föstudagur, mars 31, 2006

Vér Selfyssingar....

Það er þessi kyrrð og þessi afslappaða stemning þegar maður getur gleymt bæði stað og stund í dýrðinni sem gerir sveitarómantíkina svo ánægjulega. Engir reykspúandi bílar, gjallandi umferðarniður eða truflandi áreiti allsstaðar, sjónvarp eða aðrir glymskrattar. Maður gleymir meira að segja að eltast við að hlusta á fréttir og jafnvel að hringja áríðandi símtal eins og búið var að semja um. Hugurinn verður fanginn af því að fylgjast með Maríuerlunni fóðra ungana sína og hlusta á Lóuna og aðra mófugla hefja upp róminn í ægifallegri sinfóníu hver í kapp við annan. Þetta er hreinræktuð ánægja og lífsnautn að upplifa. Það gerist samt ekki fyrr en nálægðin við sköpunina nær að fanga hugann nægilega til að augun opnist fyrir stórfenglegum margbreytileikanum sem í henni felst.

Hér ert þú auðvitað búinn að fatta að ég er að tala um bakgarðinn okkar í sveitarómantíkinni "utan ár" á Selfossi....!

Það er því með eftirvæntingu sem ég hugsa til sveitarinnar þar sem við ætlum von bráðar að búa. Ég held án gríns að staðsetning hússins okkar muni bjóða upp á þessa stemningu. Ég er þegar farinn að sjá fyrir mér göngutúrana mína og reykjavíkurmærinnar upp með ánni, með skóginn á aðra hönd, iðandi af lífi sem hressir sálina og gleður augað , og laxinn í ánni á hina. -- Góður bakgarður þetta.....!
Ný útskrifaður lögfræðingur úr lagadeild áður en við leggjum af stað.....!!!! Ætli megi ekki segja að leikhléi sé lokið og þetta sé upphaf seinni hálfleiks.
“Sjá veturinn er liðinn...rigningarnar um garð gengnar - á enda.... kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru”.
Vinir mínir og vandamenn! Þið verðið aufúsugestir í “Húsinu við ána”

miðvikudagur, mars 29, 2006

Hollráð

Ef þú vilt halda góðri heilsu skaltu fara að sofa sama dag og þú ferð á fætur.
höf ókunnur

sunnudagur, mars 26, 2006

Tilvera okkar

er dásamlegt ferðalag. Fjölbreytileikinn allsráðandi allsstaðar, fallegir tónar, vor í lofti. Nótnaborðið er einstaklingarnir í kringum okkur. Svo dásamlega lífgefandi og hressandi fyrir sálina... flestir.
Var í morgun að vinna að prófverkefni með nokkrum hressum félögum mínum í skólanum. Viðfangsefnið er lögfræðiálit varðandi hvort forgangsréttarákvæði kjarasamninga stenst félagafrelsi stjórnarskrárinnar....! Hljómar kannski ekki spennandi en er skemmtilegra en virðist.
Í gærkvöldi áttum við góða stund með fólkinu okkar. Síðbúið þorrablót var á dagskrá. Samveran var góð og gefandi. Takk fyrir samveruna gott fólk.
Í eftirmiðdaginn nutum við samfélags barna og barnabarna. Það er gott að eiga samfélag við fólkið sitt sem gefur af sjálfu sér án þess að reyna neitt til þess. Nærandi samfélag.
Ætla að skreppa aðeins á smá stredderí með reykjavíkurmærinni minni á eftir. Það þarf ekki endilega að hafa tilstandið svo merkilegt til að njóta augnabliksins.

Já þetta er góð helgi

fimmtudagur, mars 23, 2006

Við hjónin erum eins og íslenska veðrið.

Það skipast skjótt í lofti. Við verðum að standa undir nafni og sanna síðustu bloggfærslu hér að neðan. Við erum búin að kaupa hús á Selfossi. Ég sá þetta hús á netinu fyrir nokkrum dögum síðan. Tókst loks að sannfæra reykjavíkurmærina um að koma með mér og skoða það. Og það ótrúlega gerðist sagði hún mér eftir á, um leið og við stoppuðum fyrir utan húsið ákvað hún að það væri sama hvernig þetta hús liti út að innan, þetta hús vildi hún fá. Það góða við það var að ég var sama sinnis...... Þetta er snjór á þakinu, það er svart....!

