mánudagur, september 17, 2012

Þessi sjóbirtingur verður partur af grobbsögum gamla...

Það hlaut að koma að því að ég fengi fisk sem færi vel upp á vegg hjá okkur. Ég fór til veiða um helgina og fékk einn "nokkuð góðan". Hann verður settur í uppstoppun og fær þannig framhaldslíf á stofuveggnum hjá okkur. Ég tók ákvörðun um að gefa ekki upp hvar hann fékkst því það myndi þýða allt of mikinn ágang á viðkvæman staðinn sem hann veiddist, hann er jafnflottur þó veiðistaðurinn sé ekki gefinn upp.

Ég tók auðvitað myndir af kallinum og læt hér þrjár fylgja með til sönnunar. Það er hægt að klikkja á myndirnar til að stækka þær.
Stærðin á honum sést vel miðað við innréttinguna. Hann er 80 cm. langur og yfir 50 cm. í ummál.

Stór og mikill bolti, það er gaman að ná svona tröllköllum, tók mig um korter að ná honum.

Þetta er grobbmynd. Ég var hræddastur um að ég dytti út í og hann gleypti mig í einum bita...;-) Það verður gaman að fá hann úr uppstoppun og finna honum stað hjá okkur.
Já veiðin er aldeilis stórskemmtileg.

laugardagur, september 08, 2012

Sveitabrauð í morgunsárið

Ilmurinn er gamalkunnur, hann meira að segja kallar á minningar úr sveitinni frá því forðum daga þegar ég var snáði og lífið var einfalt og gott. Mér flaug í hug í morgun að baka brauðið hennar mömmu. Hún bakaði næstum daglega og því má segja að ég hafi alist upp við þennan brauðilm. Brauðið var alltaf jafn gott og því má segja að ilmurinn sem fyllir húsið nú espi bragðlaukana.

Haustið boðar komu sína, það sést best á laufi trjánna sem roðnar nú og gulnar meira með hverjum deginum. Ég hef sagt og segi enn að mér líkar vel við haustið, uppskerutími og veiði, það er minn tími. Ég var í veiðitúr í  Vatnamótum í Skaftafellssýslu þar sem von er á mjög stórum sjóbirtingum, allt að 20 pundum. Ég fékk nú samt bara einn birting en missti því fleiri og þá af stærri gerðinni. Ég var búinn að togast á við einn í korter þegar hann fór af, það var mikið ferlíki sem hefði verið gaman að ná, en svona er veiðin, aldrei á vísan að róa.  
Volinn er eftir en ég hef góða reynslu af honum þegar kemur að veiðinni, hef oftast komið með góða veiði þaðan þó ég eigi líka fisklausa túra þangað.

Við vorum með konukvöld í Basicplus og Home design í gærkvöldi. Það komu margar konur og versluðu við okkur og nutu léttra veitinga. Íris Eygló og Hrund komu og voru með okkur og Hrundin var hér í nótt.
Verst að hún er á hraðferð og getur ekki verið með í brauðsmökkuninni á eftir. Við verðum samt í Reykjavík á morgun og tökum kannski smá bita með.

Fimm mínútur og þá er brauðið tilbúið..... eins og gefur að skilja er ég hættur að skrifa í bili og fer að sinna öðrum mikilvægari hugðarefnum.

Njótið daganna.