Ég fór í jómfrúrferðina um daginn og veiddi ekkert frekar en hinir í túrnum. Við Hlynur fórum svo um helgina og gerðum aðra tilraun. Það gekk betur og ferðin endaði í fimm hákörlum á land.
Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.
Ég hef reyndar alltaf haldið að Háfurinn væri ekkert sérstakur matfiskur allt þangað til einn veiðifélagi minn sagði mér að hann væri mjög góður og víða um lönd dýrari fiskur en þorskur, að ég ákvað að mig langaði að prófa.
Það var svo í hádeginu í dag sem við gerðum fyrstu tilraun í eldamennskunni. Háfur í sinnepsrjómasósu. Kiddi og Ásta voru hér og testuðu þetta, við vorum öll sammála um að þetta væri herramannsmatur.
Þar með var það ákveðið að þetta verður ekki síðasta ferð mín í strandveiði. Það eru fiskimið um allar fjörur og misjafnt hvað hægt er að veiða hverju sinni. Sjóbirtingur er víða og steinbítur, þorskur og ýsa veiðist líka vel. Kosturinn er líka að þetta er í langflestum tilfellum ekki að kosta neitt nema bensínið en veiðileyfi eru orðin fáránlega dýr, nánast hvar sem veiðist tittur.
Veiðin á sér margar hliðar og þetta er skemmtileg viðbót við það sem ég hef kynnst hingað til á langri ævi. Kannski maður verði með eigin verkaðan hákarl í næstu þorrablótum, það væri nú nokkuð búalegt og líkt hellisbúanum í mér.
Það væri meira að segja þess virði að prófa og sjá hvernig hann kæmi út verkaður sem þorrahákarl.
Ég verð nú samt að segja að ég hlakka mest til að komast í sjóbirtinginn, að öllu öðru ólöstuðu þá finnst mér hann skemmtilegasti sportfiskurinn af því sem ég hef veitt hingað til.
Vatnamótin í Skaftafellssýslu í október og vonandi eitthvað fleira og fyrr en þá.
Volinn verður líklega ekki á dagskrá þetta árið, ég missti svolítið trúna á honum í fyrra þar sem ég fór tvisvar og veiddi ekki mikið. Held að mikil ásókn sé að ganga nærri honum og hugsanlega búið að fleyta rjómann ofan af veiðinni þar, allavega í bili.
Það er veiðitímabil framundan svo njótið daganna gott fólk, það ætla ég að gera.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli