sunnudagur, september 26, 2010

Fagurgul og rauð...

...er tilveran mín þessa stundina. Út um gluggann minn sé ég bílinn okkar hristast í takt við vindhviðurnar og regndropana á lakkinu flýja undan rokinu án þess að finna skjól. Vindgnauðið hér í kofanum í bland við taktfast tifið í gömlu klukkunni er óhemju vinaleg laglína. Úti er dæmigert haustveður, rok og rigning og litirnir hér á Föðurlandi eru líka í takt við árstíðina, fagurgulir og rauðir og öll flóran þar á milli. Það er verst þegar gerir svona rok snemmhausts þá vill þetta skraut gjarnan fjúka út í buskann og berangurslegir stofnarnir standa einir eftir. Ég nýt hverrar árstíðar mjög enda er ég sá lukkunnar pamfíll að fá að eyða hverri þeirra með lífsförunaut sem ég elska og dái.
Litið til baka um farinn veg sjást fingraförin okkar beggja á öllu sem við eigum og höfum afrekað. Fátt finnst með fingrafari annars okkar. það er ljúft að eiga svona náinn förunaut. Hún var að skríða á fætur þessi elska þótt langt sé liðið að hádegi, en það er nú ekkert nýtt. Það er þakklátur kall sem skrifar þessar línur.

Við ákváðum að taka okkur frí og skreppa í kofann eina nótt. Grilluð hrefna og gott rauðvín var kvöldsnarlið okkar í gærkvöldi. Smakkaðist vel og ómega 3 fitusýrurnar úr hvalnum gera okkur gott. Við ætlum að vera hér í þessum notalegheitum eitthvað frameftir degi, ég ætla að kveikja upp í kamínunni til að fullkomna notóið.

Gerið eins og við - lifið og njótið.

fimmtudagur, september 23, 2010

Ritsmíðar

Jæja nú er ekki til setunnar boðið lengur...eða kannski frekar, nú kallar skyldan til setunnar. Ég er að reyna að skyrpa í lófana og halda áfram með ritgerðarskrif. Það hefur ekki reynst mikill tími afgangs til skrifa undanfarið vegna annarra verkefna. Ég sat fyrirlestra í Háskólanum í dag um vinnulag við ML ritgerðir. Maður getur lengi á sig blómum bætt og margt kom fram sem gott er að hafa bak við eyrað. Ritgerðarskil eru 15. des. svo ég verð að nota hverja stund.
Sumarið og haustið hafa verið óvenju annasöm hjá okkur hjónunum. Við erum samt ánægð með afrakstur sumarsins - alltaf gaman að skapa eitthvað nýtt.
Nú erum við að leita að nýjum vörum í stað minjagripanna þar sem túristatíminn er liðinn þetta árið. Brainstorming er málið.....

Veiðiferðin okkar bræðranna gekk bærilega, endur og laxar lágu í valnum. Ég er búinn að smjörsteikja önd sem smakkaðist hmmm.... veeeeel, og fara með laxana í reyk. Ég sótti þá í Reykofninn í dag og hafði m.a. reyktan lax í kvöldmatinn, taðreykingin virkar vel maður lifandi, þetta er meira nammið.
Enn er einn veiðidagur eftir áður en vetur kóngur gengur í garð, Volinn bíður - einu sinni, einu sinni enn, það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Jæja kannski ég ætti að fara að snúa mér að ritgerðarsmíðum frekar en að leika mér hér á blogginu.
Eigið góðar stundir gott fólk.

fimmtudagur, september 09, 2010

Ég veiddi, ég veiddi

Smá blogg um það í veiðihorninu mínu hér neðar til vinstri....

