sunnudagur, ágúst 28, 2005

Föðurland

vort er á himnum..... segir í helgri bók. Pabbi gaf mér land í Fljótshlíðinni fyrir margt löngu síðan. Einn hektari í þessari fögru sveit er minn. Skikinn minn heitir eðlilega “Föðurland”. Sveitin mín þar sem bændurnir voru ósköp venjulegir kallar sem gjarnan voru nefndir við bæinn sinn, hefur breyst. Mundi á Kvoslæk er allur, Siggi í Stöðlakoti er líka allur og Ragnar í Bollakoti ásamt fjölda annarra sem minningarnar kalla fram. Gamla sveitarómantíkin er hverfandi gæði, hraðinn og stressið nálgast óþægilega þennan fagra reit. Fljótshlíðin er orðin einn vinsælasti staður landsins til sumarhúsabyggða. Ekki nóg með það því þangað sópast aðallinn. Fljótshlíðin er “inn” í dag. Milljarðamæringarnir sem Ísland elur af sér í dag streyma í Fljótshlíðina til að kaupa lönd og byggja hallir.Ég er ekkert hrifinn af þeirri innrás, vildi heldur að þeir héldu sig við útrásina sína.
“Föðurlandið” mitt í Fljótshlíðinni ætla ég að vernda sem sveitalubbasetur. Ég ætla ekki í kapp við millana um fermetra og flottheit. Ég ætla að hafa kofann lítið og fábreytt kot, en ég ætla að panta inní hann ró og frið gamla sveitamannsins, sem er horfinn.
Ég ætla að fá mér hundrað ára klukku sem telur tímann hægt og segir mér með rólegu gamaldags slagverki hvað tímanum líður.
Og það verður notalegur gamall lesstóll á veröndinni.
Restina má Erla mín svo fylla upp með “dóti” sem henni einni er lagið að raða saman í notalega heild.
Föðurland vort, - er í Fljótshlíð í bili.

4 ummæli:

Íris sagði...

Ég hlakka mikið til þegar bústaðurinn verður kominn, lítill eða stór, skiptir ekki máli en það verður friður og ró það veit ég!!! Sé þetta alveg í hyllingum ;)

Nafnlaus sagði...

Vá hvað ég hlakka líka til að koma í heimsókn í notalega bústaðinn sem þið mamma ætlið að koma upp:):) Ég sé þetta líka alveg í hIllingum:):)

Nafnlaus sagði...

Þetta var ég... ARNA!!!!!

Nafnlaus sagði...

Ég hlakka líka alveg hrikalega til að koma í heimsókn í kotið :) Þetta á eflaust eftir að verða notalegt hjá ykkur, ég efast ekki um það eina mínútu!! Sjáumst hresss eftir mánuð.. Þín Eygló