laugardagur, mars 29, 2008

I fly away....

Til Egyptalands. Við ákváðum fyrir mörgum árum að fara í eftirminnilega ferð þegar við yrðum "þrítug", eða þegar við urðum "tuttugu og fimm" því þá gátum við ekkert farið. Árin eru innan gæsalappa vegna þess að ég er auðvitað að tala um hjúskaparafmæli. Það verður alltaf ljósara með hverju árinu hversu tíminn er afstæður. Árin hafa verið fljót að líða, samt svo ógnarmargt drifið á dagana.
Eins og ég hef áður sagt erum við Erla ekki bara lífsförunautar heldur sálufélagar og bestu vinir.
Það tel ég mestu gæfu sem nokkrum hjónum getur hlotnast. Galdurinn.... er auðvitað sá að ég fann hana á undan öllum öðrum, að öðrum konum ólöstuðum.
Þessvegna er ég lukkulegur að fara með henni í ferðalag í tilefni svona margra ára.
Hlakka til samfélagsins við hana og framandi umhverfis.
Þið biðjið kannski fyrir okkur sem munið eftir því.... Nílarkrókódíllinn er sá stærsti í veröldinni.

Njótið daganna hér heima.

fimmtudagur, mars 27, 2008

Nýr bloggari

Vek hér með athygli á nýjum bloggara. Hlynur bróðir minn hefur stigið sín fyrstu skref í bloggheimum. http://hlynurm.blogspot.com/
Til hamingju með síðuna......!

sunnudagur, mars 23, 2008

Gröfin... tóm!

Ef hún hefði ekki verið tóm þennan morgun, væri engin kristni! Svo þýðingarmikið var þetta atriði.
Milljónir manna um allan heim hafa fundið og kynnst því í eigin lífi hversu lifandi Kristur er.
Það eru líka margir sem eyða ómældum tíma og orku í að reyna að sannfæra aðra um að hann sé það alls ekki, heldur bábylja. Gamall maður stendur gjarnan á horni Holtavegar og Langholtsvegar með mótmælaspjald með níði um Krist og hvatningu til að brenna kirkjur. Svipur hans er harður af áralangri vanlíðan. Hann hefur stundað þessa iðju til margra ára. Hvað ætli reki hann áfram?
Ég vorkenni honum alltaf. Lítið rykkorn að afneita skapara sínum.
Grein gamla biskupsins Sigurbjörns Einarssonar í mogganum um daginn var góð þar sem hann kallaði þessa menn jafn einlæga trúmenn og kristna. Þeir haldi fram kenningum sínum sem í engu eru vísindalega rökréttari eða hafa verið sannaðar nokkuð frekar en kristnin. Sigurbjörn er djúpvitur maður.

Í dag er formleg opnun hvítasunnukirkjunnar Mózaik. Við Erla höfum ákveðið að fá far með henni og sjá hvort hún stefnir ekki sömu leið og við erum að róa.
Ég óska aðstandendum kirkjunnar til hamingju með þetta skref og bið þess eins að hún fái að vaxa og eflast. Hef reyndar á tilfinningunni að hún verði stefni hvítasunnu- hreyfingarinnar þegar fram í sækir, því það þarf ísbrjót til að ryðja þá braut sem þarf að fara. Seglskútur eru aðallega til sýnis.

Við vorum í höfuðborginni í gær. Afmæli tengdaforeldra minna var ástæðan. Eftir afmælið var okkur boðið í hús Eyglóar og Bjössa. Þegar þangað var komið bættust við hinar dætur okkar líka. Okkur var skipað að hafa augu lokuð og þannig sátum við undir óvæntri ræðu þeirra systra. Ræðan var til okkar í tilefni 30 ára brúðkaupsafmælisins um daginn. Ræðan var kannski "volvo" afturábak en hún hitti hjartarætur.
Risafíll með kálf, skorið út úr harðvið, var okkur fært að gjöf í tilefni dagsins, ásamt páskaeggjum. Mitt heimagert, gamaldags og flott, Erlu sælkeraegg frá Hafliða. Nákvæmlega það sem okkur langaði mest. Það fylgdi orðum ræðunnar að fíllinn væri táknræn gjöf til okkar því fíllinn er trygglyndastur fjölskyldu sinni allra dýra .
Ánægjulegt, notalegt og hjartahlýjandi, orð ræðunnar ekki síst. Við erum rík. Takk elsku gullin mín.
Læt hér fylgja mynd af fílnum og eggjunum að gamni.

Gleðilega páska.....

föstudagur, mars 21, 2008

ÚÚps...

"Margir taka gröf sína með tönnunum.... með því að offylla magann".

Þetta var málsháttur í pínulítlu pásakeggi sem við keyptum í fyrradag. Svolítið í ætt við málshátt sem ég skellti hér inn á bloggið í september 2004:

"Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag.... hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun"

Fögur fyrirheit stoppa ekki gröftinn. Ég er ekkert að reyna að vera leiðinlegur, svona er bara veruleikinn... blákaldur!

mánudagur, mars 17, 2008

Frjálst fall.....

...krónunnar er eitthvað sem nær óhjákvæmilega átti eftir að gerast þar sem hún er búin að vera alltof sterk, alltof lengi. Hætt er við að höfuðverkur og timburmenn þjaki margan þessa stundina. Vorkenni þó mest þeim sem hafa nýlega tekið erlend neyslulán fyrir flotta jeppanum sínum eða einhverju öðru álíka gáfulegu. það er erfitt að horfast í augu við flónsku, verst ef hún er eigin. En svona er íslenskt þjóðfélag, gegnsýrt af sýndarmennsku.

Erlend lán eru líkt og hlutabréfamarkaðurinn háð sveiflum markaða. Því skiptir öllu máli hvenær það er tekið. Á sama hátt og ekki er vit í að kaupa hlutabréf þegar verðið er hæst er ekkert vit í að taka erlent lán þegar krónan er sterk, en hún hefur verið í sögulegu hámarki undanfarin misseri. Þarna ráða sömu lögmál.
Ef fram heldur sem horfir og krónan heldur áfram að falla getur hinsvegar farið að skapast umhverfi til að t.d. breyta húsnæðislánum í erlend lán, það gæti orðið "fundið fé". Kauptækifæri, eins og þeir segja á hlutabréfamarkaði.

Vona samt allra vegna að krónan rétti úr kútnum aftur þó varla sé von á því í bráð. Hún gæti verið að leiðrétta sig, ef svo er, er lækkunin komin til að vera.

sunnudagur, mars 16, 2008

La Traviata

Ég er enn orðlaus. Þvílíkt listaverk...! Ég sat undir þessu verki í gærkvöldi ásamt minni heittelskuðu og "youngsternum" eins og hún kallar sig stundum. Með gæsahúð sátum við þarna opinmynnt og orðlaus.
Það verð ég að segja að ég hef aldrei áður farið á nokkra sýningu, óperu eða annað, jafnflott.
Ekki bara söngurinn sem var snilld, heldur allt, leikurinn, umgjörðin og krafturinn framkallaði ótrúlega sterkar tilfinningar. Þetta er sannkölluð list. Veisla fyrir andann og sálina.
Hrund sagði eftir sýninguna að hún vildi miklu heldur sleppa fimm bíóferðum til að komast eina svona í staðinn. Gæti ekki verið meira sammála henni.
Þetta var sannkölluð veisla sem við hefðum getað misst af ef Erlan mín hefði ekki ýtt passlega á mig með þeim orðum að þetta væri einstakt tækifæri .....það voru orð að sönnu

Siggi stormur spáði “bongóblíðu” um helgina. Honum hefur ratast rétt á munn í þetta skiptið. Veðrið gælir við okkur núna, það er af sem áður var. Það er gott, þetta felur í sér fögur fyrirheit um græna tíð.

Við ætlum til borgarinnar í dag. Tvær fermingar eru fyrirhugaðar, ein í hvorri fjölskyldu, á sama klukkutímanum. Við vildum mæta í þær báðar svo ekki var um annað að ræða en að skipta liði. Ég fer í fermingu Sóllilju Guðmundsdóttur frænku minnar, barnabarn Hansa bróður og Erla fer í fermingu frænda síns Sigurðar Benónýs Sigurðssonar bróðursonar tengdapabba.
Óska þessum ættingjum okkar hér með til hamingju með daginn og gæfu til að hafa boðskap fermingarinnar með sér í farteski sínu á vit framtíðarinnar

Þessi helgi verður því ferðasöm. Það er ekkert að því, okkur hefur sjaldan leiðst flækingurinn.

Erlan vöknuð og tími á gæðakaffibolla, þið vitið........ fyrsti bollinn!

miðvikudagur, mars 12, 2008

Kraftaverk í fjölskyldunni?

Ég hef heyrt mikið talað um kraftaverk undanfarið. Þær sögur höfða misvel til mín eins og þeir vita sem þekkja mig best . Ég neita alls ekki tilvist kraftaverka enda trúgjarn með afbrigðum. Sumt flokka ég hiklaust með kraftaverkum sem við upplifum á lífsleiðinni.
Ég hef alltaf talið mig sérstakan gæfumann. Sumum sem þekkja sögu okkar hjónanna gæti þótt þetta sérstök yfirlýsing. Enda svo sem ekki hægt að líta framhjá því að stundum hefur pusast yfir borðstokkinn hjá okkur í ólgusjó lífsins, samt bara smá skvettur.
Það hefur aldrei pusast svo mikið að fleyið kæmist nálægt því að sökkva eða bæri varanlegan skaða. Við lítum á pusið sem vökvun. Þeirra hluta sem kallast reynsla og af henni inneign sem er okkur mikils virði.

