laugardagur, apríl 06, 2013

Kótilettur og fínirí

Ég er matmaður, sælkeri eða kannski næst sanni matargat. Matur getur auðveldlega verið upplifun hjá mér sem ég nýt í æsar ef vel tekst til. Ég hef mjög gaman af allskyns nýjungum í matargerð og er gjarnan til í að prófa framandi rétti ef það býðst. Á hinum endanum er ég líka fastheldinn á gamlar venjur og líkar virkilega vel við matargerð upp á gamla mátann þar sem steikingin er þannig að löðrar feitin og rjóminn í samkrulli sem margt andans fólk sypi hveljur yfir sæju þau aðferðirnar sem ég nota.
Ég held að nokkurn veginn allt sem ég hef látið inn fyrir mínar varir á lífsleiðinni sé búið að vera bannvara í óákveðinn tíma og verið aðalvaldur krabbameins og einhvers þaðan af verra annað slagið ef marka mætti allt sem sagt hefur verið um mat.
Ég verð að játa að ég hef verið voðalega skeptískur á allar þessar mítur í gegnum tíðina og étið það sem tönn á festi og látið lönd og leið horfur um að baðkar af þessum drykk eða hálft fjall af hinum matnum gæti verið krabbameinsvaldandi.
Kjöt vil ég hafa feitt og finnst mýtan um að skera alla fitu af nánast mannskemmandi, allavega matarskemmandi svo mikið er klárt.
Það var því engin spurning að velja feita hryggi til steikingar á kótilettum gærdagsins. Já og velt upp úr eggi og raspi og steikt í miklu smjörlíki á pönnu og þaðan í ofnskúffu með dassi af smjöri.

Allt meðlætið eins og gerðist fyrir fimmtíu árum, kartöflur, grænar baunir, rauðkál, rabarbarasulta og bráðið smér. Slurp... gott fyrir allan peninginn og magabætandi þ.e. gott vilji maður aðeins bæta við hann.
Fínt samfélag nokkurra karla sem átu þetta með mér og kunna líka virkilega að meta svona gamaldags viðurgjörning.
FF er kjörorðið, feitir og fínir.