sunnudagur, nóvember 16, 2014

Nafnlaus góðvild

Lítið hefur farið fyrir skriftarframkvæmdaseminni hér á síðunni minni þetta árið. Ég hef oft verið frískari með pennann eða lyklaborðið en undanfarið.
Það helgast líklega af hugarástandi og leti en það er jú auðvitað hugurinn sem skapar það sem fram á lylaborðið skoppar hverju sinni og ef hugurinn er mjög fastur í einhverju hefur hann minni tíma fyrir annað.
Fésbók hefur svolítið átt hug minn því þar er hægt að vera latari við eigin hugsmíðar en hafa gaman að samt.

Titillinn á þessu orðabrölti mínu nú er ekki alveg út í bláinn því þessi orð poppuðu upp í leit minni að hinum fullkomna eftirmála. Fjöldinn allur af fólki er mjög til í að baða sig í þeirri gryfju að vera þekkt að því að rétta hjálparhönd þeim sem minna mega sín. Sérstaklega er þetta vinsælt fyrir jólin þegar fjölskyldur halda hátíð og margir sem mikið eiga láta af hendi rakna til þeirra sem minna eiga. Mjög gott og þakkarvert. Ég leyfi mér samt að segja að stærri hópur þessara vilja alveg láta taka eftir því sem þeir eru að gera og einhver hópur auglýsir sig með því að gera þetta, þeir eiga meira að segja nafn yfir þetta, "ímyndarsköpun".

Örfáir eru þannig innréttaðir að þeir falla undir titilorð þessa pistils. þar eru fáséðir eiginleikar á ferðinni og virðingarverðir. Þessi fámenni hópur virðist njóta ánægjunnar að gefa án þess að fá laun fyrir í formi athygli og þakkaróska.
Þeir standa hjá í þögn sinni og fylgjast með meðan hinir kalla eftir athygli. Í helgri bók er því haldið fram að launin þeirra verða ekki lakari, ég trúi því, held reyndar að það falli undir lögmál sáningar og uppskeru og þetta séu góð fræ.

Ég þekki svona fólk og það eitt út af fyrir sig er ríkidæmi.

Eigðu góðar stundir þú sem enn dettur hér inn á bloggið mitt.