Kannski kemur það aldrei. Ég er búinn að sjá og heyra nógu marga tala um drauma sína og framtíðarþrár. Hugmyndir sem síðan fjarar undan með útsoginu og verða aldrei annað en blautur sandur sem segir sögu af því sem hefði getað orðið en varð ekki vegna eins orðs........ “seinna”.
Nostalgía þýðir fortíðarhyggja. Fortíðarhyggja er svo sem ágæt ef minningarnar eru sætar og ylja. En það gefur ekki framtíðardraumnum tækifærið sem hann þarf til að rætast.
Eini möguleikinn er að nota núið og framkvæma. Núið er að skrifa söguna þína.
Það er eina tíðin sem þú ræður einhverju um. Með öðrum orðum, leggðu af stað, því allar ferðir byrja á fyrsta skrefinu, og síðan annað koll af kolli eitt í einu.
Alltof margir líta til baka þegar húmar að hjá þeim og sjá þá að “seinna” kom ekki, því það gekk allan tímann á undan þeim og fjarlægðin í það styttist aldrei.
Gerðu það sem hugur þinn stefnir til. Sparkaðu "seinna" út af veginum þínum. Notaðu tímann. Oftast eru stærstu hindranirnar ímyndanir í höfðinu á þér.
Kannski kemur “seinna” ekkert.
5 ummæli:
Já það er alveg satt. Auðvitað á maður að láta drauma sína rætast og láta verða af því að gera það sem mann langar til. Ég tek þetta til mín ;)
Gangi þér svo vel að lesa fyrir prófin :D
Sjáumst vonandi í dag!
Þín elsta dóttir og næstelsta dótturdóttir þín biður að heilsa afa sínum :D
Íris og Petra Rut
Ég tek þetta totally til mín! Mar ætti nátla að drífa sig í skóla en það er draumur hjá mér! Eini vandinn er að finna e-ð sem mig langar að læra og er ekki deyjandi starfsgrein.. Hef bara áhuga á einhverju útdauðu.. ef svo má á orði komast! Þú ert snillingur pabbi.. Lov U og við sjáumst á morgun... :)
Góður pistill Erling. Ég hlustaði á frábæran pistil hjá Ívari Halldórssyni útvarpsmanni um daginn. Hann sagði að flest tækifæri lífsins væru á bak við dyr sem á stæði "Ýtið". Þeir sem standa alla ævi og horfa á dyrnar upplifa aldrei drauma sína verða að raunveruleika. Þeir sem þora að ýta og sjá hvað er á bak við dyrnar upplifa ævintýri.... k.kv. Teddi.
Þetta er góður punktur Teddi. Labbar framhjá dyrunum og segir: Kíki hér inn seinna.
Kannski maður skoði þetta einhvern tímann, að láta drauma sína rætast. Það er þegar ég er búinn í ferðinni minni með konunni minni til Kaupen.
Skrifa ummæli