mánudagur, júlí 29, 2013

Sagan í hverju spori, hverju strái, hverri grein.

Spóinn vakti mig eldsnemma þ.e. miðað við að vera á Föðurlandi í fríi. Hann sér stundum um að ég sofi ekki af mér daginn með því að setjast á mæninn hjá mér og vella hátt og snjallt þó það hafi nú verið hlutverk lóunnar í lóukvæðinu gamla að reka menn til vinnu þegar vorar.
Ég hlýði þessum vinum mínum þegar þeir vekja mig svona vel, var kominn með rjúkandi kaffibolla út á verönd fyrir kl. 7, ruglaður segja sumir, fríið er til að sofa, þeir mega alveg sofa mín vegna ef þeir vilja. Við Erlan höfum reyndar löngu komið okkur  upp ákveðinni verkaskiptingu í þessu eins og öðru. Erlan sér um að sofa út fyrir okkur og ég sé um að vakna snemma fyrir okkur, meðaltalið er því að við vöknum klukkan níu.

Með kaffibolla í annarri fer ég á röltið um Föðurland. Mér finnst það alltaf gaman og ekki bara það heldur er svo sálarnærandi að hlusta á angurværa sinfóníuna sem hljómar alltaf á þessum árstíma. Svo les ég söguna okkar hér á hverju strái.
Fyrstu handtökin, girðingarvinnan þegar við girtum af löndin okkar systkinin. Það var vandað til verka, staurarnir steyptir niður hver og einn og net og vír strekkt ótæpilega með bílunum okkar. Það skal vanda sem lengi á að standa og girðingin hefur haldið sér vel, enginn staur hallar og hún er enn pinnstrekkt og fín eins og við hefðum girt í fyrra en nú er að verða kvartöld síðan.
Fyrstu græðlingarnir sem fóru niður í rönd meðfram girðingunni, stungið gegnum plast með halarófu af börnum að vesenast með okkur, annars ekki stingandi strá og brekkan blásvartur sandur.

Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan þetta var. Nú er þetta gróðurreitur, ilmandi  angan af birki og öspum og allskyns gróðri sem hér vex um allt er bragðbætandi með kaffibollanum. Aspirnar sem voru einnar handar tak þegar ég gróðursetti þær eru nú margra metra há tré sem hýsa fugla og hreiður og veita reitnum okkar skjól þegar næðir. Birkitrén sem flest eru ættuð úr sjálfsáðum fræjum í garðinum heima eiga líka sögu. Nokkur þeirra rekja ættir til Heiðmerkur og bera þess merki að vera af því kirkingslega kvæmi. Fjölbreytileikinn er góður í þessu litla samfélagi og skreytir tilveruna mína meðan ég geng um landið með morgunkaffibollann minn í annarri og myndavél í hinni. Ég klára úr bollanum í brekkunni þar sem ég get sest niður og hef útsýni yfir hlíðina mína fríðu og bæina. Heyskap er að ljúka og slegin tún gefa sveitinni minni þennan mislita köflótta blæ sem einkennir síðsumar í sveitum, hugsa alltaf til liðins tíma þegar ég lít bæina og minnist bændanna sem þar bjuggu. Húsin sem þeir byggðu og löndin sem þeir plægðu, allt þetta hefur lifað þó þeir séu löngu farnir á vit feðranna.

Hugmyndin er annar kaffibolli svo brekkan og útsýnið og gróðurlyktin og fuglasinfónían og bæirnir, minningarnar og öll dásemdin bíða á meðan. Þessi gæði eru ekkert á förum héðan, þau munu skreyta götu afkomenda okkar og afkomenda þeirra.

Engin ummæli: