miðvikudagur, september 29, 2004

Þannig er það nú....!

Það eru til fjórar gerðir af einstaklingum:

* Sá sem veit ekki og veit ekki að hann veit ekki. - Hann er fávís, sniðgakktu hann.
* Sá sem veit ekki og veit að hann veit ekki. - Hann er einfaldur, kenndu honum.
* Sá sem veit en veit ekki að hann veit. - Hann er sofandi, vektu hann.
* Sá sem veit og veit að hann veit. - Hann er vitur, fylgdu honum.
(SriChinmoy)

Skemmtileg leikfimi.

þriðjudagur, september 28, 2004

Heilræði dagsins

"Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag....
hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun"

Allt of satt

mánudagur, september 27, 2004

Þekking eða skilningur…

Er það sami hluturinn? Datt í að hlusta á Pál Skúlason rektor Háskóla Íslands í Kastljósinu í gærkvöldi (enn að stelast frá prófalestri)
Hann var að tala um hlutverk Háskóla Íslands í dag. Ég geri ráð fyrir að hann sé heimspekingur miðað við hvað hann var djúpur hvað varðaði mannlega tilveru. Hann var spurður um akademískar hliðar þekkingar og svaraði að mínu viti vel. Fór vítt og breytt um þekkingarflóruna og þörf mannsins á að leita sífellt lengra og lengra í leit sinni að lífsgátunni - sannleikanum.

Það vakti athygi mína að þessi háskólans maður svaraði spurningum spyrilsins bæði á trúarlegum nótum og eins setti hann almenna þekkingu fengna af reynslu og stormum lífsins jafnfætis sínum akademísku fræðum.
Hann gerði síðan greinarmun á þekkingu annarsvegar og skilningi hinsvegar. Á þessu er mikill munur. Þekking er magn upplýsinga. Skilningur er hvernig og afhverju.

Datt í hug orð Guðfinnu Bjarnadóttur rektors Háskólans í Rvk á skólasetningunni um daginn þar sem hún talaði um gagnrýni, dálítið af sama meiði.

Hann sagði marga einstaklinga sem aldrei hefðu numið akademísk fræði, oft vera jafnmikla heimspekinga og fræðimenn eins og hina lærðu.
Ég tek ofan fyrir honum…. Það eru ekki margir af hans líkum sem gefa lífsins skóla jafnháa einkunn.
Þetta fannst mér mæla með manninum. Litið til framtíðar held ég reyndar að menn muni í ríkari mæli skoða áunna þekkingu byggða á reynslu og sjálfsnámi.
Finnst það einhvernveginn liggja í loftinu. Það er nokkurskonar “náttúruréttur” (ég á kökuna af því ég bjó hana til) orsök og afleiðing, sem er í raun afturhvarf til upphafsins.
Kannski hluti af náttúrulögmálinu: Hring eftir hring, og samt áfram veginn.

Hættur í bili, það er prófalestur þessa dagana, er að fara í annað próf í fyrramálið.

hafið það gott vinir.

miðvikudagur, september 22, 2004

Það var þetta með.......

smáa letrið. Ég var í prófi í gær í skaðabótarétti, eða réttara sagt verkefni til lokaprófs. Sat við í 10 klst. Verkefnið virtist í fyrstu ekki vera svo flókið. En þegar betur var að gáð voru alveg ótrúlega margir þættir sem laumað var inní sem hægt var að missjást með. Það er ekki ofsögum sagt að það er ekki alltaf allt sem sýnist.
Held samt ég lofi engu um hvort ég birti einkunnina hér á síðunni :-) … tek afstöðu til þess síðar.
Dagurinn í dag verður ekki alveg eins ásetinn sem betur fer.
Samt ágætt að sökkva ofaní fræðin stundum
Bush og Kerry komnir í hár saman. Ástþór orðinn enn vitlausari. Kennarar gengnir af göflunum. Nýr forsætisráðherra aldrei óvinsælli. Menn að tapa og græða.
Fræðin samt alltaf á sínum stað.
Svona er lífið.

Eigið góðan dag.

mánudagur, september 20, 2004

Ég skil ekki alveg......

hvað kennarar eru að hugsa. Þeir eru að fara fram á launahækkanir sem eru úr takti við aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Kennarar eiga skilið góð laun. En þessi aðferðafræði þeirra er fortíðardraugur sem ekki má vekja upp.
þeir ættu að fara hægar í sakirnar og vinna mál sitt með öðrum hætti. Þeir eiga varla stuðning almennings í þessu enda bitnar þetta verkfall á þeim sem síst skildi, börnunum.

Kaupmáttur skiptir mestu máli fyrir alla og til lítils er að vinna ef kennarar ná fram vilja sínum og skriðan allra annarra starfsgreina fer af stað í kjölfarið. Allir krefjast sömu hækkunar og verðlag rýkur af stað. Verðbólgudraugurinn verður hæglega vakinn af blundi sínum með þessum hætti og þá tapa allir og ekki síst kennarar.

Mín skoðun er sú að Alþingi á að setja bráðabirgðalög á verkfall kennara og síðan verði þeir settir undir kjaradóm og settir á sanngjörn laun sem hæfir starfi þeirra og menntun.
Málið leyst.

laugardagur, september 18, 2004

Það var notalegt......

að finna kaffiilminn sem fyllti húsið þegar ég kom heim úr bakaríinu í morgun. Ilmurinn indæll og bragðið eftir því. Aldrei þessu vant var frúin á bænum vöknuð og komin á fætur. Oftast er ég búinn að vera að sýsla eitthvað eða allavega kíkja í Moggann þegar hún kýs að ganga inní daginn. (um helgar þegar hún má sofa út)
Tilfinningin var góð, hreiðrið var svo friðsælt og gott.

Við hjónin eyddum svo þessum friðsæla laugardagsmorgni í vangaveltur um hvað er ríkidæmi ásamt gluggi í blöðin inn á milli. Við vorum t.d. sammála um að það er ríkidæmi að eiga svona morgna saman við eldhúsgluggann og horfa á haustlituð laufin falla af trjánum, veltandi vöngum um lífið og tilveruna. Litir náttúrinnar eru fallegir núna og gaman að vera áhorfandi í ylnum innan við glerið þegar naprir haustvindar blása, sem var þó ekki raunin þennan morguninn heldur fallegt haustveður og logn.

Sumum finnst ríkidæmi snúast um peninga. Við erum algerlega á annarri skoðun.
Í fyrsta lagi finnst okkur mikið ríkidæmi bara það að vera Íslendingur, að njóta þessara forréttinda að fæðast inní þjóðfélag þar sem friður og velmegun ríkir. Það myndu margir þiggja að vera í þessari aðstöðu að geta rölt út í bakarí í morgunsárið, engir byssuhvellir, ekkert hungur,engin mengun, kaupa ilmandi bakkelsi vitandi að rjúkandi nýlagað kaffi bíður þegar heim er komið.
Okkur skortir forsendur til að meta þetta eins og ber. Ísland er góð gjöf til okkar. Þetta væri himnaríki þeim sem ala aldur sinn við hungur og stríð.
Við fjölskyldan búum við góða heilsu. Það er ekki sjálfgefið. Margur myndi gefa milljarðana sína í skiptum fyrir heilsuna okkar.
Það er mikið ríkidæmi að eiga börn…. það eitt og sér… og svo hitt að sjá svo börnin sigla af stað á eigin bát án þess að hafa lent í krumlu eiturlyfja eða annarra óárana sem virðist svo auðvelt að lenda í, við erum Guði þakklát fyrir vegferð okkar barna.

Niðurstaða okkar var að ríkidæmi verði ekki keypt með peningum. Peningar umfram þarfir fara ekki á vogarskál ríkidæmisins.
Okkur finnst ríkidæmi felast í gullna meðalveginum, norminu á öllum sviðum.
Að eiga samfélag við Guð. Að halda heilsu. Að eiga í sig og á. Að rækta vini sína. Að vera sáttur. Að vera hamingjusamur. Að eiga inneign í reynslubanka sem er laus til úttektar.

Þetta var skemmtileg og holl pæling og væri gaman að fá álit ykkar á þessu.

Hvað merkir orðið “ríkidæmi”….?

fimmtudagur, september 16, 2004

Með húmorinn í lagi...

