þriðjudagur, janúar 30, 2007

Það var súrt...

...sagði refurinn. Ég datt í að horfa á síðari hálfleik Íslendinga gegn Dönum. Það var bragðvont að sjá þá vinna leikinn á síðasta sekúndubrotinu, af því það voru Danir.
Er annars lögskipað boltanörd á bak og brjóst.
Hlakka til að komast í veiði....

sunnudagur, janúar 28, 2007

Talandi um hefðir...

...þá komum við systkinin saman í gærkvöldi og borðuðum þorramat og var þetta í þrítugasta skipti sem við hittumst í þeim tilgangi.
Þegar við hófum þennan sið vorum við, eins og gefur að skilja, öll yngri og börnin okkar ennþá börn, þeirra sem áttu þau. Þetta var því bara þessi þröngi hópur sem kom saman. Lífsins gangur kallar á stækkun fjölskyldna og þessvegna stækkaði hópurinn smátt og smátt þegar börnin okkar fóru að koma með okkur.
Síðasta ár voru nálægt fimmtíu sem komu saman hjá Gerðu og þröngt um manninn í hennar rúmu húsakynnum. Það blasti orðið við sú staðreynd að hópurinn var orðinn svo stór að annaðhvort var að breyta mynstrinu og hafa þetta í sal eða hverfa til upphafsins og þrengja hringinn utan um okkur systkinin aftur. Sem varð úr. Við tókum ákvörðun um að þetta yrði aftur systkinahópurinn sem kæmi saman.
Gærkvöldið var afar notalegt. Þetta var hjá Danna og gerði hann (þau) þetta af miklum myndarskap eins og við var að búast. Maturinn góður og hópurinn náði vel saman svo úr varð virkilega notaleg kvöldstund.
Við ræddum um að skoða kannski jólahitting með einhverju formi þar sem öll stórfjölskyldan væri boðin, börn og barnabörn - það verður skoðað betur. Svo munum við rækta vinaböndin í sumargrillinu um verslunarmannahelgina þar sem allir koma saman.

Þetta er góð garðrækt því eins og máltækið segir: “Maður er manns gaman".
Mér líkar þetta, verð ég að segja.
Takk fyrir mig

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Leikslok

Ekki bara Ísland – Pólland í handbolta. Baugsmálið var til lykta leitt í dag. Það átti meiri athygli mína en handboltinn. Frávísanir á flestum kæruliðum og sýkna á þeim fáu sem voru eftir dómtækir. Ég verð að segja að niðurstaðan kemur mér ekki sérlega á óvart. Vísa í pistil hér á síðunni frá 21. september 2005 um málið því til stuðnings.

Verð ég að segja að ég er afar ósammála fyrrum lærifeðrum mínum þeim Jóni H. B. Snorrasyni og Sigurði Tómasi Magnússyni saksóknurum í málinu sem gera lítið úr þessu og telja þetta embættinu ekki til vansa.
Saksóknaraembættið hefur sett niður, það sér hver heilvita maður og verður að teljast ótrúlegt yfirklór að halda öðru fram. Það er lenska hér á landi að menn fá yfirleitt meira kredit fyrir að játa mistök sín en að krafsa yfir klúður sitt.

Baugsmenn eiga nú, eins og ég óttaðist, inni skaðabætur hjá “okkur”

Þannig er það nú bara.

laugardagur, janúar 20, 2007

Vegna áskorunar....

...frænku minnar um hvað Biblían segir um menn eins og Guðmund í Byrginu ákvað ég að stinga örstutt niður penna. Það fyrsta sem mér datt í hug voru orð Krists sem hann sagði þegar grýta átti bersyndugu konuna “ sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum”, á endanum slepptu allir steininum og hurfu á braut. Við nánari umhugsun held ég að ekkert komist nær huga Krists um þessa atburði, en þessi orð.

Þegar öllu er á botninn hvolft og innihald mannshugans blasir við held ég að allir menn eigi það sameiginlegt að hafa ekki efni á steininum.
Auðvitað er ég ekki að bera í bætifláka fyrir gjörðir Guðmundar í Byrginu heldur er ég að velta því upp að það er vel mögulegt að ef Kristur segði þessa sömu setningu í dag, við þá sem koma saman og grýta manninn eða hafa í flimtingum, ef hann mætti sama ærleika viðstaddra og forðum, er líklegt að enginn myndi brosa að Guðmundi lengur.

Ekki þar með sagt að allir stundi bdsm, heldur þetta að allir hrasa margvíslega, ef ekki í gjörðum þá í orðum eða hugsun. En Kristur gerði ekki greinarmun á því tvennu.

Ég held að enginn kætist meira en púkinn á fjósbitanum yfir þessu máli, þar sem þetta setur svartan blett á kristna trú. Sérstaklega held ég að kæti hann ef hinir kristnu koma saman og henda gaman af óförum Guðmundar. Flimtingar um þetta mál eru honum besta skemmtun. Ég hef rökstuddan grun um að hann sé að springa úr fitu akkúrat núna.

Kannski varstu að biðja um eitthvað annað frænka mín en...... that´s all.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Byrgismálið....

....er sorglegt hvernig sem á það er litið. Málið komið til ríkislögreglustjóra og líklegt að einhver þurfi að gista fangelsi, menn verða að standa ábyrgir gjörða sinna.

Samhjálp kemur sterk inn á hliðarlínuna. Heiðar stendur sig vel og vonandi verður hægt að hjálpa þessu fólki einhvernveginn. Það er stóri vandinn sem eftir stendur, eins og lögreglan sagði.

Ætli nokkur hafi hugsað út í það að Thermo svikamyllan var a.m.k. 3-5 sinnum stærri í fjármunum talið en Byrgisóreiðan?
Enginn þurfti að standa ábyrgur fyrir því, ekki einu sinni bakarinn.
Datt þetta bara í hug.

sunnudagur, janúar 14, 2007

14. janúar

Drottningin á bænum á afmæli í dag. Hún er eins og þjóð veit, alger gersemi í gegn. Hún er víst 37 ára í dag því hún breytti kennitölunni sinni fyrir nokkrum árum, úr árinu 1960 í 1970 sem er að hennar sögn afar sniðugur kostur fyrir konur á öllum aldri.

Ég held hún verði með heitt á könnunni fyrir þá sem nenna að gera sér ferð til okkar síðar í dag.

Elsku Erlan mín innilega til hamingju með daginn.
Þú ert gersemi.......!

laugardagur, janúar 13, 2007

Fallegur laugardagur.

Það er logn og bjart. Snjór yfir öllu, ásýndin köld en yfirmáta falleg. Þegar ég leit út um eldhúsgluggann í morgun sá ég að Ölfusáin var horfin......! Hún er nú ekki smávaxnasti nágranni sem ég hef átt, svo fyrr má nú rota en dauðrota.
En hún var gjörsamlega horfin og snjóhvítt teppi lá þar sem hún er vön að vera. Fyrsta sem ég hugsaði var hvort ána hefði virkilega getað lagt á einni nóttu. Og þetta væri jafnfallinn snjór. Ég dreif mig að klára það sem ég var að gera og ætlaði svo að fara niður að á með myndavélina. Þegar ég leit aftur á hana var hún aftur komin á sinn stað eins og ekkert hefði í skorist en skýjaslæða læddist upp eftir henni sem ég sá rétt í endann á.

Þetta var þá frostþoka sem lá yfir ánni, skjannahvít eins og snjórinn í kring og engin leið að sjá muninn hvar hún byrjaði eða endaði, hún var kannski metersþykk en svo þétt að það grillti ekki í gegn.
Ég hef óskaplega gaman af þessum nágranna mínum, síbreytileg og aldrei eins, en alltaf falleg.

Gærkvöldið var skemmtilegt. Heimsókn í Rauða húsið á Eyrarbakka var hlutskipti okkar ásamt vinum okkar Gylfa og Christinu. Þar snæddum við þennan fína mat í gamaldags og rómantísku umhverfi. Kokkurinn kom fram að spjalla við okkur og kanna hvernig okkur þætti maturinn. Ég held að hann hafi sérstaklega verið að kanna forréttinn sem var humarsoð. Hann sagði það mikið ferðalag fyrir bragðkirtlana að kanna þennan rétt. Það var rétt, þetta var afar sérstakt á bragðið og misjafnt hvað okkur þótti um.
Eftir góða máltíð ókum við heim og sátum svo fram á rauða nótt hér á herragarðinum við ána og spjölluðum um heima og geima.

Núna erum við svo búin að skreppa í bæinn að sækja dóttur og fósturdóttur, Hrund og Theu. Það var fallegt í Flóanum, hvernig frostþokan lá yfir eins og teppi. Og Hellisheiðin líka, hún var björt og falleg.
Núna meðan ég sit hér á skrifstofunni að skrifa þennan pistil er Erla að baka ...... jólaköku.
Mér varð á að segja henni um daginn að ég saknaði þess að hún hefði ekki bakað jólaköku svo lengi, en hún gerir þær allra bestu jólakökur sem ég hef smakkað. Það var henni líkt að láta það eftir mér.
Ég heyrði hana tauta áðan gegnum hrærivélasuðið, “ja ef ég er ekki orðin ekta sveitakona”
Fyrir mína parta, þá eru þetta notalegheit í hæsta klassa, hrein lífsgæði.
Ilmurinn í húsinu er indæll og bragðið er.... mmssssyndsamlega gott með ískaldri mjólk... nýmjólk, ekki undanrennu.
Ég elska þessa sveitakonu.....eins og Petra Rut segir "allan hringinn".

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Ég átti samtal....

......við mann í dag sem tjáði mér að hann hefði reiðst svo fyrir mína hönd vegna umtals um mig. Ég hef verið að hugsa þetta aðeins síðan þá og komist að þeirri niðurstöðu að mér gæti ekki verið meira sama. Það kann að hljóma einkennilega þar sem flestir vilja síður vera milli tannanna á fólki, sérstaklega ef það er ekki mjög á jákvæðu nótunum. Af hjartans einlægni hefur það ekki áhrif á mig. Kannski er það siggið á sálinni en ég hef annað slagið gegnum tíðina heyrt bergmál sagna um mig, veit ekki afhverju ég hef smakkast svona vel.

Ég er blýfastur í þeirri afstöðu minni að ef einhverjum þykir gaman að tala um mig, sama hvernig, þá er það mér að meinalausu. Ef einhverjum líkar ekki hvernig ég lifi lífi mínu, eða hef reglur míns heimilis þá verður sá sami samt að beygja sig undir þá einföldu staðreynd, að hann hefur ekkert með það að gera.
Ég er sáttur við lífið eins og það er og hef í engu fyrirætlanir um að breyta því.

Til að gera ekki úlfalda úr mýflugu þá var þetta ekkert merkilegt tal ,frekar en fyrri daginn.
That´s all.

mánudagur, janúar 08, 2007

Afmæli

Hún Hrund okkar á afmæli í dag. Hún er 18 ára mærin og sjálfráða. Við héldum upp á afmælið á laugardaginn s.l. Um 25 manns ákváðu að heiðra hana á afmælisdaginn. Takk öll fyrir komuna.
Margt ungt fólk hlakkar til að verða sjálfráða til að geta gert það sem því sýnist, oftast til að geta gert það sem þeim hefur verið bannað hingað til. Og vissulega er það þannig að við þessi tímamót gerir löggjafinn ráð fyrir að afskiptum foreldranna við ákvarðanatökur sé hætt. Hrund hinsvegar fæddist sjálfráða svo þetta verða kannski ekki svo mikil tímamót hjá henni. Hún hefur alltaf verið afskaplega ákveðin stúlkan og fær gjarnan sitt fram ef hún leggst á árarnar.
Ekki svo að skilja að hún sé frek við okkur foreldrana heldur þvert á móti afar ljúf í allri umgengni. Ákveðni hennar hefur fundið sér farveg á öðrum sviðum, nefnilega gagnvart öllu sem heitir ranglæti og óréttvísi. Hún hefur oft í gegnum tíðina verið haldreipi krökkum sem hafa lent í einelti eða verið minnimáttar á einhverju sviði, gjarnan í samráði við kennara. Þessir eiginleikar hennar eru mikils virði og munu verða henni gott veganesti inn í framtíðina t.d. í lögfræðinni (gamli aðeins að ýta létt).

Elsku Hrund mín, innilega til hamingju með daginn, við erum stolt af þér.
Guð blessi þig um alla framtíð.
Þinn Pabbi

laugardagur, janúar 06, 2007

Nýja árið.....

.....heilsaði fallega með frostrósum og kaldri ásýnd. Ég skrapp í göngutúr á nýársdagsmorgun með myndavélina... upp með á, heillaður.

Mig langaði til að sýna ykkur brot af því sem fyrir augu bar. Smellið á myndirnar til að stækka þær.

Þessar plöntur eru enn úti í á eftir flóðin, það þýðir að áin er ekki enn sjötnuð.

Köld fegurð......

og frostrósir......á stráum

Miðjarðarhafsstemning.....? varla

og þó....

Frosin hvönn... hún var matur hér áður fyrr.

Það má með sanni segja að við búum við fjölbreytni í bakgarðinum okkar. Algjör forréttindi að hafa náttúruna svona með öllum sínum fjölbreytileika steinsnar frá lóðarmörkum.

Gerið eins og ég... njótið daganna.