sunnudagur, febrúar 03, 2013

Þeir vita það fyrir vestan

Það hefur alltaf truflað mig að vita jafn lítið um uppruna minn að vestan og raun ber vitni. Ég hef alltaf saknað þess að kunna ekki meiri deili á afa og ömmu að vestan og fólkinu sem ég er kominn af. Á ættarmótinu í sumar fékk ég smá samantekt eftir Stjána heitinn bróðir mömmu á búskaparháttum og tilurð þess að afi og amma fluttu í Botn í Geirþjófsfirði.
Það kallaði á meira því í samantekt sinni vitnaði Stjáni í bók eftir Guðmund G. Hagalín "Þeir vita það fyrir vestan" þar sem hann sagði Guðmund hafa komið í Botn og átt samskipti við afa og ömmu og ritað eitthvað um þau samskipti.
Ég hafði á orði að mig langaði í þessa bók og Erlan ljúfust gróf hana upp fyrir mig, henni líkt, og ég er búinn að finna þessa umfjöllun um þau heiðurshjón. Það var eins og að líta inn um glugga til fortíðar að lesa um orðaskipti afa og ömmu við gestinn og ferð afa með Guðmund til Bíldudals. Smá glefsa til fortíðar sem segir samt mikið.

Af bókinni má síðan ráða að Guðmundur hafi gefið út aðra bók sem heitir Mannleg náttúra. Það sem gerir hana spennandi í mínum huga er að svo virðist sem eitthvað i fari afa hafi orðið honum tilefni til að skrifa þá bók.
Afhverju held ég það?

Vilmundur Jónsson læknir virðist hafa átt frumkvæði að því að Guðmundur fór í Botn. Guðmundur vitnar í þennan vin sinn síðar þegar hann hafði gefið út bókina: - "Vilmundi þótti mest koma til "Gunnars á Mávabergi" sem hann kvað vera einhverja þá kostulegustu persónu sem hann hefði kynnzt í bókmenntum. En hann lét líka vel af Mannlegri náttúru og sagði að hann vildi gjarnan kynnast persónulega þeim manni sem hefði orðið mér tilefni þeirrar sögu, Svo hló hann og mælti: "Þú mátt sannarlega vera mér þakklátur fyrir ferðina í Geirþjófsfjörð og ég sé ekki betur en að íslenzkar nútíðarbókmenntir standi líka í þakkarskuld við mig." En Vilmundur hafði verið hvatamaður að þeir færu í Botn.
Mér finnst ég skilja á orðunum hér að ofan að afi og amma hafi verið tilefni sögunnar.

Guðmundur Hagalín gaf út margar bækur. Einn vinur hans sem var í námi í Þýskalandi skrifaði Guðmundi bréf þar sem hann kommentar á nokkrar bækur vinar síns, þar á meðal "Mannleg náttúra"

(Guðmundur segir frá)
"Honum þótti Einstæðingar vel gerð saga og athyglisverð og dáðist mikið af Gunnari á Mávabergi og samskiptum hans við hreppsnefndina..... En Mannleg náttúra - um hana ritaði hann langt mál og kvað upp þann dóm að hún ætti fáa sína líka að raunsæi á líftaug karlmannlegs eðlis og þá eigind þess sem örvaði kynþokka konunnar og yfirstigi hverskonar ísaldir sem mannkyninu kynnu að mæta, jafnt í eiginlegri sem óeiginegri merkingu."

Nú er ég búinn að finna eintak af þessari bók Mannleg náttúra og mun kaupa hana á morgun og lesa hana spjaldanna á milli. Það verður fróðleg lesning sérstaklega þegar ég veit hvaða einstaklingar eru fyrirmyndir sögunnar - afi og amma virðist vera.

Ég er nú búinn að sitja hér í nokkra klukkutíma enda klukkan að verða 11 á sunnudagsmorgni. Frúin mín ljúfust er fyrst að rumska eitthvað núna og þá er kominn tími á kaffibollann með henni. Við kaffibollinn erum reyndar búnir að eiga nokkur samskipti í morgun, mjög á góðu nótunum.

Njótið dagsins vinir.

Engin ummæli: