Var í síðasta tíma annarinnar í morgun. Nú er törn framundan í prófalestri.
Fyrsta próf á þriðjudaginn og það síðasta þann 11. des.
Nú er námið hálfnað þ.e. ef ég gef mér að ég nái prófum. Á kannski ekkert endilega von á öðru.
Þetta er búið að vera skemmtilegt og á köflum erfitt en ótrúlega fljótt að líða. Það er einhvernvegin þannig að manni finnst oft í svo mörgu, að síðari helmingurinn sé fljótari að líða en sá fyrri. Ef seinni hlutinn verður bara jafnfljótur og sá fyrri verð ég búinn með námið áður en ég næ að snúa mér við....!.
Það er ánægjulegt og gott að finna sig styrkjast í nýju fagi.
Var í Hæstarétti í gær að hlusta á málflutning í einkamáli. Margt kom þar fram sem mér þótti athyglisvert. Kannski ekki síst framkvæmdin. Mjög ólíkt lögfræðisápuóperunum í sjónvarpinu.
Þar hlustaði ég á margreynda lögmenn takast á um mál sem snerist um brottvikningu manns úr vinnu án aðvörunar. Rekinn á staðnum.
Málið fangaði athygli mína efnislega vegna skyldleika við annað líkt mál þar sem mér var ekki skemmt, mál sem kom við réttlætistaugina í mér. Var þó bara áhorfandi úr fjarlægð.
Þar var meðalhófsreglunni steingleymt og kona (mér ótengd) látin taka pokann sinn og gert að yfirgefa vinnustað sinn, án tafar, án annarrar ástæðu en skipulagsbreytinga. Mjög aðfinnsluverð aðferð kirkju í því tilfelli bæði lagalega séð og ekki síður sálarlega.
Eins og fram kom í málflutningnum heitir þetta riftun ráðningarsamnings. Sé riftun ekki byggð á réttum forsendum skv. réttarheimildum skapast bótaskylda.
En svona er heimurinn, þau begðast krosstrén sem önnur.
Aftur að veraldlegri hlutum. Það sem hefur komið einna skemmtilegast á óvart í laganáminu er hvernig þetta tré réttarkerfið er byggt upp. Rótfesta, stofn, greinar og lim. Gagngert byggt upp til að finna réttlætið á öllum sviðum. Bókstaflega snýst um það.
Ég taldi mig, áður en ég hóf námið, vera nokkuð vel að mér í lögunum en hef nú komist að því að það lagalega vit sem ég átti, kæmist fyrir í öðrum lófanum á mér í dag. (væri ekki almennilegur laganemi ef ég grobbaði ekki soldið)
En enginn verður óbarinn biskup og eins gott að halda áfram að lesa svo ég verði ekki tekinn í nefið.
Góða helgi vinir.
3 ummæli:
Góðan lestur pabbi. Þú munt taka þessi próf í nefið, ég veit það sko. Gangi þér svo jafn vel með seinni hálfleikinn. Þú ert frábær. Litlu skvísurnar mínar biðja að heilsa þér;););) Þín Arna
Gangi þér vel Erling minn. Efast ekki eina mínútu um að þú verður framúrskarandi lögmaður. Betra að vera þá samherji þinn fremur en andstæðingur. Þú munt brillera!
Gangi þér rosalega vel í prófalestrinum pabbi!!! Ég veit þú rúllar þessu upp eins og flestu sem þú gerir!!! Og já það er alveg ótrúlegt að þú sért hálfnaður með námið. Það verður gaman þegar þú útskrifast. Það verður áður en þú getur snúið þér, ég efast ekki um það ;)
Þín elsta dóttir
Íris E
Skrifa ummæli