miðvikudagur, júní 21, 2006

Annasamir dagar

Það má með sanni segja að dagarnir eru búnir að vera annasamir. Brjálað að gera í lögfræðinni....!
Reyndar er meira að gera í smíðum hjá mér þessa dagana, enda lögfræðin þess eðlis að ég þarf að markaðssetja mig þar smátt og smátt.
Ég var að koma norðan af ströndum. Var þar að innrétta eldhús í vinnubúðir fyrir Hjalla bróðir, bara gaman að því. Sótti mér kraft í vestfirsku fjöllin og er nú endurnýjaður að afli og orku.
Áður en ég fór vestur, fór ég í Þórisvatn ásamt Hlyn, Heiðari, Rúnari og Gylfa, stóru strákarnir og litlu. Það veiddist vel að vanda. Nefni engar aflatölur, það er svo montlegt, en aflinn var góður.

Ég gekk í veiðifélagið hér á Selfossi í morgun. Það á reyndar ekki að gerast nema á aðalfundi einu sinni á ári. Datt óvart inn í klíkuna svo mér var boðið að gerast meðlimur strax. Ég mun svo veiða hér á baklóðinni í þrjá daga í ágúst. Ánægður með það.

Ég var að slá blettinn áðan þegar Valdimar nágranni minn kom yfir og spjallaði við mig um veiði í ánni. Ég hitti hann í morgun við inngönguna í félagið. Ég heyrði á honum að hann þekkir ána mjög vel, svo mér varð að orði að við þyrftum að fá okkur göngutúr upp með ánni einhvern góðan veðurdag, því það væri óborganlegt að fá tilsögn svona manna eins og hans. Hann tók mig á orðinu og spurði hvort við ættum ekki að rölta núna. Við röltum fyrst niðureftir og svo upp með ánni. Hann sýndi mér staðina og meira að segja punktana sem á að renna á. Góður Valdimar. Ég hafði líka gaman að því að hann hafði orð á því að þetta hefði hann ekki séð í mörg ár, að grasið væri slegið á lóðinni minni.....!

Ég er að hamast við að rífa veggi, innrétta, sparsla, mála, slípa parket, lakka, saga handrið og smíða eitt og annað hér heima. Og vinna þess á milli fyrir salti í grautinn. Dagarnir hafa verið langir en skemmtilegir.
Við hjónakornin fórum í göngutúr hér upp með á í gærkvöldi, í bullandi rigningu og logni, það var einfaldlega frábært. Fuglasöngur og árniður. Svæðið er einstakt hér í kring. Við tímdum varla að fara inn og tókum aukakrók.... rennandi blaut.
Já það má segja að grasið er sko grænt hér, svo grænt.... að það er blátt.

Njótið daganna.........!

sunnudagur, júní 11, 2006

Nýr titill....!

Það tilkynnist hér með að ég er orðinn lögfræðingur. Lögskipaður í bak og fyrir.
Ég var búinn að segja minni heittelskuðu að ég ætlaði ekki að hafa neitt tilstand.
Það féll í góðan jarðveg .....að mér fannst. Hún sagði mér að stelpurnar langaði til að hafa smá kaffi handa mér eftir útskrift heima hjá Írisi og Karlott. Eg samþykkti það og fannst það vel til fundið. Ég er smátt og smátt að ná málinu aftur því þegar þangað kom var múgur og margmenni þar samankomið. Bílar faldir á nærliggjandi bílastæðum svo ég fattaði ekkert. Ferfalt húrrahróp tók við mér þegar ég gekk í hús.
........Orðlaus er rétt lýsing.
Það eru mín gæði að eiga vini í þessum gæðaflokkki. Vinir eru það sem gefur lífinu gildi. Erla ásamt fleirum höfðu undirbúið svona glæsilega veislu með vinum mínum og vandamönnum.
Þeim tókst að koma mér svona algerlega í opna skjöldu. Þið eruð yndigull öll.
Ég get ekki neitað því að þetta kom við sálina í mér. Að allir þessir skyldu taka sér tíma til að samfagna með mér... segir meira en mörg orð.... takk fyrir mig vinir mínir.
Ekki nóg með það heldur fékk ég flottar gjafir í tilefni dagsins. Takk kærlega fyrir mig.....!
Ég er lukkulegur maður.............. þið fáið öll afslátt af taxta :-)
Er byrjaður að taka niður númer.....