sunnudagur, september 24, 2006

Helgin

Það var fjölskyldudagur í Þverá í dag.
Veiðisjúklingar eins og ég geta ekki látið slíkt framhjá sér fara. Nokkuð margir voru við veiðar, eflaust misjöfn veiðin eins og gengur. Ég fór þremur löxum ríkari heim. Uni ég glaður við minn hlut, enda segir mér hugur að einhverjir hafi farið heim með öngulinn fastan í óæðri endanum.

Annars vorum við á Föðurlandi um helgina í blíðskaparveðri og fallegum haustlitum. Nokkrir heimsóttu okkur í litla kofann sem er óðum að taka á sig Erlu mynd sem þýðir að hann er að verða afar kósý og notalegur. Það sannast þar að maðurinn byggir húsið en konan gerir það að heimili. Nú vantar bara rafmagn svo vistlegt verði í honum í vetur.

Ég fór ásamt Hansa bróðir í langan göngutúr. Reyndar fjallgöngu því við lögðum af stað gangandi úr Kotinu klukkan sjö á laugardagsmorgun. Leiðin lá upp á Þríhyrning. Hansi er mikill göngugarpur og gengur lágmark þrisvar í viku. Þetta var tólfta gangan á Þríhyrning þetta árið hjá honum. Við fórum austur fjallgarðinn á hæsta tindinn. Þar fórum við síðan niður og skoðuðum gamlar þjóðleiðir og nokkur gömul sel m.a. Kirkjulækjarsel, Kollabæjarsel og Katrínarsel. Við vorum komnir til baka klukkan 12 á hádegi. Ég átti von á að vera undirlagður af harðsperrum eftir þetta afrek. Það reyndist ástæðulaus ótti, þær létu ekki kræla á sér, það er seigt í gamla.

Núna erum við komin heim á Herragarðinn okkar á Selfossi. Ölfusáin sér um að skapa hér afskaplega róandi og notalegan ár nið sem við erum að verða háð. Draumurinn núna er að kaupa verandar geislahitara. Ekki þessa gasknúnu heldur rafmagns. Það myndi gera að verkum að við gætum setið á pallinum á kvöldin í notalegum hita, þótt komið sé haust og blási köldu. Geislinn hitar ekki loftið heldur það sem hann lendir á.

Helgin var notaleg og gefandi.

Já lífið er gott.

mánudagur, september 18, 2006

Minnkaði kvótann um eina…..!


Ég keyrði á rjúpnahóp. Ein þeirra drapst og önnur flaug lemstruð í burtu, restin flaug í burtu með gassagangi, sýnilega brugðið.
Ég tók þá dánu um borð í bílinn, hún var flekkótt eins og myndin, við það að fara í vetrarbúning. Veit ekki alveg hvort ég á að elda hana eins og hverja aðra rjúpu eða henda henni.
Þær eru góðar á bragðið. Vil samt heldur skjóta dýrin sem ég elda. Bílslys er einhvernveginn ekki alveg að gera sig ofan í pottinn minn. Svo var smellfluga á henni sem flaug á mig þegar ég opnaði pokann. Ég sprautaði flugueitri ofaní pokann og batt fyrir. Þær eru ógeðslegar þessar smellflugur, þær festa sig á mann einhvernveginn og varla hægt að ná þeim af.
Held ég hendi henni bara....! Hvort sem er orðin eitruð.

þriðjudagur, september 12, 2006

Sjónarspil......

Það hefur vakið sérstaka eftirktekt mína hvað veðrabrigðin hér austan fjalla hefur verið tilkomumikið sjónarspil undanfarna daga.

Ég smellti nokkrum myndum í gærkvöld þegar ég renndi hér inn í bæinn austanfrá. Birtuskilyrðin voru svo mögnuð að ég varð að stoppa bara til að njóta málverksins alls.

Það getur verið svo magnað hvernig ljós og skuggar leika listir sínar á himninum þegar veðrabrigðin hanga í loftinu og sólin og rigningin heyja einvígi










Í dagrenningu í morgun fór ég aftur austur úr bænum og þá blasti við ný mynd

Þessi er tekin í austur á leið út úr bænum.

Þessi síðasta er tekin

áðan á kvöldgöngunni upp með á.

Náttúran er ótrúleg, alveg mögnuð verð ég að segja

Njótið lífsins vinir.....

miðvikudagur, september 06, 2006

Er maður orðinn kjelling!


Þegar ég var 23ja ára eignuðumst við kött. Stelpurnar sem þá voru litlar héldu að hann væri leikfang og toguðu hann milli sín svo hann kviðslitnaði.
Í framhaldi þurfti að svæfa hann. Svefninn langi var framkvæmdur með byssu í minni eigu. Ekki minnist ég þess að það hafi verið svo erfitt.

Í dag fór ég með köttinn okkar Skvísu á fund feðranna. Hún var svæfð með sprautu.
Kannski gera árin mann svona veikgeðja en mér fannst þetta langtum leiðinlegra verk nú en forðum og þó framkvæmdi ég það sjálfur þá.

Hún ber beinin í Föðurlandi í Fljótshlíð. Fékk þar tilhlýðilega jarðarför í dag.