mánudagur, júlí 29, 2013

Sagan í hverju spori, hverju strái, hverri grein.

Spóinn vakti mig eldsnemma þ.e. miðað við að vera á Föðurlandi í fríi. Hann sér stundum um að ég sofi ekki af mér daginn með því að setjast á mæninn hjá mér og vella hátt og snjallt þó það hafi nú verið hlutverk lóunnar í lóukvæðinu gamla að reka menn til vinnu þegar vorar.
Ég hlýði þessum vinum mínum þegar þeir vekja mig svona vel, var kominn með rjúkandi kaffibolla út á verönd fyrir kl. 7, ruglaður segja sumir, fríið er til að sofa, þeir mega alveg sofa mín vegna ef þeir vilja. Við Erlan höfum reyndar löngu komið okkur  upp ákveðinni verkaskiptingu í þessu eins og öðru. Erlan sér um að sofa út fyrir okkur og ég sé um að vakna snemma fyrir okkur, meðaltalið er því að við vöknum klukkan níu.

Með kaffibolla í annarri fer ég á röltið um Föðurland. Mér finnst það alltaf gaman og ekki bara það heldur er svo sálarnærandi að hlusta á angurværa sinfóníuna sem hljómar alltaf á þessum árstíma. Svo les ég söguna okkar hér á hverju strái.
Fyrstu handtökin, girðingarvinnan þegar við girtum af löndin okkar systkinin. Það var vandað til verka, staurarnir steyptir niður hver og einn og net og vír strekkt ótæpilega með bílunum okkar. Það skal vanda sem lengi á að standa og girðingin hefur haldið sér vel, enginn staur hallar og hún er enn pinnstrekkt og fín eins og við hefðum girt í fyrra en nú er að verða kvartöld síðan.
Fyrstu græðlingarnir sem fóru niður í rönd meðfram girðingunni, stungið gegnum plast með halarófu af börnum að vesenast með okkur, annars ekki stingandi strá og brekkan blásvartur sandur.

Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan þetta var. Nú er þetta gróðurreitur, ilmandi  angan af birki og öspum og allskyns gróðri sem hér vex um allt er bragðbætandi með kaffibollanum. Aspirnar sem voru einnar handar tak þegar ég gróðursetti þær eru nú margra metra há tré sem hýsa fugla og hreiður og veita reitnum okkar skjól þegar næðir. Birkitrén sem flest eru ættuð úr sjálfsáðum fræjum í garðinum heima eiga líka sögu. Nokkur þeirra rekja ættir til Heiðmerkur og bera þess merki að vera af því kirkingslega kvæmi. Fjölbreytileikinn er góður í þessu litla samfélagi og skreytir tilveruna mína meðan ég geng um landið með morgunkaffibollann minn í annarri og myndavél í hinni. Ég klára úr bollanum í brekkunni þar sem ég get sest niður og hef útsýni yfir hlíðina mína fríðu og bæina. Heyskap er að ljúka og slegin tún gefa sveitinni minni þennan mislita köflótta blæ sem einkennir síðsumar í sveitum, hugsa alltaf til liðins tíma þegar ég lít bæina og minnist bændanna sem þar bjuggu. Húsin sem þeir byggðu og löndin sem þeir plægðu, allt þetta hefur lifað þó þeir séu löngu farnir á vit feðranna.

Hugmyndin er annar kaffibolli svo brekkan og útsýnið og gróðurlyktin og fuglasinfónían og bæirnir, minningarnar og öll dásemdin bíða á meðan. Þessi gæði eru ekkert á förum héðan, þau munu skreyta götu afkomenda okkar og afkomenda þeirra.

sunnudagur, júlí 07, 2013

Kaldasta sumar í manna minnum.

Þetta verður að líkindum kaldasta sumar í 200 ár sagði veðurfræðingurinn í vor eftir að hafa rýnt í fræðin og séð að stóru veðrakerfin sem stýra lægðagangi á norðurhveli jarðar væru okkur einstaklega óhagstæð.
Ég tók nú ekki mikið mark á manninum enda verið að rýna í mánuði fram í tímann. Annað hefur nú komið í ljós, hann vissi hvað hann söng, sumarið hefur varla náð að banka upp á hvað þá annað. Ég sit hér í kofanum við opinn gluggann, vaknaður fyrir allar aldir eins og venjulega og hlusta á náttúruna. Það hefur rignt meira en góðu hófi gegnir undanfarið en nú skín sól í heiði og Kári sefur svo nú er það sem við köllum bongóbllíða og hitinn kominn í 12 gráður. Ég leit á mælinn í gærkvöldi og hann stóð í 5 gráðum en það hefur verið algeng hitatala undanfarið. Ég  fagna sólinni eins og kálfur sem hleypt er út á vorin, það er ekki bara að sólin létti lund heldur er hún mikill öragavaldur þegar kemur að rekstri ísbúðarinnar. Fólk kaupir sér ís þegar sólin skín svo sumarið hefur ekki verið ísbúðareigendavænt fram að þessu.
Það er eins og náttúran fagni með mér því fuglarnir syngja aldrei eins mikið og í uppstyttu eftir rigningartíð og nú er ómur í lofti sem berst inn um gluggann, þessi sinfónía er sálaryljandi eins og ég hef sagt ykkur áður.

Stefnan er sett á Danmörk og Svíþjóð um næstu helgi. Þar ætlum við að vera í 10 daga og ferðast og njóta lífsins. Veður hefur verið einstaklega gott á norðurlöndum og hitamet að falla t.d. í Noregi. Það þarf ekki að koma á óvart því veðrakerfin sem ég minntist á skipta gæðunum svona, ef það er heitt sumar hér er kalt á norðurlöndum og öfugt. Við eigum því von á sólarstrandarhitatölum í ferðalaginu, það verður gott.

Við Hlynur fórum í bræðraferð í Þórisvatn en þangað hef ég ekki komið undanfarin tvö ár. Það var frekar svekkjandi að fiskurinn hefur smækkað mikið. Venjulega hefur þetta verið um tveggja punda fiskur en nú eru þeir um pundið. Það verður að viðurkennast að pundfiskar eru ekki mjög spennandi að veiða en þeir bragðast vel enda Þórisvatnsfiskurinn sá besti sem til er. Veiðigyðjan var reyndar fullmikið Hlyns megin því hann fékk talsvert fleiri fiska en ég :-(
Við skeggræddum þetta fram og til baka, hvernig  á þessu stendur að stundum er eins og fiskurinn rati bara á færi annars okkar. Ég hef enga skýringu á því, við teljumst báðir fisknir og höfum sömu beitu og högum okku á alla kanta eins en stundum er þetta svona.Bræðrabandið gerir okkur samt að skipta aflanum eftir svona ferð svo ég græddi í þetta sinn.

Jæja gott fólk ég verð að koma mér út í þetta veður, ekki svo oft sem það lætur svona. Smá ganga um Föðurland í blíðviðri, ekki slæmt það.

Njóið dagsins.