Einhver kona með alveg ótrúlega frásagnargáfu... Verð að setja linkinn á þennan bloggara hér inn svo þið getið hlegið líka. http://www.toothsmith.blogspot.com/

þriðjudagur, september 14, 2004

Önnur tilvitnun......

af svipuðum toga.
"Prédikarar segja: Gerðu það sem ég segi, en ekki: gerðu það sem ég geri"
(John Selden)

Þetta á að sjálfsögðu ekki við um alla. Kannski fáa - en samt of marga.
Commentið hennar Örnu á síðasta pistli þar sem hún minntist á aðra tilvitnun. "Prédikaðu fagnaðarerindið án afláts og ef þú mátt til, notaðu þá orð" er líka góð.
Þeir eru líklega miklu fleiri sem lesa fimmta guðspjallið en hin fjögur. Fimmta guðspjallið er líf kristins manns. Það er ekki sama hvað stendur þar. Verk hrópa hærra en orð. Það var þetta sem mér datt í hug þegar ég rakst á orðin hér fyrir neðan um strandvitann sem ekki blæs í þokulúðra, heldur lýsir bara. Ef ekki er samhljómur í ræðu og daglegu lífi þess sem prédikar, missir hún marks, verður lúðurhljómur og breytist í andhverfu sína.

Eigið góðan dag.

laugardagur, september 11, 2004

Rakst á þessa.......

skemmtilegu tilvitnun áðan.
„Strandvitar blása ekki í þokulúðra, þeir lýsa bara.“— (Dwight L. Moody)

Er þetta kannski fimmta guðsspjallið?

Hvað finnst þér?


föstudagur, september 10, 2004

“Enginn veit ævina….

fyrr en öll er”. Ekki er víst að Abraham Lincoln hafi mikið verið að velta sér upp úr því hvernig hann ætti að verða forseti Bandaríkjanna á þeim tímapunkti þegar hann varð gjaldþrota í þriðja sinn á ævinni. Hann hefur sennilega verið frekar rislágur og ekki til stórkostlegra vinninga.
Ég hef séð á göngunni að spurningin á alls ekki að snúast um mistökin sem menn gera. Þau gera allir af svo mörgum og misjöfnum toga. Þau eru sennilega algengasta hátterni manna. Ég hef aftur á móti séð að spurningin snýst um hvernig menn og konur höndla mistökin. Ég hef séð að mistökin eru gott byggingarefni í sigrana sem á eftir koma.
Engum er lognið hollt lengi. Það styrkir stofninn þegar næðir um hann. Afraksturinn verður sterkara tré.
Ég hef séð fólk í kringum mig í misjöfnum kringumstæðum. Sumir fæðast með silfurskeið í munninum og svífa í gegnum lífið á bómullarhnoðra. Aðrir fæðast í stormi og eftir það er eins og stormurinn elti þá á röndum.
Er einstaklingurinn sem gengur inn úr storminum blautur og hrakinn verri eða óhæfari en hinn sem kemur vagandi úr lognmollunni?

Ég hef kynnst báðum týpunum og verð með fullri lotningu fyrir logntýpunni að staðsetja frekar stormtýpuna í brúnna. Reynslan er ólygnasti skólinn. Bankabók í reynslubanka er verðmæt inneign. Diploma úr fínustu skólum verður ekki sett að jöfnu.
Ætli Guð noti svona inneign? Næsta víst. Guð skapaði fegursta blómið, með þyrna.
Abraham Lincoln fæddist stormtýpa. Hann átti trú og leitaði í hana á erfiðum stundum. Hann er gott dæmi um að gæfa er ekki sama og gjörvileiki.

„Ég hef margsinnis verið tilneyddur að krjúpa á kné, vegna yfirþyrmandi sannfæringar um að ég geti ekkert annað.“ — Abraham Lincoln

Eigið góða helgi


fimmtudagur, september 09, 2004

Nýlenduveldið ESB

Ég var ánægður með orð verðandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar á forsíðu Moggans í morgun um sjávarútvegsmál ESB.
Og ég er þakklátur núverandi stjórnvöldum fyrir ákveðni þeirra að standa utan ESB. Það yrðu stærstu mistök Íslandssögunnar að gangast undir hatt þessarar nýlendustefnu. Það er gott fyrir land og þjóð að eiga sig sjálf þegar fram í sækir.
Við erum eigin herrar í okkar fallega landi og ráðum auðlindum okkar sjálf.
Til þess börðumst við undan einveldi Danakonungs. Til þess var slagurinn um fullveldið og til þess var sjálfstæðisbaráttan háð. Til þess vörðum við landhelgina okkar með kjafti og klóm og sigruðum enska ljónið. Þessi frækilegu afrek forfeðranna sem við megum aldrei gleyma.

