sunnudagur, desember 23, 2012

Þorlákur enn og aftur

Jólin eru að detta inn um dyrnar þó nýliðin séu þau síðustu. Ég veit ekki hvernig þetta gat gerst að jólin komi orðið með svona stuttu millibili. Ég man þann tíma þegar ár var langur tími og meira að segja þegar desember var álíka langur og árið er núna. Ég held að klukkurnar hafi viðhaft hagstæðari tímatalningu í þá daga, allavega væri ég til í að þessi hringekja hægði aðeins á sér aftur.
Þar fyrir utan var oftast kominn vetur þegar jólin gengu í garð. Nú hefur varla dottið niður snjókorn og samt að koma áramót og þannig hefur það verið undanfarna vetur.

Tímarnir breytast það er alveg klárt, ekki bara tæknin og allur sá pakkinn, sem er auðvitað þvílíkt ólíkindadæmi að maður hefði ekki haft ímyndunarafl til að sjá helminginn af því sem er talið til nauðsynja í dag enda var nútíminn vísindaskáldskapur fyrir ekki svo mörgum árum, heldur breytumst við mennirnir með og samsömum okkur við nýjan raunveruleika eftir því hann breytist í takti við nútímann.
Við höldum samt jólin ennþá, flest allavega. Trúin sem við Íslendingar kennum okkur við sem fæddist með komu frelsarans hingað á jörð á undir högg að sækja sem aldrei fyrr. Hópar sem leggja allan sinn metnað og kraft í að rakka niður trúna og þann sess sem hún skipar í þjóðarsálinni nugga eins og dropinn sem holar steininn á því að trúin sé gamaldags hindurvitni sem ekkert erindi eigi við nútímamanninn.

Sagan af frelsara fæddum sem var lagður á lægri stall en flest mannanna börn en um leið þetta stóra nafn sem jarðarbúar flestir miða tímatal sitt við er svo stórkostleg að fámennur hópur trúleysingja mun aldrei skaða hana öðruvísi en mögulega að rispa örlítið sem grær jafnharðan. Til þess eru ræturnar of djúpar í þjóðarsálinni enda kristin kirkja stjórnarskrárvarin og trúfrelsið einnig.
Sagan mun lifa. Lífsbaráttan og trúin liggja samfléttuð í menningu okkar og mynda órjúfanlega keðju sem verður ekki aðskilin.

Ég fagna komu jólanna og sérstaklega boðskapnum sem þau færa. Krepputími eins og svo margir lifa núna verður bærari ef trúin fær að fljóta með og boðskapur jólanna, "sjá yður er í dag frelsari fæddur" á brýnt erindi inn á heimilin sem aldrei fyrr. Friður jólanna er ekki hindurvitni heldur sálarlegt athvarf sem svo marga vantar í dag í friðvana heimi.
Trúlausir jafnt sem trúaðir geta verið sammála um að friður er eftirsóknarverður. Friður í sálinni virðist vera hverfandi gæði, sem er athyglisvert á tímum trúleysis og ætti að vera þenkjandi trúleysingjum ástæða umhugsunar hversvegna aukið trúleysi færir ekki meiri frið og fögnuð inn í sálartetur fólks.

Allt um það vona ég að sem flestir eigi gleðileg og góð friðarjól framundan - og auðvitað líka þeir sem halda jólin án trúar, þó það sé mér alltaf umhugsunarefni hvað þeir eru að halda upp á.

Engin ummæli: