þriðjudagur, desember 30, 2008

Tjött

Saltaði hálfan hest ofan í tunnu í dag. Svo vorum við með hakkabuff eins og mamma gerði alltaf þegar hesti var slátrað. Ég er svo mikill sveitakall inn við beinið að mér finnst gott að eiga mikinn mat fyrir mitt fólk. Og ég virkilega kann að meta saltað hrossakjöt, fátt betra. Hesturinn var feitur, svo ég á von á gæða saltkjöti upp úr tunnunni í næstu viku.

Síðasti dagur ársins á morgun, hreint magnað, svo stutt frá síðustu áramótum. Áramótin verða góð ef að líkum lætur. Við verðum saman hér í húsinu við ána, allur minn ættleggur, að fagna nýju ári. Ekki nóg með það, hér mun allur ættleggurinn gista.

Íris er hér ásamt sínum börnum að lesa undir próf, Arna er hér líka og Thea. Mér sýnist húsið við ána toga í fleiri en okkur Erluna, er reyndar ekkert hissa á því.
Við ætlum að hafa jólaboð hér, eins og í fyrra, fyrir afkomendur pabba og mömmu. Það verður frá klukkan 15:00 á laugardaginn, eins lengi og hver nennir. Í fyrra var þetta mjög notalegt og gefandi samfélag.
Á von á því sama nú og hlakka til.

.....Smá eftirmál. Þegar ég las þetta yfir sá ég að ég hafði verið ofan í tunnu að salta hálfan hest........!
Það var sem sagt ekki þannig, ég saxaði niður hálfan hest og saltaði bútana ofan í tunnu :-)

sunnudagur, desember 28, 2008

Vorlegt

Það er engu líkara en að vorið sé komið. 8 stiga hiti og hæglætisveður. Svona tíð kallar á mann út í náttúruna. Það verður ekki komist hjá því að fara í göngutúr á eftir, upp með á eða kannski niður í bæ og skoða mannlífið. Við eigum von á gestum á eftir, allir í jólafríi ennþá og því um að gera að hitta mann og annan enda snýst lífið fyrst og fremst um samfélag.
Áin er róleg núna eftir skot í henni um jólin. Asahláka eins og gerði í jólabyrjun þýðir flóð hér. Áin er fljót að taka við sér, hvort sem hún vill stækka eða minnka, aldrei eins, síbreytileg eins og íslenska veðrið. Við verðum í fríi að mestu milli jóla og nýárs svo makindin hér halda áfram og við að njóta þeirra.

Hér var líf og fjör í gær. Íris kom með ungana sína. Hún fékk að lesa hér í rómantíkinni undir próf meðan við litum eftir börnunum.
Við fengum líka góðan gest, Gunnhildur Haraldsdóttir kíkti hér við. Hún var eitt sinn gift Danna bróður og er móðir frænku minnar Hafdísar Daníelsdóttur. Það var gaman að spjalla við hana um heima og geima.
Jólin hafa annars verið afar góð, þau hafa liðið hratt eins og gjarnan er með gæðatíma. Ég er að klára Myrká eftir Arnald, ágætis bók, en skilur ekki mikið eftir sig. Innihaldsríkari bækur höfða meira til mín. Arnaldur er samt góð afreying.
Arna skilaði dætrunum til pabba síns í gær svo nú er bærinn barnlaus. Einhversstaðar segir að slíkur bær sé daufur. Það er kannski daufara yfirbragð, en samt - hér er svo gott að vera.

Áramótin framundan. Kalkúni verður á matseðlinum í fyrsta skipti í mörg ár. Sjáum til hvort tekst að gera hann bærilegan. Vantar uppskrift að góðri fyllingu, ef einhver lúrir á slíku er það vel þegið.

miðvikudagur, desember 24, 2008

Aðfangadagur

Fallegur dagur, fullur af minningum og tilfinningum sem tengjast hátíðarskapi og frið. Á jólum kemst sagan um frelsara fæddan næst manni, rifjast upp, lifnar við og verður svo raunveruleg. Jólahátíðin er hátíð ljóss og friðar. Jólaljósin lýsa upp þennan dimmasta tíma ársins og minna á litla Jesúbarnið í jötu. Ljós heimsins sem fæddist, ekki inn í ríkidæmi eins og þætti sjálfsagt í dag, heldur í gripahúsi á Betlehemsvöllum. Táknrænt, fer ekki í manngreinarálit, ríkir og fátækir jafnir fyrir honum.

Hér í húsinu við ána ríkir eftirvænting, sérstaklega í hugum litlu barnabarnanna, Örnudætrum, sem skreyta daginn ríkulega með einlægri tilhlökkun til kvöldsins. Við áttum notalegan matartíma í hádeginu að vanda, en vaninn er að baka smábrauð og bera fram, ásamt rúgbrauði með ýmsu góðgæti, laxi, kæfu, síld, eggjum, ostum og fleira í hádeginu á aðfangadag.
Núna er matseldin í gangi undir jólalögum. Hamborgarhryggurinn var að fara upp úr pottinum. Erlan er að sjóða grautinn og ég er að fara að gera sírópið fyrir karamellusósuna út á grautinn. Allt eftir gömlum hefðum sem má ekki brjóta. Ég er óendanlega þakklátur fyrir þessi gæði sem við búum við að geta haldið jól með þessum hætti. Margt af þessu er erft úr foreldrahúsum okkar Erlu. Það er svo ómetanlegt að sjá sama braginn erfast til okkar eigin barna.

"Sjá ég boða yður mikinn fögnuð.... Yður er í dag frelsari fæddur" sögðu englarnir forðum. Munum tilgang jólanna. Ég óska lesendum mínum gleðilegar hátíðar og friðar.

þriðjudagur, desember 23, 2008

Skatan

Undarleg árátta að borða skemmdan mat.....segja sumir. Við hinir sem höfum smekk fyrir rammíslenskum gæðamat eins og kæstri skötu, teljum hana aftur á móti hið mesta hnossgæti.
Við Hlynur bróðir höfum farið til nokkurra ára í Gallerý fisk í skötuveislu. Að þessu sinni var hún alveg passleg og vestfirski hnoðmörinn sérlega góður. Ég var með einhverja magalumbru þegar ég mætti á staðinn, en eftir skötuna var öll lumbra farin veg allrar veraldar, allra meina bót skatan. Svo sótti ég youngsterinn minn til vinkonu sinnar, við skruppum svo saman í smá innanbæjarleiðangur, þann síðasta fyrir jólin.
Erum nú komin heim í sveitina okkar. Mikið af snjónum farið og gatan hér næstum auð. Arna kemur í kvöld með restina af skvísunum sínum. Danía Rut fékk smá forskot og fékk að fara með afa sínum og ömmu í sveitina í gær. Hún nýtur sín hér, enda dekruð eins og prinsessa af ömmu sinni.

Komið að Bónusinnkaupum fyrir morgundaginn. Ýmislegt sem vantar til að viðhalda jólahefðunum sem hér ríkja. Við látum okkur hafa að fara í Bónus í Hveragerði, búðin þar er mun betri en hér.

sunnudagur, desember 21, 2008

Nína eða Geiri....?

Í fyrradag tók ég eftir að hrafninn var að hópast um eitthvað á ísspöng upp með á. Ég brá fyrir mig kíkinum og sá að þar var álft sem virtist föst í ísnum. Hrafnarnir sem eru auðvitað svangir og kaldir í snjónum, hugsuðu sér gott til glóðarinnar og voru byrjaðir að narta í hana, einum of fljótir á sér, því álftin var greinilega ósammála því að hún væri matur fyrir þá. Hún beit þá á hægri og vinstri. Ég skrapp upp eftir og það var rétt, hún var frosin föst á ísnum. Fullorðin álft....hugsanlega annar hvor nágranna okkar, Nína eða Geiri.

Ég hringdi í lögregluna, þurfti reyndar að hringja tvisvar áður en þeir komu. "Er þetta ekki gott tækifæri fyrir björgunarsveitina að ná henni lausri?" spurði ég löggustrákinn sem kom. "Ef ekki, verðið þið að skjóta hana, það er ekki hægt að horfa upp á hrafninn éta hana lifandi". Hann samsinnti því og lofaði að þeir gerðu eitthvað.
Við svo búið fórum við Erlan til Reykjavíkur. Þegar heim kom keyrðum við upp eftir. Hvít þúst sem hreyfðist ekki. Álftin dauð, núna tilbúin á veisluborð hrafnsins.
Þeir hafa ekki yfirgefið veisluborðið síðan. Margra daga birgðir af fínasta kjöti.

Núna er allt á kafi í snjó. Gatan okkar ófær í morgun og Hellisheiðin lokuð. Einhver bankaði hér upp á áðan og spurði hvort ég gæti dregið bílinn þeirra úr skafli hér fyrir neðan. Ég fór auðvitað og kippti honum lausum. Gat samt ekki annað en brosað að ofurtrú mannsins á litlu bílpúddunni sinni. Hann hafði ætlað að keyra upp í skógrækt hér upp með á. Eins kolófært og hugsast getur, varla jeppafært. Trúin flytur fjöll stendur skrifað.... en ekki smábíla fasta í snjó.
Ég gaf smáfuglunum í morgun. Þeir eru seinir að fatta litlu skinnin. Bara nokkrir sem hafa litið við. Þeir verða samt fegnir að fá bita þegar fattarinn þeirra hrekkur í gang.

Við fórum á jólatónleika Sinfóníunnar í gærkvöldi. Það var virkilega gaman eins og von er. Jólasyrpur og hnetubrjóturinn, flottur flutningur enda einvalalið.
Við gerðum enn víðreist. Skruppum á Skagann eftir tónleikana í útskriftarveislu. Marianne, Sigga og Barbroar var að útskrifast sem stúdent. Dúxaði stelpan, flott hjá henni. Veisluföng eins og búast mátti við hjá þeim, flott og gott.
Í dag er bara afslöppun hér í húsinu við ána. Erla og Hrund báðar að dunda jóla-eitthvað með jólalög undir geislanum. Ekki erfitt í þessu umhverfi hér sem umvefur okkur af fádæma rausnarskap.

fimmtudagur, desember 18, 2008

Heima

Við erum heima í dag, bæði. Ekki mikið að gera hjá mér í vinnunni og þannig er líka með Erluna. Jólabréfið tilbúið og fer í póst í dag. Síðustu bréfin að renna út úr prentaranum í þessum pikkuðu orðum.

Hér er búið að snjóa mikið og jafnfallinn snjór líklega orðinn um 25 sm. Miklar snjóhengjur á trjánum svo það er jólalegt um að litast. Ég tók göngutúr upp með á í morgun og smellti nokkrum myndum. Umhverfið var dulúðugt í birtingunni, frostþoka og sérstök birta. Ég er samt að vona að ekki sé komin snjóatíð eins og í fyrra. Þá snjóaði að manni fannst endalaust í marga mánuði og færðin eftir því. Dagurinn verður notaður í að klára gestaherbergið og fleira smálegt sem hefur beðið.

Í kvöld er svo árlegt kaffihús í höfuðborginni. Við höfum farið í nokkur ár saman á kaffihús á aðventunni, ég og dæturnar, og fengið okkur heitt kakó og kaffi og eitthvað jólalegt með. Kakóið er vinsælla hjá kvenþjóðinni en ég er allur í kaffinu. Ég hlakka til samfélagsins með þeim.

Njótið dagsins.

þriðjudagur, desember 16, 2008

Matarboð

Við Erlan áttum notalega kvöldverðarstund með Eygló og Bjössa. Þau buðu okkur til hryggjarveislu. Lambahryggur er með því betra sem matargötin fá svo þetta var bragðlaukakitlandi fyrir okkur. Bragðið var af...bragð, jafnvel þó þetta væri fraumraun þeirra í eldun lambahryggjar...Þau fá h...rós í hnappagatið!
Takk fyrir okkur.....!

miðvikudagur, desember 10, 2008

Toppurinn á tilverunni?

Við vorum í “Danmerkurferð” um helgina, fórum á föstudags eftirmiðdag af stað og komum í gærkvöldi. Ég kalla hana danmerkurferð því þannig hljómaði planið.
Til stóð að fara jólaferð til Köben eins og við höfum gert undanfarin ár. Núna var það vinnustaðaferð með vinnufélögum Erlu.
En í veðrasömum ólgusjó íslensku krónunnar, ákváðum við að það væri ekki með nokkru móti verjandi að vera þarna úti með dönsku krónuna í 25 kalli......! Svo við breyttum danmerkurferðinni sem átti að vera til Köben í “danmerkurferð”, á jólahlaðborð í Hótel Örk í Hveragerði með vinnufélögunum og svo við tvö á Föðurland í Fljótshlíð. Þar vorum við svo þá daga sem ferðin út hefði tekið. Það má fullyrða að þetta var hagstæðasta danmerkurferð sem við höfum farið. Enginn visa reikningur, engar búðir og enginn hreimur til að jafna sig á.

Hinsvegar komum við afslöppuð til baka eftir frábæran tíma. Alger slökun, lestur bóka við arineld, matseld (gourmet) í rólegheitum, gestir litu við og svo til að kóróna aðventustemninguna, kyngdi niður jólasnjó sem hékk á greinunum. Það var því engu minni vandi að komast í jólastemningu þarna í sveitarómantíkinni en í jólatívolíinu í Kaupmannahöfn. Ég notaði tímann og skrifaði jólabréfið okkar fjölskyldunnar við notalegan yl kamínunnar, undir áhrifum kyrrðar og notalegs tifsins í gömlu klukkunni okkar - jú það er alveg satt, hún hægir á tímanum, hún telur svo hægt.


Þarna í Fljótshlíðinni tel ég eins og “Gunnar frændi” á Hlíðarenda, toppinn á tilverunni. Þar var maður á ferð sem kunni að meta landið af gæðum þess og tók afleiðingunum.
Fljótshlíðin er falleg, hvort sem hún er í vetrar- eða sumarbúningi, um það þarf ekki að fjölyrða. Það er því gott að þurfa ekki að standa frammi fyrir sama vali og Gunnar kallinn þurfti forðum.

Það er jú fjármálakreppa en hverju fáum við breytt í því? Látum ekki áhyggjur af því sem við getum ekki breytt, skemma dagana.
Verum jákvæð og njótum aðventunnar.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Aðventa

Jólatónlistin berst hingað inn í stofu. Litli trommuleikarinn ómar núna. Það er föndurstund í eldhúsinu. Erlan er að gera aðventukrans, grenikrans með gamla laginu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þeir fallegastir.
Hér er orðið afar jólalegt enda ekki við öðru að búast. Erla hefur alltaf varðveitt jólabarnið í sér sem hefur eflaust haft mikið varðveislugildi fyrir jólabarnið í mér.
Það gleður mig alltaf þegar hún hefst handa við að taka úr hillum og kitrum og setja upp ýmislegt jóladót í staðinn sem við höfum sankað að okkur á löngum búskap. Mikið af okkar jóladóti hefur fylgt okkur lengi og tvinnast saman við söguna okkar. Margt sem kemur uppúr kössum hjá henni skapar því notalega nostalgíu sem yljar hjartanu.
Við erum íhaldsöm þegar kemur að endurnýjun á þessu dóti. Sagan er okkur of mikils virði til að við getum hent til að kaupa nýtt.
Enda er það svo að stelpurnar okkar þekkja þessa hluti líka vel frá uppvaxtarárum sínum og hætt er við að heyrðist hljóð úr horni ef við færum að skipta þessu út.

Ég var heima í dag. Vann við að setja upp ruslatunnustatíf sem hefur vantað hér. Kannski ruslatunnan verði til friðs þegar hvessir hér eftir. Bætti líka í jólaljósin í garðinum. Setti í einn runna í viðbót. Fann seríu sem vantaði bara réttan straumbreytir. Átti einn sem passaði ekki en tókst að mixa það saman.

Það er ekki laust við að um mig fari einhverjir notalegheitastraumar, sitjandi hér í stofunni, hlustandi á jólatónana flæða úr eldhúsinu. Ég veit að frammi er jólabarn að leika sér. Hrundin situr við tölvuna að læra, hún er í prófum núna og gengur vel að vanda.
Þetta hús gælir einhvernveginn við okkur af fágætum rausnarskap. Kannski er það staðurinn, áin ... eða er það félagsskapurinn? Hallast að því síðastnefnda.
Það geisar kreppa.... úti.
Hér inni er eins og hún sé víðsfjarri, líkt og norðankulið.