miðvikudagur, apríl 16, 2008

Egyptaland...

...var stórkostlegt ævintýri. Ferðafélagar okkar voru frábærir. Þessi ferð skaust óralangt fram úr væntingum okkar beggja. Upplifunin var meira og minna eins og í “Þúsund og einni nótt”. Að fylgjast með mannlífinu á Nílarbökkum líða framhjá þegar skyggja tók var upplifun sem vart er hægt að koma í orð. Umgjörðin ævintýraleg. Að skoða listaverk, fornminjar, þrjú til fjögur þúsund ára gömul, stráheil eins og þau hefðu verið gerð í gær er svo magnað að langan tíma tekur að melta, þó ekki sé nema að hluta. Sagan er allsstaðar, hún er kynngimögnuð. Að standa inni í grafhvelfingu pýramída er ekki bara sjónræn upplifun heldur tilfinningaleg, þar er sagan áþreifanleg, liggur í loftinu og maður finnur fyrir henni eins og hún hafi anda og sál.
Að kyssa sjálfan Sfinxinn hlýtur að teljast afrek.
Að sjá andstæðurnar þar sem eyðimörkin mætir iðjagrænum lendum lífæðar Egyptalands, Nílar, sýnir manni hversu óendanlegur lífgjafi vatnið er.
Að upplifa skráfþurran og brennandi hita eyðimerkursólarinnar er upplifun og kennir manni hversu sögurnar um þyrsta ráfandi eyðimerkurfara er mikil dauðans alvara.
Að vera gestur í íslömsku ríki er reynsla útaf fyrir sig. Það er óraunverulegt að horfa yfir Kaíróborg meðan bænaköllin fara fram. Öll borgin, þessi þriðja stærsta borg veraldar, bergmálar endanna á milli. Það er skrítið að sjá menn og konur biðja á götum úti þar sem þau eru stödd, leigubílstjóra stíga út úr bíl sínum, leggja teppisbút á götuna og hefja tilbeiðslu sína.
Upplýst fjöll sem hýsa fjölda grafhýsa er tignarleg sjón.
Þarna er mikil stéttaskipting, 50% ólæsi og fátækt. Umferðin er sérkapituli...... en meira um þetta allt síðar. Mögnuð ferð....!

Best var þó að koma heim. Okkar fólk tók á móti okkur heima hjá Írisi og Karlott með samfélagi og veislu, Þar með fullkomnaðist ferðin.



Við Erla héldum sitthvora dagbókina til að sjá muninn á hvernig við upplifum hlutina. Ætlunin er að gera úr því eina dagbók, blanda upplifunum okkar saman og setja upp link á hana hér á síðunum okkar. Þetta verður um leið og hægist um hjá okkur.

Þangað til... njótið daganna.

4 ummæli:

Íris sagði...

Gaman að fá ykkur heim og heyra ferðasöguna. Hlakka til að sjá myndirnar og heyra meira frá ferðinni. Verður þó eflaust ekki fyrr en eftir próf hjá mér!
Sjáumst
Íris

Nafnlaus sagði...

Æðislegar myndir, sérstakelga fjallamyndin. Merkilegt að lýsa það svona upp. En það var mjög notalegt að fá ykkur mömmu heim. Það er alltaf besti hlutinn okkar þegar þið farið til útlanda:) Arnan þín:)

Hrafnhildur sagði...

Velkominn heim kæri frændi. Þetta hefur aldeilis verið ævintýraferð. Ég hlakka til að lesa meira :)
Kveðja úr Mos

Nafnlaus sagði...

Velkomin heim kæri bróðir,
Hlakka til að lesa ferðasöguna..
Mbkv sys