sunnudagur, febrúar 28, 2010

Enn hristist

Jörð skelfur í Chile. Var að kíkja á fréttir á veraldarvefnum. Það varð sem betur fer nánast ekkert úr þessari flóðbylgju sem beðið var eftir. Það var eins gott, hún hefði getað drepið mun fleiri en skjálftinn sjálfur.
Skjálftinn í Chile var um 900 sinnum sterkari en skjálftinn á Haiti um daginn. Þarna kemur í ljós gildi þess að byggja sterk hús. Í Chile eru hús jarðskjálftahönnuð eins og hér á landi. Chile er víst eitt mesta jarðskjálftaland í heiminum, miklu verra en hér.

Ég horfi út um gluggann minn á Eyjafjallajökul sem kúrir þarna í fjarska. Þar er eitthvað að gerast. Kvikuinnskot er þar í gangi sem þýðir ekki endilega gos en allt eins. Landið lyftist og skríður til. Það hafa mælst nokkrir millimetrar á viku undanfarið sem er mjög mikið.
Það er ekki von á miklum hamförum ef Eyjafjallajökull gýs en..... hann hefur oft vakið Kötlu af sínum væra svefni ef hann hefur farið af stað og hún á til að fara hamförum. Jarðvísindamenn tala um að gos í Eyjafjallajökli taki í gikkinn á Kötlu. Spennandi að fylgjast með.

Við fórum í leikhús í gærkvöldi. Það er alltaf gaman. Við sáum Fjölskylduna, drama um allskyns fjölskylduleyndarmál og endalausar uppákomur. Flott verk.
Í dag ætlum við enn að bregða undir okkur betri fætinum og skreppa í bæinn. Eygló og Arna halda upp á 29 ára afmælið þeirra saman.
Hlakka til að hitta fólkið mitt.
Njótið dagsins vinir.

miðvikudagur, febrúar 24, 2010

"Ólympíuleikar eiginkvenna"

Ég las hreint ágæta grein á visir.is eftir Önnu Margréti Björnsson um aðþrengdar eiginkonur. Greinina má nálgast -hér -

Þar sem ég tilheyri þeim hverfandi hópi íslenskra karlmanna sem láta tískustrauma lönd og leið hef ég látið afskiptalausa daga eins og konudaginn og þetta nýja fyrirbæri valentínusardaginn.
Þessir dagar sem eru einungis til vegna markaðssetningar fyrirtækjaeigenda sem vilja selja vörurnar sínar hafa gert að verkum að karlar "eiga" að sanna ást sína á konunni sinni með því að versla það sem til er ætlast á þessum dögum. Verð þó að játa að ég dáist að markaðssetningunni sem slíkri. Ég gef hinsvegar lítið fyrir gildi þessara daga fyrir ástina - hún verður aldrei markaðssett svona.

Það stendur eðli mínu nær að gera alla daga að konudegi. Konur eru það yndislegasta sem til er og eiga allt dekur karlsins skilið. Konur eru hornsteinar hvers þjóðfélags með móðurhlutverkið í fararbroddi. Það er í eðli kvenna að gjalda líku líkt. Það ættu fleiri karlar að gera sér grein fyrir að um leið og þeir eru góðir við konuna sína og dekra hana eru þeir komnir í bullandi samkeppni við hana. Hún mun alltaf gjalda líku líkt og einu skrefi lengra.
Íslenskir karlmenn ættu að hafa þor til að hætta að hlaupa eftir amerískum mýtum og sýna og sanna ást sína með einhverju öðru en að fljóta með tískustraumum.

Ég er sammála Önnu Margréti - þessir valentínusar og konudagskarlar eru metró.

miðvikudagur, febrúar 17, 2010

Vinna vinna

Það er þannig. Búið að vera ótrúlega mikið að gera undanfarið. Hver segir að skóli sé ekki vinna?
Praktíkin allsráðandi í verkefnum annarinnar.
Njótið daganna....

mánudagur, febrúar 01, 2010

Föðurland og Mýrdalur

Ég var á Föðurlandi um helgina, einn -grasekkjumaður fram á sunnudag. Ég notaði tímann til að lesa námsefnið. Ég skrapp líka í myndatökutúr inn í Fljótshlíð. Fljótshlíðin er endalaust myndefni enda fallegasta sveit á Íslandi. Ég set tvær hér að gamni, svo eru þrjár nýjar á Flickr síðunni minni. Ég hefði getað skroppið á þorrablót í Goðaland en ég nennti ekki konulaus. Við Erlan höfum oft talað um að gaman væri að skreppa, sérstaklega fyrir mig og hitta sveitungana. Það er alger snilld að vera í kofanum - einn eða fleiri.
Efri myndin er tekin við Bleiksá og sú neðri er tekin af hrafntinnustein fyrir utan bústaðinn, speglunin í steininum er af umhverfinu.

Erlan fór í húsmæðraorlof austur í Mýrdal. Ein skólasystir hennar úr Árbæjarskóla bauð þeim nokkrum skólasystrum í heimsókn en hún rekur bændagistingu á bænum Steig í Mýrdal. Þær skemmtu sér vel við upprifjun gamalla minninga.
Erla kom svo á Föðurland seinnipart sunnudags og svo keyrðum við saman heim um kvöldið.
Skólinn fór af stað með gauragangi og eins og við var að búast hefur verkefnavinnan komið á færibandi síðan. Helgin var góð hjá okkur báðum.
Hafið það gott vinir í íslensku veðursældinni.