Það kemur alltaf einhver fiðringur í mig þegar sól hækkar á lofti. Ekki síst ef maður er svo heppinn að vakna á morgnana við sérstakan vorsöng Skógarþrastarins. Ég er svo heppinn að það er talsvert af trjám hér fyrir utan hjá okkur sem þeir virðast kunna að meta. Það er eins og þeir taki upp alveg ákveðna laglínu þegar snjóað hefur og sólin er í ham við að bræða með vermandi morgungeislum sínum. Eins og óður til vorsins.
Í morgun vaknaði ég við þessa tóntegund.
Ég veit að þessi tilfinning á rætur að rekja í sveitina. Ég man svo vel eftir akkúrat þessum samsöng þeirra snemma á vorin. Í sveitinni heima var mikið af trjám. Alltaf þegar morgnaði með stillu og sólbráð, helst ef snjórinn hékk á trjánum rennblautur, ómaði allt umhverfið af þessum fallegu ómþýðu tónum.
Það er eins og hann finni á sér að þetta eru fæðingarhríðirnar, vorið er á næsta leyti og alvara lífsins framundan við hreiðurgerð og uppeldi. Það er karlfuglinn sem syngur svona fallega snemmvors, líklega til að laða að sér dömurnar. Hljómurinn breytist þegar líður á vorið og fuglinn hefur parað sig, hann verður ákafari og hvellari. Um varptímann gefur hann svo frá sér hvellt kallhljóð, fráhrindandi garg sem sker í eyrun, líklega til að hræða burt óvini t.d. ketti frá heimilinu. Þrösturinn er sérstakur að því leytinu að hann kemur oft á legg tveimur kynslóðum sama sumarið.
Náttúran er óviðjafnanlegt meistaraverk. Ég get orðið gjörsamlega bergnuminn yfir þessum mikilleik hennar, sérstaklega á vorin þegar kemur í ljós þvílík forritun er á bak við allt, allsstaðar. Stundum er eins og náttúran drúpi höfði og haldi niðri í sér andanum, eins og einhver lotning liggi í loftinu, ekki síst undir morgnroða við sólarupprás. Á slíkum stundum finnst mér Guð vera einna raunverulegastur fyrir mér og í sköpunarverkinu finnst mér oft fara fram dýpri og sannari tilbeiðsla en ég sé nokkursstaðar annarsstaðar – með allri virðingu fyrir öðrum sjáanlegri tilburðum til þess.
Árlegur álagstími er að renna í garð hjá mér með prófalestri og verkefnum og að auki er ég núna að skrifa BA ritgerð sem verður bara snúnari eftir því sem lengra miðar. Ég sit hér yfir verkefnum í háskólanum núna og gjóa augunum annað slagið út í sólbráðina. Ótrúlegt hvað þetta togar í mig, ég er sennilega náttúrubarn.
Njótið daganna gott fólk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli