þriðjudagur, janúar 27, 2009

Vindasamt

Það er ekki laust við að hlutirnir gerist hratt þessi misserin. Stjórnarfall, og vinstri stjórn í burðarliðnum. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað kemur út úr þessari samsuðu. Þarf kannski ekki að vera svo merkilegt til að vera jafnokar eða betri en fráfarandi stjórn. Allavega eru líkur til að tekið verði til í Seðlabankanum og fleiri stöðum, kannski bönkunum líka, hver veit. VG eru að leggja fram frumvarp um frystingu á fé auðmanna sem settu okkur á kúpuna, gott mál ....ef það stenst!
Jóhanna hefur sýnt og sannað að hún lætur verkin tala, hún er ekki bara orðaflóð eins og pólitíkusum er svo lagið. Líst bara vel á að hún stýri fleyinu um stund.

Svo hefst kosningabaráttan strax á morgun með öllu skruminu sem því fylgir. Það verður úr vöndu að ráða hvað á að kjósa. Sjálfstæðismenn eiga of stóran þátt í þjóðarþrotinu til að fá mitt umboð svo mikið er víst. Nú þarf að grandskoða stefnur flokkanna og fólkið sem stendur að þeim. Einhver hlýtur að vera skárri en annar.

föstudagur, janúar 23, 2009

Og Hörður Torfason....

...er BJÁLFI sem kann ekki mannasiði.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Lögfræðingurinn Obama...

...er ekki öfundsverður. Hann tekur við arfaslöku búi af fyrirrennara sínum Bush. Ekki nóg með að endalaus óleyst vandamál, og ill leysanleg, blasi við vegna herskárrar valdatíðar Bush, heldur er efnahagur landsins í rústum eftir endalaust stríðsbröltið í honum. Og svo sem ekki bara efnahagur bandaríkjanna, heldur alls heimsins. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig svona maður, jafn illa gefinn og óheppinn, skuli í fyrsta lagi, hafa komist til valda, og í öðru lagi, ríkja í tvö kjörtímabil.

En svona er veröldin uppfull af óskiljanlegum hlutum. Vonandi tekst Obama að koma málum í horf aftur, það hefur gríðarleg áhrif út um allan heim hvernig honum tekst til - líka hér.
Ég sjálfur, fagna þessum forsetaskiptum í Bandaríkjunum.

sunnudagur, janúar 18, 2009

Lærdómur

Dagurinn hefur farið framhjá bjartur og góður. Eftir notalegan morgunn við blaðalestur og kaffi fórum við Erlan í göngutúr upp með á. Umhverfið var fallegt eins og venjulega, jafnvel fallegra. Sólin skein og glampaði svo fallega í ánni. Það var gott að fá ferskt loft í lungun, hressti heilasellurnar. Annars hefur síðdegið helgast af lestri og tölvuvinnu fyrir morgundaginn. Málstofa í auðlindarétti í fyrramálið, áhugavert fag um ferli hugmyndar að framkvæmd í íslensku lagaumhverfi. Annars fer skólinn vel af stað. Ein vika liðin og ég er búinn að fara í tíma í öllum fögum annarinnar. Líst vel á þau öll og veturinn leggst vel í mig. Það verður nóg að gera eins og endranær.

Vonandi verður botninum náð hjá okkur í efnahagslífinu í vetur og ég vona líka að bjartsýni og von fæðist með þjóðinni með hækkandi sól. Ég verð samt að taka undir að ástandið er ekki gott. Það hlýtur samt að fara batnandi fyrst svona margir skvetta málningu á opinberar byggingar. Svona lítur nú hver sínum augum á vandann.

Vikan verður fljót framhjá og það er stutt í næstu helgi

Njótið daganna

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Enn afmæli í húsinu við ána

Hún varð 49 ára í gær, konan sem hefur gefið mér æviárin sín. Hún hefur staðið með mér í meðvindi og mótvindi. Já já stundum hefur blásið í kringum okkur. Nú er logn.

Hún er traust, elskuleg, umhyggjusöm, elskuð af mörgum. Hópurinn okkar orðinn stór, telur 15 með okkur

Ég er lánsamur maður

sunnudagur, janúar 11, 2009

Afmæli

Með fjölmenni, vina og ættingja. Við héldum upp á tvítugsafmæli yngstu dótturinnar í gær en hún varð tvítug á fimmtudaginn. Margir heimsóttu hana í tilefni dagsins. Þetta var matarboð sem stóð frá klukkan fimm og fram yfir miðnætti. Það var gaman að því hvað fólk var ekkert að stressa sig, enda er svoleiðis bannað hér við ána. Hrund fór svo í höfuðborgina eftir miðnættið með vinkonu sinni. Vil nota tækifærið og þakka öllum sem kíktu við og heiðruðu dótturina á þessum degi.

Núna sitjum við Erlan með kaffi og lesum blöðin á þessum fallega sunnudagsmorgni. Það er svolítið hvasst úti og hiti um frostmark, Kári gnauðar á gluggunum og vinkona okkar Ölfusáin er svolítið hryssingsleg, það frussar á henni eins og hún sé hálf geðvond. Kannski ekki nema von, búin að búa við vorveður svo lengi.
Morguninn gefur fyrirheit um góðan dag.

