fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Kæfa var það heillin ...kindakæfa

Hér angar heimilið af kjötlykt þótt klukkan sé bara átta að morgni. Suðan búin að vera uppi í einn og hálfan tíma en þarf allavega þrjá. Það er jólakæfan sem er í undirbúningi enda styttist óðfluga í jólin eins og við vitum öll. Ég ætla að vera búinn að þessu snemma því ég ætla á Fitina á eftir. Þar bíða verkefni eftir mér, gluggaskipti fyrir Hjalla bróður og klára eldhúsinnréttingu fyrir Hildi systur. Svo er viðbúið að ég setji gerekti á gluggana hjá okkur.

Það blæs hraustlega núna. Norðanátt og frekar kalt. Það gnauðar í vindinum, svolítið sem ég kann vel að meta. Ég var samt úti áðan að dásama veðrið, frostleysi nánast og ekki snjókorn. Veðrið hefur verið einstaklega gott það sem af er hausti. Evrópubúar eru ekki eins heppnir, þar er fimbulvetur, frost, snjór og stormar.

Það blæs kannski frekar í fjármálum okkar íslendinga. Þar er stormur af mannavöldum, leiðinda fyrirbæri sem rýrir lífskjör okkar. Það er eins fallegt að lífskjörin voru þau bestu í heiminum svo við höfum nú svolítið borð fyrir báru. Við erum ekki á leið inn í drama sem setur okkur á vonarvöl. Það er ekki líklegt að margir svelti eða vanti skjól fyrir veðrum, og það er ekki matarskortur. Gæðalandið Ísland flýtur enn í mjólk og hunangi. Allt er til staðar sem var.
Við þurfum auðvitað að rifa seglin meðan stormurinn fer yfir, hefja síðan uppbyggingu nýs samfélags með betra mannlífi og heilbrigðari gildum.
Enda má nú fullyrða að kapitalisminn eins og hann birtist okkur var bastarður sem var að éta þjóðina upp til agna með óseðjandi græðgi sinni ,svo farið hefur fé betra.
Hann var ekki á vetur setjandi.

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Barnablessun

Farsæld er ekki peningar...!
Auðævi mín liggja í fólkinu mínu. Endalaust ríkidæmi flæðir hér stafna á milli í húsinu við ána.

Yngsta barnabarnið Erla Rakel, dóttir Bjössa og Eyglóar, var blessuð í gær. Eins og ég hef sagt hér áður er barnablessun náskylt barnaskírn þjóðkirkjunnar. Nánast eini munurinn er að barnið er ekki ausið vatni. Mér veittist sá heiður að fá að blessa yfir litlu yngismeyna. Hún var nú ekkert á þeim buxunum að láta heyrast of mikið í afa sínum, enda vön því að eiga athyglina alla sjálf. Hún hafði sig því alla við, með því eina sem hún kann ennþá, grát. En afinn veit að það getur ekki verið til heilbrigðara barn, en barn sem grætur ef því sýnist...!

Margt var um manninn úr báðum ættum. Gaman að því hversu margir sáu sér fært að renna austur fyrir fjall og aðrir alla leið frá Akureyri. Takk fyrir komuna allir....!
Veislan eftir athöfnina var konunum okkar til sóma sem endranær. Hvert öðru ljúffengara.
Til hamingju með þetta allt krakkar mínir.

Ég kætist yfir tilverunni, hún getur varla verið mikið betri.
Farsæld er hugarfar.... þannig er það bara.

föstudagur, nóvember 21, 2008

Frost...!

Það hefur kólnað hratt í atvinnumálum, sérstaklega á byggingamarkaði. Þetta hefur gerst á ótrúlega stuttum tíma. Að keyra um byggingahverfin núna er eins og að keyra um draugaþorp. Á fæstum stöðum eru menn að vinna eins og maður á að venjast. Byggingakranar standa hreyfingarlausir og bera vitni um velmegun sem flaug af landi brott, skyndilega, með engum fyrirvara.
Það er ekki langt síðan ég skrifaði hér á síðuna að Lexor héldi sínum verkefnum og væri á flugi. Það var þá.... Núna er þannig komið að allir sem höfðu samið við mig um verkefni í vetur hafa hætt við.... hver einasti.
Ástandið er ótrúlegt. Ég má samt þakka fyrir stöðu Lexors. Hægt er að lækka flugið án þess að hrapa. Ég hef þegar sent sex menn heim til Póllands, tveir eru áfram. Einörð vestfirsk þrjóska að fjárfesta ekki nema fyrir eigið fé skilar sér núna.

Standandi frammi fyrir verkefnaleysi í vetur, er þá ekki snjallast að nota ástandið og skella sér í mastersnám í lagadeild?
Ég hef þegar tekið þá frómu ákvörðun. Eftir vangaveltur undanfarna daga tókum við hjónin sameiginlega ákvörðun um þetta í gærkvöldi. Ég er búinn að hafa samband við skólann og þær dyr standa opnar.
Svo, það er þeytivindan aftur, enda komið ágætis hlé. Gráu sellurnar eru svolítið kvíðnar, en það rjátlast af þeim. Þarf bara að koma þeim aðeins í form aftur.
Er núna að skoða valmöguleika annarinnar framundan. Sumt hentar betur en annað, en þannig er bara lífið.
Tvö ár verða búin áður en við vitum af, rétt eins og kreppan :-)

sunnudagur, nóvember 16, 2008

Er Guð....

.... gamall hvíthærður kall í kufli sem fylgist með hverju skrefi til að hirta hvern sem misstígur sig....!
Þetta er ein mynd af honum, líklega mjög algeng. Allir, kallar og kellingar eiga í huganum ramma utan um mynd af því hvernig Guð er. Allir.
Líka þeir sem segjast vera trúlausir. Þeir eiga sinn ramma utan um Guðsímyndina og reyna af megni að stroka út allt Guðlegt innan úr honum, svo boðskapur þeirra verði trúverðugri. Strangtrúaðir eiga líka sinn Guð í ramma, eitthvað víðari....en samt alltof þröngan.

Ef Guð er höfundur og skapari alls, megum við heldur betur henda rammanum okkar. Enginn rammi eða hugmynd, hversu trúaður sem viðkomandi er, kemst utan um hugmyndafræðing alls, sé hann til.

Trú mín er sú að það sé ekki aðeins maðurinn sem gerir sér grein fyrir að sköpunin er ekki tilviljun ein, að eitthvað undur liggi á bakvið. Ég hef sagt áður hér á síðunni að hvergi hef ég komist nær Guðdómnum en úti í náttúrunni. Þar hef ég staðið agndofa yfir fegurð og tign sköpunarinnar. Ég hef upplifað íslenska sumarnótt þar sem upp rann augnablik þar sem allt hljóðnaði, fuglar og skepnur héldu niðri í sér andanum og flugnasuðið hætti. Eitthvað yfirnáttúrulega fallegt færðist yfir, heilagleiki sem ég hef ekki fundið annarsstaðar. Sköpunin að tigna skaparann og ég sjálfur bráðnaður niður í duft, einn hluti af sköpuninni, þegjandi eins og steinarnir í kring og þori varla að draga andann til að trufla ekki. Einstök upplifun sem styrkir trú mína.

Trú mín takmarkast samt af ramma mínum um Guð. Því miður. Ég vil svo gjarnan brjóta hann upp og öðlast víðari skilning. Ég er þó samt á þeim stað að gera mér grein fyrir þessari heftingu minni. Það er staðföst trú mín að Guð sé margfalt stærri en trú mín. Svolítið skondið sagt.
Bænir okkar hljóta að takmarkast við rammann okkar utan um Guð. Það, miðað við almætti Hans hlýtur þannig að takmarka allan okkar veruleika.
Ég er að nefna þetta hér í ákveðnum tilgangi og von um að einhverjir lesendur mínir hugsi um hvernig ramma þeir eiga um Guð með þeirri von að þeir sömu geri sér grein fyrir að sá rammi rúmar ekki Guðdóminn.

Þetta er líka langur formáli að aðaltilgangi þessa pistils. Mágkona mín Una Gunnarsdóttir, kona Benna bróður var að greinast með æxli, efst í hryggnum, þétt við mænuna.
Þau eru að vonum slegin og áhyggjufull. Læknar segja að um góðkynja æxli sé að ræða en skera þurfi æxlið burt. Það er á viðkvæmum stað við mænuna og aðgerð sem hún á að fara í um mánaðamótin er hættuleg.
Nú vil ég biðja lesendur mína um að líta á Guð stærri augum en gamlan hvíthærðan kall. Ég bið ykkur um að horfa á hann sem forritara ALLS, umkominn að gera hvað sem er og biðja með okkur um bata fyrir Unu.
Kraftaverk, eða (og þarna sjáið þið rammann minn) hárnákvæma stýringu á höndum læknanna þegar þeir skera æxlið burt af þessum viðkvæmasta stað líkamans.
Kærar þakkir.

laugardagur, nóvember 15, 2008

Björgun heimilanna

Nú er aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar til bjargar heimilunum kominn fram. Þar er margt góðra hluta sem þessir "aumingjar, ræflar, vitleysingar" o.s.frv. gátu komið sér saman um.
Ég stel þessum fúkyrðum af síðum Morgunblaðsins í gær eftir kynningu á aðgerðaáætluninni.
Ég átti ekki orð yfir yfirlýsingagleðinni hjá borgurum sem blogguðu hver um annan þveran og skreyttu skrifin sín með svo skrautlegum fúkyrðaflaumi að sjaldséð er á prenti.

Ég gat ekki þagað við tölvuna og tautaði "fólk er fífl". Hvað sagðirðu, sagði Erlan mín, fólk er asnar, ætli einhverjir þessara sjálfskipuðu dómara geri sér minnstu grein fyrir þeirri gríðarlegu vinnu sem liggur að baki svona áætlun? Eða þeim fjölda sérfræðinga sem vinna nú hörðum höndum að koma böndum ástandið?
Skildi einhver þeirra gera sér nokkra grein fyrir þeim ógnarskýjum sem hrannast upp þegar öll Evrópuríki leggjast gegn okkur.
Þetta er sennilega fólkið sem hefur lausn á öllum hlutum en er með allt niður um sig sjálft.

Ég verð að segja að eftir því sem fram líður tek ég hærra ofan fyrir þessari ríkisstjórn. Samstarfi sem mér leist ekkert á í byrjun. Það er rekið af tveimur ólíkum sjónarmiðum en hefur tekist að vinna sem einn maður í þessum ólgusjó og afraksturinn er að líta dagsins ljós. Aðgerðaáætlun til styrktar fyrirtækjum í landinu er handan hornsins.

Ingibjörg Sólrún hefur komið mér á óvart, hún virðist mér vera réttur maður á réttum stað...svo detti mér nú allar dauðar lýs.
Bjartsýni mín ríður ekki við einteyming segja sumir. Ég tel bjartsýni mína mun raunsærri en svartsýnin sem grúfir yfir þjóðinni núna og byrgir sýn.
Við erum lítil en sterk þjóð. Smæð okkar mun hjálpa okkur núna. Við erum örhagkerfi og því þurfum við litla innspítingu til að þeyta okkur af stað. Landið ber með sér öll gæðin sem færði okkur þá velsæld sem við bjuggum við, fyrir milljarðabóluna. Þá var kaupmáttur einn sá mesti í heiminum. Íslendingar voru hamingjusamastir allra, það hafði ekki að gera með bóluna. Allt sem þarf til að rétta af skútuna er til staðar. Við höfum landsins gæði, kraft, menntun og þor.

Ég spái að með vorinu verði gruggið farið að setjast til og fólk farið að sjá glætu í myrkrinu. Þetta verður ekki áralöng áþján.

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Ódrenglyndi...

Bjarni Harðarson opinberaði skítlegt eðli pólitíkusa. Hún er svo forug tíkin þeirra, að öllum ofbýður. Ræfilslegt plott og átti að vera nafnlaust í þokkabót. Valgerður ber mikla pólitíska ábyrgð á bankamálunum og mætti segja af sér þessvegna. Það bætir ekki lúalega aðferð Bjarna Harðarsonar, hún var lítilmannleg.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Sveitin og kreppan

Já, ég er grasekkjumaður þessa dagana svo ég fór til fjalla um helgina. Ætlaði að ná í nokkrar rjúpur. Þær voru annarsstaðar en ég því ég sá enga þótt gangan væri löng.... og ströng. Við gengum á Tindfjöll. Færið var afar erfitt. Frost að fara úr jörð svo maður sökk í hverju spori. Þetta var samt góð líkamsrækt. Það var gott að slaka á við kamínuna í kofanum eftir erfitt labbið. Rjúpurnar bíða betri tíma.

Ég, eins og aðrir landsmenn hugsaði heilmikið um kreppuna um helgina. Það er erfitt að horfa upp á fólk missa vinnuna sína, fyrirtæki missa verkefni og efnahag flestra bíða hnekki. Saklaust fólk út um allt verður fyrir barðinu á þessum óskapnaði. Verst þykir mér þegar eldra fólk sem hefur nurlað saman sparifé til efri áranna þarf að sjá á eftir því í þessa hýt. Þetta fólk tók lítinn þátt í veislunni, hélt í við sig og lagði fé til hliðar...til mögru áranna. Þetta er köld kveðja til þessa fólks.
Eða skólafólk sem jafnvel þarf að hætta námi því framfærslan dugir ekki lengur.

Við leitum að sökudólgum. Það er eðlilegt. Stærstu ábyrgðina bera fulltrúarnir sem við kusum yfir okkur til að stýra þjóðarskútunni. Þar sitja mennirnir sem áttu að framfylgja reglunum sem við búum við. Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og ríkisstjórn eru aðilarnir sem þarf að krefja svara, jafnvel frekar en útrásarliðið sem lék sér með fjármagnið, þeir gerðu það í skjóli þessara yfirvalda.
Samt er það síðasta sem mér dettur í hug að bera blak af útrásarliðinu. Mér eins og flestum svíður að verða vitni að öllu sukkinu og svínaríinu. Þeir nýttu sér frjálsræðið langt út fyrir allt siðgæði.
Það er samt enn verra að sjá þá sem áttu að fylgja eftir settum reglum, því reglurnar eru til, sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Þetta er fólkið sem á að sæta ábyrgð, ekki síður en útrásarliðið, að ég tali nú um fólkið í landinu, sem ber ábyrgð sína með því að stefna lóðbeint á hausinn.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Tækifæri 2

Þeir voru brattir þremenningarnir sem stofnuðu verktakafyrirtæki í síðustu viku. Þeir eru ákveðnir í að nota sér kreppuna til að hjálpa sér að hlaða sterkan grunn til að byggja ofan á. Ekki vitlaust.
Því hefur oft verið haldið fram að fyrirtæki sem vaxa upp á samdráttarskeiði séu á sterkari stoðum reist en þau sem spretta upp á þenslutímum. Ástæðan er einföld. Kreppufyrirtæki verður að reka vel til að það lifi. Hafa verður fyrir rekstrinum. Það getur verið erfitt að afla viðskiptavina, verð eru lægri á krepputímum og það er erfiðara um fjármagn. Það má því segja að þeim sem tekst að reka fyrirtæki í kreppu muni ganga betur en öðrum þegar betur árar.
Þetta sést svolítið í raunveruleikanum núna. Ótal fyrirtæki spruttu upp í þenslunni. Endalaus eftirspurn var eftir vörum sem fólki var talið trú um að því vantaði. Lítið þurfti að hafa fyrir öflun viðskiptavina og fyrirtækin belgdust út ásamt eigendum sínum sem nánast gátu leikið sér árið um kring og látið aðra um vinnuna. Ekkert mál var að fá fjármagn. Lán eins og hver gat í sig troðið. Lífið var leikur... laxveiðar og lúxus á öllum sviðum. Í dag kemur svo nakinn og andstyggilega kaldur veruleikinn í ljós. Íburðurinn, fríin, laxveiðarnar og flottu bílarnir var tálsýn, undirstaðan var sápukúla. Lánin sem svo auðvelt var að afla eru orðin yfirbygging sem ógerningur er að standa undir.
Ótal fyrirtæki munu rúlla. Fyrirtæki á ýmsum sviðum. Líkt og þremenningarnir sjá, verða tækifæri vítt og breytt um hinn breiða markað viðskiptanna. Fólk sem hefur hugmyndir og þor til að framkvæma þær ætti að skoða núna hvort ekki sé rétti tíminn til að setja sig í stellingar. Ekki bara sjálfs sín vegna heldur þarfnast þjóðfélagið fólks sem horfir yfir vandræðaganginn, fólks sem getur litið framtíðina björtum augum þótt gruggið varni sýn í augnablikinu. Fólks sem sér að þetta ástand varir ekki að eilífu. Fólks sem gerir sér grein fyrir að við höfum séð það svartara sem þjóð en risið teinrétt upp úr því aftur. Og ekki síst fólks sem getur gengið á undan með fordæmi sem sýna að veröldin er góð þótt ekki sé lifað við endalausan lúxus.
Himininn er ekki hruninn ungi litli.