sunnudagur, júlí 17, 2011

Gott fólk og gifting

Þessa dagana gistir hjá okkur prýðisfólk frá Danmörku. Þau heita Dorthe og Brian ásamt Katrine dóttir þeirra. Þetta ágæta fólk tengdist ættleg Erlu með formlegum hætti í gær þegar þau Thea Theodórsdóttir og Michael sonur Dorthe giftu sig með pompi og prakt. Það var gaman að sjá siðina frá sitthvoru landinu blandað saman í einni athöfn, hvort tveggja í kirkjunni og veislunni þó það væri meira áberandi í veislunni.
Ég hef ekki verið í brúðkaupi þar sem dansað er fram á nótt þegar veisludagskránni lýkur. Íslendingar eru ekki endilega mjög dansglaðir en þó tókst að fá nokkra á gólfið sem skemmtu sér vel, þar á meðal við Erlan.

Það er ekki oft sem ég hitti einstaklinga sem hafa jafnmikinn áhuga á náttúruöflunum eins og Brian. Hann, og raunar þau bæði dreymir um að sjá eldgos með eigin augum eða aðrar hræringar íslenskrar náttúru. Danmörk, jafnágæt og hún er hefur ekki þessa krafta náttúrunnar sem við búum við hér í landi íss og elds. Hér sjáum við frumkraftana sem mynduðu þessa jörð í nærmynd og upplifunin er auðvitað sú að við verðum lítil og smá og getum ekki rönd við reist á nokkurn hátt þrátt fyrir náttúruverndarsjónarmið og strangar leyfisveitingar, við bíðum bara og sjáum til hvernig náttúran ákveður að klára málin sín.

Ég geri ráð fyrir að við förum í stutta fjallaferð með þau áður en þau fara til síns heimalands ef tími vinnst til.
Hellisheiðin er ekki öll sem sýnist. Þar er hægt að fara í "off road" ferðalag og upplifa hvort tveggja jeppafíling og íslenska náttúru sem ekki sést frá þjóðvegi eitt. Ef við förum þá keyrum við upp Hengladalaá upp að Litla Skarðsmýrarfjalli, gegnum Fremstadal og komum niður hjá Skíðaskálanum í Hveradölum.

Þessi fallegi sunnudagur verður bjartur og góður, sólin skín og hitastigið er óvenju hátt á mæli.
Njótið þessa dags vinir, þetta er ekki sófadagur

Engin ummæli: