þriðjudagur, júní 26, 2007

Alltaf jafngaman....

.....í veiðiferðum okkar frændanna. Þórisvatn er alveg sérstakt vatn að veiða. Auðn, svartur sandur, varla stingandi strá nokkursstaðar. En fallegur fiskur og sá bragðbesti sem ég veit um.
Það veiddist minna en árin á undan. Ég veit ekki ástæðuna. Aðstæður voru eins og best er. Gola, mikill hiti og lítið í vatninu. Ég fékk þó mest að vanda :-)
Ég hafði gaman af óhörðnuðun veiðisálum, sérstaklega fyrri daginn. Heiðar fékk góða byrjun. Gumaði af, enda alls óvanur þess háttar. Hann fékk gott forskot á hina og hefði því átt að fara með flesta fiskana heim. Aflatölurnar enduðu þó ekki fjarri hlutfalli undanfarinna ára. Ég held samt að allir hafi farið sáttir heim. Kannski síst Hlynur þar sem veiðigenin urðu eftir heima svo aflinn hans var ekki alveg skv. hefðinni.

Ferðin var ljúf og góð í alla staði og gott ræktunarstarf fyrir frændgarðinn okkar, einskonar vökvun. Sennilega friðardúfa sem sést á myndinni ef hún er stækkuð.....varla fluga.
Ég er ánægður með þessa hefð okkar að fara svona saman í veiðitúr.



Að öðru, þá var ég með kvikindi í pössun un helgina síðustu. Það var vélfákurinn hans Kidda mágs míns. Ekki að ég sé óánægður með minn eigin, hann er bara allt annars eðlis. Kiddi á stórt mótorhjól sem ég leit eftir meðan hann var í Danmörku. Á sunnudaginn komu hér Baddi og Jakob félagi hans á sínum fákum. Ég slóst í för með þeim. Þingvallahringurinn var þræddur í blíðskaparveðri og góðum félagsskap.




Þetta var stórskemmtilegt og á vonandi eftir að endurtaka sig einhverntíman.




Við sátum hér úti á veröndinni áðan í sól og roki. Hitarinn gerir að verkum að hægt er að sitja úti þótt hitastigið sé ekki svo hátt. Við urðum vör við óvenju mikið af geitungum. Þegar við fylgdumst með þeim kom í ljós að þeir hurfu undir sólpallinn hjá okkur. Kvikindin eru að gera sé bú hér undir pallinum..... hrmpff.
Ég neyðist til að gera ráðstafanir til að drepa þá. Kannski tala ég bara við meindýraeyði, það er auðveldast. Eða set mig í stellingar og geri atlögu að þeim með því að rífa pallinn í fullum herklæðum, og finna búið.
Jú ég hef verið svo kátur með allt lífið hér í kring en geitungar eru illa innrættir. Þeir kunna ekki einu sinni lágmarkssamskipti við fólk.
Það undarlega hefur samt gerst að Erlan mín er hætt að garga þegar hún sér þá, heldur fullri ró sinni og nær í flugnabana. Það er af sem áður var.

Sumarið er tíminn........ sagði veiðimaðurinn
Ég er sammála.

1 ummæli:

Íris sagði...

Gott hjá ykkur frændunum að fara svona saman árlega! Eflaust rosakega skemmtilegt!
Njóttu þess svo að vera kominn með prófið ;) Loksins!!
Sjáumst, kv. Íris