Ég skil ekki þann Íslending sem er tilbúinn að afsala sér fullveldinu og gangast aftur undir ok erlendra peningavelda. Fólk ætti að kynna sér sögu þjóðarinnar og skoða myrkustu tímabil hennar, en það er tíminn sem við beygðum okkur undir einveldi Danakonungs. Alþingi Íslendinga sem var virkt afl var lagt niður en þess í stað voru lagaboð konungs birt. Íslendingar réðu engu um framtíð sína og gæfu. “Einveldistímabilið er eitt hið allra ömurlegasta tímabil í sögu íslensku þjóðarinnar”. (Gunnar G. Schram, Stjórnskipunarréttur)

Ég er hræddastur um að misvitrir stjórnmálamenn, með inngöngu í ESB á stefnuskrá sinni, eigi eftir að komast til valda og stíga þetta ógæfuspor.

Guð forði okkur frá þeim.

þriðjudagur, september 07, 2004

Góður vinur minn..

og Klettur er árinu eldri í dag. Mér skilst að Ásta sé búin að baka handa honum köku. Honum verður ekki gott af henni einum. Rétt að skreppa og hjálpa honum aðeins eins og sannir vinir gera.

Til hamingju með daginn.

mánudagur, september 06, 2004

Eru þeir alveg í lagi...

kennararnir? Ætli þeir haldi að maður hafi ekkert annað að gera en að lesa. Ef þú vilt fræðast um dóma Hæstaréttar skaltu tala við mig. Tuttugu og tveir dómar fyrir morgundaginn. Ég held nú að þetta sé met. Það skal þó viðurkennast hér að ég er ekki búinn að lesa þá nærri alla, 15-20 síður hver :-(
Allir snúast þeir um sama hlutinn....(!) þó málefnin séu eins misjöfn og þeir eru margir, að finna réttinn, réttlætið. Það er kannski sá þátturinn sem mér finnst einna mest til um í lögfræðinni. Það er göfugi þátturinn.

Lögfræðin, með áherslu á "fræðin" gengur út á þetta í hnotskurn, að leita réttlætisins. Kennarar lagadeildarinnar kenna að fyrstu lögin hafi komið frá Guði...rótin er þannig góð. Fræðin eru víðáttumeiri og stærri lendur en mig óraði fyrir. Þetta er góð heilaleikfimi.

Var að stelast frá dómalestri og er hættur því núna.

Guð blessi ykkur.

laugardagur, september 04, 2004

Ferðalag......

Það er víst engin nýlunda að við Erla séum á einhverju flakki. Einhver ferðabaktería gistir í genum okkar. Þetta flakk okkar í dag var þó aðeins með öðru sniði en venjulega. Vinnustaðaferð Verkvangs var tilefnið.
Ferðin var fín og miklu líkari fjölskylduferð en vinnustaðaferð. Og ferðatilhögunin var með frumlegra móti... - Við fórum í berjamó austur að Dímon. Ekki að við ættum ekki nóg af berjum og sultum og safti og öllu sem hægt er að spyrða við ber, þá bættum við um betur og týndum nokkur kíló. Alltaf gott að eiga beeeeeerrrr.

Svo skemmtilega vildi líka til að akkúrat klukkutímann sem við týndum berin og fengum okkur nestið rigndi eins og hellt væri úr fötu-m…(!)

Við skoðuðum líka Sögusafnið á Hvolsvelli og fræddumst um Njálu. Þar var ung og afar málglöð kona sem sagði okkur þessa margfrægu sögu á afskaplega lifandi og skemmtilegan hátt.
Ég lifi mig alltaf sérstaklega inn í Brennu-Njálssögu vegna staðháttanna í sögunni, þekki þarna hverja þúfu. Framsetningin konunnar kom skemmtilega á óvart.

Við enduðum svo, eftir að hafa skoðað nokkra merkilega staði í Villingaholtshreppi (hér stóð "Ölfusinu" en einhver góður leiðrétti mig og tjáði mér að Urriðafoss væri ekki í Ölfusi heldur í Villingaholtshreppi - leiðrétt hér með) , m.a. Urriðafoss niður með Þjórsá, í matarboði í Þorlákshöfn hjá einum starfsmanna Verkvangs, Sigurði Grétari Guðmundssyni, pistlahöfundi á Mogganum með meiru. Hann er í fullri vinnu og lítur út fyrir að vera ekki deginum eldri en 60 ára en hann er alveg að verða 70…? Ótrúlega sprækur.
Þar fengum við þessa fínu kjötsúpu að rammíslenskum hætti og kirsuberjaostaköku í eftirrétt...mmmmmmm.
Góð ferð, afslöppuð og allir í fínu formi.

Að lokum til gamans... Ég er búinn að fá fyrsta alvöru verkefnið á lögfræðilegum grunni. Ég vinn það með skólanum í vetur.
Guðs blessun.

Hafið það gott.

fimmtudagur, september 02, 2004

"Allt orkar tvímælis...."

...sagði Bjarni heitinn Benediktsson og bætti við "þá gert er".
Það verður aldrei hægt að fyllyrða um hvernig lífið væri í dag ef þetta eða hitt hefði gerst...eða ekki gerst.
Það getur samt verið gaman að velta því fyrir sér. Hvað t.d. ef afi þinn og amma hefðu ekki hist...?
Tækifærin eru víða við veginn okkar og án efa hefurðu oft gengið framhjá þeim annaðhvort ekki sjáandi eða heyrandi og misst af þeim fyrir vikið. Allir eru undir þessum sama hatti. Hefurðu syrgt glatað tækifæri? Það borgar sig ekki. Kannski hefði tækifærið mistekist. Og kannski heppnast. Ekki gott að segja.

Best er að lifa í þeirri trú að sennilega hafi þrátt fyrir allt verið best að sleppa tækifærinu og gera ráð fyrir að það hefði ekki sett þig á betri stað en þú ert á núna.
Það heitir að vera sáttur við sjálfan sig. Ef þér tekst það ásamt því að vera sáttur við Guð og aðra menn þá ertu á fínum stað.

Eigið góðar stundir


miðvikudagur, september 01, 2004

Óður til mömmu

Þetta varð til fyrir prófin í vor þegar ég var að lesa yfir mig í fræðunum.
Öll eigum við rót okkar í mömmu. Mamma er gjarnan best.
Mamma mín ól okkur upp við erfiðari kringumstæður en þekkjast í dag. Þvegið í ísköldum bæjarlæknum þó hún væri komin að barnsburði. Ekki alltaf full kista af mat og ekki alltaf heitt og notalegt. Oft á tíðum ótrúlegt, miðað við nútímaþægindi.
Við lifum góða tíma.


Ljóðrænum línum mig langar að henda
línum sem á nokkrar staðreyndir benda
Mér datt þetta í hug nú fyrir skömmu
Hvar værum við til dæmis án hennar mömmu
Baslið og stritið er á sig hún lagði
haukur í horni jafnvel þegar hún þagði
Hvernig hún annaðist börnin sín átta
svo lentum við ekki utangátta
Sauma okkur flíkur úr gömlum fötum
stoppa í sokka sem duttu út í götum
Eitt var það sem hún vildi ekki orða
að ekki var alltaf nóg til að borða
Merkilegt hvað þá hún gat
gert úr engu góðan mat.
Bera henni vitni verklúnar hendur
æðrast aldrei hvernig sem á stendur
Trúi ég gjörla að á þessum árum
skolandi þvottinn á lækjarsteinum sárum
hafi vangarnir mömmu oft verið skreyttir með tárum.
Að eilífðar ósi árin renna
nú man hún mamma tímana tvenna
gömlu árin burtu runnin
sum þeirra fallin í gleymsku brunninn
Nú hópinn sinn enn, hún vegur og metur
blind, en gerir samt eins og hún getur
slitnar seint þessi móðurstrengur
Það er okkar stærsti fengur
er tímaklukkan áfram gengur
að eftir stendur ævistarf
okkur fært sem góðan arf.
Orð þessi færð í lítinn ramma
segja - takk fyrir mamma.

EM