga í Vola seinna í haust. Ég er því ekki alveg búinn að gefa upp alla von um að mér takist að safna birgðum fyrir veturinn.
Í millitíðinni ætlum við að skreppa til danaveldis og heimsækja þá bræður hennar Erlu sem þar búa.... ennþá. Það er alltaf gaman að heimsækja Danmörkuna þó ekki vildi ég búa þar.
Það er búið að vera mikið að gera í ísbúðinni í dag þótt hér hafi rignt meira í dag en elstu menn muna. Það hefði dugað að fara með sjampóbrúsann út í morgun og taka sturtuna utandyra.
Við ætlum samt að fara að koma okkur út aftur eftir smá pásu heima. Hrundin er í búðinni núna ásamt starfsfólki.
Gerið eins og ég gott fólk og njótið lífsins.

sunnudagur, ágúst 01, 2010

Síðsumar

Þó mér finnist vorið varla liðið er komið fram á síðari hluta sumars. Annirnar hafa verið þvílíkar að sumarið fram að þessu hefur þotið framhjá á tvöföldum hljóðhraða.
Það er gott að hafa nóg fyrir stafni hef ég alltaf haldið fram og segi það enn. Það er þó allt gott í hófi - vinnan líka.
Við eyddum gærkvöldinu á Fitinni í góðra vina hópi. Ættargrillið var haldið hjá Hildi og Jóa þetta árið og við tókum okkur hlé frá önnum og nutum góðs matar og samfélags við fólkið okkar. Það er svo gott þegar fjölskyldan hittist svona því þetta vefur fjölskylduböndin fastar og hnýtir okkur saman.
Við gistum svo í kofanum í nótt og vorum mætt í ísbúðina um 10 leytið í morgun.

Það er svolítið skemmtilegt hvernig mannskepnan er innréttuð. Til að kunna að meta hlutina rétt þarf maður að hafa eitthvað andstætt til að miða við. Ég segi þetta því það var eitthvað svo óvenjulega góð tilfinning að bruna austur og eiga þessa klukkutíma í frí eftir þessa miklu vinnutörn.

Veðrið hefur verið einstakt í sumar og þessi helgi var engin undantekning. Allt tal um að ekki sé hægt að dvelja í Fljótshlíð eða halda mót vegna ösku blæs ég á.
Ekki væsti um tjaldbúa í Hellishólum og á Langbrók um helgina eða alla hina Fljótshlíðingana sem búa í þessari fallegu sveit og kvarta ekki, enda gróðurinn mikið til búinn að hylja alla ösku - sumt er bara vitlausara en annað, og ekki orð um það meira.

Við erum heima núna að gera vaktaplan fyrir ágústmánuð. Við missum margt af starfsfólkinu okkar í skóla kringum 20. ágúst. Við erum búin að auglýsa eftir vetrarfólki í fulla vinnu og höfum fengið þrjár umsóknir....?
Það vekur furðu okkar að ekki skuli fleiri sækja um í atvinnuleysinu. Eru Íslendingar orðnir svona latir að þeim þyki betra að vera á bótum og gera ekki neitt en að hafa vinnu. Ég held svei mér þá að þetta meinta atvinnuleysi sé stílfærður vandi, að innihaldið sé frekar haugur letingja sem ekki nenna að vinna. Allavega mæla umsóknirnar ekki mikið atvinnuleysi.

Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína í ísbúðina um helgina. Fólk er að uppgötva ísréttina okkar sem við erum mjög stolt af. Við merkjum það í mikilli aukningu í sölu. Það léttir lund að fá svona mikið af jákvæðum kommentum á það sem við erum að gera.
Erla er að klára vaktaplanið, ég ætla að hætta að blogga og færa henni eitthvað gott - hún á það svo skilið þessi duglega kona sem ég á.