miðvikudagur, október 24, 2012

Gæsaveiðar og illur hani

Ég hef lengi þóst vera veiðimaður en er samt enginn reynslubolti þegar kemur að íslenskum veiðiám. Reyndar á það þá skýringu að í gegnum tíðina hefur verð á veiðileyfum verið ofan við það limit sem ég hef leyft mér að setja í leikaraskap. Ég er samt með króníska veiðidellu sem ég sleppi of sjaldan lausri.
Það er því lítill vandi að plata mig í veiði ef einhverjum dettur svoleiðis í hug.

Bjarki frændi minn setti sig í samband við mig eftir síðustu helgi og sagði mér að Skagafjörður væri troðfullur af gæs og innti mig eftir að fara í ferð þangað með honum og öðrum félaga hans. Það var auðsótt og norður fórum við kátir kallar væntandi, og í kornakur nokkurn góðan fórum við væntandi, stilltum upp gerfigæsum og biðum væntandi... og biðum... og biðum enn meira... og görguðum í gæsaflautur til að reyna að lokka gæsir til okkar... árangurslaust. Eftir nokkurra klukkutíma bið og frost sem beit í nef sannfærðumst við loksins um að þetta væri ekki biðarinnar virði. Ein gæs kom þó svífandi og dó í fanginu á okkur... that´s it....!
Við áttum tvo svona daga og mættum fyrir birtingu báða dagana, lágum ofan í skurði, hálfir ofan í vatni, í ískulda og görguðum út í loftið án svars en auðvitað var þetta afskaplega skemmtilegt engu að síður ;-)

Veiðin er þannig að stundum gefur og stundum ekki. Það er reyndar sennilega það sem gerir veiðina spennandi. Ef maður ætti alltaf vísa veiði þá væri spenningurinn horfinn úr þessu. Við fengum samt nokkrar endur og einn... HANA, já svona hana með hanakamb.
Það vildi þannig til að húsfreyjan á bænum sagði okkur frá hananum sínum, hann væri forynja mikil og grimmt kvikindi sem réðist á börn og fullorðna, svo rammt kvæði að atgangi hans að það væri hin mesta greiðvikni ef okkur tækist að sálga honum. Við létum ekki segja okkur það tvisvar og gerðum leiðangur í hænsnakofann.
Sveitamaðurinn í hópnum áræddi að fara inn fyrir dyrnar og kanna harðfylgni hanans sem stóð undir væntingum og réðist á mig með miklum látum og gassagangi.  Hann skellti sporunum utan um lappirnar á mér og reyndi að stinga mig með þeim, harðfylgni hans var mikil og árásirnar ofsafengnar. Það varð úr svolítill fætingur sem endaði með sigri mínum og var haninn í framhaldi af því rekinn úr sínum hænsnahópi, út fyrir dyr og þaðan út á tún. Þar féll hann fyrir byssuskoti, elsku skinnið.

Mín skýring á veiðileysi ferðarinnar er einföld. Það var allt krökkt af gæs daginn áður en við komum og dagana á undan. Það hafði einfaldlega farið eins og eldur um sinu í gæsheimum að við værum á leið norður og því flaug stofninn allur suður um heiðar til að forða sér....
og ég skil þær vel.

fimmtudagur, október 11, 2012

Hausthljóð og litadýrð.

Það var hausthljóð í álftunum sem létu illa á bæjarlæknum í nótt. Ég vaknaði við gargið í þeim, það er öðruvísi á haustin en á vorin. Þær finna að vetur nálgast og það er ekki besti tíminn þeirra. Vorhljóðin þeirra bera með sér einhver blíðmælgi sem heyrast ekki á haustin. Hvað sem því líður þá finnst mér alltaf jafngott að heyra náttúruhljóðin inn til mín, sérstaklega um dimmar nætur þegar allt, nær allt, er í svefni og ró er yfir. Nína og Geiri eru löngu farin ú eynni með tvo unga í farteskinu, þau eru seig við þetta og gefast ekki auðveldlega upp. Áin er alltaf jafngóður nágranni þó segja megi að ég hafi gert meiri væntingar til hennar sem veiðiár þegar ég flutti hingað fyrir sex árum síðan. Þá stefndi hugurinn á grillaðan lax hversdags og lítið þyrfti að hafa fyrir því annað en að láta leka út færi hér af pallinum hjá mér.
Laggó með það.

Haustið er löngu komið með skrúðið sitt, reyndar minnkaði skrúðið mjög þegar rokið kom í september og sleit mikið af laufi trjánna hér áður en þau tóku á sig haustlitinn. Það var skömm því haustið á að vera litfagurt augnayndi.

Veiðin hefur verið með allra slappasta móti í haust þrátt fyrir góðar tilraunir. Það bjargaði þó haustinu að fá þennan stóra, hann fær heiðursess á þessum bæ.
Veturinn er líka góður tími, stuttir dagar og langar nætur, jólin og ýmislegt gott.

Njótið daganna gott fólk.




laugardagur, október 06, 2012

Svo fæ ég vexti... og vaxtavexti...

...og vexti líka af þeim....! Góðar veiðisögur eiga ekki að gjalda sannleikans. það ótrúlega hefur gerst, fiskurinn flotti sem ég fékk um daginn hefur stækkað úr 16 pundum í 17 pund, enda orðið nokkuð síðan ég náði honum. Það hefur líka lengst milli augnanna á honum held ég og það sem tók mig korter (að ná honum) er að nálgast hálftíma.

Ef ég hætti nú þessum fíflaskap og sný mér að alvörumálum þá tékkaði ég á töskuvigtinni sem notuð var til að vigta kvikindið eftir áeggjan nokkurra veiðifélaga sem töldu fiskinn stærri en hann mældist og viti menn... vigtinni skeikaði um 5% sem þýðir að rétt þyngd er 17 pund eða ef ég á að vera nákvæmur 16.8 pund en það námundast upp í 17 og kannski 18 þegar fram líða stundir... eða 20.
Þessi veiðisaga verður orðin fróðleg... og skemmtileg í framtíðinni ;-)