föstudagur, október 29, 2004

Var að horfa á prestinn....

á Omega í gærkvöldi. Verð ég að segja að presturinn kom mér skemmtilega á óvart. Séra Gunnar Sigurjónsson í Digraneskirkju. Verð jafnvel að segja að þarna fór maður að mínu skapi. Kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Frjáls í fasi og engin helgislepja (afsakið orðbragðið). Hann lýsti yfir fullum fetum að hann væri frelsaður og væri búinn að vera það lengi . Kom með ýmsa punkta sem margir “rétttrúaðir” mættu taka til alvarlegrar skoðunar. T.d. sagði hann að honum hefði oft sárnað boðskapur Omega þegar þjóðkirkjunni er úthúðað (algengt á Omega) og þar með öllum prestum kirkjunnar. Mér datt í hug eftir þáttinn, hvað í því felst trúarlega. Allavega stenst slíkt varla speglun ritningarinnar. Auðvitað á hroki og pólitík ekki að vera merki hinna kristnu. Það kom berlega í ljós í þessu viðtali að það er ekki hægt að dæma þúsundir manna á því einu að þeir séu þjóðkirkja. Hjó sérstaklega eftir þessu hjá honum minnugur liðinna tíma í mínu umhverfi þar sem varla var hugsanlegt að nokkur kæmist til himna nema vera hvítasunnumaður.
Þetta er áhugavert viðtal sem þú ættir að reyna að sjá - ef það verður endurtekið...
Hann var ekki mjög prestslegur maðurinn, kraftlyftinga- og mótorhjólakappi. Drjúgur tími fór líka í að tala um kraftlyftingar en hann er sterkasti prestur í heimi..!
Hef samt á tilfinningunni að kannski sé þessi maður nær sannleikanum en margur úr því umhverfi sem ég þekki best til. - Já tímarnir breytast og mennirnir með.

Njótið dagsins

fimmtudagur, október 28, 2004

Annríki þessa dagana.

Það má með sanni segja að ekkert skortir á framlag verkefna á vegi mínum þessa dagana.
Gott að hafa nóg að gera, segir íslenski karlmaðurinn í mér. En svona án gríns þá þykir mér róðurinn þyngjast hratt dag frá degi. Fundur í dag með Þórði deildarstjóra lagadeildar. Hann fór vítt og breytt. Fræddi okkur m.a. um að HÍ færi líklega að nota hugmyndafræði HR (og annarra háskóla þar sem nútíminn hefur hafið innreið sína) og hætta gamla embættismannaprófinu og taka þess í stað upp BA próf og masterspróf. Hann fór yfir næstu önn og til uppörvunar sagði hann að ef okkur fyndist þessi önn erfið þá yrði sú næsta erfiðari....! Það kurraði í mörgum.
Það er mikið búið að "væla" yfir dönsku og ensku bókunum því þær eru svo erfiðar, en hann blés á það og sagði að því yrði ekki breytt heldur mun bætast við kennsluna á erlendum tungumálum eftir því sem á líður. Hann nefndi t.d. að á næstu önn verður 1200 síðna kennslubók í Evrópurétti.....á ensku....úúúppss - ath lesist með öðrum fögum á 12 vikum....!
Hvernig var þetta aftur með guðfræðina...?
Nei annars það er enginn bilbugur á gamla. Hann tekur bara björgunarsund ef allt bregst.
Svo á ég nú hamarinn minn ennþá :-)

Líður ekki öllum vel á þessum fallega drottins degi??

mánudagur, október 25, 2004

Hér sit ég bara í stofunni...

með nýju tölvuna, vinn á netinu og læt fara vel um mig. Nefnilega kominn með þráðlaust net. Svili minn Ketill aðstoðaði mig við að tengja það. Fær hann hér með bestu þakkir fyrir það. Tæknin tröllríður öllu og allir einhvernvegin fljóta með. Það er nefnilega þannig að tækniþarfirnar eru alltaf aukast með síauknum hraða á öllu og ef maður ætlar að vera með, þá verður maður að halda sig við það nýjasta hverju sinni. Einn prófessorinn í skólanum tjáði okkur um daginn að lögfræðingar sem lærðu lögfræði fyrir tíu árum eða meira, kynnu ekki lögfræði dagsins í dag nema endurmennta sig stöðuglega...! Einn mikilvægur hluti lögfræðinnar er að kunna að notfæra sér nútímatækni við gagnaöflun.
Hvað ætli Afi hefði sagt ef hann hefði fengið að sjá fram í tímann og sjá hvernig tíma við lifum í dag. Sá hefði slegið sér á lær.
Að allt öðru, hún er góð vísan á síðunni hans Tedda. Ég veit ekki hver samdi hana en mér fannst hún svo góð að ég ætla að láta hana fljóta með hér:

