föstudagur, maí 29, 2009

Bjargráð eða hvað

Við erum að byrja að finna til tevatnsins. Þessi ríkisstjórn verður, alveg eins og sú sem fór frá, að horfast i augu við gríðarlegan vanda sem þjóðin okkar er komin í og framkvæma allskyns aðgerðir sem munu falla illa í landann. Sparnaður, auknir skattar og álögur er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að taka á skuldapakka þjóðarinnar. Þegar engin góð leið er til verður að finna illskárstu. Þessi aðgerð að hækka álögur á eldsneyti, áfengi og aðra vöruflokka skila ekki miklu upp í vandann. Til þess verður að fara í miklu meiri og sársaukafyllri aðgerðir. Þetta er aðeins upp í nös á ketti eða 1/40 af því sem liggur fyrir að að ná í kassann.

Þeir ættu samt að hlusta á stjórnarandstöðuna núna og skoða óbeinar afleiðingar þessara gjörninga. þetta getur orsakað að vandi heimilanna aukist um hátt í 9 milljarða meðan þetta færir aðeins um 2.5 milljarð í kassann.
Krafa búsáhaldabyltingarinnar um að nýir aðilar tækju við þjóðarskútunni breytti engu um blákaldan veruleikann sem blasir við í þjóðmálunum. Ný stjórn hefur engin tromp á hendi sem hin hafði ekki. Engin leið er þægileg eða góð, það er bara þannig.
Samt..... er um að gera að halda í bjartsýnina og horfa yfir víðáttumikið landið. Það hefur fóstrað okkur öll árin og mun gera það áfram.

Engin ummæli: