mánudagur, nóvember 08, 2004

Rakst á þetta á prenti.....

„Á hverjum degi yfirgefur fólk kirkjuna og snýr sér aftur til Guðs.“
— Really Lenny Bruce

Brá svolítið en varð mér umhugsunarefni. Kannski er hér fundinn lykillinn. “Kirkjutrú” Það er kannski ástæðan fyrir því að hlutirnir eru ekki að gerast eins og fyrirheitin segja til um. “Þér munuð gera sömu verk og meiri...” Ég hef alltaf saknað þess og ekki skilið hversvegna. Það furðar mig. Enn meiri furða er að svo margir skuli neita að horfast í augu við það. Er vantrú að setja slíkt fram? Nei þetta er krafa um naflaskoðun. Guð er á réttum stað - en við.
Ég er hræddur um ekki. Ég er hræddur um að stefna kirkjunnar sé kirkjutrú án þess að menn ætli það endilega. Ég held að kirkjan sé fyrst og fremst í vinsældakapphlaupi sem Predikarinn myndi kalla “eftirsókn eftir vindi”.
Kirkjupólitík er staðreynd þó margir vilji ekki viðurkenna það.
Kirkjan þarf að stoppa við og skoða sinn gang. Snúa sér að kjarnanum. Hún þarf móðurmjólkina aftur. Trúin er ekki sirkus. Hún er ekki söluvara. Það var aldrei settur verðmiði á hana. Kirkjan getur ekki selt blessun í hlutfalli við greiðslur. Trú er ekki piss utan í stjórnmálamenn og höfðingja. Hún snýst ekki um græjur og flottheit.
Hún snýst um eitthvað miklu meira. Kirkjum fækkar og kristnum virðist fækka. Það er veruleikinn sem við búum við. Horfumst í augu við það. Eitthvað er ekki eins og það á að vera. Einhverju er verið að sá sem gefur ekki uppskeru.
Trúin er kjarninn í ávextinum. Kjarninn getur af sér líf.
Og lögmál lífsins er - það vex.



8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svo satt elsku pabbi minn... Góður pistill.. Þín Arna

Nafnlaus sagði...

Vel mælt Erling. Ég er þér algerlega sammála. K.kv. Teddi.

Heidar sagði...

Hvaða kirkju áttu við Erling minn? Kannski allar, eða enga sérstaka?

Þú talar um árangur sé enginn [hlutirnir eru ekki að gerast]: Ég vil sjá vakningu þar sem menn og konur koma þúsundum saman til Krists. En ef ég tek dæmi af minni kirkju, þá fjölgar stöðugt í hópi þeirra sem hana sækja. Þar eru hlutir að gerast, þ.e. þar fer fram sáning sem gefur uppskeru. Eflaust líkar einhverjum ekki við forystuna eða samkomuformið en það er allt í lagi, svo fremi sem fólk finnur sér þá samfélag sem því líkar, hvort sem það er innan kirkjuveggja eða ekki.

Án þess að ég sé að ásaka þig vinur: Gætum þess að snúa ekki kirkjupólitíkinni á haus.

Erling.... sagði...

Þú þarft að vanda betur lesturinn frændi. Skoðaðu hvaða “hluti” ég er að minnast á. Reyndu að skilja punktinn sem ég er að tala um. Kirkjan sem ég tala um er KIRKJAN en ekki kirkjudeildir. Ég hef ekki séð þessa “hluti” sem ég vísa í hjá neinni þeirra. Er þó búinn að tilheyra kirkju í mörg ár. Verkin eiga þó að vera sýnileg sbr. orðið sem ég vitna í, og staðfesta það sem sagt er. Hvar er allt lamaða fólkið sem risið er úr hjólastólunum, þeir blindu sem sjá, dauðu sem lifnað hafa við, og allt annað sem Jesú gerði, sem við eigum að toppa. Hvar er afraksturinn af Benny Hinn eða Ndifone? Ef einhver er ósammála þessu þá kalla ég hér með eftir staðfestingu á þessum verkum. Ef hún er ekki til, farðu þá í naflaskoðun með mér, því Guð er ekki að klikka og fyrst svo er, hver þá?

Nafnlaus sagði...

Ef allir þeir fá glyssali himnaríkis gist
sem gera sér far um að nudda sér utan í Krist.
Þá hlýtur að vakna sú spurning hvort nokkurs sé misst,
þó maður að endingu hafni í annarri vist. (Höf ók.)

Kannski nokkuð kalt og hart en ja maður spyr sig.
Gittan Geggjaða.

Nafnlaus sagði...

'Eg vildi bara leiðrétta vísuna sem Gittan geggjaða var með ,en hún er svona .
Ef allt þetta fólk fengi glyssali himnaríkis gist
sem gerir sér mat úr því að nugga sér utaní Krist,
þá hlýtur að vakna sú spurning hvort mikils sé misst
þó maður að endingu lendi í annari vist .
ég held að þetta sé eftir Stein Steinarr
K.Kv Ella P

Erling.... sagði...

Ehemm....... Þetta verður víst að flokkast með kaldhæðnari vísum sem ég hef séð.
Steinn Steinarr hefur eitthvað legið á verri hliðinni þegar hann vaknaði þennan morguninn....úff....svitn. Held ég taki ekki undir með honum.

Heidar sagði...

Ég reyndi í mikilli einlægni að lesa greinina með þeim gleraugum sem þú vilt að hún sé lesin. En í ljósi setninga eins og ["Trú er ekki piss utan í stjórnmálamenn og höfðingja. Hún snýst ekki um græjur og flottheit."] er erfitt að sjá að þú sért ekki að tala um eina kirkju en ekki margar eins og þú vilt vera láta. Ég hef nefnilega lesið greinar eftir þig þar sem þú setur t.d. tal um höfðingja og stjórnmálamenn í eitt samhengi. Og finnst mér með þessum kommentum þínum þú skemma annars svo gott innihald greinarinnar. Þetta eru setningar sem taka fókusinn af því sem þú ert að segja, sem er að láta ekki ytri glamúr gleypa trúna og að Kristur og trúin þarf að koma fyrst, t.d. á undan veggjum kirkjunnar.

Þeir sem hafa lesið greinar eftir mig hafa séð að ég vil sjá fólk frelsast þúsundum saman og að ég hef spurt hvers vegna við sjáum ekki fólk standa upp úr hjólastólum o.s.frv.

Tek aðlokum undir að við þurfum stöðugt að líta inná við með gagnrýnu hugarfari.