Staðsetningin var þó það sem heillaði mig mest. Ölfusáin í öllu sínu veldi blasti við út um borðkrókinn. Steinsnar er út í fallegt útivistarsvæði þeirra Selfyssinga (okkar Selfyssinga meinti ég auðvitað) Þar er skógrækt upp með bökkum árinnar og bekkir á árbakkanum á dreif um svæðið, allt niður að húsinu okkar.

Það allra besta er að þetta hús fengum við á verði sem vandi er að finna á brjáluðum húsnæðismarkaði í dag.
Afar hagstæð lán sem við yfirtökum gera að verkum að lítill munur er á greiðslubyrði og á blokkaríbúðinni okkar.

Nýja heimilisfangið er Miðtún 22. Þetta er utan ár eins og kallað er sem þýðir að þetta er vestan við ána.

Við erum afar ánægð með kaupin og hlakkar mjög til að flytja þangað í sveitasæluna. Að ég tali nú um veiðivonina. Ég er þegar búinn að gera ráðstafanir með veiði í ánni, en fasteignasalinn er í veiðifélaginu á staðnum og tjáði mér að einn allra besti veiðistaðurinn væri beint fyrir framan húsið okkar.
Ég er því búinn að gera plan. Þegar ég fæ góða gesti þá verða grillið og veiðigræjurnar á svölunum, ég sjóðhita grillið - og kasta svo. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ég geti boðið upp á glænýjan lax, a-la Erling. Og hvítlaukinn, ég rækta hann auðvitað í garðinum.

Ég verð að viðurkenna að námið og prófalestur framundan verður ekki auðveldara með þetta allt handan hornsins.

mánudagur, mars 20, 2006

Safnast í klaufirnar

Blessaðar kýrnar. Ætli þeim leiðist ekki stundum á básnum sínum og finnist þær séu alltaf að spóla í sama farinu. Ég man hvað þær voru glaðar að komast út á vorin. Þær voru greyin búnar að vera bundnar á bás sínum veturlangt. Þær vissu ekki hvernig þær áttu að láta. Þær skoppuðu um og ýttu hver við annarri, hlupu um með halann hátt á lofti og kunnu varla fótum sínum forráð. Það var alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim. Gleði þessara málleysingja var svo fölskvalaus, þær voru ekki vitlausari en svo að þær kunnu að gleðjast yfir frelsinu.

Það eru fleiri bundnir á bás en kýrnar og það lengur en veturlangt. Margt mannfólkið lætur of auðveldlega teyma sig á bás og er þar svo bundið árum saman. Venjubundið líf á bás sem getur verið erfitt að losa sig frá.
Báslífið er samt auðvelt, það einkennist af mötun, lítið annað að gera en jórtra það sem ofan í magann er látið.

Sumum finnst gott að láta mata sig. Það þarf þá ekki að takast á við áleitnar spurningar sem óhjákvæmilega vakna þegar lífið í sínum fjölbreytileika tekur á sig myndir sem passa ekki við ritúalið. Þá er þægilegt að jórtra bara tugguna sína. Ef gagnrýnin hugsun er einhverntíman til gagns er það á slíkum stundum.
Það er hverjum manni hollt að slíta af sér fjötrana sem hlekkja hugarfarið. Fólk verður að leyfa sér að vera gagnrýnið á það sem mætir því hverju sinni. Afleiðing þeirrar gagnrýni getur orðið slit á því sem bindur það við básinn. Að losna af básnum og geta hlaupið út í iðjagrænt lífið veldur sömu gleði og kúnna á vorin, sem kunna sér ekki læti og sletta úr klaufunum, þegar þær fatta að básinn er ekkert líf.
Frelsið er nefnilega ekki á básnum, hann er ánauð.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Réttarsöguleg tíðindi

Héraðsdómur sýknaði Baugsmenn af öllum ákæruliðum. Ekki lýst mér á. Ég verð að lýsa mig ósammála stjörnulögfræðingnum Sveini Andra að saksóknaraembættið þurfi ekkert endilega að vinna mál og ná fram sekt manna, heldur sé það tilgangur í sjálfu sér að fara með mál fyrir dómstól til að fá efnisniðurstöðu í málið.
Þarf ekki embætti saksóknara að vera svo vel störfum sínum vaxið, að eftir ýtarlega rannsókn sé nánast borðleggjandi að niðurstaða dómsins sé allavega sekt.
Getur það mögulega talist eðlilegt eftir þriggja ára rannsóknarvinnu fjölda manns og tuttugu þúsund blaðsíðna skýrslu og fjörutíu ákæruliði í kjölfarið á því, að þrjátíu og tveimur þeirra sé vísað frá dómi og svo sýknað af þeim átta sem eftir eru?
Eru menn að tefla réttan manngang?

