þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Myndir

Opnaði myndasíðu fyrir þá sem vilja skoða "englamyndir" við hliðina á öðrum óandlegri. Ég vona að fólk átti sig á samhenginu.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Ég hef...

...í sjálfu sér ekki miklu við síðustu færslu að bæta og kannski ekki heldur sérstaka þörf að sannfæra þá sem ekki taka við því sem ég lagði á borð, og þó. Það ýtir við mér að uppgötva hversu fast ranghugmynd getur skorðað sig.

Ég get bætt við til frekari skýringar að þetta er í raun sama sem gerist og þegar maður andar frá sér í köldu veðri, það myndast gufa, loftið þéttist. Andardrátturinn verður hinsvegar ekki að gufu í heitu veðri. Eini munurinn er hitastigið úti, líkamshitinn er sá sami.
Þetta er lang líklegasta skýringin hvers vegna þessar ljóskúlur sjást ekki á myndum frá kotmótum, sjaldan frost. Ef farið er í gripahús, hesthús eða fjós í köldu veðri er loft mjög rakamettað. Þessar ljóskúlur sjást einmitt á myndum teknum við þannig aðstæður, hef aðgang að slíkum. Ég hef í fórum mínum myndir teknar við Bæjarins bestu í súld, þar eru kúlurnar. Erla tók myndir í Boston í mjög röku lofti, þar eru samskonar kúlur. Síðan á ég myndir teknar eftir úðabrúsann minn eins og ég sagði frá í pistlinum. Þar eru kúlurnar í tonnavís, nákvæmlega samskonar og englamyndirnar. Kannski á ég engla á úðabrúsum......Því má líka bæta við að ryk í lofti getur framkallað samskonar myndir, eitt rykkorn = einn “engill”
Eins og sést á myndunum af mótinu falla kúlurnar hvergi bakvið hluti, þær eru alltaf í forgrunni sem helgast af því að þetta eru svífandi agnir sem lýsast upp af flassinu mjög nálægt linsunni sem skýrir líka hversvegna engar myndanna eru eins.

Einhversstaðar segir máltækið að hver sé sæll í sinni trú. Þannig verður það að vera, ég verð ekki gerður ábyrgur fyrir því.

Ég hinsvegar er ekki blindur á eitt. Ef Guð er að senda einhverja bylgju yfir Ísland þá er hæpið að Hann sé að gera það að gamni sínu. Ef Hann er að framkvæma tákn og undur til að staðfesta sjálfan sig þá er hann líklega að gróðursetja tré sem hann ætlar að bera ávöxt.
Þó það séu að koma jól held ég að þetta sé ekki jólatré sem við eigum að skreyta. Ég tel að engu manngerðu eigi að bæta við. Held það skemmi fyrir raunverulegum ávöxtum sem því er ætlað að bera.

Ef staðfest óútskýranleg tákn taka að gerast, þá er það fréttnæmt. Ég bið bara um að þessi englahugmynd komist ekki í fréttir því hún getur kollvarpað trúverðugleika raunverulegri hluta sem verða þá ekki teknir gildir....... Ég er að blikka rauðu ljósi.

Er að velta fyrir mér hvort ég ætti að opna myndasíðu sérstaklega með þessum myndum svo hver geti dæmt fyrir sig....?

laugardagur, nóvember 24, 2007

"Hafa skal það...

...er sannara reynist". Ég hef áður tjáð mig um "sóking" hér á síðunni við mismikla hrifningu þeirra sem rata hér inn. Ég get ekki sagt að skoðun mín síðan þá hafi tekið stórstígum breytingum, og þó. Ég er enn á þeirri skoðun að auðveldlega megi finna ýmislegt til foráttu í þessu, sérstaklega látbragð og leikaraskap. En ég er heldur ekki svo steinrunninn að ég geti ekki séð góða hluti í þessu líka. Þar liggur kannski mergurinn málsins, stendur ekki: “Prófið allt, haldið því sem gott er....”