Þótt margt sé kannski harla vítavert
sem varð þér hneyksli, kvöl í þínum beinum
Þá er þitt eigið hús af gleri gert
svo grjóti máttu aldrei kasta að neinum

Gott umhugsunarefni

sunnudagur, október 24, 2004

Fátt er svo með öllu illt.........

að ekki boði nokkuð gott. Held bara að ég hafi dottið í lukkupottinn. Haldiði ekki að á fjörur mínar hafi rekið forláta tölvu ekki nema 7 mánaða gömul. Ég þurfti að greiða kr. 80 þúsundir fyrir hana en það verður víst að teljast ódýrt miðað við gæði og verð á henni nýrri en það var hvorki meira né minna en 364 þúsundkallar í apríl s.l.
Afföllin ótrúleg, reyndar meiri en ég hefði getað ímyndað mér. Nema þetta sé hrein og klár blessun. Varla samt, hvað þá með fólkið sem átti hana, hvers á það þá að gjalda…?
Allt að einu er gamli ánægður með kaupin því fátt gleður hann meira en ef honum tekst að gera góð kaup.

Góða nótt


fimmtudagur, október 21, 2004

Banvæn súpa....!

Ekki eru allir sammála um að bollasúpur séu hollar og góðar. Allavega ekki tölvan mín sem fékk sér einn skammt í gær og dó. Hún er í krufningu núna og er vonast til að dánarorsökin komi í ljós. Það sem skiptir þó meira máli er að gögnin mín hafi ekki dáið með henni heldur sé hægt að bjarga þeim. Núna vantar mig sem sagt nýja (notaða) fartölvu. Ef einhver lesandi veit um góða vél á góðu verði þá mætti sá sami hafa samband við mig strax. Vil helst ekki gefa meira en 50 þúsund fyrir notaða vél.

Annars í fínum gír.


þriðjudagur, október 19, 2004

Ég er bjartsýnismaður....

en sökum reynslu minnar af bjartsýni .....tek ég regnfrakkan með.

mánudagur, október 18, 2004

Enn á veiðum

Verð að viðurkenna að nú er nóg komið......... í bili.
Við bræðurnir vorum enn að veiða. Við vorum sammála um að fátt er til sem stendur því jafnfætis. "Lítið gleður auman" gæti einhver sagt, og haft rétt fyrir sér. Það skilur enginn nema sá sem þekkir tilfinninguna, ekki sportið, heldur þessa orginal. Hlynur orðaði það ágætlega þegar við vorum að tala saman um þetta "maður bráðnar saman við náttúruna einhvernvegin".
Ætli sé Indíánablóð í okkur...?

Ég var að lesa ágrip úr fyrirlestri Indíánahöfðingja að nafni Lúther Reistur Björn - sem fæddist árið 1867 - Hann eyddi fyrstu árum ævi sinnar á sléttum Nebraska og Suður-Dakóta. Ellefu ára að aldri var hann einn af fyrstu nemendunum sem innrituðust til náms við skóla handa indíánum í Carlisle, Pennsylvaníu. Eftir fjögurra ára nám var hann gerður að kennara í Suður-Dakota. Hann starfaði sem túlkur við ,,Wild West Show" Buffaló Bills. Síðustu árum ævi sinnar varði hann til fyrirlestrarhalds og ritstarfa.
Læt fylgja smá glefsu hér:
"Aldrei varð oss hugsað til víðfeðmrar opinnar sléttunnar, fagurmótaðra, ávalra hæðardraganna eða til sístreymi hins ferska vatnsflaums sem þræðir bugðu af bugðu gegnum þykkni vatnagróðursins margslungið - aldrei varð oss hugsað á þann hátt að þetta væri ,,villtrar" náttúru. Aðeins í augum hins hvíta manns er náttúran ,,villt" og einungis frá hans sjónarhorni er landið numið ,,villtum" dýrum og ,,skrælingjum". Í skiptum vorum við náttúruna var hún töm og spök. Jörðin var auðsæl og gjöful, og allt umhverfis oss urðum vér varir blessunar hinnar Miklu Dulúðar. Loðinn kom hann að austan og óð fram með ruddafengnu ofbeldi og hlóð ranglæti á ranglæti ofan gagnvart oss og þeim sem oss stóðu næst. Þá gjörðist náttúran ,,villt". Þá flúði dýr á skógi er það vissi mann á næstu grösum. Þannig varð til upphaf ,,VILLTA VESTURSINS"."

Getur verið að við þessir hvítu séum kannski miklu lengra frá þessum gildum sem hafa með að gera virðingu fyrir sköpuninni og Guði. Því þótt þeir hafi kallað Guð "Hina miklu dulúð" geri ég ráð fyrir að Hann hafi ekki tekið þá í karphúsið þessvegna.

Það veiddist vel, kjöt og fiskur.

Eigið góðar stundir


laugardagur, október 16, 2004

Hefurðu það ekki gott.....?

„Ég grét af því að ég átti enga skó, þar til ég sá mann sem hafði enga fætur.“
-Forn sögn-

föstudagur, október 15, 2004

Fjarlægðin gerir fjöllin blá...

og minningarnar líka. Mér finnst einhvernveginn að allt hafi verið svo gott og auðvelt í æskunni. Alltaf gott veður, alltaf gaman. Sumrin alveg einstök, hlý og skemmtileg. Veturnir alltaf sólríkir og fallegir. Vorin alveg einstök og haustin full af lífi og fjöri. Ég veit ekki hvort þetta er svona hjá öllum eða hvort ég átti bara svona einstaklega góða æsku.
Nóbelskáldið orðar þetta skemmtilega:
Í þann tíð voru sumurin laung á Íslandi. Á mornana og kvöldin voru túnin svo græn að þau voru rauð og á daginn var víðáttan svo blá að hún var græn.“
(Paradísarheimt, 1. kafli).

Þetta bendir nú til að hann hafi ekki haft svo ólíka upplifun og ég af æskunni. Hvað sem því líður þá er gott að eiga góðar minningar og hollt að minna sig á hverjir það eru sem skapa æskuminningarnar ;-)

Ertu sammála skáldinu?

Góða helgi

fimmtudagur, október 14, 2004

Hamingjuósk

Íris og Karlott keyptu sína aðra íbúð í gær (stolt stolt) Ég er ánægður með þetta fyrir þeirra hönd. Íbúðin er 120 m2 fjögurra herb. íbúð við Háholt í Hafnarfirði. Til hamingju krakkar mínir og Guð blessi ykkur þennan nýja stað.

Gáta dagsins..

Hvað er betra en Guð?
Hvað er verra en Skrattinn?
Fátækir eiga það.
Ríka vantar það.

Þú deyrð ef þú borðar það.

þriðjudagur, október 12, 2004

Skaut önd…

Fórum bræðurnir á skytterí á sunnudaginn. Við Hlynur lögðum af stað héðan úr Reykjavík kl. 05:00 til að vera komnir í morgunflug gæsanna við Markarfljót kl. 06:30. Hansi skrapp með okkur í morgunflugið. Heldur var tekjan rýr eftir morguninn, nokkur skot út í loftið. Fáar gæsir sem flugu......og eeeengin þeirra dóóó, af ááánægju úúút að eyyyrum hver einasta þeiiiirra hlóó. Það er greinilega betra að æfa skotfimina áður en maður hellir sér í veiðina. Ég reyndi líka við tvær endur sem flugu yfir mig en þær hlógu bara líka. (samt næstum dauðar…..úr hlátri). Það var rokið sem gerði að ég hitti ekki. Við ákváðum eftir að hafa fengið okkur morgunkaffi hjá Hansa að fara á andaveiðar og kannski renna færi einhversstaðar.

