laugardagur, apríl 30, 2011

Ég er gull og gersemi...

...tautaði hann hokinn í baki um leið og hann hvarf inn um hurð sem lokaðist á eftir honum. hún opnaðist strax aftur, fjóra poka af hvoru sagðirðu?
Ha já... svo hvarf hann aftur. Gull og gersemi hugsaði ég, góður með sig. Ég beið smá stund meðan hann fann til pokana.

Þú ert með þetta allt í kollinum? Já já allt í kollinum sagði hann og tölurnar ultu á blaðið úr pennanum hans.
Ég er gull og gersemi, tautaði hann áfram, gimsteinn elskuríkur.....

Svo leit hann snöggt upp til mín og spurði: Hvort er betra að segja "Ég er gull og gersemi gimsteinn elskuríkur", eða "Ég er djásn og dýrmæti, Drottni sjálfum líkur"...?
Hann beið eftir svarinu annarshugar um leið og hann kláraði að skrifa nótuna. Hvort er betra?
Tja þegar stórt er spurt... svaraði ég, ætli það falli ekki undir guðlast að líkja sér við sjálfan Drottinn.
Hann kláraði nótuna, rétti mér hana og leit fast á mig.
Ég veit það ekki sjálfur... bara veit það ekki... en keyptu alltaf sem allra mest af mér og farðu varlega í umferðinni... og vertu blessaður.

Já, blessaður. Ég bar pokana út og setti þá í skottið á bílnum mínum, settist undir stýri og keyrði burt... ásamt Erlunni

föstudagur, apríl 29, 2011

Lífið er matur

Svo sannarlega má halda því fram. Hann er auðvitað lífsnauðsynlegur eins og best sést á fólki sem ekki hefur neitt að borða. Hann er líka ánægja. Bragðkirtlaríku fólki eins og mér getur fundist það upplifa ákveðna sælutilfinningu við að borða góðan mat, þá á ég við eitthvað sem kætir bragðlaukana meira en annað.
Það fylgir þó böggull skammrifi því mat er hægt að misnota eins og annað. Það er með öðrum orðum hægt að éta sig í gröfina.
Ég var að lesa sögu ungrar konu sem glímdi við átfíkn. Sú fíkn er ekkert skárri en aðrar fíknir, hún veldur sársauka og getur drepið ef ekki er gripið inn í.

Ég er hrifinn af fólki sem lætur hendur standa fram úr ermum, setur sér markmið og framkvæmir síðan það sem þarf til að markmiðið náist.
Sumir setja sér nefnilega markmið en gleyma því nauðsynlegasta... að vinna.
Þar skilur á milli þeirra sem ná árangri og þeirra sem gera það ekki.

Þetta var bara svona smá hint út í loftið...
Eigið góðan dag.

miðvikudagur, apríl 27, 2011

1. maí fjölskylduþema.

Við verðum meiri þáttakendur í 1. maí hátíðarhöldunum næstu en við höfum verið þekkt að áður. 1. maí skrúðgangan byrjar hjá brúnni klukkan 11:00 og gengur Austurveginn að Íslandus ísbar og skrifstofum verkalýðsfélaganna. Hátíðardagskráin verður svo á planinu hjá okkur, fornbílaklúbburinn verður með sýningu á bakvið hús og innandyra verður andlitsmálning fyrir börnin og ístilboð í tilefni dagsins. Svo ætlum við í tilefni dagsins að bjóða fólki að smakka ískaffið okkar frá klukkan 12:00 - 14:00, í boði hússins. Smellið á plakatið til að skoða betur dagskrána.
Það verður bara gaman að taka þátt í bæjarlífinu með þessum nýja hætti. Ég býð hér með vinum mínum sem lesa bloggið mitt eða fésbók að koma við og fá sér hressingu.

mánudagur, apríl 25, 2011

Úti er allltaf að snjóa...

Hér gerast menn langeygir eftir vorinu. Ég horfi á árbakkann sem ætti að vera orðinn grænn af vorbrumum á hverju strái en í staðinn sé ég ...snjó. Hann er ágætur en bara á þeim tímum sem hann er samþykktur. Hann er boðflenna í þessu partíi, þemað átti að vera grænt.
Það verður að hafa það, vorpartíinu verður bara frestað enn um sinn. Við höldum þá bara páskapartí í staðinn.
Ég á von á öllum ættleggnum mínum hingað í dag. Við ætlum að eiga góða samveru og borða hænsnarungabita (færeyska) saman seinni partinn. Það er alltaf gaman að hittast, það telst garðrækt. Garðurinn okkar stendur raunar í blóma því veturinn er liðinn og vorrigningarnar um garð gengnar.... Kurr turtildúfunnar heyrist og hér drýpur hunang af hverju strái. Ég hef sagt ykkur þetta oft, Selfoss rúlar.

Ég hlakka til dagsins og lít björtum augum til framtíðar.

sunnudagur, apríl 24, 2011

Páskar og hret

Það gengur á með éljum. Spáin gerir ráð fyrir suðvestanstormi og varar við ferðalögum. Jafn mikið og tækninni fleygir fram í veðurspám get ég ekki skilið hversvegna það virðst vera minna að marka veðurspár núna en var fyrir nokkrum árum. Ég hef fylgst með veðri undanfarið ár vegna ísbúðarinnar en salan fer mjög eftir veðri og við verðum að skipa vaktirnar eftir því hversu mikið er að gera. Við treystum því á veðurspár en hending virðist ráða hvort þær rætast.
Kannski við ættum bara að fá okkur beina línu á veðurklúbbinn í Dalvík, það er hópur aldinna borgara sem spáir í veðrið eftir gömlum aðferðum. Ætli það sé nokkuð verra. Páskahretið árlega átti þó eftir að koma fram og sennilega er þetta það sem gengur nú yfir. Við ákveðum það allavega og væntum vorsins í framhaldi.

Nú er páskadagur og því fylgir páskaeggjaát... yfirleitt. Hér á bæ eru engin páskaegg þetta árið. Allir eru í aðhaldi við fitupúkann og hann elskar páskaegg og því er honum haldið soltnum þetta árið og sjá til hvort hann hypji sig ekki.

Það er ekki hægt að skrifa um páska án þess að minnast hvaða gildi þeir hafa fyrir kristna trú. Það má segja að ef upprisan hefði aldrei orðið hefði kristin trú aldrei orðið til heldur. Grundvöllur kristninnar er upprisan. Það er því í hæsta máta eðlilegt að þeir sem alls ekki trúa upprisunni, hafni þar með kristninni. Hvaða gildi hefði Kristur annað en að hafa verið merkilegur maður innan um alla hina merkismennina sem fæðst hafa, ef ekki nyti upprisunnar? Hvar væri kristin trú? því er auðsvarað, hún væri ekki til.
Ég hef oft velt því fyrir mér hversvegna páskahátíðin er ekki meiri hátið en hún er í raun. Jólin eru miklu meiri hátíð í augum alls þorra manna, þar á meðal mín. Það er þó á páskum sem grundvöllurinn varð til. Kannski hefur þetta að gera með kúltúr þjóðarinnar, en jólin eiga sér líka rætur aftur í heiðni að því leyti að á þessum tíma var því fagnað að sólin færi að rísa á ný en í kristni þýða þau, eins og allir vita, fæðingu frelsarans. Þessi tvöfalda rót lengst ofan í þjóðarsálinni hefur að líkindum vægi. Páskarnir ættu samt að vera á hærri stalli meðal kristinna þjóða en þeir eru, það er lógísk pæling, svo mikið er víst. Annars virðist ekki þurfa einhverja aldalanga sögu til að festa hátíðir í sessi, verslunarmannahelgin á sér enga svoleiðis sögu en er heilmikil hátíð, innmúruð og naglföst.

Þessi morgunþanki er bara smá hugarflug um tilgang eða tilgangsleysi hlutanna eins og svo sem flest sem ég hendi hér niður. Lítil stórhátíð sem ætti að vera á hærri stalli? Það er bara svo skrítið að eldast og skilja um leið betur og betur hvað við vitum lítið. Það er þó eitt gott við að velta fyrir sér tilgangi hlutanna, það skerpir stundum sýn á hvað er hismi og hvað eru hafrar.

Gleðilega páska vinir mínir, njótið súkkulaðisins - það er gott.

föstudagur, apríl 22, 2011

Allra helgastur...

Þessi dagur ársins er sá allra helgasti í mínum huga. Í sveitinni heima var okkur kennt að þennan dag ætti ekkert að gera nema það allra, allra nauðsynlegasta. Hvað ungur nemur gamall temur, það er merkilegt hvað situr eftir úr uppeldinu kominn yfir fimmtugt. Raunar er það þannig að við mótum okkur auðvitað sjálf þegar foreldrahendinni sleppir. Ég fór ungur að heiman og byrjaði því uppeldishlutverkið á sjálfum mér snemma.
Það er samt þannig að ég hef alltaf haldið við þessari hugsun að föstudagurinn langi, dagurinn sem Jesú var krossfestur, sé sá dagur ársins sem við höldum helgastan. Það mótast af því að krossfestingin eins ljót og hún er, er áhrifavaldurinn sem gerir kristni að því sem hún er. Krossfestingin varð að vera undanfari upprisunnar til að um væri að ræða fórn til friðþægingar mannkyni.
Það er því umhugsunarefni hversvegna svo margir kristnir horfa framhjá þessu verki og predika lögmálskenningar fram í rauðan dauðann. Í mínum huga er það átroðsla og vanvirðing við fagnaðarerindið sem í krossfestingunni og síðan upprisunni felst.

Ég ætla þó ekki að fara að predika heldur geng ég sáttur út í daginn vitandi að orð Krists á krossinum "það er fullkomnað" eru í gildi og ég lifi undir þeirri náð sem í því felst.

Eigið góðan dag og njótið páskanna gott fólk.

fimmtudagur, apríl 21, 2011

Minningargrein

Ég er búinn að bíða eftir þeim um hríð. Ekkert hefur bólað á þeim ennþá en þau ættu að vera komin fyrir þó nokkru síðan. Svæðið þeirra er nú óvarið og grágæsir vappa yfir "heimilið" þeirra til margra ára sem nú er bara lítil óhrjáleg hrúga. Það er eftirsjá í þeim enda skemmtilegir nágrannar. Nína og Geiri eru öll.

Kannski gáfust þau upp yfir hafinu, orðin of lúin til að komast á leiðarenda, eða borið beinin á breskri grund, það væru ill örlög.
Það rann að mér sá grunur í fyrra að þau væru orðin gömul því síðustu tvö ár hafa þau ekki komið upp ungum þó þau hafi mætt á staðinn sinn, gert upp óðalið (flottara orð en dyngja) og tekið þátt í varpi eins og undanfarin ótiltekin árafjöld. Þegar við fluttum hingað fyrir fimm árum átti ég tal við gamla konu sem bjó í húsinu hér fyrir neðan, hana Boggu gömlu, sem dó fyrir tveimur árum. Hún sagði mér að þessar álftir hefðu orpið þarna í fjölda ára áður en við komum hingað.

Álftir maka sig til lífstíðar og halda tryggð við maka sinn ævilangt. Þær eru aldrei langt undan ef eitthvað kemur upp á og verja hvort annað af hörku ef þarf. Það er skemmtilegt umhugsunarefni hvað það er sem stýrir þessu. Er þetta innbyggð eðlisávísun til að viðhalda stofninum eða er þetta trúnaður og traust.... kannski kærleikur? Gæti allavega verið mörgu mannfólkinu til eftirbreytni :-)

Hvað sem ræður för þá er þetta fallegt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim koma heim eftir langt flug yfir hafið saman og fylgjast með þeim undirbúa fjölgun ættleggsins síns. Fallegur dansinn þeirra á vatnsfletinum og hljómmikill lúðrablásturinn á björtum sumarnóttum hér við ána ásamt endalausri þolinmæði við útungun eggja og natnina við ungana sem að lokum skriðu út hefur verið falleg ástarsaga að fylgjast með.
Það er söknuður af þeim. Kannski flytja afkomendur þeirra hingað, hver veit?

Njótið dagsins vinir.

mánudagur, apríl 18, 2011

Hér er hávaði og læti...

...og hamagangur á hóli. Rólegheitin sem hér tipla á tám flesta daga hafa yfirgefið húsið og verkefni dagsins verður líklega að hafa ofan af fyrir þremur stelpuskottum sem eru í heimsókn hjá afa sínum og ömmu.
Skilningur minn á forgangsröðun lífsins eykst með árunum og mér er kristalljóst hversvegna skaparinn ákvað að barneignir skyldu vera á ákveðnum fyrriparti ævinnar. Það er auðvitað til þess að maður geti verið afi og amma á síðari helmingnum... ;-)

Það hefur marga augljósa kosti að vera afi og amma. Það væri ábyrgðarlaust af mér að upplýsa foreldra um það hér að uppeldisaðferðir afa og ömmu geta verið frjálslegri en tíðkast í foreldrahlutverki eins og þetta með afanammið og annað en um það ræðum við ekki hér.

Börn eru það yndislegasta sem til er.

sunnudagur, apríl 17, 2011

Stelkurinn, Hrossagaukur...

