sunnudagur, nóvember 16, 2008

Er Guð....

.... gamall hvíthærður kall í kufli sem fylgist með hverju skrefi til að hirta hvern sem misstígur sig....!
Þetta er ein mynd af honum, líklega mjög algeng. Allir, kallar og kellingar eiga í huganum ramma utan um mynd af því hvernig Guð er. Allir.
Líka þeir sem segjast vera trúlausir. Þeir eiga sinn ramma utan um Guðsímyndina og reyna af megni að stroka út allt Guðlegt innan úr honum, svo boðskapur þeirra verði trúverðugri. Strangtrúaðir eiga líka sinn Guð í ramma, eitthvað víðari....en samt alltof þröngan.

Ef Guð er höfundur og skapari alls, megum við heldur betur henda rammanum okkar. Enginn rammi eða hugmynd, hversu trúaður sem viðkomandi er, kemst utan um hugmyndafræðing alls, sé hann til.

Trú mín er sú að það sé ekki aðeins maðurinn sem gerir sér grein fyrir að sköpunin er ekki tilviljun ein, að eitthvað undur liggi á bakvið. Ég hef sagt áður hér á síðunni að hvergi hef ég komist nær Guðdómnum en úti í náttúrunni. Þar hef ég staðið agndofa yfir fegurð og tign sköpunarinnar. Ég hef upplifað íslenska sumarnótt þar sem upp rann augnablik þar sem allt hljóðnaði, fuglar og skepnur héldu niðri í sér andanum og flugnasuðið hætti. Eitthvað yfirnáttúrulega fallegt færðist yfir, heilagleiki sem ég hef ekki fundið annarsstaðar. Sköpunin að tigna skaparann og ég sjálfur bráðnaður niður í duft, einn hluti af sköpuninni, þegjandi eins og steinarnir í kring og þori varla að draga andann til að trufla ekki. Einstök upplifun sem styrkir trú mína.

Trú mín takmarkast samt af ramma mínum um Guð. Því miður. Ég vil svo gjarnan brjóta hann upp og öðlast víðari skilning. Ég er þó samt á þeim stað að gera mér grein fyrir þessari heftingu minni. Það er staðföst trú mín að Guð sé margfalt stærri en trú mín. Svolítið skondið sagt.
Bænir okkar hljóta að takmarkast við rammann okkar utan um Guð. Það, miðað við almætti Hans hlýtur þannig að takmarka allan okkar veruleika.
Ég er að nefna þetta hér í ákveðnum tilgangi og von um að einhverjir lesendur mínir hugsi um hvernig ramma þeir eiga um Guð með þeirri von að þeir sömu geri sér grein fyrir að sá rammi rúmar ekki Guðdóminn.

Þetta er líka langur formáli að aðaltilgangi þessa pistils. Mágkona mín Una Gunnarsdóttir, kona Benna bróður var að greinast með æxli, efst í hryggnum, þétt við mænuna.
Þau eru að vonum slegin og áhyggjufull. Læknar segja að um góðkynja æxli sé að ræða en skera þurfi æxlið burt. Það er á viðkvæmum stað við mænuna og aðgerð sem hún á að fara í um mánaðamótin er hættuleg.
Nú vil ég biðja lesendur mína um að líta á Guð stærri augum en gamlan hvíthærðan kall. Ég bið ykkur um að horfa á hann sem forritara ALLS, umkominn að gera hvað sem er og biðja með okkur um bata fyrir Unu.
Kraftaverk, eða (og þarna sjáið þið rammann minn) hárnákvæma stýringu á höndum læknanna þegar þeir skera æxlið burt af þessum viðkvæmasta stað líkamans.
Kærar þakkir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Áhugaverður pistill Erling!

Ég hef einnig útbúið ramma utan um Guð og síðustu ár og mánuði hef ég brotið eina og eina hlið á þessum ramma til þess að leyfa mér að kynnast Guði upp á nýtt...

Ég hef notist við þá leið að lesa meir úr Biblíunni, um hver Guð er. Hvernig Páll postuli ásamt hinum postulum, tala um Guð Föður okkar. Einnig hvernig Jesú sjálfur talar um Guð Föður og samband sitt við Hann...

... það sem hefur komið mér svolítið á óvart er að þegar ég les Nýja Testamentið og einnig glugga í það gamla, þá fæ ég nýja ,,sýn" á hver þessi Faðir minn á himnum er... hún er alls ekki orðin endanleg, þessi ,,sýn" en, hún hefur breyst allnokkuð.

Vegna þess, að ég í gegnum tíðina hef eins og eflaust sumir, myndað þessa upplifun eða sýn á Guði MEST á orðum annarra og MINNST í lestri á Biblíunni.

Hins vegar, hefur mér fundist margt sem mér hefur verið sagt í gegnum tíðina og lesið af kristnum einstaklingum, ekki eiga sér samsvörun eða ,,rök" í Biblíunni, nú eða vera eitthver ,,loðin" kenning...
Allavegana, leiðangur minn heldur áfram og þetta var kannski svolítið útur hjá mér : )

En, þetta með náttúruna skil ég afar vel, hef upplifað þetta mmm

Ég mun biðja Guð um lækningu fyrir Uni og megi það verða svo!

Adios, Karlott