Það sem mér lýst ekki á í þessu er að staðfesti Hæstiréttur þessa niðurstöðu fáum við að fylgjast með enn stærra máli, sem mun vekja enn meiri athygli, en það er skaðabótamál Baugsmanna á hendur íslenska ríkinu. Hræddur er ég um að þar fáum við að sjá stærri tölur en áður hafa sést í skaðabótamáli á Íslandi.

Verð samt að segja að niðurstaðan kemur mér ekkert algerlega á óvart. Einhver undirtónn hefur verið í þessu máli öllu sem sett hefur spurningamerki í mínum huga við ákæruvaldið.
Ég vona samt enn að eitthvað óhreint finnist í pokahorninu þegar þetta fer fyrir Hæstarétt. Ástæðan fyrir því er bara ein. Ég vil ekki að ríkið borgi allar þessar skaðabætur sem við blasir, það lendir nefnilega bara á mér og þér.
Þannig er það nú bara.

mánudagur, mars 13, 2006

Þröstur vinur minn.

Það kemur alltaf einhver fiðringur í mig þegar sól hækkar á lofti. Ekki síst ef maður er svo heppinn að vakna á morgnana við sérstakan vorsöng Skógarþrastarins. Ég er svo heppinn að það er talsvert af trjám hér fyrir utan hjá okkur sem þeir virðast kunna að meta. Það er eins og þeir taki upp alveg ákveðna laglínu þegar snjóað hefur og sólin er í ham við að bræða með vermandi morgungeislum sínum. Eins og óður til vorsins.

Í morgun vaknaði ég við þessa tóntegund.
Ég veit að þessi tilfinning á rætur að rekja í sveitina. Ég man svo vel eftir akkúrat þessum samsöng þeirra snemma á vorin. Í sveitinni heima var mikið af trjám. Alltaf þegar morgnaði með stillu og sólbráð, helst ef snjórinn hékk á trjánum rennblautur, ómaði allt umhverfið af þessum fallegu ómþýðu tónum.
Það er eins og hann finni á sér að þetta eru fæðingarhríðirnar, vorið er á næsta leyti og alvara lífsins framundan við hreiðurgerð og uppeldi. Það er karlfuglinn sem syngur svona fallega snemmvors, líklega til að laða að sér dömurnar. Hljómurinn breytist þegar líður á vorið og fuglinn hefur parað sig, hann verður ákafari og hvellari. Um varptímann gefur hann svo frá sér hvellt kallhljóð, fráhrindandi garg sem sker í eyrun, líklega til að hræða burt óvini t.d. ketti frá heimilinu. Þrösturinn er sérstakur að því leytinu að hann kemur oft á legg tveimur kynslóðum sama sumarið.

Náttúran er óviðjafnanlegt meistaraverk. Ég get orðið gjörsamlega bergnuminn yfir þessum mikilleik hennar, sérstaklega á vorin þegar kemur í ljós þvílík forritun er á bak við allt, allsstaðar. Stundum er eins og náttúran drúpi höfði og haldi niðri í sér andanum, eins og einhver lotning liggi í loftinu, ekki síst undir morgnroða við sólarupprás. Á slíkum stundum finnst mér Guð vera einna raunverulegastur fyrir mér og í sköpunarverkinu finnst mér oft fara fram dýpri og sannari tilbeiðsla en ég sé nokkursstaðar annarsstaðar – með allri virðingu fyrir öðrum sjáanlegri tilburðum til þess.

Árlegur álagstími er að renna í garð hjá mér með prófalestri og verkefnum og að auki er ég núna að skrifa BA ritgerð sem verður bara snúnari eftir því sem lengra miðar. Ég sit hér yfir verkefnum í háskólanum núna og gjóa augunum annað slagið út í sólbráðina. Ótrúlegt hvað þetta togar í mig, ég er sennilega náttúrubarn.

Njótið daganna gott fólk.

laugardagur, mars 04, 2006

Næsti kafli

Mikinn heiður á hún skilið, Perlan mín. Í heil 28 ár hefur hún mátt þola mig.
Það hét Litlaholt, holtið fyrir norðan bæinn, þar sem sagan hófst. Holtið var reyndar ekki svipur hjá sjón þegar þetta gerðist, miðað við fyrri daga, þegar það var alvöru holt og lækurinn rann í gilinu austan við það. Tilvalinn staður fyrir laghenta menn að stífla fyrir og gera sundlaug. Það gerði víst afi minn heitinn, byggði sundlaug. Þar lærði pabbi minn og bræður hans að synda, í köldu vatninu.

Það var ágústmánuður árið 1976, á Kotmóti. Þá var Litlaholt orðin ávöl hæð vestan við steypiríið hans Grétars, búið að ýta því út og gera tún. Við höfðum verið á gangi lengi og talað saman um allt og ekkert undir seytlandi hljóði lækjarins sem ég þekkti svo vel. Hún vissi ekkert um tilfinningar sveitapiltsins við hliðina á sér. Vissi ekki að ég hafði dáðst að henni lengi, í laumi.
Hún hafði því heldur enga hugmynd um hver sú örlagastund var, þegar hún smeygði hönd sinni í mína þarna á Litlaholti, og hjarta sveitapiltsins sprakk í tætlur. Viðkvæmur og ástfanginn drakk ég í mig hvert orð sem hún sagði, mér fannst eins og heimurinn lægi við fætur mína og ég gæti sigrað hann með því einu að veifa litla putta. Það teygðist á göngutúrnum, hann endaði síðla kvölds í hlöðunni heima þar sem sest var niður í ilmandi glænýju heyi. Spjallið entist fram undir morgun.

Hún vissi ekki þá að þetta voru fyrstu orð sögunnar okkar saman. Saga sem telur orðið þrjátíu ár. Ég var ástfanginn ungur maður, ölvaður af þessari reykjavíkurmær sem fangaði hjarta mitt á þennan ógleymanlega hátt.
Þetta er lengsta ölvunarástand mitt, alveg klárlega, því það endist enn. Munurinn er samt sá að í dag er ég ekki bara ástfanginn heldur hefur reynsla áranna, misjöfn eins og gengur, fært mér sanninn um að þessi örlagastund færði mér þarna betri gjöf en ég nokkurntíman var verðugur að eignast.
Minningin er góð og yljar mér.
Ég vona af heilum hug að við fáum að ganga saman inn í sólarlagið - þar sem sólin okkar sest.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Stórafmæli...!!!

Í dag eru tuttugu og fimm ár liðin síðan Eygló og Arna litu fyrst þennan heim. Ég man þennan dag vel. Erla hafði dvalið á spítalanum á Akranesi um alllanga hríð vegna meðgöngunnar. Allt gekk samt vel og fæðingin tók snöggt af.
Þær hafa verið miklir ljósgeislar inn í líf fjölskyldunnar æ síðan. Við Erla höfum stundum talað um hvað þetta er skemmtileg mynd þegar börn fæðast. Eftir það fylgja þau manni eins og skugginn. Við vorum oft eins og andamamma og andapabbi með ungana sína syndandi á eftir sér á uppvaxtarárum þeirra. Endurminningar svo ótalmargar af allskonar uppákomum, ferðalögum og öðrum góðum stundum, minningar sem ylja og kæta. Svo týnast ungarnir smátt og smátt undan vængjunum og víkka radíusinn sinn, reyna nýja hluti og takast á við lífið í öllum fjölbreytileika sínum. En alltaf í nánd við gamla hreiðrið, það erum við svo þakklát fyrir. Allir ungarnir okkar eru stórvinir okkar. Þær systurnar eru löngu farnar að standa á eigin fótum. Arna komin með fimm manna fjölskyldu með öllu sem því tilheyrir og Eygló nýtur lífsins, á sína íbúð og bíl og er í góðri vinnu.

Til hamingju með daginn elsku grjónin mín og Guð blessi veg ykkar áfram.