laugardagur, júlí 30, 2011

Í morgunsárið

Ég skrapp til strandar í morgun. Ástæðan fyrir því er að nú er vatni úr Vola veitt vestur flóann og það skilar sér niður í fjöru á ýmsum stöðum. Ég hafði grun um að þetta aukna vatn gæti freistað sjóbirtings til að ganga á fleiri stöðum en ella svo ég skrapp í læk sem rennur vestan við Stokkseyri til að tékka á þessu. Vatnið er mun meira en venja er en engan sá ég fiskinn. Það var enda von því einhver hefur haft þennan sama grun og ég því búið var að girða fyrir ósinn með neti. Það var því engin furða að ekki sæist fiskur fyrir ofan.

Þessi helgi ætlar að verða blaut eins og flestar aðrar verslunarmannahelgar enda ástæðulaust að vera að bregða út af vananum. Ég hefði þó alveg verið til í sumar og sól.
Við bregðum undir okkur betri fætinum á eftir og skreppum í ættargrillið okkar systkinanna og bætum aðeins á bumbuna. Annars er Íris búin að mana okkur í átak, 100 daga burpees. Það er einhver crossfit æfing sem ég hef grun um að sé ekki mjög bumbuvæn en mín er antik því hún er orðin svo gömul, maður étur þá bara aðeins meira til að varðveita hana ;-)

fimmtudagur, júlí 28, 2011

Einu sinn enn...

Tíminn er ólíkindatól sem maður skilur öngvanveginn hversvegna rennur svona hraðar og hraðar til framtíðar. Verslunarmannahelgin var síðast um daginn en það er samt ár síðan! Það er enda farið að rigna en það virðist orðið lögmál að það rigni um þessa helgi.

Ég man eftir Kotmótum í gamla daga þegar ég var krakki þá var alltaf sól.
Mjólkurbrúsinn sem allir gátu farið í og fengið mjólk var hafður undir norðurveggnum á húsinu afa og ömmu svo sólin skini ekki á hann og hitaði mjólkina.
Þá voru dagarnir langir og mannlífið með rólegra yfirbragði en í dag. Kotmótin snerust um samkomur sem allir fóru á og svo samfélag þess á milli. Það komu kannski um 100 manns sem allir rúmuðust í litlu kirkjunni. Nú er annað yfirbragð og áherslur.

Við Erlan verðum með annan fótinn hér heima og sinnum ísbúskapnum en eins og allir vita eru ísbændur líkt og aðrir bændur bundnir yfir bústofninum sínum. Það þýðir þó ekki að við bregðum okkur ekki af bæ því fararskjótinn okkar verður notaður nokkuð óspart enda ekki langt að fara. Ættargrillið verður á sínum stað og við látum okkur ekki vanta enda annálaðir partígrísir.

Ég hef sagt og segi enn, farið varlega í umferðinni, það er betra að halda lífi en áætlun.

laugardagur, júlí 23, 2011

Norðmenn í sárum.

Það er skelfilegt að fylgjast með fréttum frá Noregi. Ungur norðmaður gerir sjálfan sig að einum versta fjöldamorðingja sögunnar. Flestir þeirra sem létust voru innan við tvítugt.
Hversu ruglaður ætli hægt sé að verða af áróðri og hatri? Nógu ruglaður til að sprengja og myrða nærri hundrað manns - ekki af stofni þeirra sem hann hataði mest heldur af eigin stofni, sitt eigið fólk.
Skömmina tekur úr þegar hann segist vera kristinn maður. Ætli hans sjúka huga detti í hug að morðin á hans eigin fólki geri hann að betri fulltrúa kristinna manna gegn múslimum?
Þetta er óskiljanlegt og djöfullegt.

sunnudagur, júlí 17, 2011

Gott fólk og gifting

Þessa dagana gistir hjá okkur prýðisfólk frá Danmörku. Þau heita Dorthe og Brian ásamt Katrine dóttir þeirra. Þetta ágæta fólk tengdist ættleg Erlu með formlegum hætti í gær þegar þau Thea Theodórsdóttir og Michael sonur Dorthe giftu sig með pompi og prakt. Það var gaman að sjá siðina frá sitthvoru landinu blandað saman í einni athöfn, hvort tveggja í kirkjunni og veislunni þó það væri meira áberandi í veislunni.
Ég hef ekki verið í brúðkaupi þar sem dansað er fram á nótt þegar veisludagskránni lýkur. Íslendingar eru ekki endilega mjög dansglaðir en þó tókst að fá nokkra á gólfið sem skemmtu sér vel, þar á meðal við Erlan.

Það er ekki oft sem ég hitti einstaklinga sem hafa jafnmikinn áhuga á náttúruöflunum eins og Brian. Hann, og raunar þau bæði dreymir um að sjá eldgos með eigin augum eða aðrar hræringar íslenskrar náttúru. Danmörk, jafnágæt og hún er hefur ekki þessa krafta náttúrunnar sem við búum við hér í landi íss og elds. Hér sjáum við frumkraftana sem mynduðu þessa jörð í nærmynd og upplifunin er auðvitað sú að við verðum lítil og smá og getum ekki rönd við reist á nokkurn hátt þrátt fyrir náttúruverndarsjónarmið og strangar leyfisveitingar, við bíðum bara og sjáum til hvernig náttúran ákveður að klára málin sín.

Ég geri ráð fyrir að við förum í stutta fjallaferð með þau áður en þau fara til síns heimalands ef tími vinnst til.
Hellisheiðin er ekki öll sem sýnist. Þar er hægt að fara í "off road" ferðalag og upplifa hvort tveggja jeppafíling og íslenska náttúru sem ekki sést frá þjóðvegi eitt. Ef við förum þá keyrum við upp Hengladalaá upp að Litla Skarðsmýrarfjalli, gegnum Fremstadal og komum niður hjá Skíðaskálanum í Hveradölum.

Þessi fallegi sunnudagur verður bjartur og góður, sólin skín og hitastigið er óvenju hátt á mæli.
Njótið þessa dags vinir, þetta er ekki sófadagur

miðvikudagur, júlí 13, 2011

Sláttur í rigningu

Það hefur ekki verið mikill tími til að slá garðinn það sem af er sumri. Þó hefur hann ekki orðið neitt í líkingu við það sem hann var í fyrrasumar þegar ég þurfti að slá hann allan með orfinu því sláttuvélin réð ekki við hann.
Dagskráin í dag var meðal annars að slá garðinn þar sem hann er orðinn leiðinlega loðinn. Einu vonbrigðin hvað það varðar er að nú er steypiregn og það hefur tíðkast hér að slá í sól en ekki grenjandi rigningu.
Út vil ek samt og sleginn skal garðurinn. Hef annars verið að setja upp smá sólhús við kofann í sveitinni. Glerjaði í gær og það styttist í að ég geti opnað á milli húsanna.
Njótið sumarrigningarinnar gott fólk, ég er farinn út.

föstudagur, júlí 08, 2011

Eitt skref í einu

Þú kemst niður á sama hátt og þú fórst upp... eitt skref í einu, sagði ég við hana stjarfa af hræðslu sitjandi í slakkanum fyrir ofan stigana. Ég sat sjálfur við hliðina á henni og færði mig svo í stigann og lagði af stað afturábak niður. Hún fikraði sig að brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Er ég komin spurði hún þegar vantaði um það bil meter á að hún kæmi við efstu rimina. Ég brosti inni í mér og sagði henni að færa sig nær áður en hún bakkaði.
Ég get þetta ekki í alvöru sagði hún frosin áður en hún svo mikið sem tommaðist nær stiganum en teygði fótinn aðeins lengra.
Ég tók í fótinn og sagði henni að bakka. Hún lá á maganum og mjakaðist örlítið nær brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Ég tók í fótinn og setti hann á efstu rimina. Þetta er efsta rimin sagði ég, bakkaðu nú aðeins nær. hún hreyfðist örlítið, ég get þetta ekki endurtók hún. Jú jú þú getur þetta alveg, komdu með hinn fótinn. Enn örlaði á hreyfingu og hinn fóturinn mjakaðist löturhægt nær. Hinn fóturinn fékk festu á riminni og þar stóð hún kyrr. Erling ég get þetta ekki endurtók hún. Ég tók í hinn fótinn og sagði komdu með þennan fót niður á næstu rim og svo stýrði ég honum þangað. Haltu þér svo bara með báðum höndum í efstu rimina meðan fóturinn fer á þarnæstu rim og ekki horfa niður, ég tók í þann fótinn og stýrði honum. Færðu nú hendurnar svo þær verði ekki eftir hérna uppi.
Hún ríghélt í efstu rimina með báðum höndum og vildi ekki sleppa. Ég heyrði hana tauta með sjálfri sér "hvað er ég búin að koma mér í" um leið og hún horfði fast upp á við, "ég skal aaaaaldrei fara hingað upp aftur".

Eftir nokkur þrep með þessum skemmtilegu tilþrifum sá ég tvo útlendinga koma að stiganum ofanfrá, þeir veifuðu og settust svo niður þolinmóðir, sáu augsýnilega hvað við var að fást.
Korteri seinna var næst síðasta þrepið eftir og ég sagði henni að nú væri hún komin niður. NEI sagði hún og ríghélt sér í rimina. Erla það eru 50 sentimetrar eftir. Fóturinn seig ofurrólega á milli þrepanna og niður á fast og enn ríghélt hún í rimina fyrir ofan sig.
ERLA MÍN þú stendur á jörðinni....! Þá fyrst leit hún niður.

Útlendingarnir sem höfðu setið rólegir og fylgst með gengu framhjá sposkir á svip og köstuðu kveðju á okkur. "Bien hecho, la señora" og blikkuðu hana.

þriðjudagur, júlí 05, 2011

Krókur og nýjar leiðir

Við tókum daginn í gær í flandur um sveitina mína. Við skoðuðum ýmislegt, meðal annars fórum við í langan göngutúr vítt og breitt um Tumastaðaskóg. Það var skemmtilegt og gaman að sjá hvað skógurinn er búinn að breiða úr sér og er orðinn stórvaxinn. Fuglalífið þar er gríðarlega fjölbreytt sem skreytir svona göngutúr óneitanlega. Það var ljúft að hvíla sig á brún Klittna og horfa á appelsínumýrarrauða fossana steypast fram af háum klettunum í logni og íslensku sumri eins og það gerist fallegast, landið sem hefur fóstrað okkur í hálfa öld gældi við okkur og staðfesti með okkur að við erum tengd þessu landi órjúfanlegum vináttuböndum sem gerir að verkum að við munum aldrei flytjast héðan búferlum.
Stundum eru svona móment þannig að maður vill ekki að þau hætti og því ákváðum við að halda áfram för upp Vatnsdal og skoða papahellinn þar og jafnvel halda áfram för lengra og skoða hinn papahellinn sem er upp við Krók. Þessir hellar eru afar merkilegir að því leiti að þeir eru handhöggnir í sandsteininn og þarna bjó fólk með börn sín og buru. Það var skrítið að hugsa til þess þekkjandi öll okkar nútímaþægindi sem við kunnum samt svo lítt að meta.

Við skoðuðum Grjóthyl í Fiská en það er staðurinn þaðan sem við Gylfi og Rúnar fórum forðum upp og yfir Þríhyrning norðanfrá. Mér varð hálfflökurt við tilhugsunina um að mín börn (afkomendur) færu þarna upp, ég væri á nálum. Þaðan keyrðum við austan við Öldu eftir troðningi sem ég hef aldrei farið áður enda var það með öllu ófært hér á árum áður og kannski orðum aukið að tala um að það sé fært í dag.
Þegar við nálguðumst Krók komum við að kletti sem skagaði upp úr veginum sem er niðurgrafinn um næstum metra á þessum kafla. Það var engin leið að komast yfir klettinn eða framhjá nema fara í vegarbætur sem við gerðum. Bakkinn á veginum var þannig að það var hægt að brjóta hann niður og hlaða undir bílhjólin og komast þannig yfir klettinn. Þetta gekk upp og var bara gaman.

Í Króki sýndi ég Erlu gömlu réttirnar og staðinn sem við tjölduðum þegar réttirnar voru haldnar þar. Nú er þetta allt löngu aflagt en gaman að skoða gömul ummerki. Papahellirinn þarna er miklu flottari en sá í Vatnsdal og umhverfið er gríðar fallegt. Við löbbuðum langt upp með Fiská og skoðuðum fossa og fallegar jarðmyndanir. Í Króki var bær sem hét Þorleifsstaðir, það var merkilegt að skoða hann eða leifarnar af honum og sjá fyrir sér gamla lífið eins og það var í sveitinni löngu fyrir mína tíð og nánustu forfeðra. Túngarðurinn náði víðan hring í kringum húsin og innan hans var heimatúnið. Við sáum gamla kálgarðinn sem var á öllum bæjum og traðirnar heim að bænum. Allt gróið en mjög sýnilegt. Við sátum góða stund þarna og virtum þetta fyrir okkur og létum hugann fara á flug. Börn að leik, sláttufólk að slá og sinna heyskap, hross í túni, förumenn á ferð ríðandi upp traðirnar, allt iðandi af lífi sem skildi eftir sig þessi glöggu merki sem við vorum að horfa á. Þetta var upplifun eins og myndaskot til fortíðar.
Gríðarlega gott móment sem við nutum bæði til ítrasta.

Það má segja að yndis Reykjavíkurmærin mín hefur lært að meta íslenska náttúru á annan hátt en þegar við kynntumst fyrst. Ísland er einstakt land sem heimurinn á eftir að uppgötva svo það er eins gott að njóta víðáttunnar og hreinleikans meðan allt þetta er til staðar jafn ósnert og það er.

Að lifa lífinu lifandi gott fólk, um það snýst þetta allt saman.

laugardagur, júlí 02, 2011

Morgungestir

Ég fæddist með þeim ósköpum að vera alltaf heitt, eða svona næstum því. Ég er á Föðurlandi að vinna aðeins í kofanum okkar. það er kostur hér að það er auðvelt að hafa nógu kalt á næturnar fyrir minn smekk (og Erlunnar hin síðari ár).
Það kemur þó fyrir að ég gleymi að lækka í ofninum og þá verður hitastigið til þess að ég sef illa. Í nótt vaknaði ég og það var heitt, of heitt svo ég stökk á fætur og opnaði hurðina upp á gátt og sofnaði síðan alsæll við svalann blæinn sem kom inn um hurðina. Jaðrakinn var að vísu svolítið hávær en hann truflaði ekki nóg til að halda mér vakandi.

Það var ekki fyrr en ég heyrði eitthvað hljóð sem ég var ekki vanur, afar lágvært langdregið og ámátlegt gaul, ekki ólíkt falskri nótu í gömlu fótstignu orgeli og virtist vera mjög nálægt mér.
Ég sneri að hurðinni þegar ég opnaði augun varlega. Hljóðið var mjög varfærnislegt og kom úr hænubarka sem teygði hausinn inn um gættina og litaðist um í kofanum mínum.
Ég bauð henni góðan dag en við það brá henni svo svakalega að hún hentist afturábak út með bægslagangi og háværu góli og hljóp langa leið út á tún áður en hún svo mikið sem leit við og ekki nóg með það því vinkonur hennar hlupu með henni. Haninn hinsvegar stóð kyrr og kallaði hetjulega á eftir þeim að allt væri í lagi.

Þetta var brosleg og skemmtileg uppákoma, fín viðbót í flóruna hér, var ég að hugsa þegar laukst upp fyrir mér annar sannleikur varðandi hænsn. Þau skíta, og þau voru á pallinum mínum.

Það vildi til að klukkan var hálf sjö að morgni, veðrið var gott og trén stór því annars hefðu nágrannar mínir séð kallinn á naríunum einum saman á harðahlaupum á eftir hænsnahóp, út úr mínum garði takk hann er ekkert skítapleis.

föstudagur, júlí 01, 2011

Nú er úti veður vott

Ekki það að ég sé einhver rigningarhatari, ég hefði bara þegið að hafa þurrt lengur. Ég er að atast í kofanum, smá breytingar utandyra svo nú get ég nagað mig í handarbökin fyrir að hafa ekki haft vaðið fyrir neðan mig og tekið með regnföt.

"Enginn er verri þó hann vökni" var mamma vön að segja og ég hef sjálfur oft tekið mér þessi orð í munn vegna einhverra vælukjóa svo nú þýðir ekkert að vera að þessu væli sjálfur heldur hundskast út og reyna að gera eitthvað af viti... Hipp hipp þó þetta sé nú enginn smá skúr, það er ekki hundi út sigandi.

Sjitt.