þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Hún á afmæli í dag, hún á afm........

Til marks um hvað tíminn flýgur, fæddist hún fyrir ótrúlega stuttu síðan. Frumburðurinn Íris, litla hnátan 26 ára. Til hamingju með daginn elsku Íris mín og Guð blessi litlu fjölskylduna þína.

Sælt veri fólkið!

Var að koma heim úr lærdómnum. Jón Steinar var að sýna okkur fram á hvernig málarekstur fyrir dómstólum verður að byggja á rökum og aftur rökum – og engu öðru. Eins og margir þekkja, hefur hann sótt um stöðu hæstaréttardómara. Ég held að Hæstiréttur væri vel að honum kominn. Mæli með honum. Hann var að segja okkur frá hvernig margir lögmenn fara út og suður í málflutningi sínum, langt út fyrir efnið. Dómarar eiga síðan í mesta basli með að raða saman brotunum til að byggja dóm sinn á. Hann vill að dómarar stoppi menn og haldi þeim við efnið.
Ég verð að segja að ég er hrifinn af rökfræðinni í málflutningi Jóns.

Ég held að öll málefnaleg umræða sé góð ef hún byggir á staðreyndum en að sama skapi slæm þegar slegið er fram ímynduðum forsendum og umræðan byggð á því.
Ég ætla að stöðva umræðuna um spurningu unga mannsins hér af þessari ástæðu, finnst hún of flöktandi og neikvæð :-) án gríns held ég að hún sé ekki til góðs á þessum grunni og alls ekki þeim sem spurði.

Ég ætla að svara spurningunni hans Kidda og hafa það lokaorð mín í þessari umræðu.

Ég hef, eins og ég sagði, hugsað um spurninguna og er jafnvel að því enn. Ég hef komist nálægt niðurstöðu sem ég trúi: Ég held að Guði sé hvorttveggja gullið og græjurnar að skapi(…!) Hann skapaði jú allt sem til þarf, svo hvernig ætti hann að hafa á móti því? (Nema misnotkuninni á því t.d. þegar smíðaðurvar gullkálfur, og kannski sitthvað annað, sem fólk tilbiður í Hans stað í dag).
En ég er jafnframt viss um að hann staldrar við hvorugt. Ég hef þá trú að hann horfi – og hlusti, með meiri athygli á aðra hluti. Hvort tveggja gullið og græjurnar er eitthvað sem kitlar skilningarvitin – okkar (og ekkert að því) en tæplega Guðs. Að því leitinu er skyldleiki með þessu tvennu.

Að lokum nokkrar blákaldar staðreyndir (í mjúkum tón). Ég er jákvæður, alls ekki neikvæður, hugsa kannski öðruvísi en margur. Líkar vel gagnrýnin hugsun. Ég er ánægður með unga menn (og konur) sem þora að hafa skoðanir. Ég er ánægður með ykkur vini mína. Lífið er bjart og fagurt og ég nýt þess að lifa því.

Eigið frábæran dag.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Framhald....

“Þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra”. Þetta er einfaldasta mynd kirkju, þ.e.a.s. þar sem kirkja er flokkuð sem fólk. Þetta er loforð ekki satt? Þegar því er velt upp fær spurningin um gullið og græjurnar kannski nýjan flöt. Þá er ekkert í hinu ytra sem skiptir máli nema þessar tvær eða þrjár sálir sem hafa komið sér saman um að hittast til að tigna Jesú Krist. Hann sagði að hann myndi mæta á staðinn. Víst er að hann stendur við það.

Spurning unga mannsins var góð og athyglisverð fyrir margra hluta sakir og alls ekki sorgleg. Spurningin kom ekki heldur úr neikvæðu hugarfari, heldur huga bráðgreinds manns sem veltir fyrir sér spurningunni um hvað er hismi og hvað eru hafrar. Það er ekkert sorglegt við að velta því upp. Dapurlegra er ef kirkjunnar menn án neinna forsendna segja manninn lifa og hrærast í neikvæðu umhverfi, aðeins á grundvelli spurningar sem sett var fram af hreinum huga og að hann sjái ekkert jákvætt við kirkjur eða jafnvel Guð. Slíkt er órafjarri hugsun þessa manns.

Ég hef velt spurningunni nokkuð fyrir mér, hún verður ekki krufin á einfaldan hátt með skautun á yfirborðinu, hún er krefjandi – fyrir þann sem vill skoða málið, með opin augun.

Njótið daganna.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Hver er munurinn?

Ég fékk athyglisverða spurningu frá efnilegum ungum manni um daginn.
Sá var að velta fyrir sér kirkjumálum. Spurningin var þessi: Hver er munurinn á gulli Kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og öllum flottu græjunum sem safnast upp í kirkjunum í dag og hvort er Guði þekkara?

Það má finna ýmis svör, ef vel er að gáð...?

Áttu svar fyrir hann?

laugardagur, ágúst 28, 2004

Úr viðjum vanans

Maður er ekkert nema vaninn. Segja margir og það er alveg satt hjá þeim.
Vaninn er aftur á móti ekkert skemmtilegur til lengdar. Mér finnst hann hundleiðinlegur. Þetta er sennilega eitthvað í eðlinu hjá okkur. Líkt og að festast ofan í djúpum hjólförum þó þú ætlir það ekkert. Kannast ekki flestir við hvað það getur verið erfitt að komast uppúr svoleiðis, sérstaklega á veturna þegar hált er.

Mörgu fólki leiðist lífið af því það gerir aldrei neitt annað en það er vant að gera.
Hangir heima öll kvöld. Fer sína vanalegu rullu um helgar. Ungt fólk jafnvel er að drepast úr leiðindum, horfandi á sápuóperur og lætur sig dreyma öðruvísi líf. Sjónvarpið er vanabindandi.
Verst við þetta er hvað þetta er allt of satt.

Við Erla erum engin undantekning hvað þetta varðar. Í mörg ár gáðum við ekki að okkur og lifðum allt of vanaföstu lífi. Tegundina af lífi sem er kallað “saltfiskur”.
En við erum loksins búin að fatta að lífið er ekki bara saltfiskur. Og það hefur ekkert með kringumstæður að gera.

Lífið er fjölbreytt salíbuna. Endalaus uppspretta ánægju og gleði....er ég væminn?
Allavega er mér engin væmni í huga. Staðreyndin er sú að við hjónin höfum snúið af okkur vanann og erum laus úr viðjum hans. Við látum hvorki kringumstæður eða misvitra menn stýra hvernig okkur líður
Algjör stakkaskipti, er rétta lýsingin.
Frelsið til að lifa lífinu sæll og glaður, sjá tækifærin í hverjum nýjum degi og nota hverja stund til að gera eitthvað sem skreytir lífið. Þetta er hlutskipti okkar allra. Það eru bara ekki allir sem sjá það. Guð gaf okkur gleðina, láttu engan ræna henni frá þér, hún kostar ekkert annað en að opna augun.

Við Erla skruppum í miðbæinn í gærkvöldi, löbbuðum um og virtum fyrir okkur mannlífið. Mikið getur það verið skemmtileg iðja. Margbreytileikinn er svo dæmalaust skemmtilegur. Við röltum okkur eftir Lækjargötunni og kíktum aðeins á matseðla veitingahúsanna, enduðum svo inná Jómfrúnni. Þar fengum við okkur danskt smörrebröd, platta með mörgum tegundum, hvert öðru betra. Alls ekki dýrt en kitlaði bragðlaukana, mæli með staðnum.
Reykjavík er notaleg borg sem við notum okkur í of litlum mæli. Túristarnir koma langan veg til að njóta þess sem við höfum við nefið á okkur. Það er engin þörf á fara til útlanda til að njóta lífsins.

Eftir notalegan kvöldverð gengum við í kringum tjörnina sem speglaði fallega rökkvað umhverfið og svo í gegnum Hljómskálagarðinn, það var æðisleg stemmning.

Það þarf ekki mikið til að gera lífið skemmtilegt.
Jæja það er nóg að gera, er að fara að læra.

Eigið skemmtilegan dag.

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Orð fá vængi.......

og fljúga. Margir kunna þá list að vitna í fleyg orð og tilvitnanir. Oftast utanbókarlærð orð einhverra vitringa sem einhverntíman létu gullkornin falla. Orð sem hafa síðan flogið um tilveruna fram og aftur kynslóð eftir kynslóð.
Orð, góð gjöf, þessi tjáningarmáti sem við notum alla daga er stórmerkilegt fyrirbæri. Þau greina okkur frá öllum dýrategundum merkurinnar. Þau hvorttveggja byggja upp og skapa og brjóta niður og mylja.
Öll þekking manna felst í orðum. Viskan er bundin í orð. Heimskan líka. Og öll flóran þar á milli.

Þú sest í skóla og það sem þú gerir er að innbyrða orðaflaum. Endalaust magn orða.
Orðin byggja upp þekkingu hjá þér og þekkingin getur af sér nýjan orðaflaum frá þér sem aðrir læra svo af.

Afhverju svona heimspekilegur þanki?
Jú ég sat fyrirlestur hjá miklum fræðimanni áðan Dr. Guðmundi Sigurðssyni sérfræðingi í skaðabótarétti. Hann á skilið orðu fyrir gífurlegt orðaflæði á stuttum tíma.
Einhverntíman sat hann og nam fræðin sín eins og nemendur hans í dag.
Mér var skemmt yfir þessum þankagangi mínum hvernig hann var að yfirfæra fræðin til okkar. Og allt í einu fannst mér þetta svo merkilegt, þetta með talið, þekkinguna, mann fram af manni ……allt með orðum. Þetta er eins og keðja, einn hlekkur tekur við af öðrum.

Fór svo að hugsa um allt sem sagt hefur verið gott og vont. Fleygu orðin flottu sem lifa kynslóðirnar og líka sögð orð um náungann sem líka fá flugfjaðrir og fljúga þangað sem þeim sýnist, í allar áttir eins og vindurinn blæs, þó sannleiksgildið sé ekki alltaf háheilagt. Orð sem hafa skaðað og skemmt.
Já góðar gjafir geta verið vandmeðfarnar.
Vandinn við sögð orð er að ekki er hægt að spóla til baka. Ef þau særa þá er í mesta lagi hægt að setja plástur með fyrirgefningarsmyrsli á og vona að grói. Sumt grær, í annað hleypur ígerð.
Ekki er endilega gott að átta sig á því hvort gerist.

Það er háalvarlegt hlutverk að vera hlekkur í keðjunni, því keðja slitnar alltaf á veikasta hlekknum.

Betra að vanda sig.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Morgunstund gefur gull í mund

Við Erla höfum það til siðs að taka daginn snemma og skreppa í göngutúr. Það hefur ekki verið nein kvöð þessa frábæru daga sem undanfarin misseri hafa gælt við okkur með.
Í morgun var allt í einu farið að rigna….!
Það verður að viðurkennast hér að áhuginn var minni til göngunnar í morgun þegar regnið steyptist úr lofti, vitandi að rigningin vætir mann.
En eins og segir í laginu og allir vita, þá er rigningin góð.
Sennilega kannast flestir við hvað það er gott að ganga í rigningu þegar maður er orðinn gegnblautur (ef manni er ekki kalt).
Og þegar vel er gáð þá er meira að segja betra að ganga í rigningu en í þurru veðri…??
Fyrir því er ákveðin ástæða.
Sú að rigningin er hlaðin neikvæðu rafmagni (jónum) en líkaminn er hlaðinn jákvæðum jónum. Að ganga í rigningunni gerir að verkum að vætan með sínum neikvæðu jónum afhleður þig. Jarðtengir þig..... Hollt streittum sálum.
Rigningin framkallar vellíðan sem ekki fæst í þurru veðri.
Vissirðu þetta??

Hent fram hér til hvatningar þeim sem ekki nenna út þegar rignir.

Eigið góðan dag.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

The never ending story...!

Ánægjuleg helgi senn liðin.
Þegar við Erla vorum yngri, á kafi í barnauppeldi, töluðum við oft um hvernig framtíð við vildum sjá. Oft bar á góma fjárhagslegt öryggi. Það er mikilvægur þáttur í hverri fjölskyldu. Ég valdi hinsvegar áhættusama iðngrein til að hafa lifibrauð af. Það ásamt hlutabréfakaupum í svikamyllu skapaði fjárhagslegt óöryggi sem ég aldrei vildi.
Við töluðum líka oft um fjölskyldumynstur. Ein stærsta óskin okkar var að stúlkurnar okkar yrðu hamingjusamar, lentu ekki í vitleysu eins og svo algengt er í dag og fjölskyldan yrði samhent. Við töluðum oft um að heimilið okkar yrði eins og hreiður þar sem hægt yrði að koma saman og njóta samvista þegar fjölskyldan stækkaði.

Ég minntist þessara pælinga okkar nú þegar við eyddum saman helginni stórfjölskyldan og héldum uppá tveggja ára afmæli Petru Rutar….dótturdóttur okkar.
Sagan endurtekur sig. Börnin eignast börn og við orðin……afi og amma.
Fjölskyldan telur bráðum 12 meðlimi (eitt á leiðinni). Hún hefur stækkað hratt. Er furða að maður gleðjist þegar maður sér á þennan hátt óskir sínar rætast.
Það er ánægjulegra en flest annað að sjá garðinn okkar stækka á þennan hátt. Í þessu liggur ríkdómur okkar Erlu. Þetta eru okkar demantar.
Kynslóðirnar halda áfram og við verðum forfeður. Við erum orðin hluti af sögunni. Ættin okkar er orðin til. Sagan er í ritun.
Við Erla erum rík.

Laganámið er uppstilling fyrir næsta kafla, hann verður áhættuminni.

Njótið daganna.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Skólasetning.

Það var hátíð.
Ég var á skólasetningu Háskólans í Reykjavík. Sjöunda starfsárið að hefjast. Makalaust góður skóli. Mörg ný andlit sáust þ.á.m. áttatíu nýir nemendur í lagadeild. Það voru ræður og söngatriði. Engin önnur en sjálf Diddú þandi raddböndin eins og henni einni er lagið, tók meira að segja karlalagið “Hamraborgin rís há og fögur”. Magnað, hefði fengið hárin til að rísa á höfði mér ef þau væru þar ennþá.....! Nokkrir héldu ræður, þar á meðal Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor, mæt kona. Guðfinna talaði um markmið skólans. Að gera nemendur að góðum gerendum, rannsakendum og …gagnrýnendum.
Ég sperrti eyrun sérstaklega við það síðast talda. “gagnrýnandi”. Nokkuð sem oftar en ekki hefur verið kallað neikvæðni í mín eyru.
Guðfinna sagði gagnrýni eða gegnrýni (sá sem rýnir í gegnum) eitt það mikilvægasta sem maðurinn hefur í fórum sínum. Akademísk fræði og ekki síst laganám byggja mjög á gagnrýnni hugsun. Hún sagði alla rannsóknavinnu byggja mjög á gagnrýni. Framfarir mannsins á öllum sviðum byggist meira og minna á gagnrýni.

Gagnrýni er ekki sama og niðurrif. Gagnrýni er náskylt rökvísi. Gagnrýni er tækið sem þarf til að skoða málin frá öllum hliðum. Eftir gagnrýna skoðun er niðurstaðan jafnan nær sanni.
Þetta er líka biblíulegt, Orðskviðir Salómons: “þar sem margir ráðgjafar eru fer allt vel”.

Sumir telja gagnrýni vera af hinu vonda. Það er til fólk sem telur mig neikvæðan vegna gagnrýnna skoðana minna á sumum málefnum. Jafnvel hætt að vilja þekkja mig vegna skoðana minna. Það er leiðinlegt, en hvernig ræð ég við það?
Gagnrýni á sjálfan sig er líka eitthvað sem okkur er öllum hollt að stunda í réttum mæli. Það hjálpar til að ná settu marki.
Orð Guðfinnu innihéldu mikla þekkingu og speki.

Kennslan hefst af fullum dampi á mánudaginn.

Njótið dagsins.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Í svarthvítu eða lit?

Ég sé ekki.
Ég finn ekki .
Ég heyri ekki
Allt gott hjá mér…...aðferð Strútsins (!)

Hafa skal það er sannara reynist! Mikið vit í gömlu íslensku málsháttunum. Hvað stöndum við oft frammi fyrir kringumstæðum sem við þurfum að taka afstöðu til. Vega og meta og hafa síðan það er sannara reynist.

Stundum hefur mér dottið í hug atferli þessara fögru fugla (þetta er reyndar þjóðsaga, Strútar stinga ekki hausnum í sandinn) þegar ég heyri fólk tala um hluti sem það óskar svo heitt að séu sannir og réttir þótt agnúarnir stingi í allar áttir eins og nálapúði.
Strúturinn sem afneitar umhverfinu sér auðvitað ekki það sem hræddi hann, en líklega er það þægilegt….um stund.
Réttlætanlegt? Að vissu marki, því eðli hlutarins vegna skaðar það sennilega engan meira en hann sjálfan. Allavega meðan hann fær ekki aðra til að gera það sama.

En auðvitað breytist ekkert með því að neita að sjá eða heyra. Umhverfið kallar stöðuglega á viðbrögð okkar. Sumt er þægilegt og gott að takast á við. Annað eru óþægilegar staðreyndir sem erfitt getur verið að horfast í augu við. Þá kann að vera þægilegt “að sjá ekki”.
Fjöldi einstaklinga hefur þennan hæfileika. Létt og leikandi horfa framhjá misfellunum og brosa en …. með lokuð augun.

Best er að vera jákvæður á umhverfið, án þess þó að gleyma raunsæi rökfræðinnar sem gerir greinarmun á annarsvegar jákvæðni og neikvæðni og hinsvegar réttu og röngu.
Hafa skal það er sannara reynist….Stundum er það óþægilega hliðin.

Þetta var nú bara svona smá þankagangur um lífið og tilveruna.

Enn einn fallegur dagurinn.
Eigið hann frábæran og góðan.


mánudagur, ágúst 16, 2004

Töðugjöld

Það var til siðs á árum áður að halda uppá heyannalok. Sá siður hefur verið tekinn upp að nýju. Á Hellu á Rangárvöllum voru haldin töðugjöld um helgina.
Við Erla kíktum þangað á laugardagskvöldið.
Það kom skemmtilega á óvart hvað margt var um manninn þarna. Bændur og búalið ásamt einhverjum borgarbörnum í bland. Það var gott að sjá að þarna var fólk að hafa gaman nokkurnveginn án þess að vín sæist á nokkrum manni. Mest fjölskyldufólk. Ýmis skemmtiatriði voru viðhöfð m.a. kaffibrúsakarlarnir sem slógu rækilega í gegn.
Árni Johnsen var með sinn alkunna brekkusöng og náði rífandi stemmningu í brekkuna með raulinu sínu. Allskonar gömul dægurlög og krakkasöngvar sem hann flutti. Felix Bergsson var kynnir og söng fyrir krakkana inn á milli. Hagyrðingar stigu á stall og kváðu rímur, misgóðar. María frá Kirkjulæk flutti fimmundarsöng ásamt Jóni syni sínum og tveimur barnabörnum, það kallast víst að kveða stemmur. Gaman að sjá Maríu svona hressa. Ýmislegt fleira gert sem fangaði ekki hugann og ég nenni ekki að tíunda.... Jú þessu lauk með frábærlega flottri flugeldasýningu. Einni þeirri flottustu sem ég hef séð.

Við skruppum líka í berjamó í góða veðrinu austur að Dímon. Þar var sem endranær allt krökkt af krækiberjum. Það er einmitt tegundin sem við viljum. Erla gerir úr þeim bestu berjasultu sem ég fæ. Afraksturinn eftir klukkustundar tínslu var 15 lítrar af berjum sem segir svolítið um magnið sem þarna er.

Annars dvöldum við á Fitinni um helgina í rólegheitum og góðum félagsskap nokkurra systkina minna.

Það líður að sumarlokum. Gott sumar sem verður lengi í minnum haft fyrir frábært veðurfar og skemmtileg ferðalög.
Dagurinn styttist og skólarnir eru að hefja göngu sína. Stundaskráin mín er komin og bókalistinn einnig svo ég er í startholunum. Laganámið krefst algerrar ástundunar og yfirlegu. Ég er góður eftir sumarið, lít björtum augum til vetrarins.

Eigið góðan dag.


fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Hitamet !

Það er í hlýrra lagi hér á norðurhjara. Við Erla eyddum seinni hluta dagsins í gær í miðbæjarrölt. Það var sérstakt, kom eiginlega spánskt fyrir sjónir.
Lykt af sjóðheitu malbiki í bland við allskonar matarlykt sem blærinn bar með sér frá veitingastöðum sem flestir höfðu raðað stólum út á götu til að fólk gæti sest niður utandyra og notið dagsins.... minnti okkur ekki á Frón. Fólk að kæla sig á köldu öli - sitjandi úti (!) Allsstaðar fólk í stuttbuxum og ermalausu. Austurvöllurinn eins og spænsk baðströnd, endalaust fólk að sleikja sólina og ylinn. Miklu frekar suðrænt.
Þetta var magnað. Þurftum svolítið að klípa okkur í handlegginn til að muna að við vorum ekki í fríi suðurfrá. Missti út úr mér á röltinu að nú væri stutt í bílaleigubílinn og hvert við ættum að fara til að fá okkur að borða í kvöld.
Það er eins og ró og friður færist yfir fólk þegar náttúran dælir svona suðrænu hitabeltislofti yfir okkur í þessum mæli sem nú er að gerast. Mætti kalla þetta gælur náttúrunnar.

Eftir þetta skemmtilega rölt um miðborgina kíktum við á ylströndina í Nauthólsvík. Bílaröðin náði út á Loftleiðahótel (!) Ströndin iðaði af fólki. Íslendingar kunna þá eftir allt saman að njóta dagsins. Þarna var stemmningin miðjarðarhafsleg og auðvelt að gleyma að við vorum norður á gamla Fróni en ekki á miðbaug.
Við settumst niður og nutum sólarinnar þangað til vesturbærinn roðnaði í geislum hennar þegar hún hvarf bakvið byggingar og ákvað að setja punkt eftir þennan góða dag.

Við Erla ákváðum að setja punktinn aðeins aftar og fullkomnuðum stemmninguna með því að skreppa aðeins aftur í miðbæinn, settumst inná Jómfrúna og fengum okkur ekta fleskesteg að dönskum hætti og ísköldu, hvergi í heiminum eins góðu, Gvendarbrunnavatni.

Ísland.... dýrgripur Guðs sem hann hefur lánað okkur aðgang að – tímabundið.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Aftur af stað....!

Gleymum því sem að baki er og horfum fram á veginn segir í helgri bók. Tek hana gjarnan á orðinu. Margt þar sem leikir og lærðir mættu taka af meiri alvöru.

Hægt og hljóðlega ætla ég að feta mig inná netheima og viðra skoðanir mínar og hugsanir. Ekki víst að allir verði sammála þeim frekar en fyrri daginn, skiptir ekki öllu. Vil þó nýta mér þann þegnrétt að láta þær í ljós, vonandi án þess að meiða mann og annan.
Málefnin geta verið af ýmsum toga. Geri þó ekki ráð fyrir að vera afkastamikill skrifari í vetur vegna anna.

Nú styttist í að annað ár skólamaraþonsins hefjist. Hlakka til að takast á við það.
Margt hefur gerst í sumar á Alþingi sem áhugavert verður að kryfja með hinum færu kennurum lagadeildarinnar. Þar fara oft og tíðum fram miklar og kröftugar rökræður.

Afar margt skemmtilegt hefur rekið á mínar fjörur það sem af er ársins. Þó hef ég einnig verið áhorfandi atburða og uppákoma þar sem mér er ekki skemmt. Sé til hvort ég tjái mig um það síðar.

Eigið góða og skemmtilega helgi...Við Erla ætlum að kíkja í berjamó..!