Njótið hans vinir


sunnudagur, janúar 04, 2009

Góðra vina fundur...

Hér í húsinu við ána var fjölmenni í gær. Tilefnið var jólaboð ættarinnar. Haldið í "pot luck" stíl eða "Pálínuboð" á íslensku, eins og í fyrra. Ættartréð okkar talið frá pabba og mömmu. Okkur telst til að með börnum hafi verið 65 manns hér í húsinu í einu. Það er talsverður fjöldi en eins og máltækið segir "þröngt mega sáttir sitja" og öll erum við stórfjölskyldan meira en sátt, allir eru vinir eins og dýrin í skóginum. Reyndar var rýmra um fólk í ár því efri hæðin var notuð meira núna en í fyrra.
Ég er ánægður með góða mætingu, enda þeirrar skoðunar, sérstaklega núna eftir fráfall mömmu, að við þurfum að leggja vinnu í að viðhalda tengslum okkar. Ýmsar uppákomur líkt og þessi getur virkað eins og lím í fjölskylduna. Fyrirhugaður útileguhittingur annarrar kynslóðar í sumar er mér mjög að skapi. Gott að yngra fólkið finni hjá sér hvöt til að hittast og þannig viðhalda ættarböndunum.
Það var ánægjulegt að sjá allan barnaskarann sem fylgir unga fólkinu, efniviður framtíðarinnar, nýju brumin á trénu, hluti af okkur sjálfum, sem munu svo vaxa upp og fæða af sér nýjar greinar á ættartréð. Gott mál.
Ég er ánægður með mitt ættfólk og þakka fyrir skemmtilegt og gefandi samfélag.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Nýtt ár 2009

Enn eitt árið runnið inn í eilífðina og við stöndum, einu sinni enn, á nýjum upphafsreit. Ný spil gefin og næsti hringur spilaður. Það voru margir sigurvegarar í síðasta slag, en líka einhverjir sem töpuðu. Þannig er lífið.
Ég þakka gestum síðunnar samfylgdina á árinu og trúfastar heimsóknir.

Það er alltaf gaman að líta um öxl við áramót og skoða hvað markverðast hefur gerst á árinu. Mamma lést á árinu eftir löng veikindi, við geymum fjölda minninga um hana í hjörtum okkar, þær eru demantar í minningasafninu.
Við fjölskyldan getum þakkað fyrir gott ár. Engin slys eða alvarleg veikindi hafa komið upp á árinu. Við byggðum nýjan kofa á Föðurlandi. Við ferðuðumst og nutum lífsins á Ölfusárbökkum.
Við fylgdum auðvitað inn í kreppuástand eins og aðrir Íslendingar. Ef spá hagfræðinga rætist verður nýtt ár líklega nokkuð ólíkt mörgum undanfarinna ára. Allskyns uppgjör verða. Ekki aðeins hjá helstu áhrifavöldum kreppunnar heldur líka hjá almenningi sem neyðist til að horfast í augu við nýtt landslag í sínum persónulegu fjármálum. Margir munu mæta meiri fjárhagslegum hremmingum en þeir hafa áður upplifað.
Í þessu myrkri eru samt glætur sem munu bara stækka, og fyrir rest lýsa eins og sólin. Ég er að tala um ný viðhorf, ný gildi. Kannski rennur upp sú tíð á árinu að menn munu spyrja "hvað ertu" í stað "hvað áttu". Upp úr hruni íslenska loftbólugullkálfsins mun rísa, trúi ég, heilbrigðara og betra mannlíf en við höfum búið við hingað til. Kannski verður horfið til hverfandi gilda eins og "sígandi lukka er best" og hin gleymdu viðhorf "nægjusemi" og "ráðdeild" sett í öndvegi og kannski verður það aftur álitin dyggð að spara.
Hvaðan sem á er litið er allavega ljóst að Ísland eins og við þekkjum það mun taka miklum breytingum.

Ég hef góðar væntingar til nýs árs þrátt fyrir kólgubólstra. Nú liggur leiðin í Háskólann á ný eftir tveggja ára hlé. Það verður skemmtilegt en um leið erfitt. Við Erlan ætlum að halda áfram að njóta augnablikanna í lífinu sem sjaldnast þarf að kosta peninga, bara að ganga með augun opin.
Við ætlum að rækta garðinn okkar sem aldrei fyrr. "Nær er skinnið en skyrtan" segir máltækið og því munum við sem fyrr leggja mesta áherslu á blómin sem næst okkur standa, enda liggur ábyrgðin okkar stærst þar. Áherslan er líka á að rækta vináttu fjartengdari í ríkari mæli en hingað til.
Húsið við ána er áning á Selfossi fyrir alla sem telja sig vini okkar, það er því undir þér komið sem lest, hvort þú tekur þetta sem heimboð ;)

Ég óska ykkur fljótandi gæfu og yfirflæði blessana á nýju ári.