þriðjudagur, ágúst 30, 2011

Baugsstaðaós

Frábær ferð í ósinn. Aðeins um það í veiðihorninu hér til hliðar.

þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Veiðin þetta sumarið...

Einn tittur á land í allt sumar er allt og sumt. Það þykir nú ekki í veiðifrásögur færandi, sá fór nánast beint á grillið og var étinn með det samme. En nú styttist í Baugsstaðaósinn hjá mér. Ég sá á fésinu að ég hafði farið í ósinn fyrir nákvæmlega einu ári síðan þ.e á morgun, greinilega þreyttur á þjóðfélagsþrasinu því ég taldi mig heppinn að heyra ekkert af slíku heldur skyldi etja kappi við vatnabúann sem ég og gerði.

Einhvern veginn virðist alltaf vera meira en nóg að sýsla og tími til veiða af skornum skammti. Þórisvatnið sveif framhjá í tíma en ég vil fara þangað snemmsumars en reynslan hefur kennt mér að ef ég fer síðsumars þá er veiðin orðin treg.
Haustið er minn tími í veiðinni bæði í fisk og fugli svo ég er svona við það að fara að bretta upp ermarnar og blása til sóknar.

Best að vera ekki með neinar árangursyfirlýsingar fyrirfram eða eðlislægt grobb, sjáum heldur hvað setur.




sunnudagur, ágúst 21, 2011

Brúðkaup

Gærdagurinn var stór hér á bæ, Arna og Hafþór gengu í heilagt hjónaband í Fljótshlíðskri sveit. Breiðabólsstaðakirkja er falleg lítil og notaleg kirkja sem tekur 120 manns í sæti. Smæð kirkjunnar skapar meiri nánd en annars og gerir andrúmið heimilislegra og notalegra. Guðni Hjálmarsson gaf þau saman en hann er forstöðumaður Betel í Vestmannaeyjum. Guðni vann hjá mér forðum daga við smíðar svo við þekkjumst líka vel. Hann gerði þetta vel og athöfnin var falleg.

Veislan var svo í Goðalandi á sama punkti og ég sat mín barnaskólaár, reyndar í nýju húsi en gamla Goðaland var rifið og nýtt byggt í staðinn. Ég sakna gamla hússins sem afi byggði, það var fallegt hús með valmaþaki allan hringinn.
Það var svo upplifun að finna baksviðs gamalt skólaborð og stól sem ég sat við forðum á einhverjum tímapunkti, eins voru gömlu kennaraborðin þarna, nostalgían í algleymi við að sjá þetta.

Veislan var skemmtileg og maturinn alveg sérlega góður. Binni kokkur kann sitt fag, lambið var sérdeilis ljúffengt og meðlætið einnig.
Mikið var um ræðuhöld og skemmtiatriði, minni brúðar og brúðguma var skemmtilega framsett í báðum tilfellum. Svo var sungið bæði samsöngur og sérsöngvar.

Brúðhjónin voru falleg og gleðin og hamingjan skein af þeim langar leiðir. Stundum fær maður á tilfinninguna að hlutir séu hannaðir fyrirfram af æðri máttarvöldum. Þannig tilfinningu hef ég fyrir þessum ráðahag.
Það er gott að hafa þessa tilfinningu fyrir börnunum sínum og frábært að sjá hamingjuna skína eins og sól í heiði eins og sjá mátti í gær.

Verum hamingjusöm, eins og Teddi komst svo réttilega að orði.... það er val.

fimmtudagur, ágúst 18, 2011

Ég er í formi...!

Um það verður ekki deilt, bara spurningin hvernig formið er í laginu. Eru ekki til kringlótt form? Ég hef í mörg ár unnið hörðum höndum að því að koma mér í það form sem ég er í núna. Ég státa af bumbu sem margur sýslumaðurinn hefði öfundað mig af í gamla daga en nú hefur mér verið ögrað með áskorun um að minnka bumbuna, Burpees skal það vera ekki bumba.
Eins og ég sagði ykkur síðast þá erum við Erlan að gera æfingar sem kallast þessu íðilskemmtilega nafni börpíur í íslenskri þýðingu. Það felst í því að skella sér flötum, taka armbeygju og stökkva svo upp aftur. Þetta er svo byggt upp þannig að fyrsta daginn gerir maður eina æfingu, næsta dag tvær, síðan þrjár og svo framvegis upp í hundrað.
Í morgun voru teknar 18 pörpíur og bumban kvartar sáran enda að henni vegið.

Við vorum annars að koma frá Danmörku þar sem við vorum í brúðkaupi elstu dóttur Óla bróður Erlu. Ferðin var góð í alla staði, veðrið fínt og við okkur stjanað að vanda.

Annað brúðkaup er svo í burðarliðnum. Arna og Hafþór munu gifta sig í Fljótshlíð um helgina. Breiðabólstaðarkirkja varð fyrir valinu hjá þeim og Goðaland fyrir veisluna.
Það fer vel á því þar sem við eigum rætur okkar þarna í Fljótshlíðinni. Í Goðalandi gekk ég í skóla og á margar góðar minningar af staðnum og má því segja að ég sé ánægður með staðarvalið.

Mitt í þessum ánægjulegu viðburðum er maður samt minntur á hverfulleik lífsins þegar skólabróðir minn missti unga konu sína um helgina komna á steypirinn með tvíbura. Án nokkurs fyrirvara var lífið búið, börnunum var bjargað en eru mjög veikburða. Góð áminning um að nota tímann vel og sóa honum ekki í fánýta hluti.

Sólin skín þessa stundina og það spáir vel fyrir helgina. Sumarið er ekkert búið þó kominn sé miður ágúst. Haustið er samt handan hornsins. Það fer vel á því, haustið er góður tími við veiðar og fleiri skemmtilegheit. Dagar í Baugsstaðaós og Vola framundan og kallinn kátur, loksins hægt að viðhalda karlgensskyldunni og veiða fyrir veturinn, safna í sarpinn og heyja harðindin.

Njótum þess að lifa gott fólk meðan tækifærið er til þess.