þriðjudagur, september 07, 2010

Endurtekið efni.... Voli

Eins og ég hef margsagt ykkur þá er hlutverk karldýrsins fyrst og fremst að veiða fyrir hellisbúa svo þeir svelti ekki yfir veturinn. Ég tek þetta hlutverk mitt allajafna mjög alvarlega. Nú er ég enn á leið til veiða. Þeir sem lesa síðuna mína vita að ég fer stundum í Vola. Svo rík er ábyrgðartilfinningin gagnvart fjölskyldunni að maður lætur sig hafa það þótt spái rigningu og komið sé harðahaust og varla manni út sigandi, ég fer samt og kem færandi hendi heim - skulum við segja.

Hvað sem öllum gorgeir líður hlakka ég til. Veiðarnar eru mér í blóð bornar, líklega að vestan þar sem afi minn var hinn mesti veiðimaður og án gríns þá hafði hann þetta hlutverk sem ég var að guma mig af hér að framan. Hann veiddi árið um kring til að hafa mat fyrir fjölskylduna. Alltaf var nóg til að borða því hann tók hlutverk sitt alvarlega og veiddi vel ofan í sitt fólk.

Ég læt ykkur vita hér á síðunni hvernig gengur á morgun. Mér fellur illa að koma heim með öngulinn í óæðri endanum svo ég er búinn að tryggja mig fyrir því að það gerist aldrei - Fiskbúðin á Eyrarveginum er tryggingin ef allt annað bregst.

Njótið síðsumarsins - það geri ég.

sunnudagur, september 05, 2010

Sumri hallar

Þær vitna um það greinarnar á Reynihríslunum sem hér svigna undan þungum blóðrauðum berjaklösum svo stórum að ég hef ekki séð annað eins. Litir laufanna bera með sér sama vitnisburð. Það þýtur í laufi trjánna hér og vindurinn minnir á þetta sama, það er að koma haust.
Fuglasinfónían sem einkennir sumur hér á Föðurlandi er að þagna og litlu snillingarnir sem leika sinfóníuna eru að gera sig ferðbúna á suðlægari slóðir. Allt er þetta gott en minnir mann alltaf á hversu ævin er stutt og nauðsyn þess að fara vel með tímann sinn. Það er nefnilega þannig að við fáum bara eitt tækifæri til að lifa lífinu og árin styttast í réttu hlutfalli við hækkandi aldur.

Ró og friður eru hverfandi gæði. Það er hinsvegar til mikils að vinna að koma sér á þann stað að njóta þeirra hverfandi gæða. Við Erlan erum forréttindafólk að þessu leiti að eiga okkur athvarf í Fljótshlíð. Kofinn okkar er ekki stór og sómir sér kannski illa sem eitt af sumarhúsum Fljótshlíðar þar sem hver höllin tekur við af annarri. Við höfum samt allt hér sem þarf til að skapa gamaldags og sveitalega friðsemd og ró og njótum þess vel.

Haustið er ekki síðri tími en annar til að njóta. Hver árstíð hefur sinn sjarma og veður hefur ekki haldið okkur héðan jafnvel þó frost sé og funi. Það er jafnvel enn notalegra að dvelja hér um harðavetur í frosti og fjúki en á fallegum sumardegi.

Kári blæs núna og fyllir fánann okkar vel svo hann nýtur sín í allri sinni fegurð. Íslenski fáninn fyllir á einhvern þjóðernisbikar innra með manni þegar hann blaktir svona fallega. Þjóðarstolt og ást á landinu er það sem ég finn fyrir. Já og það þrátt fyrir kollhnýs útrásarinnar. Forfeður okkar og gjöfult land hafa sett okkur á stað sem kallar á öfund annarra þjóða - Ísland er best.

Við Erlan höfum átt annasamt sumar og haft fá tækifæri til að dvelja hér svo við ætlum að njóta verunnar hér í dag, hlusta á gömlu klukkuna telja mínúturnar og lesa góðar bækur, kannski skreppa í heimsókn, hver veit.
Þið sem ratið hér inn á síðuna mína - takk fyrir innlitið og njótið dagsins eins og við.