Til að gera langa sögu stutta þá voru flestar endurnar sem sáust, svo skynsamar að halda sig við bæina, svo ekki var hægt að skjóta þær.
Við renndum svo færi í Þverá fyrir neðan Hvolsvöll með leyfi Hansa. Þar fékk ég einn sjóbirting. Rétt við Markarfljót sáum við endur (fyrir löngu) sem við reyndum að læðast að. Skriðum á maganum og fjórum fótum langar leiðir. Þangað til Hlynur fékk allt í einu svo mikið hláturskast að ég hélt að hann væri að deyja, maðurinn tárfelldi. Ég hafði verið með derhúfu sem skyggði sýn svona skríðandi, svo ég tók hana ofan. Skipar hann mér bara að setja hana aftur á mig ….! Því þær gætu séð glampa á hausinn á mér…..hrmpfff. Honum ferst.
Endurnar náttúrulega sáu okkur og flugu glottandi í burtu. Held meira að segja að þær hafi hlegið með honum.
Við enduðum ferðina inni í Þórólfsfelli, þar sem við fundum tvær endur sem við gátum loksins náð. Gott á þær. Það var enn á þeim sama glottið eftir fyrri viðureign okkar við Markarfljótið. Já sá hlær best sem síðast hlær. Hlynur fékk svo einn lax í lokin við garðinn í Bleiksá.

Þetta var fínn dagur við veiðar og flandur.


fimmtudagur, október 07, 2004

"Sannleikanum er hver sárreiðastur".

Afhverju ætli það sé þannig að svo mörgum finnist svona erfitt að heyra sannleikann? Sérstaklega um sjálfa sig eða það sem stendur þeim nærri á einhvern hátt, t.d. frammistöðu, útlit, trú - orð og æði.
Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? Maður spyr sig. Hitt orðtækið að "oft má satt kyrrt liggja", er líka heilmikil speki.
Jesús sagði meðal annars "Ég er sannleikurinn..." Þá hlýtur sannleikurinn að vera ein stærst dyggða.....hvernig sem hann lítur út. Það er hinsvegar reynsla margra (Jesú sjálfur glöggt dæmi) sem segja sannleikann að það er ekki endilega leiðin til vinsælda.

Skilgreining Aristótelesar á sannleikanum:

"Það er ósatt að segja um það sem er, að það sé ekki
og um það sem er ekki, að það sé.
Það er satt að segja um það sem er, að það sé
og um það sem er ekki, að það sé ekki"

Ótrúlega einfalt..., en líklega þetta sem Jesú meinti. T.d. þegar hann talaði til faríseanna, eða þegar hann sagði: Sá yðar sem syndlaus er...og enginn laug! Margir sem ættu að hugsa þetta aðeins.

Eigið góðan dag.

þriðjudagur, október 05, 2004

Sprunginn......

Búinn að sitja við í bráðum 12 tíma í prófverkefni. Það sagði svo sem enginn að þetta ætti að vera auðvelt...?
Viss um að Erla dregur mig á lappir kl.06:30 í fyrramálið..! Úúút í morgungönguna. Ég er nú misupplagður í það, segið henni bara ekki frá því :-) En það var þetta með tímann fyrir heilsuna. Hún er víst of verðmæt til að passa hana ekki.

Góða nótt

sunnudagur, október 03, 2004

Datt í hug ónefndur....

vinur minn sem er mikill sölumaður þegar ég rakst á þessa sögu:

Sölumaður barði að dyrum á skrifstofu prestsins. Hann spurði, hvort presturinn vildi ekki kaupa matreiðslubók handa prestfrúnni.
Jú, prestur var ekki frá því. Hann keypti bókina og borgaði hana strax. Sölumaðurinn þakkaði fyrir sig og fór. En hann fór ekki lengra en niður í eldhús til frúarinnar og spurði, hvort hún vildi ekki kaupa matreiðslubók.
Prestfrúnni leist vel á bókina og keypti strax eina. Sölumaðurinn þakkaði og hélt leiðar sinnar. Eftir dálitla stund kom presturinn niður í eldhús til konu sinnar til þess að afhenda henni gjöfina. Honum brá í brún, er hann sá, að hún var sjálf búin að kaupa bók.
Hann kallaði í vinnumanninn og bað hann um að fara á eftir sölumanninum og ná í hann.

Þegar vinnumaðurinn náði sölumanninum, sagðist hann ekki nenna að snúa við aftur. Hann sagðist vita hvað presturinn vildi sér. Hann mundi ætla að kaupa af sér matreiðslubók. - Mundir þú ekki geta borgað hana fyrir prestinn, svo að ég þurfi ekki að snúa við aftur? Ekkert mál sagði vinnumaðurinn, borgaði bókina og sneri svo heim aftur...........Presturinn vissi ekki hvort hann átti að gráta eða hlæja þegar hann kom heim með þriðju bókina. Jafn ótrúlegan sölumann hafði hann aldrei hitt fyrr!

Hver ætli þessi ónefndi vinur minn sé :-) ......?