sunnudagur, júlí 07, 2013

Kaldasta sumar í manna minnum.

Þetta verður að líkindum kaldasta sumar í 200 ár sagði veðurfræðingurinn í vor eftir að hafa rýnt í fræðin og séð að stóru veðrakerfin sem stýra lægðagangi á norðurhveli jarðar væru okkur einstaklega óhagstæð.
Ég tók nú ekki mikið mark á manninum enda verið að rýna í mánuði fram í tímann. Annað hefur nú komið í ljós, hann vissi hvað hann söng, sumarið hefur varla náð að banka upp á hvað þá annað. Ég sit hér í kofanum við opinn gluggann, vaknaður fyrir allar aldir eins og venjulega og hlusta á náttúruna. Það hefur rignt meira en góðu hófi gegnir undanfarið en nú skín sól í heiði og Kári sefur svo nú er það sem við köllum bongóbllíða og hitinn kominn í 12 gráður. Ég leit á mælinn í gærkvöldi og hann stóð í 5 gráðum en það hefur verið algeng hitatala undanfarið. Ég  fagna sólinni eins og kálfur sem hleypt er út á vorin, það er ekki bara að sólin létti lund heldur er hún mikill öragavaldur þegar kemur að rekstri ísbúðarinnar. Fólk kaupir sér ís þegar sólin skín svo sumarið hefur ekki verið ísbúðareigendavænt fram að þessu.
Það er eins og náttúran fagni með mér því fuglarnir syngja aldrei eins mikið og í uppstyttu eftir rigningartíð og nú er ómur í lofti sem berst inn um gluggann, þessi sinfónía er sálaryljandi eins og ég hef sagt ykkur áður.

Stefnan er sett á Danmörk og Svíþjóð um næstu helgi. Þar ætlum við að vera í 10 daga og ferðast og njóta lífsins. Veður hefur verið einstaklega gott á norðurlöndum og hitamet að falla t.d. í Noregi. Það þarf ekki að koma á óvart því veðrakerfin sem ég minntist á skipta gæðunum svona, ef það er heitt sumar hér er kalt á norðurlöndum og öfugt. Við eigum því von á sólarstrandarhitatölum í ferðalaginu, það verður gott.

Við Hlynur fórum í bræðraferð í Þórisvatn en þangað hef ég ekki komið undanfarin tvö ár. Það var frekar svekkjandi að fiskurinn hefur smækkað mikið. Venjulega hefur þetta verið um tveggja punda fiskur en nú eru þeir um pundið. Það verður að viðurkennast að pundfiskar eru ekki mjög spennandi að veiða en þeir bragðast vel enda Þórisvatnsfiskurinn sá besti sem til er. Veiðigyðjan var reyndar fullmikið Hlyns megin því hann fékk talsvert fleiri fiska en ég :-(
Við skeggræddum þetta fram og til baka, hvernig  á þessu stendur að stundum er eins og fiskurinn rati bara á færi annars okkar. Ég hef enga skýringu á því, við teljumst báðir fisknir og höfum sömu beitu og högum okku á alla kanta eins en stundum er þetta svona.Bræðrabandið gerir okkur samt að skipta aflanum eftir svona ferð svo ég græddi í þetta sinn.

Jæja gott fólk ég verð að koma mér út í þetta veður, ekki svo oft sem það lætur svona. Smá ganga um Föðurland í blíðviðri, ekki slæmt það.

Njóið dagsins.

 

Engin ummæli: