sunnudagur, desember 30, 2012

Næst síðasti...

... dagur ársins 2012. Það er líklega merki um himinháan aldur að muna þá tíð þegar árið 2000 var óralangt inni í framtíðinni og maður sá fyrir sér fljúgandi straumlínulagaða bíla og manninn ferðast út í geim eins og ekkert væri. Veruleikinn, þetta naglfasta umhverfi sem við búum í, er samt alltaf einhvernveginn eins í öllum grundvallaratriðum. Maðurinn þarf að næra sig, klæða, fata sig, og eiga sér skjól yfir höfuðið, alveg eins og forðum. Það sem hefur breyst einna mest fyrir utan tæknina eru viðhorf okkar. Ég held að við séum miklu sjálfhverfari og í raun verr að okkur í mannlegum grundvallarsamskiptum en við vorum áður fyrr.
Samkennd hefur minnkað og það er kuldalegt að sjá að mun fleiri en nokkru sinni áður eiga ekki fyrir mat á diskinn sinn. Samt hefur framlegð þjóðarinnar margfaldast og miklu meiri fjármunir eru til skiptanna en áður var.
Misskiptingin er of mikil, þó nokkur fjöldi fólks hefur þúsund sinnum meira en nóg, meðan aðrir hafa miklu minna en ekkert. Þetta er þróun sem illu heilli er ennþá á hraðferð að "göfugu" markmiði sínu, að gera þá ríku ríkari og fátæku fátækari.
Ósanngjarnt eða óeðlilegt? Já sannarlega hvorttveggja, en þannig vinnur þessi grjótmunlingsvél sem í helgri bók er kallaður mammon og við köllum auðvald eða bara fjármagnseigendur í dag.

Það versta af öllu er að þrátt fyrir hrun hagkerfis okkar virðist ekki ætla að verða nein uppstokkun á þessum spilastokk og ég veit ekki hvort það er hægt að breyta þessu því hin ósýnilegu öfl eða lögmál fjármagnsins eru að verki. Kerfið "heldur með" þeim sem eiga peningana og stendur vörð um hagsmuni þeirra eins og grimmur hundur framar hagsmunum þess hóps sem nærir þá, sem eru auðvitað skuldarar, því það er sannarlega úr þeirra buddu sem fjármagnið mokast á þessar of fáu hendur.

Pólitísk öfl sem kenna sig við sósíalisma hafa verið við völd undanfarin ár og hafa sannað öðru fremur að peningavaldið er draugur sem auðvelt er að vingast við og erfitt að kveða niður.
Vonandi tekst samt að gera þessa þjóð að því sem hún ætti að vera, gæðin eru yfirfljótanleg og fátækt ætti að vera óþekkt fyrirbæri hér.

Það er kannski við hæfi í lok árs að hver skoði sjálfan sig og spegli sig aðeins í dæmisögunni um miskunnsama samverjann. Sú speglun er öllum holl og gott að gera sér grein fyrir hvar maður stendur varðandi manngæsku og hugmynd um líðan annarra.
Það verður að minnsta kosti áramótaákvörðun mín að gefa meiri gaum að þeim sem eiga ekki í sig og á og skortir lífsins nauðsynjar. Ég hvet þig til að gera slíkt hið sama.

Njótið daganna.


sunnudagur, desember 23, 2012

Þorlákur enn og aftur

Jólin eru að detta inn um dyrnar þó nýliðin séu þau síðustu. Ég veit ekki hvernig þetta gat gerst að jólin komi orðið með svona stuttu millibili. Ég man þann tíma þegar ár var langur tími og meira að segja þegar desember var álíka langur og árið er núna. Ég held að klukkurnar hafi viðhaft hagstæðari tímatalningu í þá daga, allavega væri ég til í að þessi hringekja hægði aðeins á sér aftur.
Þar fyrir utan var oftast kominn vetur þegar jólin gengu í garð. Nú hefur varla dottið niður snjókorn og samt að koma áramót og þannig hefur það verið undanfarna vetur.

Tímarnir breytast það er alveg klárt, ekki bara tæknin og allur sá pakkinn, sem er auðvitað þvílíkt ólíkindadæmi að maður hefði ekki haft ímyndunarafl til að sjá helminginn af því sem er talið til nauðsynja í dag enda var nútíminn vísindaskáldskapur fyrir ekki svo mörgum árum, heldur breytumst við mennirnir með og samsömum okkur við nýjan raunveruleika eftir því hann breytist í takti við nútímann.
Við höldum samt jólin ennþá, flest allavega. Trúin sem við Íslendingar kennum okkur við sem fæddist með komu frelsarans hingað á jörð á undir högg að sækja sem aldrei fyrr. Hópar sem leggja allan sinn metnað og kraft í að rakka niður trúna og þann sess sem hún skipar í þjóðarsálinni nugga eins og dropinn sem holar steininn á því að trúin sé gamaldags hindurvitni sem ekkert erindi eigi við nútímamanninn.

Sagan af frelsara fæddum sem var lagður á lægri stall en flest mannanna börn en um leið þetta stóra nafn sem jarðarbúar flestir miða tímatal sitt við er svo stórkostleg að fámennur hópur trúleysingja mun aldrei skaða hana öðruvísi en mögulega að rispa örlítið sem grær jafnharðan. Til þess eru ræturnar of djúpar í þjóðarsálinni enda kristin kirkja stjórnarskrárvarin og trúfrelsið einnig.
Sagan mun lifa. Lífsbaráttan og trúin liggja samfléttuð í menningu okkar og mynda órjúfanlega keðju sem verður ekki aðskilin.

Ég fagna komu jólanna og sérstaklega boðskapnum sem þau færa. Krepputími eins og svo margir lifa núna verður bærari ef trúin fær að fljóta með og boðskapur jólanna, "sjá yður er í dag frelsari fæddur" á brýnt erindi inn á heimilin sem aldrei fyrr. Friður jólanna er ekki hindurvitni heldur sálarlegt athvarf sem svo marga vantar í dag í friðvana heimi.
Trúlausir jafnt sem trúaðir geta verið sammála um að friður er eftirsóknarverður. Friður í sálinni virðist vera hverfandi gæði, sem er athyglisvert á tímum trúleysis og ætti að vera þenkjandi trúleysingjum ástæða umhugsunar hversvegna aukið trúleysi færir ekki meiri frið og fögnuð inn í sálartetur fólks.

Allt um það vona ég að sem flestir eigi gleðileg og góð friðarjól framundan - og auðvitað líka þeir sem halda jólin án trúar, þó það sé mér alltaf umhugsunarefni hvað þeir eru að halda upp á.

þriðjudagur, desember 18, 2012

Aðventan að þessu sinni

Fastur í vinnu við skrifborðið mittt er hlutskiptið undanfarið sem sést best á gífurlegri atorkusemi í bloggskrifum. Það þýðir samt ekki að ég fái ekki stund milli stríða eins og sagt er. Kaffibollinn minn er t.d. óspart brúkaður mörgum sinnum á dag og límsófinn er athvarf sem við Erlan notum oft á dag. Það er félagsleg afslöppun að standa upp, láta renna í bollana og hugsa um annað en vinnu.
Jólin eru að nálgast og Erlan þetta jólabarn er við það að hrökkva í jólagírinn sinn. Það gerist reyndar óvenju seint þetta árið en skrifast á búðirnar og vinnuálagið sem því fylgir að standa í verslunarrekstri á krepputíma.

Það virðist sem áhrif kreppunnar séu að harðna hjá venjulegu fólki, allavega heyrum við mun meira núna um fólk sem á í vandræðum og sumir sem ekki hafa í sig og á. Það er dapurlegt að heyra af slíku, sérstaklega svona á aðventunni þegar fólk ætti að vera að undirbúa gleðileg jól og hafa það huggulegt við kertaljós, súkkulaði og rjóma.

Jólin koma svo mikið er víst, þau verða vonandi flestum gleðileg og góð þó ég viti vel að það er ekki þannig hjá öllum. Vonandi verður samt enginn svangur, það er of dapurt til að líðast.

Ég hlakka til þó ekki væri annað en að fylgjast með Erlunni og fólkinu mínu sem flest eru jólabörn út í eitt.
Hvað mig varðar þá vil ég jólafriðinn, dautt svín og grjónagraut á borðið mitt og ég er fínn.

sunnudagur, nóvember 18, 2012

Barnabarnahelgarsleepover

Það er mikið líf og fjör í húsinu við ána núna. Afi þetta, afi hitt og amma hitt og þetta, endalaust spurningaflóð. Mér hefur oft dottið í hug lagið um  hann Ara þessa helgina: "en spurningum Ara er ei auðvelt að svara" nema hér er enginn Ari, kannski samt fróð-ari börn gæti maður ímyndað sér miðað við spurningaflóðið. Það er gaman að sjá hvað þau virðast njóta verunnar hér, ekki að við séum kannski hugsanlega eitthvað að dekra þau meira út af þessari helgi sem er búin að vera tilhlökkunarefni hjá þeim skinnunum, það gæti hugsast.

Ég hef oft hugsað um það hversu gífurleg auðævi felast í svona hóp. Ekki síst þegar fram í sækir og maður eldist og þarf á því að halda að kraftur æskunnar haldi manni ferskum lengur. Það er vissulega hressandi að hafa svona frískan barnahóp á heimilinu, kröfurnar um athygli eru naglfastar og innmúraðar og hver og einn finnur upp á einhverju nýju sem þarf að fá mikla athygli enda oft búið að setja upp heilu leiksýningarnar eða söngatriðin sem verður að hafa formlega sýningu á og auðvitað eru afinn og amman stórhrifin af framtakinu og klappa eins og enginn sé morgundagurinn eftir hvert atriði.

Það er vetrarlegt núna og stilltur frostmorgunn sem leit dagsins ljós þegar röðull renndi sér upp yfir Eyjafjöllin og baðaði frosið suðurlandsundirlendið með morgungeislunum sínum. Austrið verður alltaf svo litríkt á svona morgnum.
Foreldrar barnanna koma á eftir og við ætlum öll að borða saman seinnipartinn, kóngamatur verður á boðstólum og ef ég þekki dætur mínar rétt þá felllur það í kramið hjá þeim, spurning hvernig barnabörnunum líkar kóngamaturinn. Kóngamatur er reyndar bara slatti hakkaður fiskur, nokkur egg, slatti af lauk, dass af haframjöli, smá af hveiti og kryddblöndur í  einhverju hlutfalli, þetta flatt í þunnar sneiðar og harðsteikt á pönnu í smjörlíki, agalega sveitó og gott.

Eins og fyrri daginn kallar kaffibollinn á mig frá skriftum og ég er vanur að láta undan því ákalli. Ég læt því renna í tvo og kalla á frúna.

Njótið dagsins.


föstudagur, nóvember 16, 2012

Vetur konungur

Ekki er annað að sjá en að árstíðirnar hafi sinn vanagang þetta árið. Hér er allavega kominn snjór og áin er ísuð enda 3° frost og hún er yfirleitt ekkert að tvínóna við að krapa, ég hef raunar oft undrað mig á hvað þarf lítinn kulda svo hún verði krapaflóð, gerist oft við frostmarkið. Það þýðir auðvitað að hún er svo köld og þess vegna þarf svona lítið frost til að hún frjósi.
Þrátt fyrir kuldann er afskaplega friðsælt að sjá hér yfir, krumminn er að komast í vetrargírinn og maður er farinn að heyra í honum í fjarska eins og gjarnan á froststilltum vetrarmorgnum. Mér finnst ómurinn af honum alltaf vinalegur.

Vinnan tekur sinn toll af tímanum okkar eins og fyrri daginn, það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarið og væntanlega er ekki mikill letitími framundan. Lögfræðileg verkefni hlaðast á mig og jólasalan er að fara af stað í verslunum og við erum víst þáttakendur í því. Vinnutengd kaupstaðarferð á eftir en fyrst eru það ísvélarþrif, það er fastur liður á tíu daga fresti, ekkert sérlega spennandi verkefni en nauðsynlegt.

"Einn enn áður en lætin byrja" sagði maðurinn, ég ætla að hafa það eins og fá mér einn kaffibolla áður en við komum okkur út í daginn.
Njótið daganna gott fólk.

miðvikudagur, október 24, 2012

Gæsaveiðar og illur hani

Ég hef lengi þóst vera veiðimaður en er samt enginn reynslubolti þegar kemur að íslenskum veiðiám. Reyndar á það þá skýringu að í gegnum tíðina hefur verð á veiðileyfum verið ofan við það limit sem ég hef leyft mér að setja í leikaraskap. Ég er samt með króníska veiðidellu sem ég sleppi of sjaldan lausri.
Það er því lítill vandi að plata mig í veiði ef einhverjum dettur svoleiðis í hug.

Bjarki frændi minn setti sig í samband við mig eftir síðustu helgi og sagði mér að Skagafjörður væri troðfullur af gæs og innti mig eftir að fara í ferð þangað með honum og öðrum félaga hans. Það var auðsótt og norður fórum við kátir kallar væntandi, og í kornakur nokkurn góðan fórum við væntandi, stilltum upp gerfigæsum og biðum væntandi... og biðum... og biðum enn meira... og görguðum í gæsaflautur til að reyna að lokka gæsir til okkar... árangurslaust. Eftir nokkurra klukkutíma bið og frost sem beit í nef sannfærðumst við loksins um að þetta væri ekki biðarinnar virði. Ein gæs kom þó svífandi og dó í fanginu á okkur... that´s it....!
Við áttum tvo svona daga og mættum fyrir birtingu báða dagana, lágum ofan í skurði, hálfir ofan í vatni, í ískulda og görguðum út í loftið án svars en auðvitað var þetta afskaplega skemmtilegt engu að síður ;-)

Veiðin er þannig að stundum gefur og stundum ekki. Það er reyndar sennilega það sem gerir veiðina spennandi. Ef maður ætti alltaf vísa veiði þá væri spenningurinn horfinn úr þessu. Við fengum samt nokkrar endur og einn... HANA, já svona hana með hanakamb.
Það vildi þannig til að húsfreyjan á bænum sagði okkur frá hananum sínum, hann væri forynja mikil og grimmt kvikindi sem réðist á börn og fullorðna, svo rammt kvæði að atgangi hans að það væri hin mesta greiðvikni ef okkur tækist að sálga honum. Við létum ekki segja okkur það tvisvar og gerðum leiðangur í hænsnakofann.
Sveitamaðurinn í hópnum áræddi að fara inn fyrir dyrnar og kanna harðfylgni hanans sem stóð undir væntingum og réðist á mig með miklum látum og gassagangi.  Hann skellti sporunum utan um lappirnar á mér og reyndi að stinga mig með þeim, harðfylgni hans var mikil og árásirnar ofsafengnar. Það varð úr svolítill fætingur sem endaði með sigri mínum og var haninn í framhaldi af því rekinn úr sínum hænsnahópi, út fyrir dyr og þaðan út á tún. Þar féll hann fyrir byssuskoti, elsku skinnið.

Mín skýring á veiðileysi ferðarinnar er einföld. Það var allt krökkt af gæs daginn áður en við komum og dagana á undan. Það hafði einfaldlega farið eins og eldur um sinu í gæsheimum að við værum á leið norður og því flaug stofninn allur suður um heiðar til að forða sér....
og ég skil þær vel.

fimmtudagur, október 11, 2012

Hausthljóð og litadýrð.

Það var hausthljóð í álftunum sem létu illa á bæjarlæknum í nótt. Ég vaknaði við gargið í þeim, það er öðruvísi á haustin en á vorin. Þær finna að vetur nálgast og það er ekki besti tíminn þeirra. Vorhljóðin þeirra bera með sér einhver blíðmælgi sem heyrast ekki á haustin. Hvað sem því líður þá finnst mér alltaf jafngott að heyra náttúruhljóðin inn til mín, sérstaklega um dimmar nætur þegar allt, nær allt, er í svefni og ró er yfir. Nína og Geiri eru löngu farin ú eynni með tvo unga í farteskinu, þau eru seig við þetta og gefast ekki auðveldlega upp. Áin er alltaf jafngóður nágranni þó segja megi að ég hafi gert meiri væntingar til hennar sem veiðiár þegar ég flutti hingað fyrir sex árum síðan. Þá stefndi hugurinn á grillaðan lax hversdags og lítið þyrfti að hafa fyrir því annað en að láta leka út færi hér af pallinum hjá mér.
Laggó með það.

Haustið er löngu komið með skrúðið sitt, reyndar minnkaði skrúðið mjög þegar rokið kom í september og sleit mikið af laufi trjánna hér áður en þau tóku á sig haustlitinn. Það var skömm því haustið á að vera litfagurt augnayndi.

Veiðin hefur verið með allra slappasta móti í haust þrátt fyrir góðar tilraunir. Það bjargaði þó haustinu að fá þennan stóra, hann fær heiðursess á þessum bæ.
Veturinn er líka góður tími, stuttir dagar og langar nætur, jólin og ýmislegt gott.

Njótið daganna gott fólk.




laugardagur, október 06, 2012

Svo fæ ég vexti... og vaxtavexti...

...og vexti líka af þeim....! Góðar veiðisögur eiga ekki að gjalda sannleikans. það ótrúlega hefur gerst, fiskurinn flotti sem ég fékk um daginn hefur stækkað úr 16 pundum í 17 pund, enda orðið nokkuð síðan ég náði honum. Það hefur líka lengst milli augnanna á honum held ég og það sem tók mig korter (að ná honum) er að nálgast hálftíma.

Ef ég hætti nú þessum fíflaskap og sný mér að alvörumálum þá tékkaði ég á töskuvigtinni sem notuð var til að vigta kvikindið eftir áeggjan nokkurra veiðifélaga sem töldu fiskinn stærri en hann mældist og viti menn... vigtinni skeikaði um 5% sem þýðir að rétt þyngd er 17 pund eða ef ég á að vera nákvæmur 16.8 pund en það námundast upp í 17 og kannski 18 þegar fram líða stundir... eða 20.
Þessi veiðisaga verður orðin fróðleg... og skemmtileg í framtíðinni ;-)

mánudagur, september 17, 2012

Þessi sjóbirtingur verður partur af grobbsögum gamla...

Það hlaut að koma að því að ég fengi fisk sem færi vel upp á vegg hjá okkur. Ég fór til veiða um helgina og fékk einn "nokkuð góðan". Hann verður settur í uppstoppun og fær þannig framhaldslíf á stofuveggnum hjá okkur. Ég tók ákvörðun um að gefa ekki upp hvar hann fékkst því það myndi þýða allt of mikinn ágang á viðkvæman staðinn sem hann veiddist, hann er jafnflottur þó veiðistaðurinn sé ekki gefinn upp.

Ég tók auðvitað myndir af kallinum og læt hér þrjár fylgja með til sönnunar. Það er hægt að klikkja á myndirnar til að stækka þær.
Stærðin á honum sést vel miðað við innréttinguna. Hann er 80 cm. langur og yfir 50 cm. í ummál.

Stór og mikill bolti, það er gaman að ná svona tröllköllum, tók mig um korter að ná honum.

Þetta er grobbmynd. Ég var hræddastur um að ég dytti út í og hann gleypti mig í einum bita...;-) Það verður gaman að fá hann úr uppstoppun og finna honum stað hjá okkur.
Já veiðin er aldeilis stórskemmtileg.

laugardagur, september 08, 2012

Sveitabrauð í morgunsárið

Ilmurinn er gamalkunnur, hann meira að segja kallar á minningar úr sveitinni frá því forðum daga þegar ég var snáði og lífið var einfalt og gott. Mér flaug í hug í morgun að baka brauðið hennar mömmu. Hún bakaði næstum daglega og því má segja að ég hafi alist upp við þennan brauðilm. Brauðið var alltaf jafn gott og því má segja að ilmurinn sem fyllir húsið nú espi bragðlaukana.

Haustið boðar komu sína, það sést best á laufi trjánna sem roðnar nú og gulnar meira með hverjum deginum. Ég hef sagt og segi enn að mér líkar vel við haustið, uppskerutími og veiði, það er minn tími. Ég var í veiðitúr í  Vatnamótum í Skaftafellssýslu þar sem von er á mjög stórum sjóbirtingum, allt að 20 pundum. Ég fékk nú samt bara einn birting en missti því fleiri og þá af stærri gerðinni. Ég var búinn að togast á við einn í korter þegar hann fór af, það var mikið ferlíki sem hefði verið gaman að ná, en svona er veiðin, aldrei á vísan að róa.  
Volinn er eftir en ég hef góða reynslu af honum þegar kemur að veiðinni, hef oftast komið með góða veiði þaðan þó ég eigi líka fisklausa túra þangað.

Við vorum með konukvöld í Basicplus og Home design í gærkvöldi. Það komu margar konur og versluðu við okkur og nutu léttra veitinga. Íris Eygló og Hrund komu og voru með okkur og Hrundin var hér í nótt.
Verst að hún er á hraðferð og getur ekki verið með í brauðsmökkuninni á eftir. Við verðum samt í Reykjavík á morgun og tökum kannski smá bita með.

Fimm mínútur og þá er brauðið tilbúið..... eins og gefur að skilja er ég hættur að skrifa í bili og fer að sinna öðrum mikilvægari hugðarefnum.

Njótið daganna.

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Erlan er í London....

... og gamli hálf hægrihandarlaus. Ekkert skrítið við það, þar sem árin öll, með betri helminginn mér við hlið eru viðmiðin í einu og öllu. Hún fór ásamt Önnu, sem vinnur hjá okkur í Basicplus, að versla inn haustvörurnar. Svo er áformuð önnur ferð í nóvember til að kaupa jólavörurnar, það er hugsanlegt að ég verði skósveinn í þeirri ferð og stundi b-in þrjú. Þið vitið hvað það er? Það er stytting á hlutverki karla í verslunarferðum.... bíða, borga, bera ;-) Svona er bara lífið, samansafn ófrávíkjanlegra náttúrulögmála.

Ég er að fara að sofa, auðvitað kaldur og svangur, því hún gleymdi að skilja eftir tilbúinn mat sem ég gæti skellt í örbylgjuna. Hún kemur á miðvikudaginn, ég vona að ég hafi enn einhvern þrótt þá.
Grasekkillinn kveður að sinni.

mánudagur, júlí 23, 2012

Vesturfarar

Það er ekki hægt að skauta framhjá vesturferðinni okkar án þess að nefna hana hér. Ættarmót frá ömmu og afa í Langabotni í Geirþjófsfirði var haldið í Bíldudal og í Botni 7-8- júlí sl. Við fórum allur minn ættleggur og lengdum svo ferðina um viku til að ferðast um vestfirði. Þetta var í stuttu máli sagt ofurgóð ferð.
Ættarmótið sjálft var í hálfgerðum dumbungi, rigning þegar við mættum á föstudagskvöldi en laugardagurinn var þurr að mestu en þá var farið í Botn með bátum og deginum eytt þar. Gengið var á  Einhamar þar sem Gísli Súrsson var veginn forðum og svo var leiksýning um sama efni á mjög skemmtilegum nótum.

Einna skemmtilegast var samt að skoða gamla húsið og sjá fyrir sér sögurnar sem mamma sagði okkur.
Við heyrðum sögur af afa og ömmu líka og má ég til með að nefna eina sögu af afa hér. Afi átti byssusafn og var mikil skytta og veiðimaður. Hann var lika með útgerð og reri út á Arnarfjörðinn. Á þessum árum áttum við Íslendingar í stríði við breta sem vildu veiða þorskinn okkar. Einu sinni voru breskir togarar á veiðum í Arnarfirðinum þegar afi reri út að fiska. Hann tók með sér stóra riffilinn og gerði sér lítið fyrir og skaut á togarana þangað til þeir urðu frá að hverfa sökum harðskeytts vestfirðingsins sem vildi þá burt úr firðinum. Þessi saga af afa er víst fræg þarna á svæðinu þó ég hafi verið að heyra hana í fyrsta sinn, en ég var ánægður með afakallinn að gefa þeim svona fingurinn. Verst að heyra ekki þessa fínu sögu fyrr svo maður gæti gumað sig aðeins meira af genunum ;-)

Ættarmótinu lauk á sunnudeginum og þá færðum við okkur á Tálknafjörð í sól og blíðu sem hélst alla vikuna, en á Tálknafirði er tjaldaðstaða til algerrar fyrirmyndar. Við vorum þar í fimm nætur og ferðuðumst þaðan t.d. að Látrabjargi sem var jafnhrikalegt og síðast. Veiddum í soðið í tvígang með öllum ættleggnum og héldum fiskiveislu.

Svo tókum við einn dag í að ferðast til Ísafjarðar og slógum þar upp tjaldbúðum hjá foreldrum Karlotts en þau eiga sumarhús í Arnardal í félagi við nokkra ættingja Gunnhildar. Þaðan fórum við líka í "skreppitúra" hingað og þangað. Bolafjall var einstök upplifun að fara upp á, logn og hiti og alger dauðaþögn þegar við stigum út úr bílnum þar uppi. Við horfðum niður á skýin og inn eftir djúpinu. Vestfirðirnir lágu við fætur okkar og útsýnið langt norður á nyrstu annes landsins var stórbrotið.
Sund og annað skemmtilegt var á dagskránni líka og það var sérlega yndislegt að eyða þessum tíma með fólkinu okkar sem sem á hug okkar og hjörtu öðru fremur í þessu lífi, yndissamfélag og skemmtilegt.

Hrund kom fljúgandi á laugardagsmorgni til að eyða restinni af ferðinni með okkur. Við enduðum ferðalagið með því að gista eina nótt hjá Örnu og Hafþóri í sumarbústað í Húsafelli sem þau höfðu leigt til að enda ferðina sína. Það var notalegur endir og gott að hvíla lúin ferðabein í heita pottinum þar.

Góð ferð sem verður lengi í minnum höfð.

sunnudagur, júlí 22, 2012

Tími og nenna stýra mér

Líklega er ég ekki með afkastamestu bloggurum landsins þessi misserin enda svo sem ekkert sem beinlínis rekur mig áfram. Ástæðan er sú að ég skrifa þegar ég hef tíma og nennu. Ég er þó hvergi hættur því ég sé á teljaranum að einhverjir nenna að lesa skrifin mín ennþá og svo er þetta líka hálfgildings dagbók fyrir sjálfan mig líka.

Ég er sem fyrr í kofanum í því stóíska andrúmi sem hér ríkir allajafna. Frúin sefur enn og kaffibollinn minn er eini félagsskapurinn sem ég hef í bili og það eina sem rýfur algera þögnina hér er gamla klukkan og Kári kallinn sem andar annað slagið á rúðuna. Hér rigndi lítið, því miður, því jörð hér er þurr og hefði haft svo gott af útlensku úrhelli eins og spáði. Hinsvegar var Kári í essinu sínu og blés af lífs og sálar kröftum og sleit lauf af trjánum mínum hér. Hann er mismikill vinur minn kauðinn sá.

Erlan er vöknuð og er búin að hreiðra notalega um sig hér í sófanum hjá mér í náttfötum og malar eins og kisa. Hún er sá félagsskapur sem gefur mér mesta ánægju í lífinu, í 35 ár hefur hún gengið með mér veginn og skrifað söguna með mér sem einkennist af kaflaskiptum þar sem söguþráðurinn er til skiptis stríður og erfiður og síðan uppstyttur og blíður blær. Í dag er það goluþytur og sumarblær sem býður góðan dag.
Tilfinningin þegar ég renni yfir kaflana okkar er þakklæti, uppskeran er ættleggur, stór og efnilegur, samskiptin eins og best verður á kosið, heimilið okkar skjól, kofinn athvarf frá dagsins önn og elskan flærðarlaus.
Lífið er gott, fyrir alla muni njótið þess vinir.

sunnudagur, júní 17, 2012

Við Erlan eigum eitt...

... sameiginlegt með nágrönnum okkar Nínu og Geira... að vera stolt af afkvæmum okkar. Þau syntu nú fyrir helgina með tvo unga í burt frá eyjunni sinni á vit nýrra ævintýra og stoltið leyndi sér ekki. Já þau komu upp ungum þetta árið. Það var eitthvað svo ánægjulegt að sjá það því síðustu árin hefur varpið mistekist hjá þeim.

Við Erlan vorum með okkar ungahóp í dag 17. júní á Vífilsstaðatúni í Hafnarfirði og stoltið reis í hæstu hæðir innra með okkur yfir þessum fríða og skemmtilega hóp okkar. Við elskum svona samfélag og teljum okkur forréttindafólk að eiga slíka vináttu sem við finnum hjá þeim. Gefandi og elskuríkt samfélag.
"Það er gott að elska" söng Bubbi... og það er svo rétt, það er auðvelt að elska þessi yndigull öll.

laugardagur, júní 16, 2012

1973 eða um það bil

Austangola, heldur köld og skýjabakki hefur hlaðist upp í suðri. Lopapeysan vinur minn heldur mér þokkalega heitum og hristingurinn framkallar nóga hreyfingu til að halda mér við efnið. Síðasti snúningurinn áður en ég sæki bindivélina. Það hefur gengið illa að ná þurru, bleytutíðin þrálát og tuggan sem ég er að snúa er orðin gulnuð, Það hellirigndi í hana hálfþurra fyrir viku og síðan hefur varla sést til sólar.
Þetta er ekki merkileg tugga, hún er þó skást á grasfitinni enda langmest sprettan þar. Hitt eru hálfgerð nástrá í eyðimörk sem enda í sandfláka þar sem kartöflugarðarnir eru, óttalega rytjuleg jörð, grassnauð og brekkan bara blásvartur sandur.
Það eykur í vindinn og lopapeysan heldur illa gegn hrollinum, Skýjabakkinn hefur stækkað og færist hratt yfir, fyrstu droparnir falla, þeir eru kaldir og blautir, sagan virðist ætla að endurtaka sig og hálfþurr tuggan verður að bíða enn um stund. Ég losa tætluna aftan úr traktornum, hrollkaldur, þetta verður léleg tugga.

Mér datt þetta í hug áðan þegar ég sat í dúnmjúka sófanum mínum í kofanum hér á Föðurlandi í hlýju og notalegheitum og horfði út í laufskrúðið sem prýðir blettinn. Nákvæmlega hér sem ég sit skildi ég eftir sporin sem ég lýsti hér að framan, það nálgast 40 ár síðan. Það hefur fennt í þau en hér liggja þau samt. Þessi gróðurreitur sem nú er hér man tímana tvenna... og ég líka.



sunnudagur, maí 27, 2012

Upp er runninn hvítasunnudagur...

...ákaflega bjartur og fagur. Enn einu sinni sit ég hér í sófanum mínum á Föðurlandi með dyrnar opnar og hlusta á þrastasönginn og hin vorhljóðin öll sem ég kann svo vel að meta. Hér hefur skaparinn vandað sig sérstaklega við samsetningu tilverunnar, var ég kannski búinn að segja ykkur það einhverntíman? Rigningin í gærkvöldi er jarðvegur ferskleikans sem núna blasir við og vorhljóðin óma hér í kyrrðinni, logn sól, flugnasuð og þrastasöngur... og hanagal.

Við horfðum á Júróvision í gærkvöldi og vorum eins og flestir Íslendingar stolt af þjóð okkar og þessu fallega lagi sem við sendum út til að sigra heiminn. Það viðurkennist að það vottaði fyrir tapsæri þegar rann upp fyrir okkur að lagið okkar var við það að sleikja botninn í vinsældakapphlaupinu sem háð er eftir að allir hafa lagt sitt á vogarskálarnar. Um leið er það kómískt að hafa upplifað aftur gamla Gleðibankafílinginn fyrir keppnina en við vorum nokkuð viss um að lenda allavega í öðru sæti og jafnvel fyrsta. Skemmtileg kómedía.

Erlan, þessi elska sem hefur fylgt mér svo lengi er ekki í vandræðum með hvernig á að eyða svona morgnum, hún sefur, og fer létt með það. Ég aftur á móti hvorki tími því eða get það. Svona er nú gott að geta gert það sem manni er kærast en þessi staður er til þess ætlaður.
Að vísu hvíla nú á mér nokkrar skyldur sem trufla aðeins í mér letigenið. Það liggur fyrir að gera "nokkur" handtök hér, eins og að bera á húsin, taka saman niðurhoggin tré og greinar sem liggja enn þar sem þau duttu í vor og svo þarf ég að klára millibygginguna. Æjh... þetta hleypur ekkert frá mér, eða svo segir mér gestur minn sem eyðir þessum morgni með mér... og ég trúi henni. Hún kíkir oft við hér og við eigum gjarnan fínasta samfélag saman þangað til ég hef ekki samvisku í annað en að vísa henni á dyr og oft þverskallast hún við að fara þrátt fyrir það. Ég hugsa að ég leyfi henni að vera með okkur í dag, hún er svo þægilegur gestur.
En frú Leti þú hypjar þig í fyrramálið!!!

Jæja best að hætta þessu tölvuveseni og bjóða gestinum með mér út á pall í sólina og vorið.
Njótið dagsins vinir.




fimmtudagur, maí 17, 2012

Bylting á bökkunum

Dýrin eru ekki vitlaus og um margt lík okkur mannskepnunni. Mér er tíðrætt um þau nágranna okkar Nínu og Geira hér á blogginu mínu. Þau eru eins og lesendum mínum er kunnugt, óðalsbændur og hafa eignarhald sitt á hreinu gagnvart öðrum íbúum eyjarinnar. Þau eru harðstjórar og stjórna þegnum sínum með valdi og yfirgangi og leyfa sér að fara í fuglgreinarálit því gæsirnar eru lægstar í virðingarstiganum og bugta sig og beygja, eins og hundar í virðingarstiganum.

Þessir stjórnhættir heyra auðvitað undir lögmálið að sá sterkasti ræður sem er algengast í náttúrunni. Hins vegar er fylgifiskur þessa lögmáls að máttur margsins er meiri en sterkasti einstaklingurinn. Þetta veit hugsandi mannskepnan og nýtir sér stundum eins og sást t.d. í búsáhaldabyltingunni okkar margumtöluðu.
Það að skynlausar (eða hvað) skepnur geri uppreisn hlýtur að teljast svolítið merkilegt fyrirbæri.

Ég sagði í síðasta pistli að gæsirnar væru húmoristarnir í þessum fuglheimum. Við urðum áhorfendur að uppákomu í eynni í gær sem kannski kollvarpar þeirri hugmynd minni. Engu var líkara en að um skipulagða uppákomu væri að ræða. Gæsirnar komu að úr öllum áttum og sóttu að þeim hjónum. Ég taldi 23 gæsir sem gerðu aðsúg að þeim frá báðum hliðum í einu og hröktu Geira frá hreiðrinu meðan hann varðist á hægri og vinstri með vængjum og gogg í lengri tíma þangað til hann lagðist niður og virtist alveg búinn á því. Þá sneru þær sér að Nínu á hreiðrinu sem lamdi og barði frá sér þangað til hún gafst upp líka. Í framhaldi af þessu var heill hópur gæsa sperrtar á vappi innan um Nínu á hreiðrinu og Geira liggjandi úti í móa og virtist sem valdatíma þeirra væri lokið, þau liftu ekki einu sinni upp litlufjöður til að sýna vald sitt.
Það á þó eftir að koma í ljós hvort þetta voru bara skipulögð mótmæli til að sýna að þolinmæðin væri á þrotum eða hvort þetta var bylting og valdarán og nýtt stjórnmálaafl sé tekið við í eynni, Það væri þá saga til næsta hreiðurs, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.


laugardagur, maí 12, 2012

Landnám

Landnámsmenn "helguðu" sér land og bara með þeim gjörningi "áttu" þeir landið sem innan helgunarinnar féll. Þannig var eignarrétturinn skilgreindur í þá daga. Enginn átti landið og lög heimiluðu að menn helguðu sér land með þessum hætti. Ingólfur Arnarson helgaði sér t.d. land frá Ölfusárósum til Þingvalla og þaðan í Hvalfjarðarbotn. hann sem sé átti allt Reykjanesið og Bláfjallasvæðið, Ölfusið, Kjósina og Hvalfjörðinn sunnanverðan með löglegum hætti. Afsalið var yfirlýsing um helgun landsins, það væri sæmileg jörð í dag.

Þessi réttur eins og hann birtist þarna flokkast væntanlega undir náttúrurétt sem er einskonar frumréttur. Sem dæmi má nefna berjamó þar sem margir koma saman og týna ber. Enginn á berin á lynginu áður en þau eru týnd en um leið og það er komið í krukku þá á sá berin sem lagði vinnu í að týna þau þó hann hafi ekki átt þau nokkrum mínútum fyrr og hafi ekki borgað fyrir þau. Náttúruréttur er samt sanngjarn því hann samþykkir ekki óhóf (spurning með Ingólf?). Það er hætt við að ef einhver týndi mörg tonn af berjum í berjalandinu og kláraði upp það sem væri annars til skiptana, er ekki jafnvíst að allir samþykktu eignarréttinn á því hlassi eins og berjakrukkunni með tveimur kílóunum í.

Mér datt þessi náttúruréttur í hug þegar ég var enn einu sinni að fylgjast með Geira í hólmanum í gær. Hann hefur greinilega helgað sér land sem hann telur sig hafa eignarrétt yfir. hann er mjög aggresífur þegar einhver vogar sér yfir landamerkin hans. Í gær var hann sérlega pirraður og þeyttist endanna á milli og barði og beit... gæsir auðvitað.
Það kómíska var að gæsirnar virtust gera sér grein fyrir að hægt væri að epsa hann því þær skiptust á að fara inn í landið hans á sitt hvorum endanum og létu hann þeytast á milli og engu líkara en að þetta væri leikur hjá þeim þó Geira - fúla, væri ekki skemmt. Gæsirnar hafa því vinninginn þegar kemur að því að hafa gaman.

Já svona geta nú litlu hlutirnir í lífinu verið stórskemmtilegir.
Njótið dagsins.

miðvikudagur, maí 09, 2012

Vorið vann

Eins og veðrið lét leiðinlega við okkur í gær er eins og það sé að biðjast afsökunar á ónæðinu núna því blíðan er með þeim ósköpum að sól skín í heiði og lognið er svo algert að það verður ekki lygnara á tunglinu. Ég dró fánann að húni í morgun, það er við hæfi að flagga fyrir vorinu eftir baráttu gærdagsins. Ég myndi setja gullmedalíu um hálsinn á því ef ég bara vissi hvernig ég færi að því. Fáninn liggur samt slappur niður fánastöngina og hreyfir sig ekki.

Það er samt ekki á vísan að róa með íslenskt veður. Kannski tek ég of djúpt í árinni því eins og ég sagði ykkur í gær var morguninn svona fallegur eins og núna þangað til við sáum eitt og eitt veifandi snjókorn svífa framhjá glugganum. Það kom á óvart og ekki minnkaði undrunin þegar þeim fjölgaði ört í hundslappadrífu sem litaði umhverfið í vetrarbúning, það er vor og liturinn á að vera grænn eins og núna.

Þessi "sunnudagur" okkar verður stóískur letidagur sem er ekki erfitt á svona fallegum vordegi við snark í eldinum. letilegt tikk gömlu klukkunnar okkar og söngfuglasverminn hér á Föðurlandi. Erlan nýtur hvíldarinnar í tætlur og tekur náttfatadag á þetta, það merkir að hún er fullkomlega afslöppuð.Við förum ekki heim fyrr en seinnipartinn og svo tekur atið við í fyrramálið.

Við búum svo vel að hafa nóg að sýsla og erum þakklát fyrir það.

þriðjudagur, maí 08, 2012

Átök árstíðanna

Viðvera í kofanum á Föðurlandi er himnesk. Frúin situr hér við hliðina á mér og þykist lesa bók en er meira hálfdottandi ofan í hana, það er allavega augljóst að hún er ekki í lestrarmaraþoni.

Morguninn heilsaði með sól og ágætis hitatölum sem sameiginlega gáfu okkur undir fótinn með göngutúr og útiveru. Við nýttum gærkvöldið í góðan göngutúr og ákváðum þá að fara aftur í dag og þá upp í haga að fornum sið. Góða veðrið hélst ekki lengi því það kólnaði hratt, vetur minnti aðeins á sig og eftir hádegið í dag var farið að snjóa og það drjúgt. Á tímabili var hundslappadrífa og allt hvítt. Staðreyndin er samt sú að það er kominn maí og ef sólin nær á annað borð að kíkja milli skýja þá er svona föl fljót að láta undan. Sú var líka raunin, það var hægt að sjá snjóinn bráðna, svo snögglega hvarf hann og bunurnar af þakbrúninni sýndu öðru frekar hversu mikil bráðnunin var.

Veran okkar hér er helgarfrí þó ekki sé helgi. Það getur stundum hentað betur að taka okkur pásu á virkum dögum en um helgar því við erum jú, með öðrum íhlaupum, ísbændur, og bændur eru ekki alltaf að spá í klukkuna eða dagatalið.

Ástæðan fyrir því að við getum kíkt á netið hér er síminn minn, en hann hefur þann ágæta eiginleika að nýtast sem ráder og því hægt að tengjast netinu þráðlaust eins og heima hjá sér, snilldin ein verð ég að segja.

Nú er allur snjór horfinn og dottið á dúnalogn. Fuglasinfónían er byrjuð aftur en hún þagnaði í snjókomunni enda varla ástæða fyrir greyin að syngja hástöfum í snjóbyl. Mér sýnist á öllu að fyrirheit dagsins um útiveru geti orðið að veruleika ef þetta heldur svona áfram. Ég verð þó að velja um tvennt... að leyfa frúnni að sofa, já hún er steinsofnuð, eða vekja hana í göngutúr.



sunnudagur, maí 06, 2012

Hver röndóttur..

Það þýðir lítið að vera að lofa okkur sól og láta Kára blása ísköldu í staðinn, þannig var það líka í gær, full sól í kortunum en kalt. Bærinn var troðfullur af fólki að spóka sig á sunnlenskum sveitadögum. Hátíð sem minnti á landbúnaðarsýninguna í gamla daga, sem við bræðurnir fórum á með pabba og mömmu. Þá var reyndar fleira sýnt en tæki og tól til landbúnaðar því svín, beljur, hestar og hænsn voru líka til sýnis. Það varð fleygt og lengi hlegið að því þegar ég sagði mömmu frá því með andakt að ég hefði séð gyltu sem var svo "svakalega feit að hún er næstum eins feit og þú mamma". Þetta áttu alls ekki að vera áhrýnisorð heldur lýsingarorð, mamma var sem betur fer nógu þroskuð til að vita það og hló manna mest, hún var yndismamma.

Ég er að fýlast út í Kára núna vegna þess að það er sunnudagur og þeir eru venjulega bestu söludagar vikunnar í ísnum. Kuldinn hefur samt líklega haft meira vægi í gær því fólk var úti við að skoða sýninguna og því kannski ekki það fyrsta sem þeim datt í hug að fá sér ís komandi norpin af norðangjóstinum í bílinn aftur.
Í dag er það hinsvegar hefðbundnara, fólk úti að keyra í heitum bíl og gluggaveðrið, sólin  og birtan æsa upp íslöngunina. Já það er ákveðin sálfræði í þessu eins og öðru.
Það verður samt ekki horft framhjá því að vorið er að banka uppá og komin glufa á dyrnar jafnvel. Trén eru að laufgast og grasið nálgast sláttuhæð, mánuði á undan miðað við í fyrra.

Danni bróðir var hér í gærkvöldi og við fylgdumst smá stund með nágrönnunum Nínu og Geira. Þau virðast vera orpin, allavega haga þau sér þannig. Við sáum tilþrifin hans Geira vel því í tvígang lét hann til sín taka, annarsvegar við máf sem gerðist of nærgöngull og svo enn eitt þreytandi gæsarkvikindið sem vogaði sér innfyrir landamerkin hans. Það þolir hann ekki og því fer sem fer, skyndileg árás og fiður fær að fjúka því Geiri er fantur, sérstaklega ef pirrandi gæsir eiga í hlut.

Vorið er minn tími og ég verð að viðurkenna að kofinn er farinn að toga í mig fastar og fastar. Fuglasinfónían þar er byrjuð og bara tilhugsunin um að slappa af þar með Erlunni minni togar í mig eins og segull togar í stál. Ég þarf að fara að finna tíma til að skreppa. Samt er það einhvernveginn þannig að ef mikið er að gera þá kostar það ákveðið samviskubit að fara ef verkefnin bíða á meðan. Svona er að vinna hjá sjálfum sér, frídagar verða því svolítill lúxus stundum og oft erfitt að semja við vinnuveitandann um frí. Ég er samt ákveðinn í að gera atlögu að honum og athuga með hvort hægt sé að lofa manni að skreppa í vikunni.
Hann er algjör röndóttur fantur ef það gengur ekki upp.



föstudagur, maí 04, 2012

Níu líf

Vinir okkar Nína og Geiri mættu hér við hreiðrið sitt eins og öll árin á undan þrátt fyrir orðróm í fyrra um að dagar þeirra væru taldir. Þau koma alltaf á óvart. Ég var búinn að sjá álftapar útí í eyju en taldi það ekki vera þau Nínu og Geira því þau voru ekkert að sniglast við hreiðrið. Það var ekki fyrr en ég sá kallinn taka sprett á eftir gæs með útbreidda vængina sem ég þekkti taktana, Geira er meinilla við lágstéttargæsir enda sjálfur af óðalsættum og lætur þær hafa það óþvegið hvert sinn sem þær nálgast óðalið þeirra Nínu.

Í gærkvöldi sat Nína á hreiðrinu og lét fara vel um sig. Ég veit ekki hvort hún verpir en þau hafa ekki komið upp ungum síðustu árin þó þau hafi verið við hreiðrið og líkast að þau sitji á eggjum, ég held þau séu komin úr ungeign. Þau eru líklega orðin fjörgömul enda hafa þau átt heima þarna í eyjunni frá því löngu áður en við fluttum hingað sagði mér gömul kona, nágranni okkar, sem er dáin núna.

Það er orðið eitthvað svo heimilislegt að eiga þau fyrir nágranna og fylgjast með háttalagi þeirra svo það verður leiðinlegt þegar þau bregða búi og hætta þessu. Þau koma samt alltaf ár eftir ár eins og þau eigi níu líf, ég er alveg sáttur við það.

Njótið dagsins vinir.

sunnudagur, apríl 29, 2012

"Mig hefur alltaf langað"...

Algeng setning sem maður heyrir hjá fólki. Einhver sagði að draumar væru til að láta þá rætast. Ef það er rétt þá ætti að fylgja þessari ágætu setningu nauðsyn þess að gera áætlun um hvernig. Ég hef heyrt svo marga tala um hvað þeim langar að gera í framtíðinni, læra eitthvað, fá sér aðra atvinnu, ferðalög, flytjast búferlum og svo allt milli himins og jarðar. Ég hef séð einstaka menn og konur láta verða af draumum sínum en miklu fleiri sem láta sér nægja að dreyma. Það er einkennandi fyrir fyrrnefnda hópinn að hann virðist gera plön um hvernig hægt er að ná markmiðinu. Sumir stoppa þar og virðast haldnir þeirri grillu að það sé nóg að gera planið og síðan ekki meira. Aðrir, og það eru þeir sem oftast ná markmiðum sínum eru þeir sem nenna að bæta síðasta ferlinu við sem er að bretta upp ermar og framkvæma. Þar skilur á milli.

Afhverju er ég að pæla í þessu. Jú ég hef verið að hugsa um þetta undanfarið því ég sé alltaf betur og betur eftir því sem árin líða hversu mikill smiður maður er að eigin gæfu og gæðum ef út í það er farið. Lífið er ekki bara lotterí og spurningin snýst ekki um hvort maður er heppinn eða óheppinn í lífinu þó auðvitað geti lukkan snúist á sveif með eða á móti. Miklu frekar er spurningin hversu vel vandarðu sporin þín og hversu mikla nennu hefurðu og kjark til að framkvæma það sem þig langar.

Stór hópur viðhefur upphafsorð þessa pistils og bætir við, "en ég er orðinn of gamall". Ég er algerlega ósammála þeirri fullyrðingu. Aldur er afstæður og því er allur aldur tilvalinn til að láta drauma sína rætast en allt of margir missa kjarkinn til þess þegar árunum fjölgar og hugsunin um að það styttist í annan endann verður ráðandi afl. Það afl er lífsgæðaræningi því það gefur mikla lífsfullnægju og hamingju að eiga sér markmið og vinna að því að láta það rætast.

Það er því ráð að skoða aðeins hvaða viðskeyti við eigum við þessi orð "mig hefur alltaf langað" rífa sig svo upp á rassinum, bretta upp ermar og hefjast handa.



laugardagur, apríl 28, 2012

Dáyndis allt

Ég þekki það á eigin skinni að dagarnir eru misgóðir, eða jafnvel ákveðin tímabil sem maður gengur í gegnum. Ég geri það gjarnan að kíkja um öxl og líta yfir farinn veg. Ef ég skyggnist tuttugu ár aftur þá sé ég krepputíð hjá okkur fjölskyldunni. Hún var hörð við okkur og skildi eftir sig spor sem marka allt sem á eftir hefur farið. Hún stóð yfir í rúman áratug frá tuttugu og níu ára aldri til fertugs.
Kreppan margumtalaða í dag er eins og þreytandi rigningartíð síðvetrar þar sem maður bíður eftir að vorið fari að láta sjá sig og allt verði grænt aftur. Kreppan, eins og hún er þreytandi þá er hún vissulega staðreynd en hún er miklu líkari leiðinda tíðarfari en harðneskju.

Undanfarnir mánuðir hafa verið ótrúlega annasamir hjá okkur og lítill tími gefist til að huga að öðru en vinnu. Einhvernveginn finnst manni að vinnan komi til manns og svo bíður maður eftir að lát verði á en svo er það bara þannig eins og einn góður maður sagði við mig um daginn þegar mér varð á að segja að ég hefði fullmikið umleikis: "þú sérð um það sjálfur að hafa svona mikið að gera" og það var auðvitað hárrétt.
Hver er sinnar gæfu smiður (eða skrifstofustúlka) og þannig er það með okkur öll. Mælikvarðinn á raunveruleg verðmæti verður aftur á móti ekki lesinn fyrr en sagan er sögð.

Mín innrétting er þannig að ég vil hafa nóg að sýsla en ekki of mikið. Ég vil hafa tíma fyrir lífið sjálft, til að leika mér, hugsa um garðinn minn, leika við barnabörnin, ferðast og eiga samfélag við mann og annan. Það er það sem gefur lífinu gildi þegar upp er staðið og vegur meira á gæðamælikvarðanum en vinna þótt hún göfgi manninn eins og sagt er. það er jú þannig eins og segir í heilagri bók að "Ekkert er betra með manninum en að eta og drekka og njóta ávaxta handa sinna.

Þessvegna er ég hættur þessu pári núna og ætla að hella upp á kaffi fyrir frúna sem var að koma niður og njóta restar morgunsins með henni, fá mér að eta og drekka og njóta vel.

föstudagur, apríl 06, 2012

Prinsippin...

...eru engin lögmál. Allavega virðist ekki mikill vandi að brjóta prinsipp með einni ákvörðun. Við opnuðum ísbúðina á miðvikudaginn og fundum út að það væri asnalegt að hafa hana opna í tvo daga og loka svo þann þriðja. Það er því opið í dag föstudaginn langa en lokað á páskadag í staðinn. Ég skal reyndar viðurkenna að prinsippið að hafa allt lokað á föstudaginn langa er nokkuð naglfast í mér og ég þurfti að fara í smá rökræður við sjálfan mig til að ákveða að hafa opið.

Í fyrsta lagi er það bara venja úr uppeldinu að aðhafast ekkert þennan dag, þ.e. hvergi er talað um það í heilagri ritningu. Í öðru lagi er það náðin sem er ávöxtur krossfestingarinnar og síðan upprisunnar sem gerir að verkum að allt er í sjálfu sér leyfilegt og í þriðja lagi er meira af ferðamönnum á ferðinni í dag en á páskadag því þá eru allir heima að borða súkkulaði.

Föstudagurinn langi er samt í órofa sambandi við páskadag og saman mynda þeir undirstöður kristinnar trúar. Ég hef sagt það áður og segi enn að þessi hátíð ætti að vera stærsta hátíð kristinna manna en ekki jólin. Það var á þessum degi sem Kristur lýsti yfir á krossinum að verkið væri fullkomnað. Það var á þessum degi sem náðin varð til og án hennar væru margir kristnir menn margdæmdir norður og niður, því mörg verkin þeirra flokkast varla sem farmiði til himna.
Ég geng því brosandi út í daginn og opna ísbúðina því ég trúi á náðina.

sunnudagur, apríl 01, 2012

Heim aftur

Heima er best eins og segir. Danmörk er líka fínasta land þó ekki vildi ég búa þar. Hér hef ég það sem ég met mest í lífinu. Fjölskyldan trónir á toppnum. Þar stendur mér næst kjarninn minn en stórfjölskyldan mín, systkini, mágar og mágkonur, frændur og frænkur, tengdaforeldrar og vinir hafa líka mikið vægi. Svo hefur landið sjálft mikinn segulkraft á mig.
Það var yndislegt að heyra í farfuglunum sem hafa komið hingað meðan við vorum utan. Það finnst kannski mörgum skrítið hvað þessi rútína náttúrunnar togar í mig en það skiptir mig ekki máli. Árstíðirnar hér á landi búa við sjarma, sinn með hverju sniðinu og mér finnst þær allar heillandi. Ég verð víst aldrei búsettur annarsstaðar en hér, Ísland er best.

Dominos verkefnið gekk vonum framar og tilætluð áætlun gekk eftir, að skila því á fimm vikum sem var djarft, enda var ég með vel valda áhöfn, góða verktaka sem stóðu sig vel.

Danmerkurferðin var líka fín. Hún var hugsuð sem frí- og vinnuferð. Við mynduðum tengsl við danska heildsala sem við höfum nú góða tengingu við og getum flutt inn mjög fallegar danskar vörur fyrir Home design, en dönsk hönnun er mjög vinsæl. Við keyptum líka helling inn fyrir Basicplus.
Sumarhúsið þarna var þegar til kom, fimm stjörnu, og þar var allt til alls. Við höfðum það því gott þar í skóginum og ekki síður í framhaldinu hjá Óla og Annette sem tóku vel á móti okkur eins og venjulega.

Nú erum við komin heim og verkefnin bíða á færibandi. Við opnum ísbúðina fyrir páska og því er líklegt að mikið verði að gera hjá okkur yfir páskana. Verulega hefur bæst við lögfræðileg verkefni undanfarið og Erla er á kafi í bókhaldsvinnu svo það er í mörg horn að líta þessi dægrin.

Ég á von á Emmessís mönnum á eftir svo nú er það kaffibollinn með frúnni. Hún er komin á ról og það freistar mín alltaf að setjast niður með henni og spjalla aðeins áður en farið er út í daginn.

Páskar framundan og frí, njótið því daganna vinir.

sunnudagur, mars 18, 2012

Afsakið hlé

Það telst góður vandi að hafa full mikið af verkefnum á sinni könnu er það ekki? Ég lít raunar ekki á það sem vanda heldur blessun. Opnun Dominos hér fór varla framhjá nokkrum manni, en formleg opnun var í gær. Verkefninu er því lokið og við taka næstu verkefni.

Ný reynsla liggur við tærnar. Ég var dómkvaddur sem matsmaður af Héraðsdómi Reykjaness til að leggja mat á þrjú mál sem tekist er á um, tvö gallamál sem varða byggingar og eitt sem snýr að skiptingu kostnaðar vegna lóðarvinnu við tvö fjölbýlishús. Þetta er mikil ábyrgð því matið er lagt fram sem sönnunargagn um umfang og kostnað.