Tómas (ég) hinn gagnrýni vildi ekki alveg trúa englamyndum sem mér voru sýndar. Myndir sem sýndu misstórar ljósverur svífa um loftið, teknar á móti kenndu við “sóking”. Myndir þessar hafa vakið talsverða athygli og m.a. um þær fjallað á Lindinni. Þær þykja strika undir tilvist Guðs umfram margt annað sem fram hefur komið.

Skoðandi þessar myndir, vitandi að ég er ekki sérfræðingur í ljósmyndun eða ljósfræðum almennt, sendi ég nokkur eintök til aðila sem hefur ljósmyndað lungann úr ævi sinni og er þar að auki meðlimur í Ljóstæknifélagi Íslands. Eftir vangaveltur með honum um rakaþéttingar og ljósbrot nálægt linsu myndavéla, gerði ég tilraun.
Ég tók úðabrúsa og úðaði út í loftið og smellti mynd og.......... úúúps myndavélin fangaði aragrúa engla

Eftir nokkrar tilraunir og skoðun mynda teknum í þokulofti utandyra kom í ljós hvers kyns þetta er.
Með öðrum orðum þá upplýsist hér með að “englarnir” á myndunum eru agnarsmáir vatnsdropar sem verða gjarnan til þegar margir koma saman, uppgufun verður af fólki, kalt er úti en heitt innandyra þá kemst rakastig upp að daggarmörkum. Samspil hitastigs rakamettunar og ljóss er öðru fremur ástæða ljósdeplanna á myndunum. Þegar ljósmynd er tekin í þannig aðstæðum lýsast upp droparnir næst linsunni og fram koma ljósdeplar. Stærð þeirra ræðst svo af fjarlægð dropanna frá linsunni. Með frjóu ímyndunarafli og kannski svolítilli einfeldni má alveg sjá út englamyndir... ef vill.
Vitnisburðir um Guð og hans verk, skreyttir með svona hugarburði, snúast frekar í andhverfu sína þegar í ljós kemur fáfræðin á bak við, annað sem sagt er og á sér kannski raunverulegri stoð verður ótrúverðugra fyrir vikið.

Einhverjum kann að þykja þessi pistill kámaður fingraförum trúleysis, svo er þó ekki, hvatningin að þessum skrifum eru upphafsorð þessarar greinar.

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Hér nötrar...

...jörð með miklum drunum og látum. Mikið getur maðurinn orðið agnarsmár þegar náttúruöflin hreyfa sig aðeins. Þetta eru ekki stórir skjálftar á Richter mælikvarða en þegar maður stendur beint ofan á þeim og þeir eru ekki á miklu dýpi verða þeir ekkert litlir eins og fréttir bera með sér. Eins og sést á myndinni eru upptök þeirra beint hér undir Selfossi. Húsið hristist eins og það sé barið utan með tröllslegum tilburðum. Drunurnar eru eins og verið sé að sprengja dýnamít hér í garðinum hjá okkur.
Þetta á við minn mann. Ég er þeirrar undarlegu náttúru að vera algerlega heillaður af náttúruöflunum, sérstaklega þegar þau byrsta sig svona. Hvort heldur er jarðskjálftar, eldgos, flóð eða annað. Ég man eftir mér hangandi tímunum saman út í glugga þegar Surtsey gaus forðum daga en það blasti við úr herbergisglugganum mínum í sveitinni. Eins var þegar gaus í Heimaey, það var ævintýri að sjá. Heklugosin öll.... Allt afskaplega spennandi.
Hrund leist ekkert á blikuna fyrst en svo held ég að henni hafi fundist þetta orðið spennandi, kannski smitast af föður sínum.
Mér sýnist þetta samt vera að ganga yfir, það eru komnir yfir þrjátíu skjálftar síðan við komum heim með tilheyrandi gauragangi. Allavega er búinn að vera lítill hristingur núna meðan ég skrifa þennan pistil, aðeins smá drunur og dynkir,

Annars er létt á mér brúnin, Erlan er að koma heim í fyrramálið. Ég hef gengið haltur þessa dagana, vitanlega, þar sem betri helminginn hefur vantað á mig. Það verður gott að heimta hana aftur. Það á illa við mig að vera án hennar, held jafnvel að hún hafi saknað mín líka......
Hrundin mín hefur séð um uppvöskunarvélina fyrir mig og búðin hefur aðeins verið heimsótt einu sinni, en Menam og fleiri veitingastaðir notið góðs af fjarveru hennar.

Með hristingskveðju E

sunnudagur, nóvember 18, 2007

“Kveður kuldaljóð, Kári í jötunmóð...”

Hugsaði um þennan kvæðisstúf í gær gangandi um Tindfjallasvæðið í öskrandi norðanroki, "...næðir kuldaél yfir móa og mel, myrkt sem hel". Gekk til rjúpna í gær ásamt Hlyn. Við tókum stefnu til fjalla í góðu veðri. Ísland er land öfganna, ekki bara í mannfólkinu heldur veðrinu líka. Þegar leið á daginn fór að hvessa..... og hvessa meira....og meira. Það endaði með að varla var stætt fyrir fullorðna karlmenn. Vindurinn kom æðandi ískaldur ofan af jökli með snjófjúki og þvílíkum gassagangi að við munum varla dæmi um annað eins og gerði sitt ítrasta til að henda okkur um koll í bröttum hlíðum Tindfjalla.
Þarna voru mjög rjúpnaleg svæði að okkar mati. Rjúpurnar virtust samt ekki vera á sama máli því ekki voru þær mikið að flækjast fyrir löppunum á okkur. Það var ekki fyrr en á niðurleið í veðurofsanum sem við veiddum nokkrar rjúpur, fimm á mann.
Eins og flestum lesendum mínum er kunnugt er ég matmaður og sælkeri svo ég hlakka til að matreiða þær. En rjúpan er mikill sælkeramatur eins og flest villibráð.

Ég gleymdi myndavélinni góðu heima, kannski eins gott, slík gæðavél fer kannski ekki vel á því að velkjast með í svaðilför eins og þessari. Ég tók hinsvegar myndir á símann minn en hann er með fimm milljón pixla gæði sem er ekki svo slæmt í síma.
Myndirnar eru kaldar eins og von er. Ég setti tvær inn á myndasíðuna mína, og svo þessi sýnishorn hér á síðuna að gamni, þó ekki sömu og á myndasíðunni.


"Einbúinn" í húsinu við ána... kveður að sinni.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Grasekkill.....

Veit ekki almennilega hvernig ég á að haga mér svona frúarlaus. Hún er farin frá mér, sem betur fer ekki nema í fimm daga. Ég var nú búinn að nefna við hana að elda fyrir hvern dag og merkja það vel svo ég gæti tekið það úr kistunni hvern morgun og sett það í örbylgjuna þegar ég kæmi heim. Ég sá ekkert slíkt í kistunni áðan....
Maður verður þá bara í megrun þessa daga, ég má svo sem við því.

Þær fóru saman saumaklúbburinn hennar en þær eru búnar að stefna að þessari ferð í nokkur ár held ég. Vonandi skemmta þær sér vel, þó auðvitað verði ekki eins gaman hjá þeim og hefði orðið ef við karlarnir hefðum verið með......klárt mál ???? eða hvað.
Ég hef raunar einhverja óljósa hugmynd um að þeim þyki jafnvel gott að hafa okkur heima í þetta sinnið, þetta á víst að vera jólagjafainnkaupaferð ásamt einhverju pínu- agnarlitlu öðru. Þekkjandi mína frú, veit ég að henni finnst betra að versla án mín..... þó ekki skilji það nokkur annar en hún, geri ég ráð fyrir.

Da da ra....Ég veit ekki alveg..... hvernig maður aktar. Það þarf víst að fara í búð, ég er nú ekki vanur því, en einhverju verður maður að næra sig á svo mikið er víst. Ég verð orðinn of hungraður ef ég bíð eftir henni, föstudagur á morgun svo laugardagur,sunnudagur, mánu og þriðju, alveg klárt mál, ég verð að styrkja kaupmanninn. Skil ekki þessa útlandasýki kvenna.
Svo er þessi uppvöskunarvél hennar. Hún hefur aldrei kennt mér á hana svo það verður orðinn stór haugurinn....! Ég segi nú bara, sér eru nú hver þægindin.
Þvottavélin, hún er þarna inni í þvottahúsi. Ég hef einu sinni á ævinni sett í þvottavél, fyrir mörgum árum, setti mýkingarefni í staðinn fyrir þvottarefni...... Eins gott að maður sæki þurrkarann í viðgerð á morgun því það er augljóst mál að það er ekki hægt að þvo þvott nema hann þorni í kjölfarið, annars myglar hann. Þó ég sæki þurrkarann á morgun stend ég samt frammi fyrir vanda. Hún hefur aldrei kennt mér á hann. Já satt, ég kann ekki á hann.
Það er hætt við að það verði líka komið þvottafjall þegar hún kemur heim. Ekki að það sé eitthvað vandamál, hún verður fljót að redda því.....

En eitt kann ég vel, að ryksuga. Ætli ég ryksugi ekki bara á hverjum degi svo ég geti sagt með góðri samvisku að ég hafi verið aktífur við heimilisstörfin meðan hún var úti.
Nokkrar nýjar myndir.......

Annars bara HJÁÁÁLP

laugardagur, nóvember 10, 2007

Laugardagur, eins og þeir gerast bestir

Veðrið er fallegt, austurhimininn glitrar af morgunlitum glitskýjum sem framkalla gullinbleika birtu sem ekki sést oft. Hekla er umvafin skýjahulu eins og eldfjalla er siður en er samt eitthvað svo tignarleg, því ég veit af henni þarna. Áin liðast í rólegheitum hér framhjá húsinu við ána og speglar þessa fallegu morgungeisla. Það er ekkert sem ýfir skap hennar núna, bara sumarleg, svo róleg að það er næstum því hægt að fara niður að henni og klappa henni.

Það er víst komið að því að maður verður að hætta að berja hausnum við steininn og viðurkenna að það er farið að hausta, kannski jafnvel fyrir einhverju síðan. Laufin eru fallin og íslenska flóran lögst í vetrarsvefn. Alltaf er samt nóg til að hafa væntingar til, það styttist í að dagana lengi aftur, jólin eru handan hornsins með litadýrð og gleði, áramót og snjór sem lýsir upp skammdegið.

Frúin á bænum er frammi í eldhúsi að hafa til morgunverð. Hún skrapp í bakaríið. Sennilega vegna þess að húsbóndinn sem séð hefur um þann þátt í gegnum árin hefur ekki sinnt því starfi sínu sem skildi undanfarið. Ég neita því ekki að það er notalegt að heyra stússið frammi og finna lyktina af nýbökuðu bakkelsi. Eru þetta ekki lífsgæði?
Hún ætlaði að skreppa í einhverja búð í leiðinni en sú var ekki opin, opnar ekki fyrr en klukkan ellefu....ekkert stress í sveitinni, svo hún ætlar bara að skjótast aftur á eftir, enda ekki nema fimm mínútna skrepp.

Við erum gjarnan spurð hvort okkur líki jafn vel að búa hérna í húsinu við ána eins og til að byrja með. Svarið er nei......
Við erum miklu nær því að líka betur og betur við staðinn eftir því sem tíminn líður. Andrúmið hér einkennist af friðsemd og stressleysi og umhverfið fallegt svo af ber.

