sunnudagur, mars 02, 2008

Rétt eða röng viðbrögð...

... skipta stundum sköpum. Ýmislegt hendir okkur á lífsleiðinni og misjafnt hvernig við bregðumst við. Við erum svo ólík. Viðbrögðin geta verið mismiklir áhrifavaldar. Stundum er í lagi að bregðast við sama hlutnum á ólíkan hátt, niðurstaðan verður svipuð. Í öðrum tilfellum skiptir viðbragðið öllu máli til að vel fari sbr. bíllinn sem ók næst á undan mér austur á föstudaginn. Það var ekki langt bil á milli okkar þegar ég tók eftir að hann rann aðeins til hægri að aftan. Þetta gerist oft í akstri í hálku, þá er nauðsynlegt að rétta bílinn mjúklega af og halda stefnunni. Konan sem ók bílnum brást hinsvegar við með því að bremsa. Bíllinn snerist þá meira til vinstri og hún missti hann yfir á rangan vegarhelming komin í hálfhring. Þegar hún kom svo á vegbrúnina vinstra megin á hliðarskriði valt bíllinn framaf.
Hún slasaðist ekkert sem betur fer, enginn bíll á móti þó talsverð umferð væri og þykkur skafl sem tók af henni mesta höggið.
Þegar ég lagði af stað aftur eftir að hafa aðstoðað, var jeppi á undan mér. Greinilega á sleipum dekkjum því hann skrikaði sitt á hvað að aftan, mun meira en bíll konunnar stuttu áður. Viðbrögð jeppaeigandans voru hinsvegar þau að hann rétti bílinn jafnóðum af.... og ég fylgdi honum alla leið á Selfoss!

Ég skrapp austur á Fit í gær. Það má segja að Fitin sé á kafi í snjó. Ég þurfti að ganga frá hliðinu inn á svæðið niður að bústað. Snjórinn náði í hné og skaflarnir enn dýpri, harður og erfiður snjór.

Mót var í Kotinu og þrjár dætra minna þar. Þetta var “sóking” mót svo ég ákvað að fara á kvöldsamkomu og kanna með eigin augum hvað fram færi. Fór heim um ellefu leytið. Lagðist undir feld í nótt eins og Ljósvetningagoði forðum.....og er enn undir feldi ef svo má segja.
Held samt að mér hafi ratast rétt á munn eins og öðrum kjöftugum þegar ég tjáði mig síðast um þessi mál hér á síðunni, að sumt væri gott, annað orki kannski tvímælis. Vonandi er samt hægt að flokka þetta undir atburði þar sem mismunandi viðbrögð fólks skipta ekki máli fyrir niðurstöðuna. Ef niðurstaðan er hrein trú á Guð með náðina í fararbroddi, mega viðbrögð fólks auðvitað vera eins og þau eru. En þau eru..... svo vægt sé til orða tekið, misjöfn.
Sá engan vera að taka englamyndir og engin áhersla á það eðlilega rakafyrirbæri, það var gott.
Mun notast við orð ritningarinnar fyrir sjálfan mig, og skoða ávextina..... dýpra en í tilfinningaskalann.

Við erum hér heima með stelpurnar hennar Örnu sem er enn fyrir austan á móti. Þær una sér vel hér í sveitinni.
Nú er vorið handan við hornið sem er gott eftir óvenjulega harðan vetur. Ég hlakka alltaf til vorsins, sérstaklega núna. Það verður gott að hlusta á fjölbreytta sinfóníu farfuglanna hér á árbakkanum og værðarhljóð grágæsanna í hólmanum á næturnar.
Ég á von á að Nína og Geiri, nágrannar okkar í hólmanum hér úti í á, komi bráðum og fjölgi kyni sínu á nýjan leik.

Ætla núna að fara að koma kjúllanum í ofninn svo hann verði tilbúinn þegar dæturnar koma.

Njótið daganna, þeir eru góðir.

3 ummæli:

Erla sagði...

Það var mjög gaman að sjá þig á samkomunni og vonandi blessaði Guð þig í bak og fyrir og á tánum og á hausnum á þessari samkomu. Guð elskar þig og ég líka;) Arnan þín

Nafnlaus sagði...

Úps, ég er ekkert voðalega klár á tölvur eins og sést hérna fyrir ofan. Þetta var semsagt Arna að kommenta hjá þér en ekki sæta konan þín;)

Nafnlaus sagði...

Tek undir þér með þetta soking... hver ætli tilgangurinn sé með gulltönnum í heilbrigðann munn?