Ísbúðin fór á bið þegar Dominos verkefnið byrjaði. Nú er það komið á skrið aftur og er ætlunin að opna fyrstu dagana í apríl.

Svo hleðst á snjóboltann "lögfræðileg verkefni" hjá mér sem ég velti af stað fyrir rúmu ári síðan. Ég sé ekki eftir því að hafa opnað lögfræðistofu sjálfur. Er með allnokkur mál undir núna sem ég er að vinna að og fleiri bætast við reglulega. Það hentar mér vel að vera sjálfstæður í því sem ég er að gera hverju sinni, á erfitt með að láta aðra stýra mér, enda tel ég mér trú um að ég geri það best sjálfur ;-)

Allir þurfa að hvíla sig og við ætlum að taka smá pásu frá öllu núna, það verður yndislegt. Sumarhús í Danmörku bíður okkar. Það verður samt í bland, frí og vinnuferð, því við ætlum að heimsækja tvær heildsölur fyrir Home design og versla inn fyrir búðina og líka eitthvað fyrir Basicplus.
Það er samt fjarri mér að kvarta undan því að vera upptekinn í dagsins önn, ég lít á það sem forréttindi enda þrífst ég vel í ati.

Ein hugsun hér fyrir daginn. Allir eiga sér drauma um framtíðina, eitt lítið orð skilur á milli þeirra sem láta þá rætast og hinna sem ná því ekki... það er orðið "framkvæmd"

Njótið dagsins.

sunnudagur, febrúar 26, 2012

Úr handraðanum

Blessað fólkið í landinu okkar er orðið svo gegnumsýrt af krepputali að það sér ekki til sólar þegar léttir til.

Ég sagði það og segi enn að landið okkar, þetta frábæra Ísland sem kraumar af auðlindum sem þjóðir heims öfunda okkur af, færir okkur fyrst allra þjóða upp úr kreppunni. Landið er okkar auðlind. Fólk sér frumkraftana sem mynduðu þennan heim myndbirtast í beinni útsendingu frá Íslandi og situr fast á flugvöllum um gjörvallan heim vegna litlu eyjunnar í norðri. Þessir frumkraftar sem allt mannkyn ber virðingu fyrir og litla þjóðin sem býr hér hefur á sér þennan sama stimpil og þykir hafa til að bera sömu frumkraftana og landið sjálft.

Við búum vel að hafa úr öllum þessum auðlindum að spila. Fiskurinn, varminn, orkan og nú síðast olían sem vísindamenn eru ekki lengur í vafa um að finnst á landgrunninu fyrir austan land eru gullnámur sem gefa vel og hagkerfið okkar er örsmátt svo það þarf ekki mikið.
Enda þegar litið er yfir sviðið þá eru hagtölur okkur hagfelldar, við sjáum mjög þokkalegan hagvöxt á árinu sem jafnast á við best settu þjóðir álfunnar. Fiskafurðir eru í hæstu hæðum og vöruskipti við útlönd eru hagstæð um tugmilljarða mánuðum saman. Hækkandi lánshæfimat okkar undirstrikar að við erum á réttri leið.

Gott fólk við höfum fulla ástæðu til að líta upp úr svartnættinu og láta þessar staðreyndir auka okkur bjartsýni og von til framtíðar.

Svo auðvitað gildir hið fornkveðna að "áhyggjur auka ekki spönn við aldurinn" svo þannig séð er það betra lífsmottó að líta bjartari hlið tilverunnar en þá svartari.

Njótið dagsins vinir.

sunnudagur, febrúar 12, 2012

Ómstríður kaflinn...

...um þessar mundir. Kallinn á kafi í verkefnum. Blogga ekki mikið undir álagi eins og dyggir lesendur mínir vita. Það fer gjarnan þannig ef hugurinn er á miklu flugi að ég gef mér ekki tíma til að setjast niður og skrifa.
Þessari vinnutörn á samt að ljúka í síðasta lagi 16. mars. Þá verður gott að setjast niður og bjóða frú Leti og fleiri góðum gestum í kaffi og jafnvel gistingu.

Þangað til... skulum við samt njóta daganna.

sunnudagur, febrúar 05, 2012

Á seinna fallinu

Ég get verið óttalegur morgunhani og á oftast erfitt með að "sofa út" í skilningi flestra þó ég haldi því reyndar fram að ég hljóti að "sofa út" ef ég vakna af sjálfsdáðum þótt klukkan sé í hugum sumra ennþá nótt. Það telst því til stórundra að ég sofi til klukkan níu eins og núna. Ég er því búinn að ganga aðeins á þennan stórkostlegasta tíma dagsins því morgnar eru minn tími.
Tíminn er eins og hraðlest með okkur um borð með umhverfið þjótandi framhjá á ógnarhraða. Daginn lengir hratt og maður sér orðið mikinn mun frá svartasta skammdeginu í desember, það er alltaf gott, hækkandi sól með birtu og yl kætir andann og efnið.

Dominos á Selfossi verkefnið er komið á fullt svo það verður mikið að gera næstu vikurnar. Verst að ekki tókst að opna ísbúðina áður en þetta tók við. Arkitektinn sem var að vinna fyrir okkur var engan veginn að skila sínu svo það endaði með að við fengum annan sem vinnur mun betur með okkur. Það verður gaman að opna aftur því búðin verður afar glæsileg.
Dominos hér verður líka lang flottasti Dominos staðurinn á Íslandi, mikið í hann lagt. Þetta er fyrsti staðurinn með veitingasal en Dominos í heiminum er að fara að breyta stöðunum sínum á þennan veg. Þetta er einn af fyrstu stöðunum í veröldinni sem verður með þessu sniði.

Dagurinn í dag lofar góðu, veðrið er eins og best gerist og vorið er framundan.
Njótið vel vinir.

fimmtudagur, janúar 26, 2012

Illskan í honum Kára

Það fauk í hann í gærkvöldi og hann hefur ekki linnt látunum síðan. Þetta er versta vetrarveður síðan við fluttum hingað 2006. Ég hafði varann á í gærkvöldi og fylgdist með því veðurfræðingar höfðu sagt að ætti að hvessa. Nálægt miðnætti var enn logn hér en það stóð ekki lengi eftir það. Með hvelli rauk upp stormur svo ekki sást út úr augum og gatan fylltist á hálftíma af sköflum.
Í alla nótt hristist húsið stafnanna á milli og snjóbylurinn var þannig að ekki sást á milli húsa. Það er enn rok en bylurinn hefur minnkað.
Ég kíki alltaf eftir færðinni á vefnum, sérstaklega heiðinni. Kortið hef ég aldrei séð svona eins og sést hér að ofan, allt meira og minna lokað.
Ég fæ víst ekki tækin úr bænum sem ég átti að fá í morgunsárið fyrir ísbúðina.

Hvað um það, heimurinn ferst ekki við það. Kosturinn við svona veður er auðvitað sú staðreynd að það væsir varla um nokkurn mann, hlýju húsin okkar eru orðin svo góð að flestir finna fyrir notalegheitatilfinningu þegar veðrið lætur svona.

Um að gera að njóta þess meðan er.

sunnudagur, janúar 22, 2012

Tærnar á sjálfum mér...

...uppi á borði eru það eina sem skyggir á logana því ég er sokkinn í sófann hér framan við arininn með tölvuna í fanginu og blogga. Snarkið lætur vel í eyrum og lágvær Tírólatónlist spilar undir mómentið. Það er vandalaust að gleyma sér hér í kofanum, láta hugann reika um Tírólahérað og leyfa góðum minningum að renna gegnum hugann, það kostar ekki krónu.

Við reynum að nota kofann eins og við getum, hann er svona staður sem vindur ofan af manni þegar mikið er að gera þó ekki sé nema sólarhringur eins og núna.

Fyrsta verk hér er oftast að vekja gömlu klukkuna til lífsins, trekkja sláttinn og tikkið, þessi 112 ára gamla stofuklukka er nauðsynleg til að skapa móment eins og við viljum hafa það, gamla sveitarómantíkin, þið vitið þessi stóíska. Út um gluggann sé ég kurlast niður blaut snjókorn annað slagið sem fjúka til og frá undan Kára kallinum sem virðist hafa gaman að því að leika sér núna. Hér er allnokkur snjór og greinilega margfrosinn því hann er eiginlega harðfenni með svellbunkum.

Það tilheyrir að elda góðan mat hér, þá er gott að eiga sæmilegan vetrarforða í kistunni og geta tekið eitthvað með á grillið. Við Erlan mín erum svo heppin að kunna svo vel við okkur að okkur leiðist ekki þó við séum tvö í kotinu.
Við erum bæði óendanlegir sælkerar og því hef ég gaman af því að gera tilraunir á grillinu fyrir hana. Hún segir mig dekra sig upp úr skónum með þessu en það er eins og hún fatti ekki hvað það er í raun lítið endurgjald fyrir það sem hún dekrar mig.
Kannski erum við bara dekruð bæði hvort á sinn hátt.

Hún er búin að setja upp kartöflur svo það er best að ég fari að gera mig kláran í grillunina. Heim á morgun og alvaran í nefið.

sunnudagur, janúar 15, 2012

Morgunbollinn...

...er alltaf á sínum stað. Hann er meiri viðhafnarbolli á sunnudagsmorgnum en aðra daga því þá á ég frí allajafna. Krossgáta og nokkrar sudoku þrautir eru oft fylgifiskur sunnudagsbollans og svo á ég það til að setjast við tölvuna og renna yfir fréttir dagsins, veður, fésið og svo dett ég oft niður í það að blogga aðeins.

Svona friðsælir morgnar eins og þessi, veðrið minnir á vor og Kári vinur minn sefur svefni hinna réttlátu og lætur ekki á sér kræla verða mér oft tilefni hugrenninga, og þá gjarnan um gæðin sem ég bý við sem mér finnst svo gott að setja niður á ritmál til að eiga síðar.
Það er nálægt því að vera tíu ár síðan ég byrjaði að blogga, þar af átta hér á blogspot. Það telst víst varla tískufyrirbæri lengur að blogga því fáir fást við blogg lengur eftir að fésið hertók netheima og annar tjáskiptamáti steinrann í kjölfarið. Ég er víst steinrunninn fornmaður, hef gaman að fésinu en  ég les gjarnan blogg hjá völdum einstaklingum líka.

"Orð eru álög" segir einhversstaðar og ég velti því stundum fyrir mér hvort það geti verið rétt. Þau eru allavega til alls fyrst því hugmyndir breytast gjarnan fyrst í orð áður en þær verða að framkvæmd. Ég hef oft sagt að ég þrífist best á því að hafa nóg fyrir stafni og vilji vera upp fyrir haus í verkefnum. Ef orð eru álög þá er kannski best að hætta öllum yfirlýsingum. Ég tek svona til orða vegna þess að opnun ísbúðarinnar er rétt að bresta á eftir mikla vinnutörn því Home design búðin var inni í þeim pakka líka og ég var farinn að hugsa um að það væri gott að eiga smá tíma til að hvíla sig og taka því rólega þegar ég fékk símtal frá einum eigenda Dominos á Íslandi. Erindið var að biðja mig að sjá um að opna Dominos pizzustað hér á Selfossi. Ég tók auðvitað verkefnið að mér enda áskorun í því, því verkið á að vinnast á miklum hraða. Ég lít á þetta sem blöndu af verktöku og lögfræði því verkefnið felur í sér hagsmunagæslu fyrir þá, öflun tilboða, samningagerðir og mikla skipulagsvinnu.

Jæja það heyrist brölt á efri hæðinni og því kominn tími til að skella í annan bolla og drekka hann með betri helmingnum mínum.
Njótið dagsins.

laugardagur, janúar 14, 2012

Betri helmingurinn á afmæli

Það tikka á okkur árin sem betur fer og afmælisdagar fjölskyldunnar verða fleiri og fleiri eftir því sem okkur fjölgar. Erlan er mikið afmælisbarn og ég elska það þó ég sé ekki á sama kaliberi með það sjálfur. "Það er gott að elska" söng Bubbi. Það er fallegt lag og texti sem ég hef oft persónugert við okkur sjálf. Ég set þá Erluna í textann og sjálfan mig sem flytjanda. Ég verð að hafa þennan háttinn á þar sem ég hef ekki rödd sem nýtur sín nema í sturtunni.

Erlunni var úthlutað það krefjandi hlutverk að verða lífsförunautur minn. Það var mín gæfa. Hún hefur mótað mig gegnum tíðina með einlægni sinni og hreinlyndi og dregið fram í mér mínar bestu hliðar.
Skaparanum hugnaðist að velja mér frábæra konu sem er auðvelt að elska og sem dekrar mig oft meira en ég hef gott af. Hún er frábær móðir stelpnanna okkar, amma, tengdamamma eða önnur hlutverk sem hún sinnir af fágætri kostgæfni.

Ég hlakka til áranna framundan Erla mín og vona að Guð gefi okkur þau mörg.
"Föruneytið" ákvað að labba saman þangað sem sólin sest, þú manst.... tvær krumpaðar...!

sunnudagur, janúar 08, 2012

Hálkuleysi og fögur fyrirheit.

Gærdagurinn var kærkominn, hann var notaður til að gera ekkert eða því sem næst. Við nýttum hann því til að kíkja austur í kofa og athuga hvort ekki væri allt í lagi þar, sem var. Ég kveikti upp í kamínunni og við létum eftir okkur að dvelja þarna í nokkra klukkutíma við arineld. Kamínan er fljót að hita upp og eftir korter til hálftíma er orðið vel hlýtt inni. Það var ljúft að setjast aðeins niður í sveitasælunni og leyfa sér að slaka á við eldinn og hugsa um þau fögru fyrirheit sem kofinn lofar þegar vorar á ný.
Við kíktum svo á Gylfa og Christinu og ætluðum að vitja Hansa og Auju líka en tíminn flaug hjá eins og honum er svo gjarnt.

Í dag eigum við von á fólki hingað í Húsið við ána því Hrund á afmæli í dag og Erlan eftir nokkra daga. Þær eru báðar miklar afmælis- og jólabörn og njóta þessara hátíða meira en flestir. Til hamingju með dagana ykkar elsku yndin mín.

Það rignir heil ósköp þessa stundina svo vonandi tekur eitthvað af þessum svellalögum upp. Það kom reyndar á óvart hvað var lítil hálka á leiðinni austur í gær, allavega á þjóðvegunum. Það var auðvitað glæra á heimreiðum og afleggjurum þar sem ekki var búið að sanda en annars í fínu lagi.

Frúin er farin að brölta á efri hæðinni svo það fer að koma tími á kaffibollann með henni. Ég er auðvitað búinn með fyrsta bollann sem var tekinn snemma í morgun að venju.

fimmtudagur, janúar 05, 2012

Stýrimaður á eigin fleyi

Ég hlustaði á prédikun um daginn hjá séra Kristni Á. Friðfinnssyni sóknarpresti hér í Selfossprestakalli. Skemmtilega framsettur boðskapur sem náði eyrum mínum og athygli um hvernig höndla má hamingjuna á átta mismunandi vegu. Hann byggði lesturinn á rannsóknum viðurkenndra sálfræðinga sem gerði niðurstöðuna marktækari í mínum huga.

Ekki er hugmyndin að endurtaka hér það sem hann sagði, utan eitt atriði sem náði eyrum mínum sérstaklega og þá aðallega vegna þess að ég gat svo vel staðsett sjálfan mig þar. það snerist um að vera sjálfur með hendur á stýri í eigin lífi þ.e. að láta ekki aðra stýra gjörðum manns.

Margur maðurinn lifir lífinu í stöðugri þægð við náungann og aktar gjarnan í takti við það sem hann telur að aðrir vilji sjá hann gera og leyfir þannig öðrum að stýra lífi sínu.
Ég óx upp í umhverfi sem krafðist undantekningarlausrar þægðar við ákveðnar kenningar sem mér voru fastmúraðar og innbrenndar sem hinar einu sönnu og réttu. Trúarleg þægð sem ég hafði ekki afl til að skoða gagnrýnum augum fyrr en á fullorðinsárum, m.ö.o. ég eftirlét öðrum að stýra fyrir mig.

Það var frelsi í mínu lífi að finna þann stað að láta mér fátt um finnast álit annarra á mínum skoðunum eða gjörðum innan þess ramma sem eðlilegt er og fellur undir að hlusta á álit meðreiðarsveina sem oftar en ekki er til góðs.
Nýju fötin keisarans fjalla um þetta efni á sinn skemmtilegan hátt. Allir láta sem þeir sjái ekki fataleysi keisarans og skjalla hann fyrir flotta búninginn hans þangað til litla stúlkan læðir út úr sér að hann sé ekki í neinum fötum. Þægðin allra hinna gæti minnt mig á kafla úr fortíð minni.
Með þessu er ég ekki að líkja trúnni við kómískt fataleysi keisarans, öðru nær, trúin er mér dýrmæt, ég er að tala um gömlu kreddurnar og faríseaháttinn.

Ég læt ekki lengur að þægðinni og kýs að standa utan trúfélaga. Það truflar mig ekki, enda hefur það minna en ekkert vægi þegar trú mín er skoðuð. Hún hefur breyst því neita ég ekki, hún byggir á öðrum gildum, að mínu viti nær kjarnanum, fjær kreddum og yfirskini.

Séra Kristinn sagði það lykilatriði að vera sjálfum sér trúr og fylgja eigin sannfæringu. Þar er ég, með báðar hendur á stýri, og held fast.

Njótið daganna vinir.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Nýtt ár

Það heilsaði með logndrífu og hitastigi um frostmarkið, sem kallast blíða miðað við árstíð og venju undanfarinna vikna. Við áttum góð og róleg áramót í gærkvöldi. Hafþór og Arna ásamt föruneyti voru hjá okkur og gistu í nótt. Hrund fór til höfuðborgarinnar í nótt, hún er enn að slíta partískónum sínum og kannast ekkert við að þurfa að sofa þegar annað er í boði.

Við verðum hér samt öll á eftir og ætlum að eyða deginum saman hér í Húsinu við ána. Árið var kvatt með samveru við fólkið okkar og nýju ári heilsað með enn meiri samveru, mér líkar svona, enda fellur þetta algerlega að hugmyndum mínum um hvernig ég vildi haga samskiptum við ættlegginn okkar þegar hann stækkaði.

Þrátt fyrir kólguský í heimsmálunum lítum við hér væntandi til framtíðar, ég hef á tilfinningunni að þetta ár verði gott og farsælt fyrir okkur. Árið verður líka gott fyrir okkur sem þjóð, ég held að við séum að gægjast upp fyrir brúnina þar sem við féllum fram af.

Ég óska ykkur lesendum mínum þess eins að árið beri með sér gæfu og farsæld og verði ykkar besta ár fram að þessu.

Njótið dagsins vinir.