Að keyra til höfuðborgarinnar hefur reynst lítið mál. Umferðin rennur á níutíu kílómetra hraða alla leið, enginn að taka framúr öðrum á þessum tíma og lítið fyrir akstrinum haft. Þetta er því góður tími til íhugunar, fara yfir daginn og taka ákvarðanir. Ég held jafnvel að ég myndi sakna þessa rólegheitatíma ef það breyttist. Við förum oftast á einum bíl á milli og ekki leiðist okkur samfélagið við hvort annað og Hrund sem oftast kemur með, svo þetta er gæðatími.
Ég er að fara að lita.... já tvisvar verður gamall maður barn. Ég hef litað hár konunnar minnar í mörg ár. Þetta var gert í sparnaðarskyni á sínum tíma og reyndar enn. Það er óforbetranlega dýrt að kaupa slíka þjónustu á stofu. Liturinn kostar fimm hundruð krónur skammturinn (keyptur í útlöndum) svo munurinn er ca. 9.500 í hvert skipti, ca mánaðarlega. Já molarnir eru líka brauð, en það má eiginlega frekar segja að þetta sé brauðhleyfur en moli.....

Við ætlum að bregða undir okkur betri fætinum síðar í dag og skreppa til Reykjavíkur í fertugsafmæli. Teddi mágur minn fyllir fjórða tuginn í desember nk en heldur uppá það í dag. Til hamingju með það Teddi minn. Teddi er tryggingaráðgjafi af lífi og sál. Mikill sölumaður í sér sem gerir að verkum að hann getur verið svo sannfærandi að honum tekst jafnvel að selja sjálfum sér hugmyndir sem honum annars dytti ekki í hug að kaupa....! Honum gengur vel í þessu starfi sínu og væri fengur fyrir hvern þann sem þarf að koma vöru sinni á framfæri að njóta krafta hans við það.

Núna er Erlan sest ínn í stofu með kaffibolla, ég er búinn að lita en liturinn þarf að verka í ca hálftíma. Hún togar í mig fastar en tölvan svo ég læt staðar numið hér og bið ykkur vel að lifa og njóta.

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Innistæðuleysi

Ábyrgð fylgir orðum. Það er heilladrýgra að segja minna og geta staðið við það sem sagt er. Slúður er einn svartra bletta mannkyns. Slúður þrífst auðvitað ekki nema með aðstoð slúðurberans. Slúðurberi og rógberi eru síams, þeir vinna eins. Smásálarlegar kenndir fara af stað í huga þeirra þegar eitthvað ber á góma sem hægt er að kjamsa á og helst bæta við. Aukaatriðið sannleikur er aldrei atriði í huga þeirra. Smásálarkenndir þeirra þurfa fullnægju sem felst í því að velta sér upp úr slúðri eins og svín í for, og bera það svo áfram til næsta viðtakanda sem finnst, að viðbættu kryddi, allavega á aðra hliðina.

Einhverra hluta vegna detta sumir ofan í þessa lítilmennskuvilpu og veltast þar sem eftir er.
“Líf og dauði er á tungunnar valdi” segir í helgri bók og einnig “af orðum þínum muntu dæmdur verða”. Þess vegna er hollt að skoða sjálfan sig í spegli eigin samvisku áður en dæmandi orð falla um náungann, rétt eða röng. Allavega má ljóst vera að þú verður ekki dæmdur fyrir það sem aðrir gera eða segja hvorki við gullna hliðið eða fyrir jarðneskari dómstólum.

Kjarninn er, eigðu innistæðu fyrir því sem þú segir, eins og máltækið segir: “Hafðu orðin þín sæt, það gæti verið að þú þyrftir að éta þau sjálfur á morgun”.

Btw.... nokkrar nýjar myndir á myndasíðunni.