Mesta gæfan er að vera umkringdur fólkinu sínu þar sem samheldni og kærleikur umvefur samfélagið. Börn, barnabörn og tengdabörn, ein heild, ein fjölskylda.... If you mess with me, you mess with my family...... mottóið okkar.

Stærstu kraftaverk sem ég veit til að gerist hér á jörð er þegar nýtt líf kviknar í móðurkviði.
Það bætist ofan á yfirflæði gæfu okkar Erlu þegar þannig kraftaverk verður í fjölskyldunni.

Ég fékk loksins leyfi til að tilkynna komu nýs einstaklings í fjölskylduna okkar, barn Eyglóar og Bjössa er áætlað í þennan heim síðari hluta september.
Ég er auðvitað löngu búinn að óska þeim til hamingju með þessa gleðifregn en geri það samt hér aftur. INNILEGA til hamingju bæði tvö og við hin líka.
Eyglóin mín farðu vel með ykkur.......

laugardagur, mars 08, 2008

Af árbakkanum

Lífið gengur sinn vanagang hér í sveitinni. Við njótum lífsins gæða hér í faðmi náttúrunnar ef svo má segja. Náttúran hér er svo síbreytileg og falleg, hér er gott að vera. Flestir dagar eru teknir snemma. Setið saman í klukkutíma áður en lagt er af stað til vinnu, blöðin lesin og spjallað um lífsins gang. Þetta eru morgunstundir sem ég met mikils og vildi ekki vera án. Hér er ég auðvitað að tala um virka daga. Helgardagar eru öðruvísi. Þá sit ég einn með sjálfum mér hér niðri og les blöðin, ræð eins og eina krossgátu eða fletti bloggsíðum og skoða hvað fólk leggur þar á borð. Erlan og dæturnar eru ekkert að rífa sig upp snemma um helgar. Það er enda allt í lagi, helgarnar eru jú hvíldartími og afslöppunar.

Nú er fallegt veður og sólin skín með vorlegri sólbráð. Ég finn fyrir vorfílingi þegar veðrið sýnir á sér þessar ljúfu hliðar enda komið fram í mars. Sveitamaðurinn í mér bregst við með tilhlökkun að sjá vorlitina og finna ilminn af nýgresi og brumandi trjásprotum.
Vinir okkar Barbro og Siggi komu hingað til okkar í dag. Þau eru aufúsugestir hér enda spannar vinátta okkar hjónanna 32 ár. Að vanda var mikið spjallað og nú sérstaklega um mótorhjól, þ.e. kallarnir. Siggi er stórtækur í hjólamálum. Tíu stykki mótorhjól og ekkert minna. Hann er að fara í þriggja vikna hjólaferð um Evrópu með dætrunum sínum tveimur. Svo síðar í sumar til Ameríku í aðra hjólaferð, nóg að gera hjá þeim.

Við skruppum í vikunni á samkomu hjá nýrri kirkju sem nefnist Mózaik hvítasunnukirkja. Jú rétt, þetta er hvítasunnukirkja.....! Kemur mér mest á óvart.
Hélt af gamalli reynslu að sjálfhverfa hennar leyfði ekki svona vaxtarsprota.
En gott, ég get ekki annað en fagnað.
Þetta reyndist hin notalegasta stund. Það fór minna fyrir “sóking” eða “Toronto” áherslum sem ég átti alveg eins von á að yrði, var ánægður með það.
Bið þessu nýja starfi Guðs blessunar.

Á morgun ætlum við að skreppa bæjarferð og kíkja á bókamarkaðinn í Perlunni. Höfum farið nokkrum sinnum áður og keypt okkur nokkrar bækur í hvert sinn. Það er hægt að gera góð bókarkaup þarna ef að líkum lætur.
Munum svo kíkja eitthvað í vina- og fjölskylduvitjanir. Ef einhverjum bregður við þá frétt, er eina ráðið....
....að vera ekki heima þegar við birtumst.

þriðjudagur, mars 04, 2008

30 ár

Þótt ótrúlegt megi virðast eigum við Erla svona margra ára brúðkaupsafmæli í dag. Þrjátíu ár eru langur tími. Margs er að minnast. Árin hafa einkennst af fádæma hamingju og ánægju með þessa konu. Hún er einstök fyrir svo margra hluta sakir. Góðmennska, fórnfýsi, göfuglyndi og hlýja stendur uppúr. Trygglyndi, öll árin, hvernig sem árað hefur hjá okkur. Stundum hefur éljað. Svo hefur sólin alltaf skinið aftur.
Skaparinn hlýtur að hafa verið í sérstaklega góðu skapi þegar hann leiddi þessa ungu mær í veg minn forðum daga. Ávöxturinn er góður. Börn og bura, barnabörn og tengdabörn. Öll einstakir vinir okkar.
Ég get ekki annað en verið óendanlega þakklátur fyrir þessa gæfu mína og beðið Guð um að leyfa mér að njóta hennar sem lengst.

Erla mín TAAAAKKK fyrir hvert einasta ár, þú ert algjörlega einstök.

sunnudagur, mars 02, 2008

Rétt eða röng viðbrögð...

... skipta stundum sköpum. Ýmislegt hendir okkur á lífsleiðinni og misjafnt hvernig við bregðumst við. Við erum svo ólík. Viðbrögðin geta verið mismiklir áhrifavaldar. Stundum er í lagi að bregðast við sama hlutnum á ólíkan hátt, niðurstaðan verður svipuð. Í öðrum tilfellum skiptir viðbragðið öllu máli til að vel fari sbr. bíllinn sem ók næst á undan mér austur á föstudaginn. Það var ekki langt bil á milli okkar þegar ég tók eftir að hann rann aðeins til hægri að aftan. Þetta gerist oft í akstri í hálku, þá er nauðsynlegt að rétta bílinn mjúklega af og halda stefnunni. Konan sem ók bílnum brást hinsvegar við með því að bremsa. Bíllinn snerist þá meira til vinstri og hún missti hann yfir á rangan vegarhelming komin í hálfhring. Þegar hún kom svo á vegbrúnina vinstra megin á hliðarskriði valt bíllinn framaf.
Hún slasaðist ekkert sem betur fer, enginn bíll á móti þó talsverð umferð væri og þykkur skafl sem tók af henni mesta höggið.
Þegar ég lagði af stað aftur eftir að hafa aðstoðað, var jeppi á undan mér. Greinilega á sleipum dekkjum því hann skrikaði sitt á hvað að aftan, mun meira en bíll konunnar stuttu áður. Viðbrögð jeppaeigandans voru hinsvegar þau að hann rétti bílinn jafnóðum af.... og ég fylgdi honum alla leið á Selfoss!

Ég skrapp austur á Fit í gær. Það má segja að Fitin sé á kafi í snjó. Ég þurfti að ganga frá hliðinu inn á svæðið niður að bústað. Snjórinn náði í hné og skaflarnir enn dýpri, harður og erfiður snjór.

Mót var í Kotinu og þrjár dætra minna þar. Þetta var “sóking” mót svo ég ákvað að fara á kvöldsamkomu og kanna með eigin augum hvað fram færi. Fór heim um ellefu leytið. Lagðist undir feld í nótt eins og Ljósvetningagoði forðum.....og er enn undir feldi ef svo má segja.
Held samt að mér hafi ratast rétt á munn eins og öðrum kjöftugum þegar ég tjáði mig síðast um þessi mál hér á síðunni, að sumt væri gott, annað orki kannski tvímælis. Vonandi er samt hægt að flokka þetta undir atburði þar sem mismunandi viðbrögð fólks skipta ekki máli fyrir niðurstöðuna. Ef niðurstaðan er hrein trú á Guð með náðina í fararbroddi, mega viðbrögð fólks auðvitað vera eins og þau eru. En þau eru..... svo vægt sé til orða tekið, misjöfn.
Sá engan vera að taka englamyndir og engin áhersla á það eðlilega rakafyrirbæri, það var gott.
Mun notast við orð ritningarinnar fyrir sjálfan mig, og skoða ávextina..... dýpra en í tilfinningaskalann.

Við erum hér heima með stelpurnar hennar Örnu sem er enn fyrir austan á móti. Þær una sér vel hér í sveitinni.
Nú er vorið handan við hornið sem er gott eftir óvenjulega harðan vetur. Ég hlakka alltaf til vorsins, sérstaklega núna. Það verður gott að hlusta á fjölbreytta sinfóníu farfuglanna hér á árbakkanum og værðarhljóð grágæsanna í hólmanum á næturnar.
Ég á von á að Nína og Geiri, nágrannar okkar í hólmanum hér úti í á, komi bráðum og fjölgi kyni sínu á nýjan leik.

Ætla núna að fara að koma kjúllanum í ofninn svo hann verði tilbúinn þegar dæturnar koma.

Njótið daganna, þeir eru góðir.