þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Hrafnarnir vinir mínir

Hrafnaklettar heita klettarnir hér beint fyrir ofan húsið. Hrafninum virðist líka vel að vera hér eins og okkur. Frá því að við fluttum hingað hafa alltaf verið hrafnar hér, vetur sumar vor og haust, þeir verpa hér í klettunum og eiga svo vini hér sem gefa þeim æti á veturnar.
Ég hef gaman að þessum blásvörtu nágrönnum okkar og hef oft fylgst með þeim hér út um gluggann, sérstaklega í hávaðaroki, þá leika þeir listir sínar í loftinu. Þeir hafa líka oft vakið mig með hávaðanum í sér hér á þakinu eldsnemma á morgnana.

Það er samt vonandi bara kvef sem hrjáir mig þessa dagana því röddin í mér er orðin jafn rám og þeirra. Hef reynt að heyra ekki í þeim svo ég komist ekki að því að ég skilji allt í einu hvað þeir eru að segja. Einn krunkaði móti mér í morgun þegar ég kom út, ég bauð honum góðan dag á móti jafn rámur og hann og hann skildi mig, ég get svo svarið það...!

Kvef hef ég ekki fengið lengi, þökk sé hvítlauknum... hef ég haldið. Kannski kominn tími á að auka við hvítlauksskammtinn og sjá hvort ég endurheimti ekki röddina, þessa venjulegu, kann betur við hana.

sunnudagur, nóvember 27, 2011

Morgunverðarborðfélagar

Það er svo gott að sitja í þögninni og gera ekkert á svona friðsælum morgnum eins og þessum. Fréttablaðið frá í gær var borðfélaginn minn ásamt kaffibollanum mínum og frú Leti bankaði upp á og ég bauð henni til sætis líka. Ég horfi út á ána úr sætinu mínu, hún verður alltaf hrímuð og köld þegar kólnar svona. Úti er 5 gráðu frost og það ýrir aðeins úr lofti í logninu sem gerir að verkum að útsýnið líkist þoku og hverfur í grámósku í fjarska.
Einhver náungi er að upplifa náttúruna þarna útfrá og situr í snjónum á árbakkanum, hann virðist vera að hugleiða en kannski er hann bara að njóta sama útsýnis og ég.
Það er öllu þægilegra að vera hérna megin glersins núna þótt útiveran sé auðvitað alltaf góð, maður klæðir sig bara eins og þarf. "Það bíður betri tíma" eins og borðfélaginn skaut að mér áðan.

Það liggur fyrir að hengja upp jólaljósin utan á húsið og auðvitað ætti ég að vera farinn út og hespa því af en Letin situr hér til borðs með mér, ég er gestrisinn og félagsskapurinn er of góður til að ég nenni að brjóta hann upp. Það er auðvitað nær að detta aðeins í gamaldags gír og blogga smá um tilveruna á öðrum nótum en búðarframkvæmdahugleiðinganótum eins og undanfarið.

Borðfélaginn stakk því að mér áðan að nota daginn í dag til ýtrasta til að gera ekki neitt og ég er ekki frá því að það sé snilldarhugmynd hjá honum.
Við Leti ætlum því að eyða deginum saman og gera eitthvað sem hæfir hennar félagsskap. Þið hin eruð velkomin í hópinn ef þið viljið.

laugardagur, nóvember 26, 2011

Allt hefur sinn tíma

Að skapa hefur sinn tíma og að hvíla sig hefur sinn tíma. Nú þarf gamli að hvíla sig og fara að sofa eftir törn undanfarinna daga sem stundum hafa verið annasamir úr hófi fram. Uppskeran náðist í hús í dag, búðin opnaði með pomp og prakt klukkan tólf. Erlan og Gulla, stúlka sem við höfum ráðið til að standa vaktina í Home design tóku á móti gestum og gangandi. Það var nokkuð fjölmennt og við fengum mörg afar jákvæð og uppbyggileg kommnent. Það virðist sem Selfyssingar séu ánægðir með framtakið af viðbrögðunum að dæma. Það á svo eftir að koma í ljós hvort það nær til buddunnar einnig.
Ég er sáttur við útkomuna, það er unninn hálfleikur.

föstudagur, nóvember 25, 2011

Allt á fullu allsstaðar...

Bara svo þið haldið ekki að ég sé á meltunni alla daga þá er búðin að verða tilbúin fyrir opnun. Fæ skiltið utan á húsið í dag, allskyns snurfus og vörurnar í hillur fyrir morgundaginn. Opnum svo á morgun klukkan 12.

Þið vinir mínir og velunnarar eruð öll hjartanlega velkomin til að fagna með okkur og vera viðstödd þessa sögulegu stund :-)

sunnudagur, nóvember 20, 2011

To do list

Var að gera verkefnalista fyrir ofhlaðna vikuna framundan og komst að því að ef takast á að opna á laugardaginn næsta verður að halda vel á spöðunum. Stressaukandi listi í vikubyrjun er gott vegarnesti er það ekki? Hann heldur manni allavega við efnið.
Ég er annars að fara á Hótel Borg síðar í dag og hlusta á yngstu dótturina syngja en hún verður með hálftíma prógramm við opnun á einhverjum menningarviðburði svo verður hún með tvö lög á hátíðinni sjálfri.
Hún er búin að vera hér heima að æfa sig og ég get staðfest að hún er að gera góða hluti stelpan mín.
Mun svo bruna strax aftur heim og halda áfram að smíða búðarborð.
Svona er lífið hér við ána, margbreytilegt og skemmtilegt.

laugardagur, nóvember 19, 2011

Grasekkill á haus

Erlan er á Flórída með saumaklúbbsvinkonum. Ég kann þetta ekkert. "Það er einasta bótin" eins og mamma var vön að segja, að ég er upp fyrir haus í verkefnum þessa dagana svo tíminn líður hratt. Verkið gengur vel og ég sé fram á að geta opnað um aðra helgi eins og til hefur staðið.

En lifandis hvað ég hlakka til að fá eitthvað að borða þegar hún kemur heim, hún gleymdi nefnilega að segja mér hvað ég ætti að borða á meðan og skildi ekkert eftir tilbúið handa mér sem ég gæti til dæmis tekið úr frystinum, sett í örbylgjuofninn og hitað.
Algjör svekkur.

laugardagur, nóvember 12, 2011

Sláturdagur og aðrar annir

Allskyns skríkjur, dýrahljóð og brambolt ómar af efri hæðinni, þar er barnaskarinn, og í eldhúsinu er skrafað og hlegið í takt við kveinið í hrærivélinni sem rembist við að hakka lifrar, nýru, þindar og annað tilfallandi sem troðið er ofan í hakkavélina. Sláturdagurinn mikli sem við höldum einu sinni á ári er í dag.
Það er eins og oft áður þegar við komum svona öll saman að ég fæ einhverja nostalgíu og hugurinn rifjar upp gamlar tíðir þegar þessu líkar uppákomur voru í sveitinni minni forðum, sama skvaldrið og lífsgleðin, sem endar með að allir setjast til borðs og njóta afraksturs dagsins.
Slátur er vinsælt hjá mínu fólki þó það sé á undanhaldi hjá ungu fólki í dag. Þetta er kannski ekki hollasta vara sem finnst en samt er þetta það sem hélt lífi í forfeðrum okkar. Uppskrift mömmu er í hávegum höfð en hún hafði sérstaka hæfileika til að blanda hráefnunum rétt saman en það skiptir sköpum að hafa hárrétta bragðið af þessu. Ég er ánægður með að þessi siður helst við í minni ætt.

Þessa vikuna hef ég verið að smíða úti í búð. Opnun nýju búðanna er handan hornsins. Home design búðin verður opnuð á undan ísbúðinni, já Home design er nafnið á henni og vísar til varanna sem verða til sölu. Við erum búin að panta ýmsar vörur sem verða til sölu hjá okkur. Uppistaðan í vöruúrvali verða "Lín design" vörur en við verðum eina búðin á suðurlandi sem selur þær vörur.
Undirbúningur fyrir opnun sjálfsafgreiðslu ísbúðarinnar er líka í fullum gangi. Það er í mörg horn að líta en mér líkar það vel.

Lífið er til að njóta þess, látið það eftir ykkur gott fólk.

miðvikudagur, nóvember 02, 2011

Sagan og tíminn

Það telst ekki í frásögur færandi að ég sé að flækjast um landið. Í veiðiferðinni um síðustu helgi, arkandi lengst uppi á fjöllum rakst ég á klett. Jú fjöllin eru endalausir klettar en þessi ásamt fleirum þarna í kring hafði skrifað sögu, sem ég gat lesið notabene. Auðvitað er náttúran eitt allsherjar sögusafn en það er sjaldnast sem leikmenn eins og ég geta rýnt í það með nokkrum skilningi.
Þessi klettur var slípaður að ofan og rákaður eftir ísaldarjökul og það sem vakti athygli mína og framkallaði ótrúlega mynd í kollinum, í senn ógnvekjandi og óraunverulega, var stefna rákanna. Klettarnir voru í suðurhlíðum Tindfjalla og því hefði verið eðlilegt að rákirnar sneru niður hlíðarnar frá norðri til suðurs en þær sneru allar í vest- suð- vestur þvert á hliðar Tindfjalla.
Myndin sem þessar rúnir kölluðu fram blasti við, þetta mikla landsvæði sem ég horfði yfir, frá Tindfjöllum að Eyjafjallajökli, var einhverntíman sneisafullt af gríðarlegum skriðjökli sem skreið þessa stefnu langt út á haf... og eirði engu, Fljótshlíðinni ekki heldur.

Það stóð ekki skýrum stöfum á klettinum að sagan endurtekur sig. Við vitum það bara af jarðarsögunni að ísaldir koma og fara á nokkurra ártugþúsunda fresti. Ísöld á eftir að færast yfir aftur, og svo enn aftur. Allt sem við höfum fyrir augunum í dag hverfur einn daginn og mannskepnan, sem trúir því að hún stýri veraldarsögunni, hvað verður um hana... ég veit það ekki, allavega verður hún ekki á Íslandi svo mikið er víst.
Við erum víst bara peð á þessu taflborði, agnarlítil peð.