...og ég vöknuðum árla í morgun. Þeir voru báðir vaknaðir á undan mér en sáu um að ég svæfi ekki yfir mig. Vorið er komið og grundirnar gróa... Dagurinn brosti með mér þegar ég lá og hlustaði á þessa vini mína. Stelkurinn, með sitt hvella hljóð var svo nálægt að hann minnti mig á gamla tíma þegar ég var lítill drengur austur í sveit, fetandi grösugan lækjarbakkann með orm úti, búinn að tendra kveikiþráðinn að veiðidellunni sem síðar varð, vitandi návæmlega punktinn sem silungarnir kæmu undan bakkanum og tækju agnið og Stelkurinn, það fylgdi oftast, lék sér í kringum mig með sínum hvella hávaða. Svona eru minningarbrot bernskunnar, þau brjótast stundum fram og raðast jafnvel í heillega mynd, gjarnan af litlum strák að veiða og veiða meira og veiða enn meira.

Svona fæddist nú veiðidellan. Útiveran og fuglagargið ;-) það er grunnurinn. Hugurinn fer alltaf á flug þegar ég heyri þessi vorhljóð. Ég lá lengi vakandi áður en ég tímdi að fara á fætur. Það er eitthvað svo gott að hlusta á þessa fiðruðu tvífætlinga sem boða manni betri tíð og blóm í haga.

Njótið dagsins vinir.

þriðjudagur, apríl 12, 2011

Við Andrés önd...

...berum báðir þennan sérstaka munnsvip. Það þurfti að skera aðeins í vörina á mér og því er ég svona skemmtilega kyssilegur eins og hann.
Ég er að bíða eftir vorinu eins og þið öll en gullvagninn sem dregur vorið hingað er eitthvað seinn á ferðinni í ár.
Ég sé samt teikn á lofti... farfugla sem eru að týnast hingað. Þeir láta ekki plata sig og koma hvernig sem viðrar.
Annars erum við í góðum gír hjónin, sjáum glasið hálffullt fyrst það er valkostur. Hálftómt glas er eitthvað svo dapurlegt.
Bretar og Hollendingar eru í fýlu út í okkur, við finnum út úr því. ESB líka en við finnum út úr því líka. Við erum enn "best í heimi", við eigum fallegasta kvenfólkið, sterkustu karlmennina og svo erum við klárust.
Hvað sem öllu líður, eins og klettur í hafi og hvernig sem vindurinn blæs er Ísland besta land í veröldinni....!

sunnudagur, apríl 10, 2011

Fæst orð...

... bera minnsta ábyrgð svo ég ætla ekki að taka jafn djúpt í árinni eins og mér er innanbrjósts. Nú liggur fyrir að meirihluti þjóðarinnar sagði nei í kosningunum. það er ekkert við því að gera annað en að sjá hvað verður. Eitt er samt dagljóst, þetta þýðir framlengingu á kreppunni.

Núna finnst mér blasa við það sem ég kastaði fram hér um daginn að málið átti ekkert erindi í þjóðaratkvæði því að allur þorri fólks hefur ekki forsendur til að mynda sér skoðun á málinu af viti, málið er allt of flókið sem sést best á niðurstöðunni, Hættan við svona flólkið lögfræðilegt mál er sú að það sé reynt að klæða það í einfaldan búning, sem það passar ekki í, til að hafa áhrif á hvernig fólk kýs. Það gefur auga leið að það er auðveldara að segja fólki með frösum að það hafi ekki flogið með einkaþotum eða siglt á lystisnekkjum og því eigi það að segja nei. Eða að það eigi ekki að borga fyrir óreiðumenn. Eða að það eigi ekki að láta kúga sig og þar fram eftir götunum, en að segja því að það sé ódýrara og farsælla að semja um málið og snúa sér að uppbyggingu samfélagsins.

Vigdís Finnbogadóttir var góður forseti, hún sagði já vegna þess að það væri farsælla fyrir landið og þjóðina. þar hitti hún naglann á höfuðið með einni setningu.
Það er ekki orði eyðandi á núverandi forseta, sá pólitíkus og skrautfjöður útrásarvíkinganna sem settu okkur á hausinn er sennilega meiri skaðvaldur en víkingarnir sjálfir. Ég sakna Vigdísar, skarpgreindur og hæfur forseti. Við værum ekki að svamla í þessari for ef hún væri við stýrið.

Ég ætla samt ekki að eyða dögunum í pirring yfir þessu floppi okkar heldur lít ég bjartsýnn fram á veginn.
Það er reyndar lengra í sumarið en ég vonaði.